Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að óháðu ráðgjafarfyrirtæki verði falið að gera úttekt á Klapp-greiðslukerfi Strætó bs. og koma með tillögur til úrbóta. Úttektin feli í sér mat á virkni kerfisins frá því það var tekið í notkun.
Klapp var tekið í notkun í nóvember 2021. Það hefur verið til vandræða fyrir margar sakir og haft því heilmikinn fælingarmátt. Heilmikil vandkvæði hafa verið við greiðslu. Hópur vagnstjóra hafa tjáð sig og sagt að kerfið gangi ekki nógu vel. Það segir sitt. Búið er að sníða einhverja agnúa af því. Flokkur fólksins hefur sagt það hafa verið vitlausa ákvörðun að fara í fjárfestingu á þessu kerfi mitt í fjármálaþrengingum strætó. Í ofanálag hefur innleiðingarvandinn verið allt of langur og er ekki enn séð fyrir endann á honum. Það er borgin sem er stærsti eigandinn í þessu byggðasamlagi og því kemur allt þetta verulega við buddu borgarbúa. Erlendir ferðamenn, eldri borgarar og hópur fatlaðs fólks hefur lent í stökustu vandræðum með að nota strætó eftir að Klapp kerfinu var komið á. Stappið með Klappið er raunverulegt vandamál sem ekki er hægt að breiða yfir. Fulltrúi Flokks fólksins hefur fengið fjölda ábendinga vegna Klapp-greiðslukerfisins og vandamála með notkun þess. Það má nefna reynslu notenda sem hafa keypt Klapp-kort og eru til dæmi um notendur sem kaupa fjögur kort sem hvert um sig á að duga í 10 ferðir. Kortin hafa verið keypt í Mjódd og nýtt í heimferð með strætó.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands að vinna gegn öllum frekari áformum um útvistun hjá Strætó bs. Umræður um slíkt hafa átt sér stað á vettvangi félagsins og mikilvægt að þær nái ekki fram að ganga þar sem um mikilvæga grunnþjónustu er að ræða.
Flokkur fólksins hefur óskað eftir upplýsingum um hvort Strætó og Reykjavíkurborg hyggst einkavæða rekstur Strætó en ekki fengið skýr svör. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af áformum um að útvista leiðum Strætó bs. til einkaaðila. Ef horft er til reynslu þá er hætta á lækkun launa og að einkaaðilar hirði þann launamun í sinn vasa. Einnig hefur reynslan sýnt í alltof mörgum tilfellum að þjónustan verði dýrari en ekki betri fyrir vikið. Ef reksturinn verður boðinn út er útilokað að borgin hafi þann kost að hafa frítt í strætó eins og talað hefur verið um að skoða. Vísað er til slæmrar reynslu af útvistun almenningssamgangna í Bretlandi og Svíþjóð. Flokkur fólksins hvetur sveitarfélögin sem eiga Strætó bs.; Reykjavíkurborg, Garðabæ, Hafnarfjarðarkaupstað, Kópavogsbæ, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesbæ að veita nægilegu fé til rekstursins. Það er sannarlega illa komið fyrir þessu fyrirtæki enda hefur röð vondra ákvarðana verið teknar síðustu misseri. Segja má að stjórnendur skorti fyrirhyggju og ekki hefur verið vandað til ákvarðanatöku. Nefna má kaup á vögnum sem allir gætu fyrir löngu verið metanvagnar og bíða hefði átt með Klappið enda sennilega nú þegar úrelt. Snjalllausnir í greiðslufyrirkomulagi eru komnar lengra en Klappið.