Það lítur út fyrir að rekstrarafkoma borgarinnar sé betri en í fyrra en hvort um sé að ræða raunverulegan ábata tilkominn vegna skynsamlegrar fjármálastjórnar er spurning. Hafa skal í huga að um sex milljarðar króna eru fluttir frá Orkuveitu Reykjavíkur yfir í A-hluta borgarsjóðs. Í öðru lagi eru hinar umdeildu matsbreytingar eigna hjá Félagsbústöðum sem nema hærri fjárhæð en heildartekjur fyrirtækisins til að ná fram jákvæðri rekstrarniðurstöðu. Svo er það sala Perlunar sem ekki ennþá er frágengin, en skal færð sem rekstrartekjur í A-hluta og á þann hátt er jákvæðum rekstrarafgangi náð. Þessi aðferðafræði gengur á svig við lögbundnar bókhaldsreglur sveitarfélaga. Eignasala er einskiptisaðgerð. Söluandvirði eigna á að ganga til að greiða niður skuldir en ekki til að greiða rekstrargjöld. Á borðinu liggur bréf frá Eftirlitsnefnd sveitarfélaga um að Reykjavíkurborg uppfyllir ekki öll viðmið ráðuneytis sveitarstjórnarmála um fjárhagslega sjálfbærni. Einnig hefur verið seilst í vasa borgarbúa. Fasteignaskattar hafa hækkað vegna hærra fasteignamats en ekki vegna betri rekstrar. Veltufé frá rekstri er 10,6 milljarðar eða 5,5% af heildartekjum. Því er raunverulegt veltufé frá rekstri hjá A-hluta borgarsjóðs samkvæmt útkomuspá 2,3% sem er langt fyrir neðan allar viðmiðanir.
Batahorfur mættu vera miklu betri Ekki þarf mikið til að allt fari á heljarþröm. Það sést t.d. á því að veltufjárhlutfall A-hluta borgarsjóðs fer lækkandi á tímabilinu og er komið niður undir 0,8. Mikil lækkun veltufjárhlutfalls undir 1 eykur líkur á að dráttarvextir hækki. Það mun þó taka langan tíma að koma mikilvægasta atriðinu í fjármálastefnu borgarinnar í ásættanlegt horf, veltufé frá rekstri. Ekki verður undan skorist að ræða stöðu húsnæðismála í Reykjavíkurborg þegar horft er til næstu 5 ára. Skortstefna hefur ríkt í úthlutun lóða um margra ára skeið. Áherslan er á þéttingarstefnu, sem hefur leitt af sér mikla hækkun á húsnæðisverði. Það er dýrt að byggja á þéttingarreitum. Bílastæðum hefur fækkað þannig að víða er ekki nema 0,2 – 0,5 bílastæði á hverja íbúð. Í grundvallaratriðum er Flokkur fólksins ósammála meirihlutanum í útdeilingu fjármagns. Veita þarf meiru í beina þjónustu við fólkið. Ein af tillögum Flokks fólksins er t.d. að fjölgað verði um eitt stöðugildi talmeinafræðings í skóla- og frístundaþjónustu á hverri miðstöð. Áætlaður heildarkostnaður er 64 milljónir á ársgrundvelli sem yrði fjármagnaður af liðnum ófyrirséð. Þessi tillaga er mjög mikilvæg því á biðlista eftir talmeinafræðingum eru núna 493 börn.
Liður 3 Breytingartillögur við síðari umræðu framlagðar í borgarráði 28. nóvember
Breytingatillögur meirihlutans
Í breytingartillögu SBPC-11 er fjallað um fjárfestingu í stafrænni innviðum flutt í rekstur, þessi breytingartillaga er ekki samþykkjanleg. Í fyrsta lagi verður rekstur ÞON á næsta ári umfangsmeiri en gert var ráð fyrir. Því er verið að færa fjármuni frá fyrirhugaðri fjárfestingu í rekstur eða samtals rúmlega 900 milljónir. Í öðru lagi á að hækka rekstrarkostnað vegna fjárfestinga um 181 milljón. Í þriðja lagi er hér óttast að verið sé að reyna að dylja sífellt meira umfang þjónustu- og nýsköpunarsviðs með því að færa hluta af rekstrarkostnaði sviðsins bæði yfir á sameiginlegan kostnað Reykjavíkurborgar (242.768+400.000=642.768 þús. kr. eða nær 650 milljónir) og svo er hluti kostnaðar þjónustu- og nýsköpunarsviðs upp á 275 milljónir króna færður yfir á fagsvið. Samtals er verið að færa tæpan milljarð af rekstrarkostnaði sviðsins yfir á sameiginlegan kostnað og á önnur fagsvið. Í þeim tillögupakka sem Flokkur fólksins leggur fram núna er megin áherslan á að draga saman og spara á þjónustu og nýsköpunarsviði sem er hástökkvari í eyðslu fjármagns úr borgarsjóði síðustu ár. Afurðir hafa ekki verið í neinu samræmi við 20 milljarðana plús sem farið hefur til sviðsins. Enn vantar mikilvægar lausnir s.s. Búa sem er stafræn lausn fyrir skólaskráningar.
Breytingartillögur Flokks fólksins, samantekt
Flokkur fólksins leggur fram við síðari umræðu 21 tillögu og hafði áður lagt fram 5 gjalda – breytingartillögur við fyrri umræðu. Tillögurnar snúa að bættri þjónustu við börn (3 tillögur) við fatlað fólk (3), að aðgengismálum (2), að bættri þjónustu við aldraða (2) að víkja frá skerðingum á sviði skóla og frístunda (2) að draga úr fátækt (2) og 7 tillögur sem snúa að sparnaði, hagræðingu, draga úr sóun og bruðli og að skipulagsbreytingum. Enda þótt allar þessar tillögur séu mikilvægar þá er tillaga um að fjölga talmeinafræðingum hjá Skólaþjónustu ein sú brýnasta. Stýrihópur hefur verið að störfum síðustu vikur og rýnt biðlista barna til sérfræðinga skólaþjónustu og aðdraganda að beiðnum til sérfræðinga sem eru sálfræðingar og talmeinafræðingar. Ein af mörgum niðurstöðum hópsins er að brýn nauðsyn sé að fjölga stöðugildum talmeinafræðinga. Á biðlista eftir talmeinafræðingum skólaþjónustunnar eru núna 493 börn. Biðin felst m.a. í að 83 börn bíða eftir framburðargreiningu, 28 börn bíða eftir talþjálfun, 227 börn bíða eftir málþroskagreiningu og 33 börn bíða eftir ítarlegri málþroskagreiningu. Meginkjarni þessarar tillögu er að talmeinafræðingar séu á vettvangi skólanna eða sem næst vettvangi en einnig að talmeinafræðingar séu tiltækir til að greina vandann, hjálpa til við að rýna vandann og lausnir hans með foreldrum og öðrum sérfræðingum.
Fundargerð skóla og frístundaráðs 24. nóvember 2024
Liður 4
Tillaga Flokks fólksins um að hækka niðurgreiðslu Reykjavíkurborgar hjá einkareknum ungbarnaleikskólum þegar barn nær 18 mánaða aldri. Hér er átt við í þeim tilvikum þegar barn er með virka umsókn en fær ekki pláss hjá dagforeldrum eða á borgareknum leikskóla er vísað frá með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. Hér er um sanngirnismál að ræða og ótrúlegt að þessi tillaga skyldi ekki njóta skilnings. Viðmið Reykjavíkurborgar eru þau að börn ættu að vera komin með boð um leikskólapláss í borginni um 18 mánaða aldur (miðað við 1. september). Núgildandi reglur gera ráð fyrir að niðurgreiðslur nái einungis til barna hjá dagforeldrum, en ekki einkareknum ungbarnaleikskólum. Hér er um mismunun að ræða sem grundvallast á því að ekki er laust pláss hjá dagforeldri né í leikskóla og eina lausa úrræðið er einkarekinn ungbarnaleikskóli