Borgarstjórn 18. júní 2024

Flokkur fólksins lagði fram 3 mál á þessum fundi. Tveimur var frestað

Borgarstjórn Reykjavíkur
18. júní 2024
Greinargerð borgarfulltrúa Flokks fólksins með umræðu um mál Flokks fólksins á fundum borgarstjórnar veturinn 2023-2024
Á þessum síðasta fundi borgarstjórnar fyrir sumarfrí mun borgarfulltrúi Flokks fólksins líta yfir veturinn og kalla eftir umræðu um þau mál sem Flokkur fólksins hefur lagt fram í borgarstjórn þennan vetur sem nú er nýliðinn. Um er að ræða 30 tillögur, þar af 23 breytingatillögur við framlagningu frumvarps að fjárhagsáætlun 2024. Umræðuefni voru sjö á jafnmörgum fundum borgarstjórnar.

Bókun Flokks fólksins:

Í vetur sem leið lagði borgarfulltrúi Flokks fólksins fram 30 tillögur, þar af 23 breytingartillögur við framlagningu frumvarps að fjárhagsáætlun 2024. Umræðuefni voru sjö á jafnmörgum fundum borgarstjórnar.
Öllum breytingartillögunum tengdum fjármálum og sparnaði var ýmist vísað frá eða þær felldar. Tillögu um skaðabætur til þeirra sem hafa veikst af myglu og tillaga um að víkja skuli frá ákvörðun um að leggja niður borgarskjalasafn voru felldar. Allur minnihluti borgarstjórnar kaus gegn því að fella þá síðari. Fimm tillögum var vísað til annarra ráða og sviða:
Tillaga um heimsókn barna í Ráðhúsið var vísað til stýrihóps um mótun lýðræðisstefnu; Tillögu um lóðir fyrir Grindvíkinga og byggingu viðlagasjóðshúsa til átakshóps í húsnæðismálum; Tillaga um starfshóp til að rýna biðlista vísað til velferðarráðs og Tillögu um óháða úttekt á Þjónustu- og nýsköpunarsviðs til borgarráðs. Tillaga um að sviðsmynd 1 verði fylgt við uppbyggingu skóla í Laugardal var vísað til skóla- og frístundaráðs. Ekkert hefur spurst til þessara tillagna. Þessi mál hafa öll valdið ólgu og reiði í samfélaginu. Reynslan sýnir að engin alvara er hjá meirihlutanum með að vísa málum inn í borgarbáknið annað en “að kaupa tíma“ kæla málin og vonast helst til að þau gleymist með tímanum.

 

Borgarstjórn Reykjavíkur
18. júní 2024

Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um breytt skipulag og fyrirkomulag á vinnu skólasálfræðinga.
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fela velferðarsviði að vinna tillögu að breyttu fyrirkomulagi og skipulagi á vinnu skólasálfræðinga og annars fagfólks skólaþjónustu með það að markmiði að stytta biðlista barna þannig að ekkert barn bíði lengur eftir þjónustu en 90 daga. Hafa skal til hliðsjónar sambærilegt átak á barna- og unglingadeild, m.a. þannig að fagfólk geti unnið í meiri samvinnu og teymisvinnu að heildstæðri greiningu á vanda barns eins og óskað er eftir í tilvísun. Frumgreining gæti batnað og skilað meiri árangri ef þær yrðu unnar meira í teymi ólíkra sérfræðing eftir því sem beðið er um samkvæmt tilvísun. Með þessu myndi tilvísunum fækka í hópi þeirra barna sem þurfa frekari greiningu nema kannski í allra þyngstu málunum s.s. hjá börnum sem þurfa fötlunargreiningu eða eru með alvarlegri geðrænan vanda sem þarfnast heilbrigðisþjónustu. Einnig skal finna leiðir til að auka áhuga sérfræðinga á að vinna hjá Skólaþjónustu Reykjavíkurborgar.

Greinargerð
Það sem skiptir mestu í þessu sambandi er að greiningarvinna og ráðgjöf vinnist í meira samstarfi við aðra sérfræðinga (sálfræðinga, talmeinafræðinga, kennsluráðgjafa og hegðunarráðgjafa) svo barnið fá heildstæða greiningu strax í upphafi og þurfi þar að leiðandi ekki að fara aftur á biðlista eftir frekari greiningu eða fagþjónustu.

 

Bókun Flokks fólksins:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að velferðarsvið vinni að tillögu að breyttu fyrirkomulagi og skipulagi á vinnu fagfólks skólaþjónustu með það að markmiði að stytta biðlista barna þannig að ekkert barn bíði lengur eftir þjónustu en 90 daga. Að baki hverju barni á biðlista er tilvísun undirrituð af skóla og foreldrum þar sem fram kemur um hvað er beðið og ástæður.  Lagt er til að þjónustan verði meira heildstæð og veitt í einni lotu en ekki í bútum. Kjarni breytinganna er að fagfólk skóla vinni meira í teymi en nú er gert og fjölga þarf fagfólki.  Bæta þarf hina svokölluðu frumgreiningu þannig að hún taki á öllum þáttum og skili endanlegri niðurstöðu. Með bættu skipulagi og fyrirkomulagi sem hér er lýst er öllum greiningarþáttum lokið í einni lotu og  þarf barnið þá ekki að fara aftur á biðlistann. Að lokinni greiningu liggur fyrir greinargerð með niðurstöðum og tillögur til úrbóta.  Í dag er staðan þannig að greining er sjaldnast veitt í einni lotu og er því barnið sífellt  set aftur á bið. Breytt fyrirkomulag sem þetta myndi fækka tilvísunum  hjá börnum sem þurfa frekari greiningu nema kannski í allra þyngstu málunum s.s. hjá börnum sem þurfa fötlunargreiningu eða eru með alvarlegri geðrænan vanda sem þarfnast heilbrigðisþjónustu.

 

Borgarstjórn Reykjavíkur
18. júní 2024

Greinargerð borgarfulltrúa Flokks fólksins með umræðu um starfsaðstæður leik- og grunnskólakennara
Rúmlega fjórðungur leik- og grunnskólakennara sér sig ekki áfram í sama starfi eftir fimm ár. Hver er ástæðan og hvað er til ráða? Kennarasamband Íslands (KÍ) lét Félagsvísindastofnun framkvæma könnun um viðhorf kennara til starfsins og KÍ. Könnunin var gerð í febrúar á þessu ári. Meðal spurninga í könnuninni var „hversu líklegt eða ólíklegt er að þú verðir í sama starfi eftir fimm ár?“ Niðurstaðan sýnir að 27% félagsmanna í Félagi leikskólakennara, 26% félagsmanna í Félagi grunnskólakennara og 31% félagsmanna í Skólastjórafélagi Íslands segja ólíklegt eða mjög ólíklegt að þeir verði áfram í starfi eftir fimm ár. Í fyrstu mætti ætla að þetta væri vegna þess að kennarastéttin sé að eldast en í þessari könnun virðist líf- eða starfsaldur kennara í grunn- og leikskólum ekki skipta máli. Formaður Kennarasambands Íslands segir þessar tölur vekja ugg. Fulltrúi Flokks fólksins telur að það þurfi að taka þessar niðurstöður alvarlega því þarna eru hættumerki á ferð sem þarf að rýna. Tíu lykilþættir Evrópsku kennarasamtakanna voru lagðir til grundvallar í könnuninni en þeir snúast um það hvað fólki finnst skipta mestu máli fyrir kennarastarfið. Svörin voru afgerandi en mikill meirihluti nefndi samkeppnishæf laun eða 80%. Hæfilegt vinnuálag kom næst á eftir, en 61% nefndu það. Í þriðja sæti voru öruggar vinnuaðstæður með 45%. Þessi niðurstaða rímar vel við helstu áhersluatriði sem brenna á kennurum í Reykjavík. Helstu málefni sem þarf að bæta: 1. Íslenska sem annað tungumál, kennsla og móttaka nemenda með erlendan bakgrunn. 2. Ofbeldi gagnvart kennurum, verkferlar og tryggingar. 3. Hópastærðir, agamál og úrræði. 4. Loftgæði í skólabyggingum og verkferlar vegna rakaskemmda. Þetta eru málefni sem brenna á kennurum borgarinnar og telur fulltrúi Flokks fólksins mikilvægt að fá gagnlega umræðu um þessi áhersluatriði kennara.

 

Bókun Flokks fólksins: 

Í nýrri könnun sem Kennarasamband Ísland lét gera kemur fram að rúmlega fjórðungur leik-og grunnskólakennara segja ólík­legt eða mjög ólík­legt að þeir verði áfram í starfi eft­ir fimm ár. Formaður Kenn­ara­sam­bands Íslands seg­ir þess­ar töl­ur vekja ugg. Fulltrúi Flokks fólksins telur að það þurfi að taka þessar niðurstöður alvarlega því þarna eru hættumerki á ferð sem þarf að rýna. Bregðast þarf við af krafti til að koma í veg fyrir brottfall úr kennarastéttinni. Nægur er mannekluvandinn í leik-og grunnskólum borgarinnar. Álag á kennara hefur aukist mikið undanfarin ár. Í einum bekk getur verið stór hópur nemenda sem ekki skilja íslensku og til viðbótar geta verið nokkrir nemendur með ýmsar sérþarfir eins og athyglisbrest, einhverfu ,málþroskaröskun og svo mætti lengi telja. Í þessum aðstæðum finnst kennurum þeir hafa litlar bjargir. Verkefnið verður of stórt og þeir upplifa sig vanmáttuga. Það þarf að efla íslenskukennslu sem annað tungumál. Ef börnin læra ekki íslensku þá verða þau útundan í samfélaginu og hætta mörg hver skólagöngu eftir grunnskólann. Það þarf að leita allra leiða til að flýta framkvæmd farsældarlaganna og veita kennurum auknar bjargir. Það er mikið óþol í kennurum að framkvæmd þeirra raungerist. Helsta ákall kennara er að fá stuðning inn í kennslustofuna.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fram fer umræða um árangur af flokkun og þróun í sorphirðuþjónustu.

Ýmislegt hefur gengið á frá því nýja flokkunarkerfið var sett á laggirnar í Reykjavík, aðallega vegna tafa á hirðu sorps. Enda þótt SORPA komi hvergi nærri sorphirðu við heimili á höfuðborgarsvæðinu er ekki þar með sagt að SORPA eða meirihlutinn í borginni geti fríað sig ábyrgð ef illa gengur. SORPA og borgin bera alltaf ábyrgðina. Terra sinnir losun á pappír, plasti, gleri og málmum skv. samningi í kjölfar útboðs. Miklir erfiðleikar hafa verið í sorphirðumálum þeim sem snúa að Terru. Þá hafa sorphirðubílar bilað og seinkun verið á hirðu í allt að viku og meira. En hér má sjá galla útvistunar í hnotskurn. Þegar búið er að útvista verkefnum og þjónustan versnar þvær meirihlutinn hendur sínar. Eðlilega eru byrjunarörðugleikar þegar stór verkefni eru innleidd. Í dag er staðan þannig að víða um borg liggur sorp eins og hráviði, m.a. við grenndarstöðvar því gámar eru ýmist ekki til staðar eða eru ekki tæmdir. Ítrekað eru stampar yfirfullir og það allt of lengi. Verkefnið er meirihlutans að sinna og því ekki hægt að kenna neinum öðrum um. Fulltrúa Flokks fólksins finnst meirihlutinn aðeins vilja hreykja sér en er ekki tilbúinn að ræða hvernig og hvenær á að slípa til helstu agnúa.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fram fer umræða um stöðu samgöngumála í Reykjavík.

Samgöngumál eru ein af þeim málum sem meirihlutanum gengur illa að ráða bót á. Á hverjum degi situr fólk fast í umferðarteppum og almenningssamgöngur eru af versta tagi. Þjónusta hefur verið skert hjá Strætó sem er eini valkostur almenningssamgangna næstu árin. Á þeim fáu árum sem liðin eru frá undirritun samgöngusáttmálans tíðrædda hefur í raun ekki mikið gerst. Nú liggur fyrir að Borgarlína tefst og óvissa ríkir um verkefnið. Einnig er óvissa um legu Sundabrautar. Umferðin mun þyngjast enn meira enda fjölgar fólki stöðugt. Verst er stíflan til vesturs á morgnanna og til austurs seinnipart dags en í reynd er umferðarvandi allan daginn. Ekki er séð að meirihlutinn hafi af þessu miklar áhyggjur. Í það minnsta er ekki að sjá að neinar sérstakar aðgerðir séu í gangi til að taka á verstu umferðarhnútunum. Af hverju er staðan svona slæm? Oft er talað um ljósastýringar í þessu sambandi og lokanir vegna framkvæmda þegar verið er að þrengja götur sem dæmi eða þétta byggð svo um munar. Af hverju er ekki hægt að skipuleggja framkvæmdir þannig að götur lokist ekki? Getur verið að borgaryfirvöld séu að auka á vandann að ósekju með vilja? Meirihlutinn vill bílinn út hvað sem það kostar.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur verið með tillögur um að skilgreina hærra hlutfall sem leiguíbúðir, stúdentaíbúðir og leiguíbúðir Félagsbústaða vegna langra biðlista í slíkt húsnæði. Flokkur fólksins styður því þessa tillögu. Nú bíða mörg hundruð manns eftir leiguhúsnæði hjá Félagsbústöðum. Samkvæmt nýjustu tölum eru 656 nú að bíða eftir almennu félagslegu leiguhúsnæði, 173 manneskjur á bið eftir húsnæði sem hentar þörfum fatlaðra, 66 eru á biðlista eftir húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir og 50 manns á bið eftir húsnæði sem hentar heimilislausum með miklar þjónustuþarfir. Húsnæðisástandið kemur hvað verst niður á leigjendum og efnaminna fólki. Í svörum hefur komið fram að samningsmarkmið hafi verið endurskoðuð þegar ástæða hefur þótt til frá því þau voru fyrst samþykkt árið 2014. Flokkur fólksins áttar sig ekki alveg á hvað það þýðir, „þegar ástæða hefur þótt til“. Sjálfsagt er að hækka þessi viðmið enn meira nú þegar svo illa árar í samfélaginu og verðbólga er há. Kaupáætlanir hafa ekki tekið mið af fjölda sem eru á biðlista og nauðsynlegt að hlutfall félagslegra leiguíbúða sé í takt við þörf.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 13. júní.

Liður 4: Viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2024, er borinn upp í einstökum liðum. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðarinnar:

Flokkur fólksins styður lið 1 og 2 í viðauka við fjárhagsáætlun 2024, dagforeldrar, hækkun um 130.000 þ.kr. vegna eflingar á dagforeldrakerfinu, og vegna sumarstarfa fyrir 17 ára en bjóða á um 50 sumarstörf fyrir 17 ára einstaklinga í viðkvæmri stöðu. Margt annað í þessum viðauka er verulega athugavert en við suma þætti vantar haldbærar skýringar. Hækka á fjárheimildir vegna heilsustefnu. Hér vantar skýringar, t.d. af hverju upphæðir eru svo mjög mismunandi til sviða. Sama gildir um launa- og starfsmannakostnað sem hækkar um 25 milljónir. Einu skýringar eru að verið sé að mæta breytingum án þess að það komi fram hvaða breytingar það eru. Hækka á laun stjórnenda sem eru kjaranefndarraðaðir og hækka á fjárheimildir fagsviða og miðlægrar stjórnsýslu um 85.420 þ.kr. vegna ákvarðana kjaranefndar Reykjavíkurborgar. Laun æðstu stjórnenda borgarinnar sem kjaranefnd raðar eru að fá umtalsverðar hækkanir. Loks á að hækka fjárheimildir vegna skipulagsbreytinga á fjármála- og áhættustýringarsviði sem talið var að væru einmitt til að hagræða, spara og skila meiri skilvirkni. Vissulega er hér um tilfærslu á fjármagni að ræða en nánari skýringa er þörf og ávallt skal viðhafa gagnrýna hugsun.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð forsætisnefndar frá 14. júní, skóla- og frístundaráðs frá 10. júní, stafræns ráðs frá 12. júní og umhverfis- og skipulagsráðs frá 12. júní. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðar forsætisnefndar og 2. og 3. lið fundargerðar stafræns ráðs:

Liður 4 fundargerð forsætisnefndar: Fulltrúi Flokks fólksins telur að ekki sé gott að fulltrúar velferðarráðs í minnihluta verði skikkaðir á grundvelli samþykkta borgarinnar til að sitja í áfrýjunarnefnd án umbunar/launa. Hér er um töluverða viðbótarvinnu að ræða og ríka ábyrgð vegna mikilvægi þeirra ákvarðana sem teknar eru þar. Áfrýjunarnefnd ætti í raun aðeins að vera skipuð meirihlutafulltrúum enda eru þeir með valdið, vald til að synja eða samþykkja þær beiðnir sem áfrýjað hefur verið til nefndarinnar vegna synjunar á fyrri stigum. Fulltrúi Flokks fólksins er heldur ekki tilbúinn að vera einhver varnarskjöldur fyrir meirihlutann í þessum efnum þegar umsækjendur um fjárhagsaðstoð fá endanlega synjun frá nefndinni.

2. liður fundargerðar stafræns ráðs: Fjárhagsyfirlit. Ganga þarf röskar í hagræðingu og endurskipulagningu hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði. Ekki virðist hafa dugað að leggja niður skrifstofu sviðsstjóra sem orðin var ansi þung á fóðrum hvað almannafé varðar. Minnt er á tillögu Flokks fólksins um óháða úttekt sem vísað var til borgarráðs og ekki hefur spurst til síðan.

3. liður fundargerðar stafræns ráðs: Furðu er lýst yfir að nú eru flest gögn sem tengjast málefnum þjónustu- og nýsköpunarsviðs merkt sem trúnaðargögn. Hvað hefur sviðið að fela sem þolir ekki að koma fyrir augu almennings?