Ræða oddvita við seinni umræðu Fjárhagsáætlunar 2024, flutt 5. desember 2023
Rekstur A-hluta Reykjavíkurborgar hefur verið í járnum. Árlega hefur hluti rekstrarútgjalda borgarsjóðs, fjárfestingar og afborganir lána verið fjármagnaðar með lántökum. Langt er enn í land með að fjárhagsstaða borgarinnar verði ásættanleg. Nánast allri skuldinni er skellt á málefni fatlaðs fólk. Of mikið traust er sett á að samningar náist við ríkið um fjármögnun málefna fatlaðs fólks eins og borgin hefur lagt upp með. Stilla þarf upp fleiri sviðsmyndum um niðurstöður þeirra samninga til að betur liggi fyrir ef forsendur breytast.
Rétt er að batamerki eru í bókhaldi borgarinnar en ástæðan fyrir því eru auknar tekjur sem m.a. má rekja til gjaldskrárhækkana. Hver einasta gjaldskrá hefur hækkað svo og skatttekjur. Allt fer þetta beint út í verðlagið og eykur verðbólgu. Tugi tillagna voru lagðar fram af meirihlutanum í fyrra, sumar sem skertu þjónustu við börn og viðkvæma hópa. Áfram er þensla, haldið er áfram með fjárfrek verkefni sem ekki snerta beint hvernig borgarbúum líður. Áfram er verið að fjölga stöðugildum á sumum sviðum og stórar fjárhæðir fara í að greiða fyrir mistök af ýmsu tagi, útboðsmistök.
Horft til næstu ára
Batahorfur rétt lafa, ekki þarf mikið til að allt fari á heljarþröm. Það sést t.d. á því að veltufjárhlutfall A-hluta borgarsjóðs fer lækkandi á tímabilinu og er komið niður undir 0,8. Það er varhugaverð þróun sem nauðsynlegt er að bregðast við tímanlega. Mikil lækkun Veltufjárhlutfalls undir 1 eykur líkur á að dráttarvextir fari vaxandi. Það mun þó taka lengstan tíma að koma mikilvægasta atriðinu í fjármálastefnu borgarinnar í ásættanlegt horf, veltufé frá rekstri.
Aukin hagræðing í rekstri og meiri skilvirkni er aðalatriðið. Auk húsnæðisvanda eru samgöngumál erfið. Þjónusta hefur verið skert hjá strætó en strætó er eini kostur almenningssamgangna næstu árin og áfram er spáð heil mikilli fólksfjölgun.Fátækt hefur aukist, hjálparsamtök hafa ekki undan, hafa ekki getað hækkað framlag sitt. Þetta er sorgleg staðreynd. Stærsta áskorunin hlýtur að vera að byggja húsnæði fyrir fólk, ekki fyrir ferðamenn. Í grundvallaratriðum er Flokkur fólksins ósammála meirihlutanum í útdeilingu fjármagns. Forgangur meirihlutans er ekki fólkið og bein þjónusta við hann. Við í Flokki fólksins viljum setja fólkið fyrst. Meirihlutinn verður að axla ábyrgð en ekki varpa sökinni annað s.s. erfiðleika við að ná samningum við ríkið.
Áhersla Flokks fólksins
Áhersla Flokks fólksins er fyrst og fremst að laga stöðu þeirra verst settu. Í það þarf að setja fjármagn og það fjármagn þarf að taka úr kerfum sem farið hafa offari í þenslu og bruðli. Ein af tillögum Flokks fólksins sem lögð er fram núna við seinni umræðu er um hækkun grunnfjárhæða fjárhagsaðstoðar og skal uppfærslna miða við prósentu hækkun matarkörfunnar. Sárafátækt hefur aukist í Reykjavík og einnig almennur ójöfnuður. Þetta kostar og sækja þarf fjármagn þar sem þess er ekki þörf að sama skapi. Öryrkjar eru sá hópur sem er einna verst settur í Reykjavík. Hann líður skerðingar vegna laga um almannatryggingar en Reykjavíkurborg getur farið sínar eigin leiðir í þessum efnum og gert betur við öryrkja í Reykjavík
Til að sækja fjármagn fyrir fólk leggur Flokkur fólksins áherslu á aukið hagræði í rekstri, meiri skilvirkni og minni yfirbyggingu. Standa þarf vörð um lögbundna þjónustu og aðra þjónustu við börn og viðkvæma hópa. Huga þarf að þeim verst settu en fátækt og ójöfnuður hefur aukist í Reykjavík á vakt þessa og síðasta meirihluta. Flokkur fólksins getur ekki heilum á sér tekið fyrr en búið er að eyða biðlistum í félagslegt húsnæði og fagþjónustu barna. Ef horft er til næstu fimm ára koma einnig samgöngumál upp í hugann og erfiðleikar með okkar einu almenningssamgöngur. Þjónusta hefur verið skert hjá strætó en vonir eru bundnar við nýtt leiðakerfi. Strætó verður eini valkostur almenningssamgangna næstu árin og áfram er spáð heilmikilli fólksfjölgun.
Farið verður nú nánar í einstök atriði
Með nýjum meirihluta, reyndar endurreistum að stórum hluta með aðstoð Framsóknar stóðu vonir til að einhverjar breytingar myndu verða í átt til bættra lífskjara hinna verst settu og þeirra sem standa höllum fæti. Það hefur hins vegar ekki orðið. Allt of stór hópur barna, öryrkja og eldra fólks á um sárt að binda og líður ekki vel. Of margar fjölskyldur og einstaklingar geta ekki séð sér farborða og hafa áhyggjur af grunnþörfum sem eru fæði, klæði og húsnæði.
Vissulega er ekki allt svart. Ýmislegt gengur vel í Reykjavík og margir hafa það gott. Það er staðreynd að fátækt hefur aukist og sýna rannsóknir að vanlíðan barna, öryrkja og ákveðins hóps eldri borgara vex. Ógn fátæktarinnar leggst mismunandi á fjölskyldur en verst á börnin í þeim fjölskyldum sem bágast standa. Sýnt hefur verið fram á með rannsóknum að ójöfnuður hefur aukist og þá einnig innan menntakerfisins. Umræða um húsnæðisskort í Reykjavík hefur verið hávær allt árið. Flokkur fólksins leggur til að hugað verði að fjölbreyttari leiðum við úthlutun lóða. Það bíða nú þegar mjög góðar staðsetningar þar sem innviðir eða grunnur að þeim eru fyrir hendi en síðan þarf að horfast í augu við að brjóta þarf nýtt land undir byggð. Fólki fjölgar á ógnarhraða. ( tvöföldun á 50 árum, fjórföldun á 100 árum) Það vantar meira val, það vantar allar tegundir af húsnæði. Þeir sem koma verst út á húsnæðismarkaði eru einstæðir foreldrar og öryrkjar sem eru á leigumarkaði. Leigumarkaðurinn er þungur fyrir fjölda manns enda leiguverð í hæstu hæðum og nánast þurrkar út laun fólks. Ekki bólar á neinum úrræðum til að styðja sérstaklega við þessa hópa.
Þetta er allt saman sérkennilegt í ljósi þess að í borginni hefur Samfylkingin varðað leiðina í mörg ár. Flokkur fólksins hefur talað fyrir því að gripið verði til markvissra aðgerða í þágu þeirra verst settu meira en gert hefur verið. Hækka þarf fjárhagsaðstoð svo um munar og ætti það mál að vera í forgangi. Horfa þarf sérstaklega til barnafjölskyldna þar sem áhrifin eru neikvæðust á börn. Hér má nefna Barnasáttmálann sem virðist ekki komast upp á borð hjá meirihlutanum neitt á næstunni. Það mál er ekki í forgangi. Flokkur fólksins lagði til að farið verði með kerfisbundnum hætti í að vinna að innleiðingu Barnasáttmálans. Tillögunni var vísað til borgarstjórnar og er þar enn óafgreidd.
Flokkur fólksins er óþreytandi í umræðunni um biðlista
Áhersla þessa og síðasta borgarstjórnarmeirihluta snýst um aðra hluti en grunnþarfir fólks. Biðlistar barna eftir þjónustu fagfólks, einna helst sálfræðinga og talmeinafræðinga, hefur farið frá 400 börnum árið 2018 í á þriðja þúsund börn. Ástandið hefur tekið toll af andlegri heilsu foreldra og barna. Tilkynningar um vanrækslu, ofbeldi og áhættuhegðun hafa einnig aukist. Ein af afleiðingum þess ástands sem ríkir nú í Reykjavíkurborg er aukin vopnaburður eggvopna og barefla ungmenna. Í borgarstjórn á haustdögum 2022 lagði flokkurinn fram tillögu um að stýrihópur yrði settur á laggirnar sem myndi kortleggja aukinn vopnaburð eggvopna meðal ungmenna í Reykjavík. Sem svar við þessu var stór hópur ýmissa aðila settur á laggirnar. Það er reyndar ekki búið að samþykkja þetta úrræði ennþá. Öll vitum við hvað skilvirkni er lítil þegar of margir koma að borðinu. Í tillögu Flokks fólksins átti hópurinn aðeins að vera innan borgarinnar en leita samráðs til annarra eftir atvikum.
Samgöngur varða okkur öll. Allir þurfa að komast um hvernig sem þeir eru svo sem í sveit settir efnahagslega. Strætó hefur verið mikil vonbrigði því sífelldar skerðingar hafa verið boðaðar. Vandamál Strætó virðast ná djúpt. Flokkur fólksins myndi vilja sjá algera uppstokkun á stjórnun Strætó. Nýir aðilar þurfa að koma að borðinu og setja þjónustustefnu ofar á dagskrá. Það er vont að heyra frá fólki sem óttast um öryggi sitt í strætó vegna aksturslags. Bjóða á út hluta reksturs strætó. Varhugavert yrði þó að bjóða að fullu út rekstur Strætó enda er þar um að ræða beina þjónustu við fólkið (maður á mann þjónusta).
Þrátt fyrir yfir 100 sparnaðartillögur meirihlutans í fyrra hefur ekki tekist svo heitið geti að draga úr þenslu einstakra sviða. Þjónusta við viðkvæma hópa er skert á meðan staðið er vörð um miðlæga stjórnsýslu og þjónustu- og nýsköpunarsvið. Í þeim tillögupakka (19 tillögur) sem Flokkur fólksins leggur fram núna er megin áherslan á að draga saman og spara á miðlægu sviði og þjónustu og nýsköpunarsviði sem er hástökkvari í eyðslu fjármagns úr borgarsjóði síðustu ár. Afurðir láta hins vegar bíða eftir sér t.d. á skóla- og frístundasviði. Fjármagnið sem sparast vill Flokkur fólksins beina til fólksins og þjónustu við það. Flokkur fólksins lagði til að sótt verði fjármagn til Þjónustu- og nýsköpunarsviðs með því að hætta kaupum á áskrift erlendrar ráðgjafar sem þar hefur verið í gangi í heilan áratug án sýnilegs ávinnings. Forgangsröðun á verkefnum virtist alla vega lengi vel fara að mestu leyti eftir því hvað sé skemmtilegast að gera í stað þess hvað var brýnast að gera, eins og berlega hefur komið í ljós í allri hugmyndavinnu og rannsóknum sviðsins sem lítið hefur komið út úr.
Fara hefði átt strax í náið samstarf við hin sveitarfélögin og Stafræna Ísland í stað þess að vera ein á ferð í stafrænni vegferð eins og Þjónustu- og nýsköpunarsvið lagði upp með og kostað hefur borgina háar fjárhæðir. Flokkur fólksins leggur til að breytingar verði gerðar á skipuriti og innra skipulagi Þjónustu- og nýsköpunarsviðs og skrifstofur og deildir sameinaðar.
Stafrænar lausnir eru framtíðin og munu flýta fyrir þjónustu. Um það er ekki deilt. Breyta þarf forgangsröðun í þágu viðkvæmra hópa. Lagt er til að foreldrar undir ákveðnu tekjuviðmiði fái fríar skólamáltíðir fyrir börn sín. Meðal tillagna var að hagræða og forgangsraða í þágu lögbundinnar þjónustu. Flokkur fólksins leggur til að dregið verði úr útgjöldum vegna leigubílaferða starfsmanna og utanlandsferða. Gera þarf jafnvel enn betur við dagforeldra og fara í nauðsynlegar úrbætur á aðgengi í skólum Reykjavíkurborgar.
Lokaorð
Í janúar tekur við nýr borgarstjóri. Hér er um innbyrðis ákvörðun meirihlutans. Ef marka má þann tíma sem liðinn er af tímabilinu með Framsókn um borð er ekki að vænta stórra breytinga. Í raun er sama límið í þessum meirihuta og þeim síðasta, saman út yfir gröf og dauða, saman í hvaða vitleysisgangi sem er.
Samráð við borgarbúa er enn ábótavant. Bjóða þarf upp á athugasemdir fyrr í ferli umhverfis- og skipulagsmála en gert er nú. Sjá má að margt sem kallað er samráð er algert sýndarsamráð. Fólk fær að segja nokkur orð nánast í sömu viku og málin eru samþykkt.
En ég hef farið vítt og breitt yfir sviðið eins og það lítur út fyrir okkur í Flokki fólksins í borginni. Fyrir okkur er auðvelt að draga skýrar línu. Forgangsraða á í þágu fólksins í borginni. Til þess þarf fjármagn. Lengi hefur Flokkur fólksins talað fyrir að geyma fjárfrek verkefni þar til málefni fólksins sjálfs eru komin í betra horf. Geyma má framkvæmdir við Hlemm, Grófarhús og Lækjartorg. Ekkert af þessu er gargandi nauðsyn. Hagræða má mikið í rekstri. Óhætt er að segja að bruðlað hafi verið með fjármagn síðustu ár og eru það engar ýkjur. Lögbundin þjónusta hefur liðið og ekki síður önnur þjónusta eins og bein aðstoð við fólk, börn og viðkvæma hópa. Biðlistar hafa lengst margfalt með hverju árinu. Leikskólamálin er svartasti bletturinn. Öll þessi loforð um pláss voru svikin. Myglumálin eru svo alvarleg vegna hreinna vanrækslu í þeim málaflokki. Ekkert lát var á þenslu og nú þegar sagt er að draga eigi saman þá er það bara kropp. Starfsmönnum fjölgar og er þá ekki verið að tala um skóla- og velferð endilega. Ráð eru í gangi sem ekki eru að skila miklum afköstum. Nefna má mannréttinda- og ofbeldisvarnaráð en þar er aðeins einn borgarfulltrúi sem vinnur af krafti og það er fulltrúi Flokks fólksins.
Kannski mættu ráðsmenn láta meira að sér kveða þar. Stafræna ráðið er nánast bara grín allavega eins og það lítur út fyrir okkur sem ekki sitjum í því. Þar er fullkomlega ekkert í gangi nema uppákvittanir og gætu stafrænu málin allt eins átt heima í einhverju hinna ráðanna eins og var á síðasta kjörtímabili. Það er kostnaðarsamt að halda úti fagráði. Nóg hefur samt verið eytt í heimagerðar lausnir sem margar hafa dagað uppi og allt í beinni samkeppni við nýsköpunarfyrirtæki og einkaaðila. Stórum upphæðum var eytt í að stækka húsnæði og mublera fyrir þjónustu- og nýsköpunarsvið og allt það er fyrir utan ráðningar ótal sérfræðinga, fjárfestingar í áhöld og tæki og áskriftir hjá erlendum og innlendum fyrirtækjum.
Flokkur fólksins hefur ítrekað lagt til að hagrætt verði til muna á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara. Þar eru málaflokkar og fjármagn til þeirra ekki nógu vel skilgreint. Nefna mætti ótal margt annað sem telst til óþarfa á meðan ekki er nægjanlega hugað að útrýmingu biðlista.
En áfram skal haldið, kjörtímabilið er ekki hálfnað og Flokkur fólksins sterkur sem aldrei fyrr. Við munum halda áfram baráttunni fyrir réttlæti, sanngirni fyrir þá sem minnst mega sín. Fæði, klæði og húsnæði er okkar kjörorð og eins og fram hefur komið er af nógu af taka. Enda þótt öllum okkar tillögum sé formlega hafnað fögnum við því að sjá þær skjóta sér upp stuttu síðar ýmist hjá meirihlutanum eða öðrum flokkum. Frá því Flokkur fólksins kom í borgarstjórn hefur sumt lagast, því miður bara of lítið. Flokkur fólksins hefur fengið góðar undirtektir almennings og ómældan stuðning. Við hlustum á alla. Við erum í vinnu hjá borgarbúum og okkur er það ljúft og skylt að standa vörð um þeirra hagsmuni. Hlutverk okkar í minnihluta er að vera málpípa fólksins og vinna skal öll mál með hagsmunir borgarbúa að leiðarljósi.
Góðar stundir
Flokkur fólksins leggur fram 19 tillögur nú og verður þeim hér fylgt eftir. Við fyrri umræðu voru lagðar fram 4 gjalda og tekjubreytingatillögur F-1 til F-4.
Þær voru allar felldar af meirihlutanum. Farið verður nú yfir tillögurnar
F-5 Tillaga um hækkun viðhaldskostnaðar til skólabygginga og annarra bygginga þar sem börn stunda nám eða tómstundir.
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að hækka enn frekar viðhaldskostnað til skólabygginga og annarra bygginga þar sem börn stunda nám eða tómstundir. Á móti kæmi að stór og fjárfrek verkefni bíði að minnsta kosti um tvö ár og er þá átt við verkefni eða uppbyggingu sem lúta að öðru en íbúðauppbyggingu, s.s. Grófarhús, Hlemm og önnur sambærileg verkefni sem nú hafa verið sett af stað ýmist í hönnun eða framkvæmd.
Greinargerð
Hávær hróp hafa borist lengi frá skólasamfélaginu vegna myglu og rakavanda í fjölmörgum skólum borgarinnar undanfarin ár. Frá árinu 2018 hefur greinst mygla í yfir 30 skólahúsum sem tilheyra borgarreknum leik- og grunnskólum samkvæmt samantekt fréttastofu RÚV frá því í fyrra haust. Í fyrra voru yfir 1.200 grunn- og leikskólabörn í húsnæði utan skólalóðar heimaskóla vegna mygluvandamála, 860 grunnskólabörn og 350 leikskólabörn. Síðan þá hafa líklega bæst við hátt í tvö hundruð börn. Mörg þúsund börn verða fyrir raski á skólastarfi vegna myglu og raka. Mygla í skólahúsnæði í Reykjavík hefur tekið stóran toll. Fjölmargir hafa veikst. Starfsfólk hefur hrökklast úr starfi vegna veikinda tengdum myglu og dæmi eru um að börn séu orðin langveik.
F-6 Tillaga um aukið fjármagn til námskeiða fyrir börn og foreldra
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að auka framboð námskeiða í PMTO foreldrafærni (Parent Management Training) og fjölmargra annarra námskeið sem staðfest hefur verið að eru að gagnast börnum og foreldrum með ómetanlegum hætti. Lagðar verði 14 m.kr. til verkefnisins. Útgjaldaaukning verði tekinn af liðnum ófyrirséð.
Greinargerð Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur fengið upplýsingar um að börn þurfi að bíða lengi eftir að komast á námskeið sem þessi enda talin afar hjálpleg og gefandi fyrir börn og foreldra. Ekki skortir fagfólk til að sinna þessum verkefni. Það þarf að ráða fleiri og það kostar fjármagn. Þessi námskeið geta ýmsir fagaðilar haldið utan um og sinnt að undangenginni þjálfun. Eðlileg bið ætti að vera 2-3 vikur en er mikið lengri í dag. Gagnleg námskeið fyrir börnin eru t.d. Klókir krakkar. Bið er slæm fyrir börn og auðvitað alla aðra líka. Börn og aðrir viðkvæmir hópar eiga einfaldlega ekki að þurfa að bíða.
F-7 Tillaga um að fjölga fagfólki með sérmenntun í sálfræði- og félagslegri þjónustu við börn
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að auglýsa eftir fagfólki með sérmenntun í sálfræði- og félagslegri þjónustu við börn með það að markmiði að ganga á biðlista barna sem bíða eftir viðtölum. Sterkar vísbendingar eru að beint aðgengi barna að viðtölum við fagfólk hafi dregist saman en þess í stað hefur bein aðstoð við starfsfólk skóla aukist í gegnum svo kölluð lausnateymi. Því ber vissulega að fagna. Unglingarnir sjálfir, unglingaráðin, hafa ítrekað tjáð sig um þá ósk að sálfræðingar og aðrir fagaðilar verði staðsettir í skólunum. Vanlíðan barna hefur aukist. Það staðfesta ýmsar lærðar skýrslur.
Greinargerð
Í ársskýrslu velferðarsviðs frá 2021 kemur fram að algengustu ástæður tilvísana barna til stoðþjónustu er tilfinningalegar. Mesta aukning milli ára er vegna tilfinningalegs vanda, eða um 63% og vegna málþroskavanda, eða 62%. Einbeitingarvandi hefur aukist frá því að vera 280 börn í 456 börn. Hér eru án efa vísbendingar um ADHD. Á nýafstöðnu farsældarþingi voru kynntar niðurstöður íslensku æskulýðsrannsóknarinnar sem lögð var fyrir grunnskólanemendur í vor. Sjötta hver stúlka í 10. bekk grunnskóla hefur orðið fyrir alvarlegri kynferðislegri áreitni af hálfu fullorðins. Innan við helmingur þeirra sagði öðrum frá. Einnig kom fram að 30-44% barna eru döpur og allt að 56% með kvíða. Við þessu þarf að bregðast með ýmsum hætti m.a. að auka aðgengi barna að samtali við fagfólk. Skýrt kom einnig fram hjá börnunum sem rætt var við í tengslum við þingið sem og í rannsóknarniðurstöðum að börn vilja hitta fagaðila, sálfræðinga eða annan sambærilegan þar sem þau fá tækifæri til að ræða sín mál beint við fagmanneskju. Í ljósi langs biðlista eftir fagfólki hjá skólaþjónustu, nú um 2.350 börn þarf að gera hér gangskör. Aukin vanlíðan barna í Reykjavík er ekki ný tíðindi og hafa verið margrædd í borgarstjórn.
F-8 Tillaga um úrbætur á aðgengi í skólum Reykjavíkurborgar
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að leysa þann aðgengisvanda sem er til staðar í sumum skólum borgarinnar með því að flytja fjármagn frá verkefnum eins og þrengingu gatna og hönnun á Lækjartorgi og það fjármagn nýtt til að bæta aðgengi fyrir fötluð börn að skólum og öðrum samkomustöðum barna.
Greinargerð
Rannsóknir hafa sýnt að aðgengi að skólum og stöðum þar sem frístundastarf barna fer fram er víða ábótavant og jafnvel mjög slæmt. Fötluð börn hafa reynslu af ýmiskonar aðgengishindrunum stundum vegna þrengsla og þar sem eru eingöngu tröppur eða engin lyfta. Oft er jafnvel tregða að gera breytingar á húsnæði til að gera það aðgengilegt, sér í lagi þegar kemur að gömlum húsum. Í þessu þarf að gera betur að mati Flokks fólksins. Aðgengi snýst ekki aðeins um aðgengi fyrir hjólastóla, það snýst einnig um aðgengi fyrir sjón- og heyrnarskerta. Þetta er í samræmi við Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem var lögfestur á Alþingi 20. febrúar 2013 með lögum nr. 19/2013.
F-9 Tillaga um sálfræðilegt meðferðarúrræði fyrir eldra fólk.
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að stofna sálfélagslegt meðferðarúrræði fyrir eldri borgara sem búa á hjúkrunarheimilum eða í heimahúsi. Ávinningur er mikill, fyrst og fremst til að draga úr einmanaleika þessa hóps og einnig til að fyrirbyggja og draga úr notkun geðlyfja. Kostnaður er áætlaður 14 m.kr. Útgjaldaauki verði fjármagnaður af liðnum ófyrirséð.
Greinargerð
Enda þótt velferðartækni hafi rutt sér til rúms getur ekki allt eldra fólk tileinkað sér þá tækni eins og gefur að skilja. Því má segja að þessi hópur sé sennilega sá sem er minnst tæknivæddur ef borið er saman við aðra hópa. Þetta er einnig sá hópur sem ekki hefur hæstu röddina og er gjarnan hógvær og lítillátur. Fjölmargir leita sér einfaldlega ekki stuðnings. Finna þarf þá sem þarfnast félagsskapar og vilja persónulegt samtal og koma til þeirra með tilboð um hvort tveggja eftir atvikum.
F-10 Tillaga fjölgun þjónustuþátta aldraðra sem búa einir heima
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fjölga þjónustuþáttum við eldri borgara í heimahúsi og bæta suma sem fyrir eru. Hér má t.d. nefna að flokka sorp og koma því út úr húsi, hengja upp þvott og skipta á rúmi. Til að geta verið sem lengst heima þarf að veita meiri einstaklingsbundna aðstoð, t.d. aðstoð við að fara út úr húsi, komast sem snöggvast undir bert loft og heim aftur. Varið verði 7. m.kr. til verkefnisins. Útgjaldauki verið fjármagnaður af liðnum ófyrirséð.
Greinargerð
Á heilbrigðisþingi 2021 um framtíðarsýn heilbrigðisþjónustu við aldraða voru málefni aldraðra rædd í þaula. Eitt af málefnunum var heimaþjónustan og hversu mikilvægt væri að auka hana og dýpka til að gefa eldra fólki tækifæri til að vera sem lengst heima. Nánast allir völdu þann valkost að vera heima frekar en að fara á stofnun þegar þeim tveimur valkostum var slegið upp. Ákallinu af heilbrigðisþinginu hefur ekki verið svarað með nægjanlega skýrum hætti. Áherslan er á velferðartækni sem vissulega er stórkostleg en hún getur aldrei komið í staðinn fyrir mannleg samskipti eða alla þjónustuþætti. Til þess að það megi verða þarf að fjölga þjónustuþáttum við eldri borgara í heimahúsi og bæta suma sem fyrir eru. Hér má t.d. nefna að flokka sorp og koma því út úr húsi, hengja upp þvott og skipta á rúmi. Til að geta verið sem lengst heima þarf að veita meiri einstaklingsbundna aðstoð, t.d. aðstoð við að fara út úr húsi, komast sem snöggvast undir bert loft og heim aftur. Flokkur fólksins leggur til að sérstaklega sé gerð könnun á hvar skóinn kreppir í heimaþjónustu og aðstoð við eldra fólk sem býr heima. Margir af þeim hópi búa einir. Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram í velferðarráði 2021 14 tillögur sem sneru að bættri þjónustu við eldri borgara í heimahúsum og fjölgun þjónustuþátta. Allar voru unnar í samráði við þjónustuþega og aðstandendur. Öllum tillögunum nema fjórum var hafnað. Rökin voru að þetta væri ekki á ábyrgð velferðarsviðs eða -ráðs. Hvað varðar viðbótar þjónustuþætti þá á eldra fólk oft erfitt með ákveðnar hreyfingar þegar árin færast yfir. Það eru hreyfingar eins og að bogra eða teygja sig upp. Verkefni eins og að setja í þvottavél, taka úr þvottavél og setja í þurrkara eða hengja upp geta reynst sumu eldra fólki erfið. Einnig að skipta á rúmi eða sjá um flokkun sorps og koma sorpi út úr húsi t.d. um hávetur. Lagt er til að eftirfarandi þættir verði skoðaðir sérstaklega. 1. Flokka sorp og koma því sorpi út úr húsi, 2. Taka úr þvottavél og hengja upp þvott. 3. Skipta á rúmi. Allt kallar þetta á ákveðna hreyfigetu. Þessari þjónustu verður velferðarsvið að koma á laggirnar án vandkvæða. Aðstæður eldri borgara sem búa heima eru mismunandi. Sumir eldri borgarar sem búa einir eiga ekki ættingja eða vini sem þeir geta leitað til eftir aðstoð með þætti sem þjónusta velferðarsviðs býður ekki upp á.
F-11 Tillaga um skipulagsbreytingar og frekari niðurskurð hjá skrifstofu borgarstjóra og borgarritara og í miðlægri stjórnsýslu.
Lagt er til að borgarstjórn samþykki kerfisbundinn niðurskurð á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara og í annarri stjórnsýslu borgarinnar þar sem flestar ráðningar hafa átt sér stað og mesta þenslan er. Lagt er til að hagræðingarkrafa verði hækkuð á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara upp í 2%, ráðningarbann verði á skrifstofunni í að minnsta kosti tvö ár og að verkefni og undirskrifstofur verði sameinuð eins og þess er nokkur kostur. Áætlað er að sparnaður vegna aðgerðarinnar nemi 5,1 m.kr. Sparnaður verði færður á liðinn ófyrirséð.
Greinargerð
Fleira mætti skoða, t.d. að sameina verkefni og undirskrifstofur og einfalda verkferla. Sum verkefni mega fara á bið og einhver má jafnvel hætta við. Sum kunna að vera barn síns tíma og tímabært að leggja þeim. Áfram á að hafa það að markmiði að draga úr eða fresta ráðningum þar sem við á og draga úr launakostnaði. Rúmlega 60% af rekstrarútgjöldum Ahluta borgarsjóðs er launakostnaður í hlutfalli við tekjur. Þetta hlutfall hefur farið hækkandi á síðustu árum og útilokað er að ná fram hagræði í rekstri nema takast á við þennan stærsta útgjaldalið borgarinnar með markvissum hætti. Í þetta verkefni átti að fara fyrir löngu enda augljóst að margir möguleikar eru til að spara í málaflokkunum fjórum sem tilheyra þessari skrifstofu. Einhver neisti hefur vaknað hjá meirihlutanum um að þetta þurfi að gera og er í því sambandi vísað til 14 liða yfirlits yfir embættisafgreiðslur sem lagt var fram í borgarráði 9. nóvember sl. Þar segir frá starfshópi sem skuli rýna og greina mönnun, rekstur, umfang og þróun á miðlægri starfsemi Reykjavíkurborgar og skili skýrslu á næsta ári þar sem fram koma tillögur að hagræðingaraðgerðum. Þetta er nánast orðrétt út úr munni fulltrúa Flokks fólksins síðustu ár og síðast í ræðu í fyrri umræðu um fjárhagsáætlun.
F-12 Tillaga um lækkun útgjalda vegna leigubílaferða
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að takmarka notkun leigubíla fyrir starfsfólk borgarinnar þannig að þeir verði eingöngu notaðir í undantekningartilfellum. Leigubílanotkun er afar misjöfn eftir sviðum. Ef tekið er árið 2020 (fyrir COVID) er velferðarsvið hástökkvari í leigubílanotkun með 35.171.154 kr. Ef horft er til 2020 má draga þá ályktun að velferðarsvið hlýtur að verða að fara að skoða hvort ekki sé hægt að taka færri leigubíla. Finna þarf aðrar leiðir til að koma starfsfólki milli staða í þeim tilfellum sem þess þarf, öðruvísi en að notast við rándýran ferðamáta eins og leigubíla. Skoða má að fjölga deilibílum. Ekki liggur fyrir hver leigubílakostnaður var árið 2022.
Greinargerð
Meirihlutinn í borgarstjórn hefur linnulaust hvatt borgarbúa til að hjóla eða taka strætó og slíkt ætti allt eins að eiga við borgarstarfsmenn. Flokkur fólksins spurðist fyrir um leigubílakostnað starfsmanna borgarinnar í maí 2022. Ástæða fyrirspurnarinnar er að eftir því hefur verið tekið að þegar viðburðir eru á vegum velferðarsviðs má sjá eitthvað starfsfólk koma á leigubíl, stundum nokkrir saman í bíl en stundum einn í bíl. Í síðasta svari frá velferðarsviði við fyrirspurn um leigubílakostnað er aðeins sundurliðað hve mikill heildarkostnaður var á hvert undirsvið velferðarsviðs og svo tekið dæmi um hvaða ástæður liggi að baki mestum hluta kostnaðarins, þ.e. „Önnur notkun á leigubílum er vegna vitjana á heimili, starfsstaði eða á fundi.“ Ekki var hægt að sundurliða notkunina meira en þetta. Kjörnir fulltrúar verða að hafa nákvæmari upplýsingar til að geta sinnt sínu aðhaldshlutverki. Hvað sem þessu líður er fjárhæðin há sem fer í leigubílakostnað, sérstaklega á velferðarsviði. Það er alltaf hægt að réttlæta hvers konar útgjöld með vísan í að réttir aðilar hafi gefið grænt ljós vegna þeirra og að almennt séu góðar ástæður fyrir þeim.
F-13 Tillaga um að lækka kostnað vegna utanlandsferða
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að lækka áætlaðan kostnað vegna utanlandsferða og að öll svið og ráð stilli ferðum erlendis í hóf næsta ár vegna fjárhagsstöðu borgarinnar. Utanlandsferðir verði aðeins í undantekningartilvikum þar til borgin fer að sýna betri fjárhagslega afkomu, þ.e. þegar áætlanir eru farnar að standast.
Greinargerð
Eitt af því sem COVID kenndi okkur svo um munar var að notast við fjarfundabúnað og streymi urðu algengari en áður. Þetta er ódýr og skilvirk leið til að funda eða eiga samskipti við þá sem eru fjarri okkur. Þess vegna er svo sjálfsagt að notast við fjarfundarbúnað og streymi í stað þessa að taka sér ferð á hendur með tilheyrandi kolefnisspori og öðrum kostnaði sem kemur beint úr vasa borgarbúa. Reynist nauðsynlegt að fara erlendis nægir að einn fari og deili reynslu og upplifun af fundi/ráðstefnu með samstarfsfólki þegar heim er komið. Fara á vel með skattfé borgarbúa.
F-14 Tillaga um flutning skólasálfræðinga á skóla- og frístundasvið
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að flytja málefni skólasálfræðinga frá velferðarsviði á skólaog frístundasvið. Það skýtur skökku við að skólasálfræðingar heyri undir velferðarsvið en ekki skóla- og frístundasvið. Með þessari hagræðingu næðist betra skipulag og líkur myndu aukast á að skólasálfræðingar væru staðsettir þar sem þeim ber, þ.e. í skólum borgarinnar.
Greinargerð
Fulltrúi Flokks fólksins lagði til í borgarráði 30. janúar 2020 að sálfræðingar í skólum færðust undir skóla- og frístundasvið. Með því kæmust sálfræðingarnir í betri tengingu við skólasamfélagið. Tillögunni var hafnað. Skólasálfræðingar heyra undir þjónustumiðstöðvar borgarinnar þar sem þeir hafa aðsetur. Í skýrslu innri endurskoðunar sem kom út í júlí 2019, kom fram skýrt ákall skólastjórnenda um að sálfræðingar kæmu inn í skólana. Nærvera þeirra myndi létta álagi á kennara. Í raun má segja að það sé engin haldbær rök fyrir því að skólaþjónusta tilheyri ekki því sviði sem rekur skólana. Með því að skólasálfræðingar heyri undir skóla- og frístundasvið yrði hlutverk skólaþjónustu gagnvart skólum og starfsfólki þeirra eflt og veitir sannarlega ekki af því í ljósi langs biðlista.
F-15 Tillaga um tilraunaverkefni á útboði sorphirðu í einu póstnúmeri
Lagt er til að borgarstjórn samþykki útboð á sorphirðu í einu póstnúmeri innan Reykjavíkur ásamt því að kanna hagkvæmni á útboði vegna þjónustu við djúpgáma.
Greinargerð
Öll sveitarfélög önnur en Reykjavík bjóða út sorphirðu og er ekki að sjá annað en að slíkt hafi reynst vel. Flokkur fólksins leggur til að gerð verði hagkvæmnisúttekt á þjónustu við djúpgáma með þeim tækjum og tólum sem til þess þarf en SORPA hyggst sjálf þjónusta djúpgáma. Flokkur fólksins bendir á skýrslu norrænu samkeppniseftirlitanna frá 2016, Competition in the Waste Managment Sector. Preparing for a Circular Economy. Löngu er tímabært að auka flokkun á söfnunarstað en í þessu stóra verkefni þarf að huga að kostnaði. Það er skylda sveitarfélags að fara vel með fjármagn, útsvar borgarbúa, og finna ávallt hagkvæmustu leiðirnar. Í þessu stóra verkefni er ekki að sjá að kannað hafi verið hvort hagkvæmara sé að bjóða út einstök verk eða verkefni eins og flest önnur sveitarfélög hafa gert. Þetta gagnrýnir fulltrúi Flokks fólksins.
F-16 Tillaga um úttekt á búsetuhögum og búsetuúrræðum öryrkja í Reykjavík
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að láta framkvæma úttekt á búsetuhögum og búsetuúrræðum öryrkja í Reykjavík með áherslu á þá aðila sem eru á leigumarkaði með hliðsjón af niðurstöðum rannsóknar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands sem unnin var fyrir ÖBÍ.
Greinargerð
Til að framkvæma úttektina er lagt til að skipaður verði starfshópur sem hafi til hliðsjónar rannsókn Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands sem unnin var fyrir ÖBÍ. Skýrslan sýnir niðurstöðu rannsóknar í húsnæðismálum fatlaðs fólks sem unnin var af Félagsvísindastofnun fyrir ÖBÍ árið 2023. Í skýrslunni kemur fram að 27% svarenda með 75% örorkumat greiða á bilinu 51-75% útborgaðra launa í rekstur á húsnæði. Að auki greiða 12% svarenda í sama hópi meira en 75% útborgaðra launa í rekstur á húsnæði. Sú staða er óviðunandi með öllu og samræmist ekki markmiðum fjármálaáætlunar í húsnæðismálum um greiðslugetu leigjenda. Lítið sem ekkert hefur verið gert í húsnæðismálum fatlaðs fólks á þessum rúma áratug sem liðinn er frá útgáfu skýrslu 2010 fyrir utan viðleitni Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar til að viðhalda tölfræði. Staðan er slæm og spilar hátt leiguverð þar inn í. Um 11% leigja hjá Félagsbústöðum og Brynju. Af þeim sem höfðu verið á biðlista eftir félagslegu húsnæði höfðu tæp 60% verið þar 3 ár eða lengur. Með hliðsjón af þessum niðurstöðum nýútkominnar skýrslu 2023 er brýnt að láta gera úttekt á búsetuhögum öryrkja og búsetuúrræðum sem þeim standa til boða í Reykjavík og leggja þá úttekt til grundvallar við stefnumótun og ákvarðanatöku í húsnæðismálum borgarbúa.
Viðbót í ræðu:
Vísað er í nýja skýrslu sem var rædd hér á síðasta borgarstjórnarfundi. Skýrslan sem er hér til umræðu sýnir niðurstöðu rannsóknar í húsnæðismálum fatlaðs fólks. Konur með fötlun sem auk þess eru einstæðar mæður hafa það verst. Lítið sem ekkert hefur verið gert í húsnæðismálum fatlaðs fólks í rúman áratug eða síðan skýrsla um húsnæðismál kom út árið 2010. Hátt leiguverð spilar hér inn í. Um 11% öryrkja leigja hjá Félagsbústöðum og Brynju samkvæmt könnunni. Af þeim sem höfðu verið á biðlista eftir félagslegu húsnæði höfðu tæp 60% verið þar í þrjú ár eða lengur. Húsnæðisvandi eins og hann leggur sig leysist ekki fyrr en framboð verður nægjanlegt. Hér bera sveitarfélög stærstu ábyrgðina. Byggja þarf mun meira og samkvæmt hugmyndafræði algildrar hönnunar. Flokkur fólksins hefur lagt til að skipaður verði starfshópur til að gera úttekt á búsetuhögum og búsetuúrræðum öryrkja í Reykjavík og sérstaklega á leigumarkaðinum. Í skýrslunni ÖBÍ 2023 kemur fram að 27% svarenda með 75% örorkumat greiða á bilinu 51-75% útborgaðra launa í rekstur á húsnæði. Að auki greiða 12% svarenda í sama hópi meira en 75% útborgaðra launa í rekstur á húsnæði. Sú staða er óviðunandi með öllu og samræmist ekki markmiðum fjármálaáætlunar í húsnæðismálum um greiðslugetu leigjenda.
Þessi og síðasti meirihluti skuldar öryrkjum að laga stöðu þeirra svo um munar. Öryrkjar hafa mátt þola óþolandi skerðingar. Iðulega ná þeir ekki endum saman. Sveitarfélagi er sem dæmi ekki skylt að fylgja almannatryggingarlögum þegar kemur að skerðingum og getur því gert mikið til að bæta kjör þeirra með því að taka sjálfstæða ákvörðun í þeim efnum.
F-17 Tillaga um breytt fyrirkomulag lóðaúthlutana
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að auka valmöguleika á úthlutun lóða í Reykjavík þannig að félögum, hópum og jafnvel einstaklingum verði gert fært að sækja um byggingarhæfa lóð í Reykjavík á föstu verði. Eins og staðan er í dag er lóðum eingöngu úthlutað að undangengnu útboði en það er of takmarkað og útilokar þar með smærri hópa eða einstaklinga sem tilbúnir eru til að byggja hús.
Greinargerð
Þetta fyrirkomulag sem nú er, þ.e. að hægt er aðeins að fá lóð í gegnum útboð, er einhæft, óþjált og stíft. Lágum tilboðum er hafnað þannig að aðeins þeir sem geta boðið best hreppa hnossið. Til er útfærslan: sala lóðarréttinda á föstu verði en þá er sótt um tiltekna lóð. Fyrstur til að skila inn umsókn fær lóðina en þó er þetta einnig þannig að fyrst er útboðsfyrirkomulagið viðhaft og síðan lóðin sett á sölu á föstu verði. Það sjá það allir í hendi sér að þetta fyrirkomulag er afar þungt í vöfum og tyrfið. Síðustu árin hafa einstaklingar ekki fengið úthlutað neinum lóðum, aðeins félög. Árið 2021 fengu fjórir einstaklingar lóðir en enginn eftir það. Sagt er að nóg sé til af byggingarhæfum lóðum og sagt að þær séu aðgengilegar einstaklingum sem og félögum. Það er einfaldlega ekki rétt. Ef við eigum ekki að sitja í þessari súpu húsnæðisskorts um aldur og ævi verður þessi meirihluti að gera breytingar þannig að hægt sé að byggja hraðar og halda áfram af krafti að byggja þar sem innviðir eru til staðar, s.s. í Úlfarsárdal og Grafarvogi. Ekki vantar landrými.
F-18 Tillaga um breytingar á launum formanna íbúaráða
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að gera breytingar á samþykkt um kjör og starfsaðstöðu kjörinna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg þannig að laun formanna verði lækkuð til jafns við laun annarra í íbúaráðunum. Laun fulltrúa í íbúaráðum eru í dag kr. 74.080 á mánuði og fær formaður tvöfalda þá upphæð eða 148.160. Þetta eru fjárhæðir án launatengdra gjalda. Ekki er greitt fyrir hvern fund heldur eru fulltrúar á föstum launum allt árið. Áætlað er að sparnaður vegna aðgerðarinnar nemi 9,6 m.kr. Sparnaður verði færður á liðinn ófyrirséð.
F-19 Tillaga um að hraða úrbótum á biðstöðvum Strætó
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að hækka fjárheimildir framlaga til Strætó bs. til að hraða endurgerð og lagfæringum biðstöðva og svo unnt verði að bæta við að minnsta kosti 50 biðstöðvum umfram það sem áætlað er. Fjármagn verði flutt frá verkefnum eins og þrengingu gatna og endurgerð á Lækjartorgi/Kirkjustræti.
Greinargerð
Árið 2020 var gerð úttekt á biðstöðvum hvað varðar aðgengi. Skoðað var yfirborð. Þá voru yfir 500 biðstöðvar metnar ófullnægjandi. Til stóð að lagfæra 12 sem voru allra verst farnar, bæði aðgengi og yfirborð. Við þá tölu hefur nokkrum verið bætt á þeim tveimur árum sem liðin eru. Í úttektinni kom fram að aðeins á 11 biðstöðvum af 556 var aðgengi viðundandi. Flokkur fólksins lagði fram tillögu 2019 um endurbætur á öllum biðstöðvum strætó sem voru þá víða í lamasessi. Tillagan kom til afgreiðslu þremur árum síðar og var þá felld. Aðgengi og lélegt yfirborð stétta við strætóbiðstöðvar hefur auðvitað komið verst niður á fötluðu fólki og fólki með skerta sjón og hreyfigetu. Staðfest var í umsögn með málinu að endurbætur eru á bið vegna væntanlegrar borgarlínu sem búið er að upplýsa um að tefjist um 3-5 ár. Nú hefur borgarlínuverkefnið tafist og er því enn ríkari ástæða til að endurbæta biðstöðvar. Flokkur fólksins telur að endurmeta verði áætlun um endurbætur biðstöðva í ljósi fyrirsjáanlegrar seinkunar á öðrum samgönguvalmöguleika
F-20 Tillaga um breytingar á skipulagi þjónustu- og nýsköpunarsviðs
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að gera svohljóðandi breytingar á skipulagi þjónustu- og nýsköpunarsviðs Reykjavíkurborgar: Nafni sviðsins verði breytt í upplýsingatæknisvið Reykjavíkurborgar sem skiptist í eftirfarandi starfseiningar: Skrifstofa sviðsstjóra: Ber ábyrgð á fjármálum, áætlanagerð, mannauðs- og persónuverndarmálum og því að markmiðum sviðsins sé náð. Verkefnastýring og þróun: Umsjón með stafrænni umbreytingu, ráðgjöf og eftirfylgni. Skrifstofa upplýsingaþjónustu: Þjónustuver Reykjavíkurborgar ásamt einni rafrænni þjónustumiðstöð sem heldur utan um rafrænar umsóknir fyrir öll svið og skrifstofur borgarinnar. Rafræn þjónustumiðstöð hefur umsjón með öllum vefjum Reykjavíkurborgar. Skrifstofa gagnaþjónustu: Ber ábyrgð á allri gagnavinnslu og gagnamiðlun Reykjavíkurborgar. Tækniþjónusta: Tækniborð, tækjaumsjón og kerfisrekstur. Umsjón með rekstri stjórnsýsluhúsa.
Greinargerð
Í þessum málaflokki er þörf á markvissum aðgerðum og að verkefnum sé fylgt vel eftir samkvæmt nútíma kröfum um árangursstjórnun. Í stað þess að Reykjavíkurborg haldi áfram með viðamiklar uppgötvanir og þróun lausna, verður leitað til fyrirtækja á einkamarkaði sem bestu reynsluna hafa á sviði hugbúnaðarþróunar. Það er löngu þekkt að miðstýrðar nýsköpunaráætlanir í opinbera geiranum hafa að stærstum hluta mistekist eða tekið langan tíma í framkvæmd með tilheyrandi kostnaði. Fyrirtæki á einkamarkaði ásamt sprotafyrirtækjum hafa tekið langt fram úr hinu opinbera á þessu sviði. Einföldun allra þjónustuferla borgarinnar gagnvart borgarbúum er eins og flestir vita, nauðsynleg. En það er ekki það eina sem þarf að einfalda, flókið innra skipulag í formi útbólginnar stjórnsýslu er fyrirbæri sem einnig þarf að takast á við. Í þessum breytingatillögum mun felast aukin skilvirkni og marksækni og einnig sparnaður vegna samlegðaráhrifa þar sem Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög ásamt ríkinu, leggjast á eitt við að veita almenningi sambærilega rafræna þjónustu. Sparnaður felst í því að fækka skrifstofum og millistjórnendum sviðsins með því að sameina skrifstofur sem hafa með samþætta starfsemi að gera. Reykjavík átti strax í byrjun að hoppa á vagninn með öðrum opinberum aðilum sem voru á sömu vegferð og taka þátt í uppbyggingu sameiginlegs þekkingarbrunns sveitarfélaga og ríkisins varðandi stafræna umbreytingu. Með sameiningu skrifstofa sem hafa með ýmiskonar upplýsingamiðlun til íbúa að gera verður öll upplýsingamiðlun Reykjavíkurborgar einfölduð og efld undir einni skrifstofu gagnaþjónustu. Rafræn þjónusta Reykjavíkurborgar er í grunninn ekkert öðruvísi en sú rafræna þjónusta sem aðrir opinberir aðilar eru að veita og nýtist íbúum best ef um ákveðið samræmi er að ræða. Það á ekki að skipta máli hvert fólk flytur, viðmót þeirrar rafrænu þjónustu sem í boði er á að vera eins. Þegar upp er staðið er það þjónustan við notendur hvar sem þeir búa á hverjum tíma sem öllu máli skiptir.
Viðbót í ræðu
Það er svo margt sem ekki fylgja neinar frekari skýringar á. Milljónir streyma út í loftið og engin veit í hvað. Hvað er t.d. þetta með Microsoft leyfi – kosta 27 milljónum meira milli ára – hefur ÞON samið af sér eða eitthvað? Var ekki kannað nógu vel með þessi kaup? Hvernig á að greiða atkvæði með einhverju svona þegar maður veit ekki neitt hvað skeði þarna? Almennt hafa áhyggjur verið af hvernig haldið hefur verið utan um stafrænu málin þegar kemur að fjármagni.
Áhyggjur eru ekki aðeins Flokks fólksins heldur fleiri sem hafa nánast gapað yfir aðförunum. Meira að segja hefur, með leyfi forseta einn af ráðherrum ríkisstjórnarinnar lýst yfir áhyggjum sínum á opinberum vettvangi af því að hið opinbera sé að hanna heimagerðar lausnir í beinni samkeppni við nýsköpunarfyrirtæki og einkaaðila sem eru að gera hlut á heimsmælikvarða en sem við erum ekki að nýta.
F-21 Tillaga um aukið samstarf við Ísland.is
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að þjónustu- og nýsköpunarsvið óski eftir samstarfi við stafrænt Ísland um allar þær kjarnavörur sem standa til boða hjá Ísland.is og henta Reykjavíkurborg. Þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur einungis innleitt þrjár kjarnavörur Ísland.is sem eru stafrænt pósthólf, innskráning fyrir alla og straumurinn. Fleiri lausnir standa til boða og hafa önnur fyrirtæki og sveitarfélög gengið í hlutfallslega mun meira samstarf við Stafrænt Ísland en borgin. Hagræðing og ávinningur yrði af þessari samvinnu og því skynsamlegt að þjónustu- og nýsköpunarsvið innleiði eins margar vörur frá Ísland.is og kostur er.
Greinargerð
Loks er það nú viðurkennt af þjónustu- og nýsköpunarsviði eins og sjá má í gögnum að hagræði er í því að innleiða lausnir ríkisins. Um er að ræða verulega hagræðingu í bæði hýsingar- og rekstrarkostnaði. Hefði þjónustu- og nýsköpunarsviði borið gæfa til að gera sér grein fyrir því strax í upphafi, væri staða borgarsjóðs þó nokkuð betri. Samstarf við Stafrænt Ísland á að vera eins mikið og kostur er. Fulltrúi Flokks fólksins veit til þess að þó nokkur sveitarfélög eru að skoða fleiri kjarnavörur en þær sem Reykjavíkurborg notar. Hér má nefna vefi stofnana sem eru undirvefir Ísland.is og eru sérsniðnir að þörfum notenda og hafa það markmið að notendur komist beint að efninu. Reykjavík myndi njóta kosta og hagræðis sem felst í sameiginlegum lausnum eins og hönnunarkerfi, efnisstefnu og rekstrarumhverfi Stafræns Íslands. Einnig má nefna umsóknarkerfið hjá Ísland.is sem opnar leiðir í allar áttir fyrir almenning.
F-22 Tillaga um hækkun grunnfjárhæða fjárhagsaðstoðar
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að grunnfjárhæðir fjárhagsaðstoðar til framfærslu hækki sem hér segir: Grunnfjárhæð fyrir einstakling sem rekur eigið heimili hækki úr 228.689 kr. á mánuði í 257.046 kr. Grunnfjárhæð til hjóna/sambúðarfólks hækki úr 365.902 kr. í 411.273 kr. á mánuði. Grunnfjárhæð til einstaklings sem býr með öðrum, leigir húsnæði án þinglýsts leigusamnings eða hefur ekki aðgang að húsnæði hækki úr 192.682 kr. í 216.574 kr. á mánuði. Grunnfjárhæð til þeirra sem búa í foreldrahúsum hækki úr 114.345 kr. í 128.524 kr. á mánuði. Fjárhæð vegna barna í 16. gr. a hækkar úr 18.355 kr. í 20.631 kr. á mánuði. Breyting þessi taki gildi frá og með 1. janúar 2024. Áætlað er að aukinn kostnaður við breytinguna nemi um 227 m.kr. á ári. Útgjaldaauki verið fjármangaður af liðnum ófyrirséð.
Greinargerð
Fulltrúi Flokks fólksins telur að við ákvörðun um árlega uppfærslu fjárhagsaðstoðar verði að hafa í huga að þeir sem þurfa á fjárhagsaðstoð að halda lifa við sárafátækt. Nú liggur fyrir að matarkarfan hefur hækkað um 12,4% á einu ári. Í ljósi þess hve drjúgur hluti tekna fólks á fjárhagsaðstoð fer í að eiga til hnífs og skeiðar telur fulltrúi Flokks fólksins rétt að miða uppfærsluna við prósentuhækkun matarkörfunnar. Sú prósenta sem meirihluti borgarstjórnarinnar vill miða við, 4,9%, er skammarleg þegar við horfum fram á áframhaldandi verðbólgu og 9,25% stýrivexti. Rétt er að taka fram að miðað við kostnaðarforsendur þær sem komu fram í tillögu meirihlutans mun tillaga Flokks fólksins einungis kosta 137 m.kr. umfram tillögu meirihlutans. Ef meirihlutanum þykir þetta bruðl þá getur fulltrúi Flokks fólksins bent á ýmis útgjöld sem mætti skera niður til að eiga fyrir þessari leiðréttingu.
F-23 Tillaga um Vin dagsetur
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að halda áfram rekstri Vinjar dagseturs í óbreyttri mynd en samkvæmt þjónustusamningi er áætlaður kostnaður við rekstur Vinjar kr. 46 m.kr. á ári. Útgjaldaauki verið fjármagnaður af liðnum ófyrirséð.
Greinargerð
Vin er einstakur staður og hefur í gegnum tíðina skapað sér sérstöðu vegna þeirra vellíðunar sem notendur Vinjar upplifa þegar þeir dvelja í Vin. Hópurinn hefur myndað djúpstæð tengsl og óttast að ef af lokun verði muni hópurinn tvístrast. Velferðaryfirvöld vilja að þjónustumiðstöð Miðborgar, Vesturbæjar og Hlíða yfirtaki rekstur Vinjar á Hverfisgötu. Þessu hafna gestir Vinjar. Samkvæmt þjónustusamningi er áætlaður kostnaður við rekstur Vinjar kr. 46 m.kr. á ári. Ef velferðarsvið tekur reksturinn yfir rúmast kostnaður innan fjárheimilda. Þarna gleyma velferðaryfirvöld að ef Vin hættir starfsemi mun vanlíðan aukast með tilheyrandi kostnaði fyrir heilbrigðiskerfið sem yrði dýrara þegar upp er staðið. Sjálfsagt er að skoða að flytja dagsetrið í annað húsnæði og er æskilegt að það sé á einni hæð. Hafa þarf þétt samráð og samtal við starfsfólk og gesti Vinjar við flutning Vinjar í nýtt og betra húsnæði, þegar og ef til kemur