Umhverfis- og skipulagsráð 15. maí 2024

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Fram fer kynning á fyrirhuguðum framkvæmdum á umferðarljósum árið 2024 og endurnýjunarþörf næstu ára:

Endurnýja þarf umferðarljós á fjölmörgum stöðum í Reykjavík. Umferðarljós skipta sköpum þegar horft er til þess að liðka fyrir umferð gangandi og akandi. Lengi hefur verið kvartað yfir ljósastýringu í borginni sem á köflum er stórundarleg og ekki er vitað hvort það sé hugsanlega vegna bilunar. Flokkur fólksins hefur oft tekið dæmi um gönguljós sem loga allt of lengi, hinn gangandi vegfarandi löngu kominn yfir og horfinn sjónum þegar enn logar á rauðu ljósi og bílaröðin lengist með hverri sekúndu. Aðeins örfáir bílar ná að taka af stað áður en næsti gangandi vegfarandi ýtir á hnappinn og aftur kemur rautt ljós sem logar óþarflega lengi og áfram lengist bílaröðin. Það hljóta allir að sjá að í þessu er ekkert vit. Nú þegar endurnýja á umferðarljós, uppfæra einhver og setja LED þarf að skoða þetta vandamál. Því miður er vinnunni dreift á nokkur ár allt til 2030 og er ekki endilega séð að verkefnum sé forgangsraðað með það að leiðarljósi að minnka umferðarteppur.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Fram fer kynning á tölum um fjölda hjólandi vegfarenda í borginni:

Hjólandi fólki fer fjölgandi, hægt og bítandi og ber að fagna því. Í könnun 2022 mældust þeir sem hjóla vera 5% en eru nú um 6%. Reyndar fer bílum einnig fjölgandi og einkabíllinn er langvinsælasti ferðamátinn í borginni. En því fleiri valmöguleikar sem bjóðast fólki til að koma sér milli staða því betra. Nú hefur hægst á sölu rafbíla vegna aukinna álagninga á rafbíla. Það er bagalegt og má segja að með því dragi úr þeim hraða sem vonast var eftir að orkuskiptin væru á. Fjölgun bíla kemur ekki á óvart í ljósi þess að ekki er um annan alvöru valkost að ræða þegar kemur að almenningssamgöngum. Strætó bs. hefur dregið saman þjónustu sína vegna fjárhagserfiðleika og aðeins 5% notar strætó sem eru einu almenningssamgöngur borgarinnar (í könnun 2022). Ekkert er að frétta af borgarlínu, hvenær fyrstu vagnar fara af stað. Í huga margra er borgarlína ekki raunhæfur kostur. Það hlýtur þess vegna að þurfa að gera eitthvað róttækt til að hressa upp á einu almenningssamgöngurnar sem til eru hér. Eigendur Strætó bs munu þurfa að leggja til há fjárframlög ef Strætó á að geta verið starfrækt áfram.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Lögð fram umsókn Bjargs Íbúðafélags, dags. 17. janúar 2023 ásamt bréfi, dags. 16. janúar 2023, um breytingu á deiliskipulagi Hlíðarenda vegna reits I við Haukahlíð, lóð nr. 6 við Haukahlíð:

Þetta mál gengur út á breyting á breyting á deiliskipulagi – Haukahlíð 6. Lögð fram umsókn Bjargs Íbúðafélags sem felst í fjölgun íbúða úr 70 íbúðum í 85 leiguíbúðir ásamt mörgu fleiru þessu tengt. Fram kemur í gögnum að “hafa ber þó í huga að þrátt fyrir að viðmið um fjölda bílastæða séu uppfyllt þá verða 31 íbúðir án bílastæða og því er mikilvægt að huga að því að gera aðgengi að vistvænum samgöngum eins hátt undir höfði og mögulegt er til að auðvelda íbúum að lifa bíllausum lífsstíl.” Hér staldrar fulltrúi Flokks fólksins við því við vitum öll að við búum ekki yfir þeim lúxus að hafa nógu góðar almenningssamgöngur. Það er ekki hægt að ætlast til að allir fari um á hjóli. Það eru ekki aðstæður til staðar til að hægt sé að ætlast til að allir lifi bíllausum lífsstíl. Stungið er upp á ýmsu s.s. að samnýta bílastæði eða veita aðstöðu til hjólaviðgerða nú eða tryggja íbúum aðgengi að deilibíl. Þetta er eins gott og það nær. Staðreyndir tala máli sínu. Bílum fer fjölgandi og að er ekki að ástæðulausu. Fulltrúa flokks fólksins finnst sem verið sé að þvinga borgarbúa allt of mikið til að leggja bílnum.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um bætta lýsingu í Elliðaárdal:

Flokkur fólksins lagði til eftir að hafa fengið ábendingu að engin lýsing sé við göngustíga í Elliðaárdal í norður frá Fella- og Hólakirkju sett verði upp hið snarasta lágmarkslýsing. Fólk sem þarna gengur eftir að myrkva tekur sér ekki handa sinna skil. Í svari kemur fram að seinkun á afhendingu lampa varð til þess að lýsingu var ábótavant á stígnum sem vísað er til hér að ofan. Nú hafa lamparnir verið afhentir og settir upp og lýsingin ætti þar með að vera nægjanleg á stígnum. Þessu ber að fagna og minnt er á að huga þarf e.t.v. að öðrum tilfellum þar sem koma þyrfti upp lágmarkslýsingu. Góð lýsing skiptir máli fyrir margar sakir. Góð lýsing er öryggisatriði og mun auðvitað stuðla að enn meiri nýtingu svæðisins.

 

Ný mál

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu um að frekari merkingar um hámarkshraða verði settar upp á Laugarásvegi:

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að frekari hraðahindrun og merkingar um hámarkshraða verði settar upp á Laugarásvegi. Eftir þessari götu aka sumir á ofsahraða og allt um kring búa barnafjölskyldur.

Greinargerð:

Flokkur fólksins hefur margsinnis spurt hvort ekki eigi að setja upp fleiri öryggisventla á götum sem þessum. Einstaka götur eru þannig að þær freista sumra ökumanna til að gefa allt í botn sama hver hámarkshraði er á þeim. Þessar götur þurfa auka merkingar af sem flestu tagi og þéttar hraðahindranir.

Frestað USK24050184

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu um að bílastæðum verði fjölgað við Dalslaug í Úlfarsárdal:

Flokkur fólksins leggur til að bílastæðum verði fjölgað við Dalslaug í Úlfarsárdal og íþróttasvæðið þar í kring. Við laugina eru allt of fá stæði sem skapar öngþveiti.

 Greinargerð

Örfá bílastæði eru við Dalslaug og  kvarta íbúar mikið yfir því. Sundlaugaverðir segjast fá kvartanir á hverjum degi vegna þessa bílastæðaskorts. Nokkur fjöldi  bílastæða er við íþróttamiðstöð Fram í Úlfarsárdal. Þau eru hins vegar mjög oft þéttsetin bæði af sundlaugargestum og íþróttaiðkendum.  Þegar haldin eru  fótboltamót eða einstaka fótboltaleikir spilaðir verður algjört öngþveiti á svæðinu. Bílum er lagt upp á umferðareyjar á grasbala og inn í næstu íbúðargötur. Þessi staða veldur íbúum miklu ónæði. Það er greinilega ekki gert ráð fyrir að íbúar úr öðrum hverfum borgarinnar sæki sér þjónustu við íþróttamiðstöðina eða njóti sundlaugarinnar í Úlfarsárdal. Úr þessu þarf að bæta hið snarasta. Foreldrar sem koma með börn sín, stundum mörg og tilheyrandi sundfarangur í laugina þurfa iðulega að ganga langa vegalengd frá bíl að laug vegna þess að þau fáu stæði sem eru i boði eru fullsetin.