Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var lögfestur á Alþingi 2013. Ríkisstjórnir síðastliðin 10 ár hafa enn sem komið er einungis tekið tillit til hluta af ákvæðum hans. Þegar kemur að því hvernig búið er að börnum í íslensku samfélagi er margt ábótavant.
Hópur barna þvælist um á vergangi með foreldrum sínum vegna húsnæðisskorts og hárrar húsaleigu. Börn eru næm á tilfinningalegt ástand foreldra sinna og skynja vel óöryggi þeirra og kvíða. Viðvarandi óstöðugleiki og óvissa sem fátækar fjölskyldur glíma við kemur illa niður á börnunum. Ekki allar fjölskyldur vita svo dæmi sé tekið hvar þær munu eiga höfði sínu að að halla um næstu jól.
Flokkur fólksins mun leggja allt í sölurnar til að koma með lausnir til skemmri og lengri tíma í húsnæðismálum verði hann kjörinn á Alþingi. Skaðsemi þess að alast upp við aðstæður sem þessar eru iðulega miklar og djúpstæðar og kemur hvað verst niður á börnunum. Áhrif þess að búa við langvarandi óöryggi grefur undan trú og trausti barns á umhverfi sínu.
Það bíður þeirra flokka sem fá brautargengi í alþingiskosningum á laugardaginn og komandi ríkisstjórn ærið verkefni í þessum málum. Margir sem setið hafa á valdastóli hafa ítrekað lofað að ástandið muni batna en raunin er að það hefur versnað.
Flokkur fólksins óskar þess að fá tækifæri til að sýna að hann vill, getur og skal ganga í þessu mál af krafti fái hann tækifæri til.
Höfundur er sálfræðingur og skipar 2. sæti á framboðslista Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.
Birt á visi.is 27. október 2017