Umhverfis- og skipulagsráð 15. nóvember 2023

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Að lokinni kynningu er lögð fram að nýju skipulagslýsing umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa, dags. í maí 2023, vegna gerð nýs deiliskipulags fyrir þróunarsvæði við Suðurfell, Elliðarárdalurinn:

Fjölmargir mótmæla harðlega þessari tillögu þar sem hér sé gengið freklega á græn svæði innan borgarmarkanna. Fjöldi fólks nýtir sér þennan hluta náttúru innan borgarmarkanna m.a. með göngu- og reiðhjólatúrum hvern einasta dag eins og segir í einni athugasemdinni. Og eins og fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað klifað á þá mun Arnarnesvegurinn koma til með að skemma þetta svæði mikið . Ef gripið er niður í fleiri athugasemdir segir: “Borgaryfirvöld hafa þegar stutt gríðarlega umfangsmikla eyðileggingu græns svæðis, eða 11.4 hektara af mikið notuðu útivistar- og náttúrusvæði á Vatnsendahvarfi, sem verður sprengt í loft upp og malbikað yfir til að leggja Arnarnesveg. Svæðið sem hér um ræðir er mikið notað útivistarsvæði og mikilvægur þáttur í heilsubót íbúa hverfisins. Elliðaárdalurinn er gríðarlega mikilvægt, verndað grænt svæði og á að virða sem slíkt. Vinir Vatnsendahvarfs er algjörlega á móti þessum framkvæmdum og er þess krafist að græn svæði borgarinnar hljóti viðeigandi vernd, líka þau sem eru í efri byggðum”. Flokkur fólksins skorar á skipulagsyfirvöld að ljá þessum athugasemdum eyra og fara ekki gegn straumnum í þessu umdeilda máli.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju umsókn Skurnar ehf., dags. 7. desember 2022, um breytingu á deiliskipulagi Saltvíkur á Kjalarnesi.

Fulltrúi Flokks fólksins vill leggja áherslu á bókun Íbúaráðsins sem er afar afgerandi um tillögu að breyttu deiliskipulagi Kjalarnes, Saltvík. Bókunin var lögð fram á fundi íbúaráðs Kjalarnes þann 11. maí 202. Í henni vill Íbúaráðið “koma á framfæri að ítrekað eru gerðar breytingar á deiliskipulagi án þess að aðalskipulag sé uppfært. Þetta þykir miður. Íbúar eru uggandi yfir þróun skipulagsmála á Kjalarnesi og hafi áhyggjur af deiliskipulagsbreytingum sem varða landbúnað og iðnað á svæðinu. Aðrar athugasemdir snúa að því að gerðar séu deiliskipulagsbreytingar án uppfærslu í aðalskipulagi; að áhyggjur af deiliskipulagsbreytingum er varða landbúnað og iðnað á svæðinu og loks að fornleifar séu ekki skráðar. Fulltrúi Flokks fólksins treystir því að unnið verði vel úr þessum athugasemdum í samstarfi við íbúanna.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Lagt er til að umhverfis- og skipulagsráð samþykki eftirfarandi sérákvæði fyrir umferð.  Að tvístefnuakstur verði á Sólvallagötu milli Hofsvallagötu og Hólatorgs. • Að heimilt verði að leggja samsíða við götukant sunnan til í Sólvallagötu:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar þessari niðurstöður. Með þessari tillögu er verið að draga til baka ákvörðun um að Sólvallagata verði einstefnugata milli Hofsvallagötu og Hólatorgs.Hér er dæmi um gott samráð sem þyrfti að vera svo miklu víðar þegar kemur að umhverfis- og skipulagsmálum borgarinnar. Gerð var könnun á hug íbúana um hvort gera ætti Sólvallagötu að einstefnugötu. Í könnun kom fram að íbúar Sólvallagötu voru flestir á því að gatan ætti að vera tvístefnugata áfram. Meðal íbúa Sólvallagötu voru 90% þeirra sem tóku þátt í póst-könnun og 85% þeirra sem tóku þátt í SMS könnuninni, fylgjandi því að hafa Sólvallagötu áfram sem tvístefnugötu.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:. Lagt er til að umhverfis- og skipulagsráð samþykki að veita Bílastæðasjóði, tímabundið vegna ríkjandi neyðarástands, heimild til að víkja frá reglum um íbúakort dags. 19. mars 2021, með það að markmiði að íbúar með lögheimili í Grindavík með tímabundna búsetu innan íbúakortasvæða borgarinnar geti fengið íbúakort án greiðslu:

Þetta er gott og nauðsynlegt mál en ekki alveg ljóst hvernig þetta á að vera í framkvæmd. Íbúakortin eins og þau eru í dag eru frekar ólánslegt kerfi. Einfalda þyrfti reglur um íbúakort og fækka íbúakortsvæðum. Meðal breytinga mætti skoða að leigjendur geti fengið íbúakort án þess að þurfa að ganga til húseiganda og biðja leyfis. Einnig að íbúar í námsmannaíbúðum geti fengið íbúakort. Hætt verði við fjöldatakmarkanir þannig að fleiri en eitt kort geti verið gefið út á hverja íbúð. Eins mætti skoða að hægt verði að fá íbúakort þrátt fyrir að bílastæði sé á lóð umsækjanda. Þetta flókna ferli og hvað íbúum gjaldskylds svæðis er gert erfitt fyrir að eiga bíl er einfaldlega ekki sanngjarnt. Á þetta mun reyna núna þegar við viljum aðstoða Grindvíkinga með að leggja bílum sínum. Fólki er auk þess mismunað eftir því í hvaða póstnúmeri það býr.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fram fer kynning á niðurstöðu vegna úttektar á eignaskráningu rekstrarfjármuna hjá skrifstofu borgarlandsins.

Það er greinilega mikilvægt að halda vel utan um eignaskráningu rekstrarfjármuna hjá skrifstofu borgarlandsins og kannski enn mikilvægara að hafa eftirlit og eftirfylgni í lagi. Fram kemur í skýrslunni að eignaskrá skrifstofu borgarlandsins hafði ekki verið uppfærð í samræmi við breytingar sem gerðar hafa verið. Starfsstöðvar eru á mörgum stöðum í Reykjavík og ekki er haldið utan um eignaskrá á miðlægu svæði sem hlýtur að vera nauðsynlegt að gera.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fram fer kynning á verklagsreglum íbúaráða um samskipti og miðlun milli umhverfis- og skipulagssviðs og íbúaráða Reykjavíkurborgar:

Þessar reglur eru að mörgu leyti skondnar, sérstaklega vegna þess að í þeim er talsverð  forræðishyggja, s.s. fulltrúar í íbúaráðum skulu kynna sér dagskrá sem og öll fundargögn fyrir íbúaráðsfundi; Á fundum skal formaður tryggja að fundarmenn haldi sig við þann dagskrárlið sem til umræðu er hverju sinni og Ráðsmenn skulu sitja saman við fundarborð á meðan fundi stendur. Þetta minnir nokkuð á reglur í leikskólum. Þessar verklagsreglur eiga annars að hafa þann tilgang að tryggja skipulögð og samræmd vinnubrögð og jafnræði í meðferð mála íbúaráða Reykjavíkurborgar. Færri orð eru um starfsmenn ráðanna. Gera má ráð fyrir að reglurnar hafi verið endurskoðaðar eftir leiðinlega uppgötvun sem átti sér stað á fundi íbúaráðs Laugardals þegar ráðsmenn heyrðu tal starfsmanna sem þeim var ekki ætlað að heyra. Á tali starfsmanna mátti heyra að þeir voru að reyna að villa um fyrir íbúaráðinu. Fyrir vikið gátu fundarmenn ekki innt hlutverk sitt af hendi með réttum hætti.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum 13. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar um aðgerðir til að styðja við fjölgun hjólastæða og yfirbyggðra og öruggra hjólaskýla:

Tillaga fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar um aðgerðir til að styðja við fjölgun hjólastæða og yfirbyggðra og öruggra hjólaskýla lögð fram til afgreiðslu. Fulltrúi Flokks fólksins heldur að á þessu sé tekið með ágætum hætti nú þegar í í hjólreiðaáætlun.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um aðstöðu strætisvagnafarþegar í Mjódd sbr. 15. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 19. október 2022.

Aðstaða strætisvagnafarþega í Mjódd hefur verið skelfileg. Nú liggur fyrir að skipta á um rekstraraðila en sá fyrri hefur sagt upp samning sínum og er það gott enda var sá ekki að standa sig í þessu verkefni. Fulltrúi Flokks fólksins telur að finna þurfi ábyrgan rekstraraðila og hafa skilyrði og skilmála alveg skýra þ.e. að gera aðbúnaðinn í biðsalnum ekki aðeins viðunandi heldur fullnægjandi. Það þarf einnig að fylgja í samningum að biðsalurinn verði opinn eins lengi og strætó ekur um götur borgarinnar og gæsla verði aukin.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokks aukinn kraft í gámalosun og umhirðu á grenndarstöðvum í Reykjavík, sbr. 30 lið fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 16. ágúst 2023:

Það er ljóst að mikið gekk á í sumar í þessum málaflokki og ýmislegt fór úrskeiðis, sumt sem ekki var við ráðið eftir því sem kemur fram í svari. Það er miður að heyra að umgengni í kringum grenndarstöðvar hafi versnað á liðnum árum en ætlaður kostnaður Reykjavíkurborgar vegna hreinsunar við grenndarstöðvar á árinu 2021 nam tæpum 52 milljónum króna. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að settar hafa verið upp myndavélakerfi á tveimur grenndarstöðvum til að fylgjast með mögulegum eignaspjöllum. Fulltrúi Flokks fólksins vill nota tækifærið í þessari bókun að minna á tillögu um að skoða með að bjóða út sorphirðu í einu póstnúmeri. Öll sveitarfélög önnur en Reykjavík bjóða út sorphirðu og er ekki að sjá annað en að slíkt hafi reynst vel. Í þessu stóra verkefni er ekki að sjá að kannað hafi verið hvort hagkvæmara sé að bjóða út einstök verk og verkefni eins og flest önnur sveitarfélög hafa gert.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um bílastæði fyrir hreyfihamlaða í Reykjavík, sbr. 32. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs:

Í umsögn við þessari tillögu sem í grunnin snýr að því að skoða heimildir og reglugerðir um hvernig staðið er að bifreiðastæðum hreyfihamlaðra á einkalóðum og hvort borgin hafi heimild til að senda áminningar til húseigenda sem ekki fara eftir gildandi byggingarreglugerð. Í umsögn segir að sé ekki farið eftir þeim ákvæðum hafi byggingarfulltrúi heimildir að krefjast úrbóta að viðlögðum dagsektum en auk þess getur byggingarfulltrúi látið vinna verk á kostnað eiganda beri svo undir. Þetta er vel en fulltrúi Flokks fólksins veltir því upp hvort byggingarfulltrúi nýti þessar heimildir og forvitnilegt væri vissulega að fá yfirlit yfir hversu oft og við hvaða tilefni þær hafa verið nýttar síðastliðin ár. Fulltrúi Flokks fólksins íhugar að leggja fram fyrirspurnir um þetta með formlegum hætti.19. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um biðsal fyrir farþega á Hlemmi, sbr. 17. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 8. mars 2023.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að keyptir verða mælar til að mæla magn í gámum , sbr. 34 lið fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 16. ágúst 2023:

Fram kemur í svari að í nýlegu útboði SORPU á rekstri og leigu grenndargáma í á höfuðborgarsvæðinu sem auglýst var 28. júlí sl. var gerð sú krafa að nýir gámar væru búnir sérstökum skynjurum sem geta mælt og tilkynnt, með skilvirkum hætti, hvenær gámur er fullur og tími til kominn að tæma hann. Fulltrúa Flokks fólksins finnst það ánægjulegt að sjá að tillögunni hefur verið komið í farveg.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um stæði fyrir hreyfihamlaða, sbr. 19. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 1. mars 2023.

Í svari borgarinnar um hversu mörg bílastæði eru fyrir hreyfihamlað fólk í Reykjavík kemur fram að ekki er haldin sérstök skrá yfir bílastæði fyrir hreyfihamlaða. Af þeim sökum er ekki hægt að gefa fullnægjandi svar um fækkun eða fjölgun þeirra síðustu 10 ár. Fulltrúa Flokks fólksins finnst afar mikilvægt að haldin sé skrá yfir bílastæði fyrir hreyfihamlaða. Það er eina leiðin til að átta sig á þróun stæðanna, fækkun, fjölgun í borgarlandinu.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um Bílastæðasjóð og stæðiskort fyrir hreyfihamlaða, sbr. 21. mál fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs dags. 14. september 2022.

Fyrirspurn Flokks fólksins um umrætt minnisblað var lagt fram fyrir einu og hálfu ári. Nú berst loksins svar. Um er að ræða minnisblað borgarlögmanns til borgarstjóra þar sem fram kemur að borgarlögmaður telur að Bílastæðasjóður Reykjavíkur hafi gerst brotlegur við umferðarlög, hafi brotið á réttindum fatlaðs fólks, með því að innheimta gjald hjá handhöfum stæðiskorta fyrir notkun bílastæða í bílastæðahúsum. Óskað var upplýsinga um brot Bílastæðasjóðs og hvað Reykjavíkurborg hyggst gera í því máli. Verður krafist skaðabóta? Þessar fyrirspurnir eru vegna aldurs orðnar úreltar því frá og með 20 mars 2023 hefur ekki verið tekið gjald af handhöfum stæðiskorta hreyfihamlaðra í bílahúsum borgarinnar. Reykjavíkurborg leit svo á að þar sem gjaldtaka í bílastæðahúsum Reykjavíkurborgar byggist ekki á heimildarákvæði 2. mgr. 86. gr. umferðarlaga nr.77/2019, hafi mismunandi reglur átt að gilda um undanþágur handhafa stæðiskorta fyrir hreyfihömluð frá gjaldtöku eftir því hvort bifreið væri lagt í bifreiðastæði við götu (stöðureitur) eða bifreiðastæði í bílastæðahúsi. En til þess að gerast ekki brotleg við lög varð Reykjavíkurborg að lúta í lægra haldið í þessu máli og túlka ákvæði 2. mgr. 87. gr. umferðarlaga nr. 77/2019 á þann veg að undanþága sem ákvæðið mælir fyrir um gildi einnig um bifreiðastæði í bílastæðahúsum.

 

Lögð er fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um byggingarhæfar lóðir, sbr. 34. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 25. október 2023.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, byggingarfulltrúa. USK23100286

 

Lögð er fram fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um frágang við aðreinar inn að Álfabakka, sbr. 33. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 25. október 2023.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds.

 

Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um mótvægisaðgerðir vegna loftlagsvanda, sbr. 23. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 18. október 2023.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

 

Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um vetrarþjónustu, sbr. 22. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 18. október 2023.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu borgarlandsins.

 

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um lýsingu við göngustíga í Ellíðarárdal:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur fengið ábendingar um að engin lýsing sé við göngustíga í Elliðaárdal í norður frá Fella- og Hólakirkju. Fólk sem gengur þar eftir að myrkra tekur og sér ekki handa sinna skil. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að lágmarkslýsingu verði komið upp hið fyrsta. Betri lýsing í Elliðaárdalnum er öryggisatriði á þessu vinsæla svæði og enn fremur mun þetta stuðla að enn meiri nýtingu svæðisins. Af öryggisástæðum ætti að minnsta kosti að vera nægjanleg birta.

Frestað

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um malarhaug við Álfabakka 2:

Við Álfabakka 2 a er malarhaugur. Þar hefur verið hlaðið upp grjóti og möl og virðist sem enginn kannist við hver gaf leyfi. Íbúar hafa lengi reynt að fá upplýsingar um hvað standi til að gera með þennan haug. Spurt er um hvað þarna sé á ferð og hverjar séu framtíðarhugmyndir með þennan haug? Út á hvað gengur núgildandi byggingarleyfi? Af þessum haug er mikil sjónmengun og önnur mengun. Við þurrviðri og þegar blæs vel um svæðið fýkur ryk út um allt og leggst á glugga og húsveggi og jafnvel sækir inn í hús og mörgum með öndunarvandamál líður illa. Íbúum finnst skelfilegt að hafa allt þetta grjót svona nálægt blokkinni.

Frestað

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins vegna slysahættu í tengslum við framkvæmd Arnarnesvegar:

Nú eru hafnar framkvæmdir við Arnarnesveg. Þar hefur þegar skapast slysahætta. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvernig skipulagsyfirvöld hyggjast bregðast við, hvaða mótvægisaðgerðir verða til að tryggja öryggi við framkvæmdasvæðið? Gryfja hefur verið grafin. Auðvelt er að komast inn á svæðið og ekki er búið að girða af fyrir ofan hana. Þarna er hættuleg fallhætta. Þarna er vinsælt gönguferð með hunda en í myrkri mjög varasöm.

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins hvernig innleiðing gangi á nýja leiðaneti Strætó:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um nýja leiðanet Strætó bs. og hvernig innleiðing gangi? Hvernig hefur gengið að leysa brýnustu vandamál á leiðum Strætó. Hvernig hefur gengið með Norðlingaholt en nú ekur strætó ekki inn að skólunum í nýju leiðaneti, hvernig verða þau mál leyst? Fjölmargar kvartanir hafa borist vegna öryggismála í kringum skólann en þau mál eru komin inn á borð hjá borginni eftir því sem frést hefur. Er lausn í sjónmáli? Einnig stendur til að í Norðlingaholti, verði aðeins ein stoppistöð og hætt að aka hring. Að þessu er spurt vegna þess að ef það verður niðurstaðan þá verður ansi langt að fyrir þá sem búa fjærst stoppistöðinni að taka strætó.

Frestað
 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um tengingar milli Árbæjar og Breiðholts: 

Hvernig hefur gengið að fullgera tengingar milli Árbæjar og Breiðholts eftir kl. 9 á morgnana. Leið 51 stoppar í Norðlingaholti og keyrir Breiðholtsbraut í Mjódd en hún er ekki á mikilli tíðni. Krakkar sem eru á ferð eftir 9 missa af tengivagni yfir í Breiðholtið og munar nokkrum mínútum á tímastillingum. Almennt er tenging milli þessara stóru hverfa, Árbæ, Grafarholts og Breiðholts slæm en tenging austur, vestur er betri. Ekki er nægilegt að vera með góða tengingu að miðbænum. Óskað er skýrra svara við ofangreindum spurningum Flokks fólksins.

Frestað

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins vegna ágalla á hönnun Fossvogsbrúar:

Flokks fólksins hefur fengið ábendingu sem snýr að hönnun Fossvogsbrúar sem mikilvægt er að skoða áður en lengra er haldið. Spurt er hvort ekki færi betur á því að göngustígur sé á vesturhluta brúarinnar og hjólastígurinn austan megin á brúnni? Núverandi hönnun gerir ráð fyrir hjólastíg á vesturhluta brúarinnar og göngustíg austan megin. Eins og hönnun Fossvogsbrúar hefur verið kynnt myndi sólin fara að skína á vesturhlið brúarinnar milli kl. 13.00 og 14.00. Þá myndast skuggar frá handriðum inn á brúnna. Göngusvæði austan megin “króast” af og tapast þá útsýnis upplifun þeirra sem ganga yfir brúna. Þannig skerðist ásýnd sólarlagsins í handriðum, brúargólfinu og umferð Borgarlínuvagna sem gleðja myndi augað ef gönguleiðin er vestan megin á brúnni. Í stuttu máli, þá er upplifunin sterkari ef gönguleiðin er vestanmegin brúarinnar og hjólaleiðin austan megin. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort ekki sé vert að skoða gaumgæfilega þessa ábendingu? Mikilvægt er að það verði gert áður en það er um seinan.

Frestað