Umhverfis- og skipulagsráð 24. apríl 2024

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fram fer kynning á framkvæmdum á lagfæringum á miðeyjum og tíguleyjum gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar ásamt bættri lýsingu og hraðalækkandi aðgerðumá þverunum á framhjáhlaupum.

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að verið sé að fara í framkvæmdir til að bæta öryggi og aðgengi fyrir hjólandi og gangandi vegfarendur yfir Miklubraut og Kringlumýrarbraut. Þetta er mjög umferðarþung gatnamót og erfið gatnamót fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Bæta á lýsingu og kanta ásamt nokkrum einföldum lagfæringum og byrja á með framkvæmdir strax í sumar. Það þarf í sumum tilfellum að loka akreinum til að tryggja gönguleiðir á framkvæmdatíma. Vonandi verður framkvæmdatími ekki langur svo ekki myndist enn frekari umferðartafir við þessi gatnamót.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju tillaga samgöngustjóra um hámarkshraðabreytingar.

Flokkur fólksins er fylgjandi því að umferð bíla í íbúðahverfum sé hæg þar sem það á við til að gangandi vegfarendur geti verið öruggir. Lækka á hámarkshraða á götum frá 40 km/klst. í 30 km/klst. Þær götur sem lækka á hámarkshraða enn meira en búið er að gera eða niður í 30 km/klst. eru m.a. Hofsvallagata, Ægissíða og Nesvegur. Þótt ávallt skuli setja öryggið á oddinn má velta því upp hvort gengið sé of langt hér.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins vegna breytinga á sorpgerði í Bólstaðarhlíð.

Fulltrúi Flokks fólksins óskaði eftir skýringum á því af hverju búið sé að fjarlægja pappa og plastgáma úr nýuppsettu sorpgerði í Bólstaðarhlíð. Segir í svari að eftir að nýtt flokkunarkerfi tók til starfa þá sé minni þörf fyrir grenndarstöðvar sem taka við plasti og pappír. Það á að fækka stærri grenndarstöðvum þ.e. þeim sem taka við pappír, plasti, gleri, málmum, textíl og skilagjaldsumbúðum og verða þær eingöngu 30 talsins í allri Reykjavík. Miða á við að fjarlægð þeirra sé ekki meiri en um 1 km frá heimili og jafnframt er bent á að íbúar við Bólstaðarhlíð séu innan þeirra marka. Fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað þurft að keyra milli grenndargáma til að losa sig við plast og pappír því gámarnir eru mjög oft fullir. Það virðist ekki hafa gengið eftir það loforð að tæma plast og pappatunnur með reglulegu millibili þannig að það dugi milli tæminga. Það eru mjög margir borgarbúar sem kvarta yfir því hvað plast og pappatunnur eru tæmdar sjaldan. Á meðan losun þessara sorptunna gengur ekki betur þá telur fulltrúi Flokks fólksins nauðsynlegt að hafa nóg af grenndargámum. Það getur ekki verið mjög umhverfisvænt að íbúar keyri milli grenndarstöðva til að losa sig við rusl.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fram fer kynning á þrifatíðni gatna og stíga í borgarlandi.

Miðlæg hreinsun Reykjavíkurborgar er skipt í vorhreinsun, sumarhreinsun, hausthreinsun og miðborgarhreinsun. Allt samgöngukerfið er sópað og er vorhreinsunin er stærst þessara aðgerða. Fulltrúi Flokks fólksins telur mikilvægt að auka þriftíðni því borgin er mjög skítug. Auka þarf þrif á götum Reykjavíkur. Götur sem eru þaktar fínum sandi og gúmmíögnum eru óholl blanda og valda mengun. Stefna ætti að því að þvo götur með vatni eins oft og unnt er eða þegar veðurfar leyfir. Sú lausn er alla jafna betri en að rykbinda með magnesíum klóríði. Það er jákvætt að heyra að sandnotkun hafi minnkað í borgarlandinu og þar með er líklegt að svifryksmengun hafi minnkað. Hvert sem borgarfulltrúi Flokks fólksins fer er kvartað yfir skítugri borg. Hér þarf að gera miklu betur. Auka þarf tíðni og fara víðar með kústinn. Flokkur fólksins hefur einnig áður talað um hvað veggjakrot er áberandi í miðborginni. Gera þarf átak í að hreinsa veggjakrot af eignum sem borgin á og ber ábyrgð á. Stöðugt berast ábendingar frá íbúum um mikið veggjakrot víðs vegar um borgina. Eins má spyrja hvort það komi ekki til greina að hafa háar sektir við veggjakroti? Kostnaður við að þrífa veggjakrot er verulegur og stundum er illgerlegt að þrífa krotið.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fram fer kynning á stöðu Grænna skrefa hjá Reykjavíkurborg.

Fram fer kynning á stöðu Grænna skrefa hjá Reykjavíkurborg. Græna skrefið er skylduverkefni á öllum vinnustöðum í borginni og er verkefnið í stöðugri þróun. Þetta er mikilvægt verkefni og mikilvægt er að hafa allt starfsfólk með í ráðum svo jákvæðni ríki um verkefnið. Stöðugt er verið að einfalda ferla og þau fjögur skref sem þarf að uppfylla. Fulltrúi Flokks fólksins finnst ánægjulegt að sjá að það hafi fjölgað nokkuð í hópi þeirra stofnana borgarinnar sem hafa lokið öllum fjórum grænu skrefunum.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fram fer kynning á aðaluppdráttum fyrir Skúlagötu 26 í samræmi við ákvæði deiliskipulags.

Radison Sas áætlar að byggja risa hótelbyggingu á lóðinni við Skúlagötu 26. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta hótel alltof hátt og samræmist á engan hátt nánasta umhverfi. Vissulega er þetta glæsileg bygging en hún er allt of fyrirferðarmikil. Þessi bygging verður stórt kennileiti í borginni. Því miður er löngu búið að ákveða að leyfa svona háa byggingu.

 

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

Lagt er til að umhverfis- og skipulagsráð samþykki að láta vinna stefnu um tjarnir Reykjavíkur. Skipa skal starfshóp sem vinnur að stefnumörkun þar sem m.a. verður fjallað um hreinsun og þrif tjarna og hvernig búa megi fuglum öryggi og frið frá köttum t.d. með gerð hólma í tjörnum. Í stefnunni skal einnig koma fram tímasett áætlun um hvernig breytingum frá núverandi ástandi skuli náð fram og hver sé viðunandi staða eftir tilsettan tíma. Einnig skal tímasetja áætlanir og hugmyndir um framtíðarsýn, gildi og markmið sem fylgt er eftir með mælikvörðum og fjármagnstengdum aðgerðum. Greinargerð fylgir tillögu.

Greinargerð

Í Reykjavík eru margar tjarnir, flestar manngerðar.Sumar tjarnir eru til að jafna streymi leysingavatns, eða og hindra að leysingavatn af götum fari beint t.d. út í Elliðaár, (settjarnir) en aðrar til að fegra umhverfið. Í Reykjavík eru fjölmargar tjarnir, flestar litlar og manngerðar. Stærsta tjörnin er Reykjavíkurtjörn. Það er aðallega tvennt sem borgarfulltrúi Flokks fólksins telur að leggja þurfi áherslu á í stefnu sem hér er lagt til að verði gerð er umhirða og þrif í kringum tjarnir annars vegar og gerð hólma í tjörnum til að mynda friðland fyrir fugla hins vegar. Í þeim fjölmörgu litlu tjörnum mætti vel byggja hólma. Í tjörnum í borgarlandinu er rusl og þar er plast mest áberandi. Ef horft er til Reykjavíkurtjarnar er áberandi oft á tíðum hvað þrif er ábótavant. Í Tjörninni er oft heilmikið rusl. Þetta atriði er eitt af því sem þyrfti að vera skýrt kveðið á um í stefnu borgarinnar um tjarnir. Ef hreina á tjörn almennilega þarf að fara útí á þær með háfa og veiða rusl. Einfalt verkfæri eru mislangir og misstórir netháfar. Slíkt tíðkast í flestum ef ekki öllum bæjum í Evrópu. Einhver þarf að vakta þessa hluti með kerfisbundnum hætti. Hafi safnast ruslahrúga þarf að hreinsa hana. Í Reykjavík ganga kettir lausir. Þeir drepa meirihluta fuglsunga sem klekjast út í borginni. En kettir synda ekki og komast ekki út í hólma og hólmar eru því mikilvægir bara þess vegna. Hólmar er næstum það eina sem getur farið fuglalíf frá köttum, gefið þeim öryggi og frið. Það ætti að vera kappsmál okkar allra og stuðla að því að flestir ungar komist á legg.

Mikilvægt er að fram komi í stefnunni áætlun um gerð hólma í tjörnum Fæstar manngerðar tjarnir eru með hólma. T.d eru tiltölulega nýgerðar fjórar settjarnir meðfram Elliðaám en engin með hólma. í Úlfarsárdal eru manngerðar tjarnir og fleiri í bígerð, aðeins ein með hólma. í Fossvogsdal er einn hólmi. Tjörnin í miðbæ Reykjavíkur bæri marga hólma til viðbótar þeim tveimur sem eru manngerðir. Hólmar þurfa ekki allir að vera eins,. þ. e. lágir og grösugir. Ásamt slíkum gætu sumir verið með stórt tré, sem hentar spörfuglum. eða einhverjum mannvirkjum sem hentuðu sem hreiðurstæði. Mismunandi hólmar í sömu tjörn gætu laðað að sér mismunandi fuglategundir. Sérhver tegund helgar sér einhvers konar óðal á varptíma sem er varið gagnvart sömu tegund, en aðrar tegundir oftast látnar í friði. Með mörgum mismunandi hólmum gætu margir fuglar fengið frið til að koma upp ungum.

Flokkur fólksins hefur áður bent á að hólmar ættu að vera í eins mörgum tjörnum og unnt er. Undirtektir meirihlutans við þessum ábendingum hafa ekki verið miklar, raunar engar. Með slíkri stefnumörkun má vinna margt í umhverfisvænum málum. Oft hefur meirihlutinn beitt þeim rökum að hin og þessi framkvæmd, svo sem að gera eitt og eitt blómabeð, eða setja blómapott á bílastæði, eða að beita einhverjum ofanvatnsleiðum sé til að auka ,,líffræðilega fjölbreytileika“ sem sjaldan stenst skoðun. En í þessari tillögu um að nýta og njóta tjarna í borginni má vissulega beita þeim rökum að verið sé að viðhalda líffræðilegum fjölbreytileika í borginni. Í stefnunni mætti einnig setja ákvæði um hvernig aðstæður við tjarnir í borgarlandinu ættu að vera og hvernig hægt er að bjóða upp á áningu svo hægt sé að njóta þeirra. Til dæmis að setja fleiri bekki og jafnvel borð í kring sem gefur fólki kost á að staldra við þær, tylla sér á bekk og jafnvel borða nesti á meðan það nýtur umhverfisins.

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

Fulltrúi flokks fólksins óskar upplýsinga um mikinn fjölda smáhýsa á bílastæði við Vörðuskóla. Eru þessi smáhýsi í eigu borgarinnar ? Er bílastæðið eða fyrrverandi skólalóð notað sem geymslustaður fyrir hýsin? Hvað á að gera við þessi smáhýsi?

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

Fulltrúi flokks fólksins óskar upplýsinga á hver staðan er á framkvæmdum á byggingum færanlegra leikskólaeininga, ævintýraborga. Einnig er óskað upplýsinga um framgang viðgerða og viðhalds á leikskólabyggingum sem eru með myglu og raka. Greinargerð fylgir tillögunni.

Greinargerð

Ástandið í leik- og daggæslumálum borgarinnar er óásættanlegt. Enginn mótmælir því, ekki einu sinni meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur. Fyrst þegar hugmyndin um hinar svokölluðu ævintýraborgir, hreyfanlegir einingarleikskólar, var lögð á borð borgarstjórnar fylltust allir von og trú um að nú væri að nást utan um þennan gamla gróna vanda sem er hvað áþreifanlegastur á haustin. Mikil fjölgun hefur verið á umsóknum og má rekja vandann helst til húsnæðisleysis og manneklu.

Ekki liggur fyrir hver staðan er á þessum framkvæmdum og hvenær hreyfanlegir einingarleikskólar verða komnir í notkun. Einnig er ekki ljóst hvenær viðgerðum verður lokið á þeim leikskólum sem dæmi hafa verið ónothæfir vegna myglu og raka. Vitað er að miklar tafir er á þessum framkvæmdu. Foreldrum hefur ýmist verið lofað leikskólapláss fyrir börn sín í leikskólum sem ekki hafa verið byggðir eða þeir eru á biðlista með börn sín um ókomna tíð vegn myglu og eða mannekluvanda. Vandinn hefur aldrei verið eins átakanlegur og nú. Störf í leikskóla eru ekki eftirsótt, alla vega ekki nógu eftirsótt. Launin eru léleg og álag mikið. Hvað fór úrskeiðis með Brúum bilið verkefnið og með þessar færanlegu einingar?