Borgarráð 27. júní 2024

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 19. júní 2024, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 19. júní 2024 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Klettasvæðis vegna stækkunar á landfyllingu Sundahafnar:

Breyting á deiliskipulagi – Klettagarðar Landfylling: Sótt er um útvíkkun á deiliskipulagi fyrir landfyllingu við Klettagarða/Laugarnes. Að gera 4 hektara landfyllingu, fjörutíu þúsund fermetra, er út í hött að mati fulltrúa Flokks fólksins. Hér er valtað yfir lífríki við fjörur og í fjörum. Hvernig ætla skipulagsyfirvöld að jafna þetta? Með því að fjölga blómakerjum? Með landfyllingu er náttúruleg fjara eyðilögð. Það eru ekki margar fjörur eftir í borgarlandinu. Það segir sig sjálft að þetta gjörbreytir allri ásýnd á svæði sem áður var náttúruleg fjara. Mynd af landfyllingu við Klettagarða er sérlega óaðlaðandi og þar sést hvernig fara á með fjöru sem er náttúruleg.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 19. júní 2024, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 19. júní á auglýsingu á tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir Veðurstofureit:

Á Veðurstofureit er stefnt að 250 íbúðum, jafnvel meira. Fækka á bílastæðum sérstaklega mikið á þessum reit, meira en í öðrum þéttingarreitum. Notast á við bílastæðahús. Gert er ráð fyrir að þarna búi aðeins þeir sem vilja lifa bíllausum lífsstíl. Fulltrúa Flokks fólksins finnst með þessu að verið sé að útiloka mikilvæga valmöguleika. Mikilvægt er að byggðin verði sem mest blönduð. Fulltrúi Flokks fólksins býst við að ábendingar verði á svipuðum nótum og komu frá íbúum Vogabyggðar, að aðgengi verði erfitt t.d. að komast í og út úr hverfinu. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar vissulega fjölbreytileikanum og öll viljum við vistvæn hverfi með ríkum líffræðilegum fjölbreytileika, græn svæði og rými til að anda.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 25. júní 2024, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki viðauka II við samkomulag vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar og þróunar á Bíldshöfða 7 og Breiðhöfða 3 á Ártúnshöfða:

Óskað er eftir að borgarráð samþykki viðauka við samkomulag vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar og þróunar á Bíldshöfða 7 og Breiðhöfða 3 á Ártúnshöfða í Reykjavík. B.M. Vallá fær tímabundin afnot af borgarlandi á Álfsnesi. Talað er um í gögnum að skotæfingarsvæðið sé víkjandi en það er ekki alveg rétt orðað. Verið er að gera umtalsverðar breytingar á svæðinu til að skotæfingarsvæðið geti einmitt verið þarna áfram og ekki hefur verið fundinn annar staður fyrir íþróttina. Skotæfingarsvæðið gæti þess vegna verið þarna áfram næstu árin, jafnvel um ókominn tíma.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 13. júní 2024, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 10. júní 2024 á tillögu um breytingu á skráningu og gjaldtöku fyrir viðveru barna í leikskólum vegna daga í dymbilviku, í vetrarleyfum grunnskóla og á milli jóla og nýárs:

Lagt er til að leikskólagjöld verði felld niður á dögum t.d. í dymbilviku og virka daga á milli jóla og nýárs og að sæki börn leikskóla þessa daga skuli foreldrar skrá börn sín sérstaklega svo hægt sé að rukka þá fyrir vistunina samkvæmt gjaldskrá. Fulltrúi Flokks fólksins leggur ríka áherslu á að hér sé ekki verið að auka gjaldtöku á þá foreldra sem ekki geta notfært sér þessa niðurfellingu gjalda. Fátækir foreldrar eru oft í þeirri stöðu að þurfa að vinna langan vinnudag og hafa fá tækifæri til að taka leyfi.  Fulltrúa Flokks fólksins finnst auðvitað jákvætt að foreldrar geti fengið leikskólagjöldin felld niður ef börn þeirra eru í fríi þessa daga. Það er líka mikilvægt að foreldrar láti vita með góðum fyrirvara hvort þau þurfi pössun þessa daga til þess að leikskólastjórar geti skipulagt mönnun og hagkvæmni í rekstri. Aðalatriðið er að þessi breyting á greiðslufyrirkomulagi verði vel kynnt fyrir foreldrum áður en hún kemur til framkvæmda. Gott samráð og samtal á milli foreldra og leikskóla er grunnforsenda þess að þetta gangi vel.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf skóla- og frístundaráðs, dags. 24. júní 2024, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 24. júní 2024 á tillögu um að húsnæði Garðaborgar færist undir leikskólann Jörfa að loknum framkvæmdum:

Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta mál hafa gengið hægt og ekki hefur verið hugað að upplýsingagjöf til foreldra og starfsfólks á leikskólanum Garðaborg. Til stendur að færa húsnæði Garðaborgar undir leikskólann Jörfa, og flytja börn á Garðaborg yfir á aðra leikskóla. Foreldrar hafa upplifað mikla óvissu með þetta mál sem er alveg óásættanlegt að mati fulltrúa Flokks fólksins.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 20. júní 2024, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að kaupa umsjónarkerfi fyrir félagsmiðstöðvar:

Fulltrúa Flokks fólksins finnst undarlegt að þjónustu- og nýsköpunarsvið sé að leita eftir sérkerfi til þess að sjá eingöngu um umsjón fyrir félagsmiðstöðvar. Af hverju er verkefnið ekki tengt saman við alla aðra viðburða umsjón og þjónustu Reykjavíkurborgar sem m.a. innihalda eða þurfa að innihalda greiðslumöguleika? Mun betur færi á því ef hægt hefði verið að hugsa þetta í stærra samhengi. Þá hefði verið hægt að taka inn ákveðin samlegðaráhrif og hafa einfaldleika að leiðarljósi um alla viðburðaumsjón borgarinnar í stað þess að enn eitt kerfið sé innleitt fyrir einstaka einingar eins og félagsmiðstöðvar. Ómögulegt er að sjá hversu mörg viðburðaumsjónakerfi eru nú þegar í notkun innan borgarinnar og einnig ef annað eða önnur kerfi eru í notkun. Því skal þó fagnað að stafræn umbreyting sé loksins að mjakast inn í félagsmiðstöðvar borgarinnar. Þess er vænst að þjónustu- og nýsköpunarsviði beri gæfa til að hugsa þessa hluti í stærra samhengi svo ekki þurfi að fara í margar innleiðingar á mörgum umsjónarkerfum og greiðslugáttum vegna hinna og þessara viðburða innan borgarinnar.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 21. júní 2024, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framlínulausn fyrir þjónustuver:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar öllum þeim lausnum sem létta á starfsfólki og flýta fyrir afgreiðslu erinda borgarbúa. Eins og flestum er ljóst vill fulltrúi Flokks fólksins líka að innleiðingar lausna miði ávallt að því að nýta þær lausnir sem innleiddar hafa verið annars staðar með góðum árangri. Af því næst mikil hagræðing og sparnaður. Það er því jákvætt að verið sé að leita í þessu tilfelli að tilbúnum lausnum en ekki að óska eftir fjármunum til uppgötvana og tilrauna langt inn í framtíðina. Bent er á að margar stofnanir aðrar sem og einkamarkaðurinn hafa verið að nota tilbúnar lausnir með spjallmennum og öðrum sambærilegum innbótum þjónustulausna, um árabil. Nægir þar að nefna spjallmennið Vinný hjá Vinnumálastofnun sem hefur verið í notkun með góðum árangri í nokkur ár. Það er von fulltrúans að þessu sinni verði hugsað lengra en gert var á sínum tíma með Genesys-kerfið sem nú er verið að hverfa frá.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 5. júní 2024, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að hefja verkefnið uppfletting þjónustuvers:

Fulltrúi Flokks fólksins telur að þjónustu-  og nýsköpunarsvið hljóti að hafa kynnt sér hvernig þessum málum er háttað hjá öðrum, t.d. öðrum sveitarfélögum og hvort Stafrænt Ísland hafi verið að innleiða eða bjóða upp á eitthvað sambærilegt. Innleiðingar lausna ætti ávallt að miða að því að nýta þær lausnir sem innleiddar hafa verið annars staðar með góðum árangri. Af því næst mikil hagræðing og sparnaður. Markmiðið er að flýta fyrir erindum borgarbúa. Það er því jákvætt að verið sé að leita í þessu tilfelli að tilbúnum lausnum en ekki að óska eftir fjármunum til uppgötvana og tilrauna langt inn í framtíðina. Bent er á að margar stofnanir aðrar sem og einkamarkaðurinn hafa verið að nota tilbúnar lausnir með spjallmennum og öðrum sambærilegum innbótum þjónustulausna. Nægir þar að nefna spjallmennið Vinný hjá Vinnumálastofnun sem hefur verið í notkun með góðum árangri í nokkur ár. Ekki er gott ef Reykjavíkurborg endi sem eins konar stafrænt eyland í þjónustulausnum heldur leitist við að þróa sig áfram í ákveðnu samhengi við sambærilegar stofnanir. Framtíðin í rafrænni þjónustuveitingu hins opinbera liggur í samvinnu en ekki sundrungu í rafrænum lausnum.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 4. júní 2024, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að hefja frumathugun fyrir verkefnið umsjónarkerfi fyrir Apple spjaldtölvur:

Fulltrúi Flokks fólksins bendir á að þjónustu- og nýsköpunarsvið hefði mun frekar átt að nýta sér einhverjar þær innbyggðu lausnir frá Microsoft um meðhöndlun Apple tækja í stað þess að innleiða enn eitt kerfið með tilheyrandi flækjustigi og kostnaði. Er minnt á umræðu í borgarstjórn þann 9. apríl síðastliðinn þar sem fulltrúi Flokks fólksins gagnrýndi kaup sviðsins á Workplace frá Meta á sama tíma og sviðið er að greiða há leyfisgjöld af Microsoft lausnum sem m.a. innihalda öpp sem gera það sama og Workplace sem Facebook er nú að hætta með. Telur fulltrúinn að þjónustu- og nýsköpunarsvið eigi þess vegna ekki að endurtaka sömu mistökin eins og gerð voru með Workplace og halda sig við öpp eins og Intune IOS Device Management for Education frá Microsoft sem eflaust myndi henta þessu verkefni betur með tilliti til samhæfni þeirrar lausnar við núverandi Microsoft kerfi borgarinnar s.s. Office 365 sem og mögulegs sparnaðar vegna leyfisgjalda og annars innleiðingakostnaðar. Þetta er mat fjölmargra sérfræðinga sem fulltrúi Flokks fólksins hefur rætt þessi mál við. Er enn og aftur bent á það hversu frjálslega hefur verið farið með útsvarsfé borgarbúa þegar lausnir sem nú þegar eru til eru ekki nýttar.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 3. júní 2024, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að hefja frumathugunarverkefnið stafrænt vinnuafl:

Fulltrúi Flokks fólksins telur það ánægjulegt að þjónustu- og nýsköpunarsvið skuli loksins vera farið að líta til annarra sveitarfélaga, alla vega að einhverju leyti, sveitarfélaga sem hafa verið að gera góða hluti. Það er ósk fulltrúa Flokks fólksins að sviðið fari alla leið með þetta og nýti sér þá þekkingu og tilbúnar lausnir sem þarna hafa verið í notkun með góðum árangri í stað þess að ætla sér að leggjast í uppgötvanir með tilheyrandi tilraunastarfssemi til þess að þróa lausnir sem fyrir löngu er búið að finna upp.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 30. maí 2024, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu, fyrir hönd skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, að hefja verkefnið rafrænt lóðaumsóknarkerfi:

Ekki er betur séð úr texta með beiðni að þetta kerfi sé nú þegar í rekstri hjá Reykjavíkurborg. Erfitt er samt að átta sig á því hvort hér sé um að ræða kaup á viðbót við það kerfi eða breytingar eða annað. Allavega veit fulltrúi Flokks fólksins til þess að svona kerfi eru nú þegar í notkun annars staðar með góðum árangri.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 4. júní 2024, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að þróa vef Ljósmyndasafns Reykjavíkur:

Fulltrúa Flokks fólksins finnst það mjög merkilegt að vefur Ljósmyndasafnsins og Borgarsögusafns verði ekki færðir undir aðalvef Reykjavíkurborgar í stað þess að halda áfram að vera með þá fyrir utan eins og verið hefur. Í ljósi sí endurtekinna yfirlýsinga þjónustu- og nýsköpunarsviðs um mikilvægi notendamiðaðrar hönnunar, finnst fulltrúanum það skjóta ansi skökku við að í stað þess að færa sem flesta vefi borgarinnar undir einn og sama vefinn til hægðarauka fyrir notendur, sé stefnan að halda úti hinum og þessum sérvefjum safna áfram. Auðveldast hlýtur að vera fyrir borgarbúa og aðra að fara beint inn á reykjavik.is og geta þaðan farið beint inn á hinar og þessar einingar Reykjavíkurborgar, með einum smelli eða svo. Með því er ákveðnum einfaldleika náð til hægðarauka fyrir alla. Bent er á uppbyggingu island.is því til stuðnings.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 5. júní 2024, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að hefja verkefni við að yfirfara og loka vefsvæðinu hitthusid.is og færa efnið og þjónustuframboð yfir á vefsvæði Reykjavíkurborgar:

Fulltrúi Flokks fólksins undrast að finna megi ennþá einstaka vefi innan Reykjavíkurborgar sem hafa ekki verið uppfærðir nú þegar stafræn vegferð hefur verið við lýði í bráðum 6 ár og tekið til sín óhemju fjármagn. Um leið vill fulltrúi Flokks fólksins taka það fram að hér er þó verið að færa þennan úrelta vef undir Reykjavíkurvefinn sem er betra en að honum sé enn haldið einum og sér eins og stefnan er um vefi Borgarsögusafns og Ljósmyndasafns.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð íbúaráðs Breiðholts frá 12. júní 2024. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3., 5. og 6. lið fundargerðarinnar:

Liður 3 viðhaldsáætlun; Fulltrúi Flokks fólksins leggur hér mikla áherslu á að skiptistöðin í Mjódd fái forgang. Ástandið þar er ekki boðlegt og hefur verið ófullnægjandi um árabil. Liður 5 breyting á skipulagi Arnarbakki 2-6; Sjálfsagt er að halda sem mest í græn svæði og mynda sólríka reiti en Flokkur fólksins hefur áður bókað um að aðgengi skuli vera fyrir alla, ekki bara suma. Breytingar á fyrirliggjandi deiliskipulagi Arnarbakki 2-6, 8 og 10, leiða til þess að bílastæðum fækkar um of, byggðin verði of þétt og of mikið sé tekið af grænu svæði. Dæmi eru um að gengið hafi verið svo nærri bílastæðum við leikskóla að foreldrar eiga í mesta basli að skila af sér börnunum. Dæmi um þetta er Sunnuás. Nú er staðan einnig sú að börn eru í vaxandi mæli ekki að fá pláss í leikskóla í sínu heimahverfi vegna plássleysis og manneklu og mygluvanda í leikskólabyggingum. Liður 6 Athugasemdir vegna Völvufellsins; Það er miður að fjarlægja eigi allar námsmannaíbúðir á þessum stað. Ekki náðist samkomulag við félögin sem standa að námsmönnum um byggingu námsmannaíbúða þarna. Námsmannaíbúðir eru hluti af góðri blöndun að mati Flokks fólksins. Með slíkum íbúðum verða auðvitað að fylgja bílastæði.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 19. júní 2024. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar:

Hér er lögð á borð áhugaverð áætlun. Hvergi er þó að finna neinar hugleiðingar um hvað gert er með mengaða loftið í göngunum. Þegar um svona löng göng er að ræða þarf að huga að mengunarvörnum. Mengun er ekki síður atriði hvort sem maður er ofanjarðar eða neðan. Hér virðist vera gert ráð fyrir að mengaða loftið streymi út um gangnaopin/munnanna. Þaðan kemur einnig hreina loftið inn í jarðgöngin. Þarf ekki að stýra loftflæðinu og jafnvel upp um sérstaka strompa, þar sem í framtíðinni væri hægt að hreinsa loftið? Einhvers konar hreinsunarbúnað er klárlega þörf. Það er mörgum spurningum ósvarað í þessari annars metnaðarfullu kynningu. Til dæmis gæti orðið mengunarvandmál við gangnaopin fyrir nærbúandi fólk? Við umferðarmestu göturnar núna, er þegar mikil mengun, og er þó ekkert þak þar yfir. Fulltrúi Flokks fólksins væntir þess að þetta verði betur útskýrt á næsta stigi.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagðar fram fundargerðir öldungaráðs frá 12. og 20. júní 2024. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar frá 20. júní:

Fram fer umræða um breytingar á samþykkt öldungaráðs. Breyta á samsetningu fulltrúa í ráðinu sem leiðir til þess að fækkun er á fulltrúum Félags eldri borgara (FEB) sem er stærsta hagsmunafélag eldra fólks í Reykjavík. Þetta er óásættanlegt. Minnsta mál væri einfaldlega að halda þeim þremur fulltrúum frá FEB en bæta við öðrum enda fer þessi hópur stækkandi. Í svari ráðuneytisins við fyrirspurn um þetta mál kemur fram að lögin skilgreina ekki hvaða fulltrúar skulu eiga sæti í ráðinu, einungis að það skuli vera að lágmarki þrír fulltrúar félaga sem gæta hagsmuna eldra fólks í sveitarfélaginu. Sjálfsagt er að tryggja aðkomu fleiri félagasamtaka sem annast hagsmunagæslu fyrir eldra fólk við borð öldungaráðs. Fulltrúi Flokks fólksins vill að sætum fulltrúa verði fjölgað í takt við vaxandi hlutfall eldra fólks í sveitarfélaginu og að áfram sitji þrír fulltrúar frá FEB í ráðinu.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 15 mál. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 9. lið í yfirlitinu:

Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir með kennurum í Hlíðaskóla í Reykjavík sem lýsa yfir furðu sinni á þeirri ákvörðun að loka bókasöfnum borgarinnar í sumar. Í ljósi þess hve bókasöfn er samfélagslega mikilvæg er réttast að hætta við fyrirhugaða sumarlokun borgarbókasafna Reykjavíkur. Að skerða opnunartíma bókasafna er eins og að hella olíu á eld í baráttunni við að viðhalda íslenskri tungu. Lestur er gríðarlega mikilvægur til að auka og efla málskilning barna. Á sumrin eru skólabókasöfnin lokuð og þá verða börnin að sækja bækur í borgarbókasöfnin. Börn sem ekki lesa sér til yndisauka á sumrin detta oft mikið niður í lestrarfærni og þess vegna eru kennarar sífellt að minna á sumarlestur. Það að loka bókasöfnunum rýrir möguleika barna á að nálgast bækur og sérstaklega á þetta við um börn frá efnalitlum heimilum þar sem foreldrar hafa ekki ráð á að kaupa bækur fyrir börn sín. Þetta er alvarlegt í ljósi neikvæðrar niðurstöðu í PISA. Lestrarfærni og málskilningur barna byggist á því að börn lesi allt árið um kring. Bókasöfnin okkar eru mikilvæg fyrir menningu okkar og tungu og við eigum að standa vörð um þau.

 

Ný mál

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu um kostnað sundkorts eldri borgara:

Lagt er til að borgarráð samþykki að árskort í sund fyrir eldri borgara í Reykjavík kosti 500 krónur í stað 4000 króna í ljósi þess að eldri borgarar eigi jafnvel eftir að þurfa að kaupa slíkt kort í allt að 6 sveitarfélögum.

Greinargerð

Það er mikilvægt að árskortið kosti íslenska eldri borgara sem allra minnst því þeir eiga eftir að kaupa e.t.v. nokkur slík árskort því að á  höfuðborgarsvæðinu eru sex sveitarfélög og ákveði hin sveitarfélögin að fara í sömu vegferð og Reykjavíkurborg hyggst gera þá getur upphæðin safnast upp. Sund er lýðheilsumál og það er nauðsynlegt að eldri borgarar stundi þessa líkamsrækt og þetta er líka samfélagslega hagkvæmt. Auðvitað er það sérstakt að allt í einu núna láti meirihlutinn til skara skríða. Vegir þessa meirihluta eru órannsakanlegir.  Ferðamenn á öllum aldri hafa verið hér tugi  ára og það er ekki búið að rukka þá í öll þessi ár. Félag eldri borgara óttast að nú eigi eldra fólk að kaupa árskort í sex sveitarfélögum til þess að geta stundað sund. Þessar áhyggjur eru sannarlega ekki úr lausu lofti gripnar að mati fulltrúa Flokks fólksins.

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu um samstarfssamning:

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarráð beini því til sviða borgarinnar að gerðir verði samstarfssamningar við Félag eldri borgara og önnur sambærileg hagsmunafélög eldra fólks. Þau svið sem kæmu helst til greina væru menningar- og íþróttasvið, velferðarsvið og skóla – og frístundasvið. Hugmyndin er að Reykjavíkurborg veiti ákveðnu fjárframlagi til félaganna sem ráðstafar því í launagreiðslur fyrir ýmis störf sem félagsmenn tækju að sér.

Greinargerð

Nefna mætti störf við söfn, eða að félag taki að sér að sinna ákveðnum þjónustu- og umönnunar verkefnum t.d. í tengslum við félags- og tómstundastarf nú eða önnur störf sem félagar í Félögum eldri borgarar finna að hæfi sér eða annað það sem kallar á þekkingu og reynslu okkar elstu borgara sem margir hafa lifað tímanna tvenna. Eldra fólk er tilbúið að taka að sér mörg störf í borgarsamfélaginu, störf sem jafnvel fáir geta sinnt betur en eldra fólk sem býr yfir langri lífsins reynslu og sérfræðiþekkingu á mörgum sviðum. Það er til mikils að vinna að laða eldra fólk að í ólík verkefni. Það er hagur allra. Niðurstöður fjölda  kannana hafa leitt það í ljós að vinnuframlag eldra starfsfólks er mikils metið. Þá hafa kannanir einnig leitt í ljós að fólk sem er 50 ára og eldra er mun sjaldnar frá vinnu vegna veikinda en yngra fólk og er mun jákvæðara gagnvart vinnunni (Félagsmálaráðuneytið, 2004).

Frestað

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um stafræn mál:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um hvort ástæða sé til að flýta endurskipulagningu og niðurskurði á þjónustu- og nýsköpunarsviði.

Greinargerð

Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að eftir allt sem á undan er gengið varðandi meint bruðl þjónustu og nýsköpunarsviðs sem m.a. hefur verið bent á í fjölmiðlum, er sviðið enn yfir fjárheimildum í rekstri á fyrstu 3 mánuðum ársins. Telur fulltrúinn að ganga verði enn harðar. Minnir fulltrúi Flokks fólksins á að tillaga um ytri úttekt á sviðinu sem fulltrúi Flokks fólksins lagði fram í borgarstjórn 8. apríl síðastliðinn, hefur enn ekki verið tekin formlega fyrir í borgarráði eins og samþykkt var á áðurnefndum fundi. Það er alvarlegt mál þegar gríðarlegar upphæðir eru ítrekað notaðar í allskyns óskilgreind verkefni eins uppgötvana- og tilraunafasa vegna lausna sem fyrir löngu er búið að finna upp.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um sérkennilegar trúnaðarmerkingar mála ÞON:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum ástæður aukinna trúnaðarmerkinga ýmissa gagna, þ.m.t. fylgigagna með málum sem tekin eru fyrir hjá stafrænu ráði. Nú ber á því að meirihluti gagna sem tengjast málefnum þjónustu- og nýsköpunarsviðs eru oft merkt sem trúnaðargögn.

Greinargerð

Fulltrúi Flokks fólksins gerir sér alveg grein fyrir því að í einstaka tilfellum má til sanns vegar færa slíkar merkingar – sér í lagi þegar um er að ræða málefni sem varða ákveðin innkaupamál eða öryggi. Minnir fulltrúi Flokks fólksins á að í svona ríku mæli hefur þessu ekki verið almennt háttað áður. Eins og flestir vita hefur Flokkur fólksins lengi gagnrýnt þann mikla fjáraustur sem veitt hefur verið í þjónustu og nýsköpunarsvið undanfarin ár – án þess að sést hafi verið fyrir endann á stærri verkefnum sviðsins. Gögn sem tengjast þessum málum eru nú sem dæmi öll trúnaðarmerkt. Hvað skyldi það nú merkja?

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um launamál ÞON:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar svara af hverju launatengd gjöld eru mun hærri hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði en hjá öðrum sviðum borgarinnar. Eins og kemur fram í uppgjöri sem lagt var fram á fundi stafræns ráðs 12. júní sl. sker sviðið sig töluvert úr hvað þetta varðar eins og sést á prósentuhlutföllum launatengdra gjalda eftir sviðum Reykjavíkurborgar sem eru eftirfarandi: 18,8 % hjá SFS, 18,5% hjá VEL, 18,4% hjá MÍR, 18,7% hjá USK, 18% hjá RHS, 18,8% hjá FÁS, 18,7% hjá MSS og 32,2 % hjá ÞON. Spurt er hvort þarna sé einnig verið að bóka kostnað vegna verktaka sem launatengdan kostnað og ef svo er hvort það sé eðlileg bókfærsla. Vert er að taka það fram að hjá rafrænni þjónustumiðstöð eru launatengd gjöld hærri en laun og árið 2022 voru launatengd gjöld 40% af heildarlaunakostnaði sviðsins. Óskað er skýringar á þessu. MSS24060125

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um þriggja mánaða uppgjör:

Á fundi stafræns ráðs þann 12. júní sl. var kynnt þriggja mánaða uppgjör þjónustu- og nýsköpunarsviðs og fylgdi að venju yfirlit yfir ferðakostnað sviðsins á fyrsta ársfjórðungi. Spurt er hversu mikill kostnaður fellur á borgina af þessum 17,4 milljónum og hvað fellur á stéttarfélög? Óskað er eftir yfirliti yfir ferðakostnað þjónustu- og nýsköpunarsviðs frá árinu 2019 þar sem fram kemur hversu mikill kostnaður hefur fallið á borgina, hvað hefur verið greitt af stéttarfélögum og hvort og þá hversu mikið hefur verið greitt í dagpeninga. Jafnframt er óskað eftir uppgjöri ferðakostnaðar fyrir ferðir sviðsins frá og með 2019. Sérstaklega er óskað eftir upplýsingum varðandi ferðakostnað sem greiddur hefur verið vegna ferða sem af er þessu ári sem og kostnaði vegna fyrirhugaðra ferða sem farið verður í á árinu.

Greinargerð

Erfitt er að átta sig á þeim kostnaði sem fellur á borgina vegna þessara ferða þar sem sumar eru sagðar styrktar af stéttarfélögum. Heildarfjárhæð ferða nemur tæplega 17,4 milljónum sem er töluverð fjárhæð fyrir bara einn ársfjórðung og því mikilvægt að fá betri mynd af þeim kostnaði sem borgin hefur borið af þessum ferðum.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um aðgerðir gegn ofbeldi meðal ungmenna:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um hvort fyrirhugaðar eru aðgerðir til að bregðast við auknu ofbeldi meðal barna í Reykjavík með aðgerðum. Nýlega viðurkenndi ríkisstjórnin þennan aukna vanda og hefur ákveðið að bregðast við með ýmsum hætti en hvað ætlar stærsta sveitarfélag landsins að gera í málinu? Sérstaklega er óskað upplýsinga um það hvort aukið verði við þverfaglega nálgun í ofbeldismálum meðal barna, hvort stutt verði við meðferðarúrræði vegna biðlista og hvort ungmennastarf í skólum borgarinnar verði eflt? Einnig er spurt hvort félagsmiðstöðvar borgarinnar verði styrktar og efldar á meðan fræðsla og forvarnir verða aukin í skólum borgarinnar og foreldrastarf virkjað í umhverfi barna og síðast en ekki síst hvort samhæfa á  aðgerðir og móta stefnu til framtíðar?

Greinargerð

Hinn 18. október 2022 lagði Flokkur fólksins fram tillögu um stofnun stýrihóps til að bregðast við auknum vopnaburði meðal unglinga. Þá hafði bylgja ofbeldis  riðið yfir á meðal íslenskra barna og ungmenna í Reykjavík. Hópnum var m.a. ætlað að kortleggja aukinn vopnaburð eggvopna meðal ungmenna í Reykjavík og meta viðbrögð borgarinnar sem lýtur að forvörnum. Þessi tillaga var felld af meirihlutanum. Engar hugmyndir um viðbrögð liggja fyrir hjá meirihlutanum þrátt fyrir aukinn alvarleg ofbeldistilvik meðal ungmenna í Reykjavík.

Merki eru um að ákveðin ofbeldismenning sé að þróast meðal barna hérlendis og teikn eru á lofti um sömu þróun og hefur átt sér stað á mörgum Norðurlöndunum. Þróunin er áhyggjuefni sem þarf að bregðast við.

Tilkynningum til lögreglu og barnaverndar þar sem grunur er um að barn beiti ofbeldi hefur fjölgað verulega. Fjöldi tilkynninga til barnaverndar um að barn beiti ofbeldi meira en tvöfaldaðist á árunum 2016–2023 eða úr 461 tilviki í 1.072. Þá tvöfaldaðist fjöldi grunaðra undir 18 ára í líkamsmeiðingarmálum tilkynntum til lögreglu frá 2016 til 2023 eða úr 95 tilkynningum í 186. Grunaðir í meiriháttar eða stórfelldum líkamsárásum undir 18 ára árið 2023 voru 18% af heildarfjölda og hefur hlutfallið ekki verið hærra frá 2016.

Ekkert okkar hefur farið varhluta af fréttum um aukið ofbeldi meðal ungmenna í Reykjavík sem og víðar og fjölgun stunguárása. Reykjavíkurborg þarf að bregðast við. Fara þarf inn í skólana, íþrótta- og tómstundahreyfinguna í borginni og ná til barnanna og foreldra þeirra.

Setja þarf  vinnu af stað hið fyrsta, alvöru aðgerðir en ekki bara tala og tala. Þegar um börn er að ræða eru gerendur jafnframt þolendur. Snertiflöturinn við börn er í gegnum leik- og grunnskólana og íþrótta- og tómstundahreyfinguna. Kalla þarf eftir félagslegri umræðu og skerpa á ábyrgð foreldra, skólasamfélagsins og íþrótta- og tómstundahreyfinga. Allir aðilar þurfa að taka ábyrgð og koma að fræðslu og forvörnum. Stoppa þarf þessa þróun með öllum ráðum og dáð.

Lögregla hefur ítrekað gefið út  yfirlýsingu þar sem hún lýsir áhyggjum yfir auknum vopnaburði í miðbæ Reykjavíkur. Auknar ofbeldisfullar árásir, oft með vopnum færast í vöxt. Orsakir eru bæði flóknar og margslungnar. Sérfræðingar telja að rekja megi þessa þróun m.a. til fíknivanda og uppeldisvanda en einnig nýrrar ofbeldisbylgju sem rekja má til ofbeldismenningar sem víða tröllríður samfélögum og þar með talið samfélagsmiðlum. Skilaboðin eru misvísandi, annars vegar niðurstöður um aukna vímuefnaneyslu og vopnaburð ungmenna vs. niðurstöður um að íslensk ungmenni komi betur út nú en áður þegar kemur að ofbeldi og vímuefnum. Hver er raunveruleikinn?

Kaup og sala fíkniefna fer að mestu fram á samskiptaforritum netsins. Allt of stór hópur barna er á samfélagsmiðlum sem hafa ekki aldur til þess og eftirlit foreldra með börnum á netmiðlum er afar mismunandi. Því má jafnframt velta upp í hversu miklum mæli vopnasala til barna undir aldri fer einnig fram á netinu. Myndir teknar og myndbönd

Af mörgum ofbeldisbrotum hafa síðan verið teknar ýmist myndir eða myndbönd sem dreift er út á netið með alvarlegum, langvinnum afleiðingum. Gerendur sem taka upp myndbönd og birta á samfélagsmiðlum geta gert ráð fyrir því myndböndin verði aðgengileg á netinu um ókomna tíð. Þetta er þess vegna ekki einungis harmur þolanda heldur geranda líka því myndbandið um að „þú“ hafir níðst á öðrum einstaklingi verður til um aldur og ævi og fylgir í gegnum lífið. Þetta þarf að ræða við börn og minna á að fullorðinslífið er ekki í öðru lífi heldur bíður handan við hornið. T.d. þegar viðkomandi gerandi fer í atvinnuleit, þegar kemur að makavali o.s.frv. er þessi fortíð meitluð í stein.

Reykjavíkurborg þarf að taka stórt skref og leggja línur, hefja umræðuna og markvissa vinnu. Það er gert með því að setja saman hóp sem leggst yfir fjölbreyttar aðgerðir í samvinnu við skólasamfélagið til að ná til barnanna, foreldra og annarra sem tengjast börnum og ungmennum. Sú neikvæða þróun sem hér er lýst kallar enn frekar á að Reykjavíkurborg hraði innleiðingarferli Barnasáttmálans í Reykjavík.

Flokkur fólksins vill að Reykjavíkurborg gangi rösklega til verks, hefji umræðuna og markvissa vinnu til að sporna við þessari þróun. Þessi tillaga er liður í því að fá upp á borð hugmyndir að fjölbreyttum aðgerðum sem hafa það að markmiði að ná til barnanna, foreldra og annarra sem tengjast börnum í starfi þeirra. Þessi neikvæða þróun kallar enn frekar á að Reykjavíkurborg hraði innleiðingarferli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Öll börn sem beita ofbeldi þurfa hjálp og hlúa þarf að foreldrum þeirra með ráðgjöf og stuðningi.

Mál barna og ungmenna sem beita ofbeldi af einbeittum ásetningi er áfall, ekki aðeins fyrir foreldra og fjölskyldu heldur okkur öll. Í svona málum er ekkert einfalt og varast þarf að draga ályktanir eða dæma. Ótal margt kemur vissulega upp í hugann þegar fréttir berast af börnum sem fara út með vopn í hendi til þess eins að skaða, meiða annan einstakling s.s. Hver er áhrifavaldurinn? Hvaða tilfinningar og aðstæður liggja að baki?  Fulltrúa Flokks fólksins finnst það of mikil einföldun að kenna netinu og samfélagsmiðlum um allt þótt þar megi án efa finna sterkan áhrifavald. Allt of stór hópur barna er sannarlega á samfélagsmiðlum sem hafa ekki aldur til þess og eftirlit foreldra með börnum á netmiðlum er mismunandi.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hvað er það sem setur þjónustu- og nýsköpunarsvið á heimsmælikvarða:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um á hvaða þáttum/lausnum stafrænnar vegferðar Reykjavíkurborgar er að skara fram úr og er þá aðallega vísað til þess sem fram kemur í ávarpi sviðsstjóra þjónustu- og nýsköpunarsviðs í ársskýrslu sviðsins. Einnig er óskað eftir upplýsingum á hvaða sviðum stafrænnar þróunar er þjónustu- og nýsköpunarsvið leiðandi á heimsvísu? Að hvaða leyti er stafræn umbreyting menningarbreyting eins og fullyrt er í ársskýrslu og hvernig er slík menningarbreyting framkvæmd og árangur mældur? Hvað þetta þýðir nákvæmlega þarf að skýra ekki síst í ljósi þess að stafræn umbreyting er yfirleitt talin krefjast breytts verklags sem óhjákvæmilega verður í kjölfar þeirra breytinga. MSS24060127