Móttaka barna og fullorðinna af erlendum uppruna er eitt stærsta verkefnið sem blasir við íslensku samfélagi. Innflytjendum hefur fjölgað mikið undanfarið í Reykjavík og eru nú rúmlega 20% af íbúum og fjölgar stöðugt. Það er því mikil áskorun framundan við að aðstoða þessa nýju Íslendinga sem ætla að búa hér til langframa að skilja og tala íslensku svo þeir geti aðlagast sem best íslensku samfélagi. Íslenskukunnátta fólks af erlendum uppruna er LYKILLINN að farsæld og framgangi þeirra í þjóðfélaginu.
Þriðjudaginn 20. júní sl. var umræða í borgarstjórn um íslenskukennslu og þjálfun fólks af erlendum uppruna að beiðni borgarfulltrúa Flokks fólksins. Umræðan snerist m.a. um hver sé ábyrgð Reykjavíkurborgar og hvað er hægt að gera betur sem borgarar?
Skylda og ábyrgð Reykjavíkurborgar er að sjá um íslenskukennslu allra barna í leik – og grunnskólum Reykjavíkur. Skólasamfélagið endurspeglar aukinn fjölbreytileika menningar og tungumála. Fjöltyngd leikskólabörn í Reykjavík eru rúm 32% og fjöltyngdir grunnskólanemendur í Reykjavík eru rúm 20%. Íslenskar rannsóknir sýna að mörg börn af erlendum uppruna eru jaðarsett, ná ekki góðum tökum á íslenskunni og eiga takmarkaða möguleika á framhaldsnámi. Hæsta hlutfall brottfalls úr framhaldsskóla er hjá þessum hópi.
Hver er staðan við móttöku barna af erlendum uppruna inn í skólana?
Fyrsta stig íslenskukennslunnar eru íslenskuverin en þau eru fyrir börn frá 5.-10. bekk. Elstu nemendurnir ganga fyrir. Íslenskuverin eru fjögur og eru þau öll sprungin. Allt of mörg börn bíða eftir því að komast í þetta fyrsta úrræði. Það vantar fleiri stöðugildi. Fjármagni sem varið er í þau stöðugildi er vel varið. Annar vandi er sá að það vantar námsefni fyrir þennan hóp. Það er erfitt að kenna þegar stór hópur nemenda skilur ekki það sem verið er að kenna. Þess vegna þarf námsefnið að vera fjölbreytt. Börnin þurfa einnig að hafa gott aðgengi að bókum og þar eru skólabókasöfnin í lykilhlutverki.
Fólk af erlendum uppruna er viðkvæmur hópur sem ekki hefur sterka rödd. Efnalítið fólk og margir innflytjendur hafa ekki oft mikið á milli handanna til að kaupa bækur fyrir börn sín. Þess vegna þarf að tryggja að skólabókasöfn séu aðgengileg öllum skólabörnum. Hljóðbækur eru einnig mikilvægar fyrir börn af erlendum uppruna. Hlustun bætir orðskilning. Flokkur fólksins mun leggja fram tillögu á næstu dögum að borgarráð samþykki að gerður verði samningur við hljóðbókasafnið fyrir hönd allra skólanna í Reykjavík svo það opnist aðgengi fyrir alla nemendur en ekki aðeins þá sem fengið hafa formlegar greiningar vegna t.d. lestravanda.
Íslenskukunnáttan er lykillinn að fjölbreyttu starfi í íslensku samfélagi
Starfsfólk Reykjavíkurborgar er jafnframt fjölbreyttur hópur sem endurspeglar litríkt samfélag. Reykjavíkurborg hefur þá stefnu að starfsfólk borgarinnar, með annað móðurmál en íslensku, skuli eiga kost á hagnýtum íslenskunámskeiðum og einnig skulu símenntunarnámskeið í íslensku vera í boði fyrir alla starfsmenn. Til að ná viðunandi tökum á tungumáli þarf námið að vera við hæfi og samfellt með tilheyrandi þjálfun við að tala tungumálið. Ekki er nóg að senda fólk á námskeið heldur þurfa nemendur í íslensku að fá tækifæri til að spreyta sig í samtölum við íslenskumælandi fólk. Því miður grípa allt of margir ósjálfrátt og án mikillar hugsunar til enskunnar þegar talað er við fólk af erlendum uppruna sem sest hefur hér að. Þar með er þjálfun viðmælandans í íslensku varpað fyrir róða. Þótt fólk eigi erfitt með að tjá sig á íslensku getur það í mörgum tilfellum skilið íslensku. Það kann að vera að margir séu ragir, finnist málið flókið eins og ókunn tungumál eru iðulega. En yfir þessa hindrun er hægt að hjálpa nýjum Íslendingum. Við verðum einnig að senda þau skilaboð til fólks af erlendum uppruna sem ætla að búa á Íslandi til frambúðar að þeim sé nauðsynlegt að læra íslensku til þess að geta notið sín hér til fulls. Íslenskukunnáttan er lykillinn að því að eiga þess kost að sinna fjölbreyttum störfum. Íslenskukunnátta mun auka möguleika á framgangi í íslensku samfélagi. Það mun auðvelda fjölmargt s.s. samskipti við einstaklinga og stofnanir.
Verum meðvituð og gerum vel
Borgarfulltrúum Flokks fólksins finnst að ótal margt megi gera betur í Reykjavíkurborg við að aðstoða fólk við að læra og tala íslensku.
Tungumál lærist þegar það er notað. Það tekur vissulega tíma og þolinmæði. Verkefnið sem staðið er frammi fyrir er stórt og það þarf að vinna með sameiginlegu átaki og í samvinnu við nýja borgara.
Höf:
Helga Þórðardóttir varaborgarfulltrúi Flokks fólksins
Kolrbún Áslaugar Baldursdóttir borgarfulltrúi/oddviti Flokks fólksins
Birt í Morgunblaðinu 24. júní 2023