Borgarstjórn 18. júní 2019

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að álykta um að Sorpa hætti brennslu á metani og að það verði þess í stað nýtt sem eldsneyti t.d. með því að fjölga metanvögnum Strætó bs.

Strætó á nú tvo metanvagna. Metan er á söfnunarstað verðlaust og er metan sem ekki selst brennt á báli. Tillagan gengur út á að byggðasamlagið Strætó bs nýti metan sem byggðasamlagið Sorpa framleiðir en nýtir ekki.  Samkvæmt upplýsingum frá Strætó bs var í nýju útboði óskað eftir tilboðum í vetnisvagna. Það er sérkennilegt að ekki er óskað eftir tilboðum í vagna sem nýta metan jafnvel þótt hér sé framleitt metan sem ekki er nýtt. Vetni myndar vissulega ekki mengunarefni í borginni.  Framleiðsla á vetni með rafgreiningu er hins vegar dýr, en það er eina leiðin til að búa það til hér á landi. Þess vegna myndi þurfa að flytja vetnið inn.

Greinargerð

Í ljósi þess að  metan er til og ekki nýtt er eðlilegt að borgarstjórn fari fram á að þessi tvö fyrirtæki hafi samráð um að annað nýti efni sem hitt framleiðir. Hér er verið að tala um hagræðingu og sparnað. Við þessa tilhögun minnkar sú sóun sem felst í því að brenna metani og á móti er dregið úr innflutningi á eldsneyti.

Nokkur orð um metan.
Metangas  myndast við að náttúrulegar bakteríur brjóta niður lífrænt efni. Í Álfsnesi er lífrænt sorp urðað og þar myndast metangas og því gasi er safnað. Metanið er orkuríkt, en einnig slæm gróðurhúsalofttegund eða um 30 sinni áhrifameiri en koltvísýringur. Sé það ekki nýtt er betra að  brenna gasinu en að leyfa því að stíga út í andrúmsloftið því við bruna á metani myndast koltvísýringur og vatnsgufa.

Eins og framan greinir kom fram í svari frá Strætó bs við fyrirspurn borgarfulltrúa um málið að fyrirtækið hefur óskað eftir tilboðum í vetnisbíla en ekki metanbíla þótt  nóg sé til af metani. Það er vægast sagt sérkennilegt.

Skynsamlegt væri að Strætó bs. eignaðist  fleiri metanvagna og nýtti gasið frá Sorpu. Þar sem Reykjavíkurborg á meirihlutann í báðum þessum byggðasamlögum, Strætó bs og Sorpu ætti borgin að geta haft einhverja skoðun á því hvernig þeim er stjórnað þegar kemur að hagræðingu og sparnaði.

Almennt séð þá er vont til þess að vita að Sorpa skuli ekki geta selt allt það metangas sem hún framleiðir og í þess stað þurfi að brenna því engum til gagns. Það er óskiljanlegt af hverju annað fyrirtækið geti ekki nýtt sér það sem hitt framleiðir, fyrirtæki sem  bæði eru að stórum hluta í eigu borgarinnar.

Rökrétt er að reyna að nýta metangasið á stóra bíla, þar sem illa hefur gengið að koma því á almenna bílaflotann. Að nota gasið á strætisvagnana er því sjálfsagt mál. Það er sóun að brenna gasinu til einskis nema í þeim tilgangi að minnka gróðurhúsaáhrifin að sjálfsögðu.  Metangassöfnun í Álfsnesi árið 2014 samsvaraði 2,2 milljónum bensínlítra og hefur varla minnkað síðan. Þarna er nægt gas til að nýta á fjölmarga strætisvagna sé vilji til.

Bókun Flokks fólksins:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill binda vonir við að tillaga Flokks fólksins um að nýta metangas sem Sorpa framleiðir á metanvagna Strætó bs fái upplýsta umræðu í stjórn Strætó bs. Borgarfulltrúa brá talsvert við að frétta að Strætó hafi gert tilboð í vetnibíl og vonar að það tilboð sé runnið út í sandinn enda ekki mjög skynsamleg ráðstöfun. Eftir tilraun með vetnistrætó upp úr árinu 2000 ætlar borgarfulltrúi að vona að stjórnvöld láti ekki plata sig aftur enda er það þannig að framleiðsla á vetni með rafgreiningu er dýr en það er eina leiðin til að búa það til hér á landi. Þess vegna myndi þurfa að flytja vetnið inn. Það er sárt að sjá  hvernig  metan er á söfnunarstað verðlaust og brennt á báli þegar hægt væri að nýta það sem orkugjafa á strætisvagna.   Nefnt hefur verið að metanvagnar séu „hávaðasamir“. Borgarfulltrúi hefur ekki heyrt að það sé vandamál en  svo fremi sem ekki sé um að ræða þess meiri hljóðmengun hlýtur sparnaðar- og hagræðingarsjónarmið að ráða hér.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu siðareglna

Borgarfulltrúi Flokks fólksins er ekki mótfallinn þessum reglum enda listi af almennum kurteisisreglum sem innbyggðar ættu að vera í hverja manneskju. Í umhverfi sem ríkir hér í borgarstjórn hef ég hins vegar ekki trú á að reglur sem þessar verði teknar alvara. Alla vega ekki á meðan stjórnunarstíll meirihlutans er litaður af slíkri valdbeitingu sem ég hef áður lýst í bókunum.  Það „verkferli“ sem meirihlutinn samþykkti einhliða til að starfsmenn eigi greiða leið að kvarta yfir borgarfulltrúum ber ekki mikinn vott um vilja til góðra samskiptahátta eða samvinnu. Hvað þá sá óhróður sem borgarritari dreifði á sameiginlegu vefsvæði með stuðningi borgarstjóra, um fulltrúa minnihlutans og sagði þá vera „eins og tudda“ með þeim orðum „þeir sem bregðast við orðum hans eru þeir seku“. Einn fulltrúi meirihlutans kynnti undir á sama vefsvæði með því að nafngreina „hrekkjusvínin“ eins og fulltrúinn orðaði það. Varla samræmist þetta nokkrum siðareglum? Borgarmeirihlutinn núverandi sem að hluta til hefur setið í mörg ár hefur heldur ekki sýnt gott fordæmi þegar kemur að reglum um gott siðferði. Í gögnum um t.d. úttekt braggans er staðfest að valdhafar hafi farið á svig við siðareglur t.d. þær sem kveða á um að  forðast að aðhafast nokkuð sem falið getur í sér misnotkun á almannafé.

Bókun Flokks fólksins um reglur skráningu fjárhagslegra hagsmuna borgarfulltrúa
Undir þessum lið, endurskoðun reglna um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum borgarfulltrúa átti sér stað afar óviðeigandi hlutur þegar forseti borgarstjórnar réðist skyndilega á annan fulltrúa og heimtaði að vita um eignir hans og samhliða dylgja um viðkomandi fulltrúa. Í liðnum á undan var verið að samþykkja siðareglur sem sami fulltrúi meirihlutans hafði rétt svo lesið upp af stolti. Ekki mikið um alvöru þar! Borgarfulltrúi Flokks Fólksins sat hjá undir liðnum um siðareglur enda vissi að valdhöfum er ekki alvara með hvorki þessum né öðrum siðareglum. En að efni liðsins:Afar mikilvægt er að kjörnir fulltrúar skrái fjárhagslega hagsmuni sína. Óskað hefur verið eftir að Persónuvernd veitti Reykjavíkurborg samráð í samræmi við ákvæði 30. gr. laga og er málið eðlilega ekki tækt fyrr en sá úrskurður liggur fyrir.  Það er gott að meirihlutinn í borginni hefur séð af sér að ætla að samþykkja þessar reglur hér í borgarstjórn með fyrirvara um úrskurð Persónuverndar eins og til stóð. Nú á að vísa því í borgarráð sem er afar sérkennilegt því málið var á dagskrá forsætisnefndar sl föstudag. Ekki er alveg ljóst hvaða snúninga verið er að taka hér með því að vísa málinu til borgarráðs og situr því borgarfulltrúi Flokks fólksins hjá við atkvæðagreiðslu.


Bókun Flokks fólksin við tillögu Sjálfstæðismanna um markvissa gróðursetningu til að minnka vindálag í Reykjavík

Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur ekkert á móti rannsóknum á veðurfari og vera kann að meiri upplýsingar um nærveður muni koma að gagni. Borgarfulltrúi vill þó benda á eftirfarandi atriði. Skógur og skjólbelti draga úr vindhraða. Há skjólbelti hafa veruleg áhrif á vindhraða og þar með vindkælingu og álagi á fasta hluti. Byggingar breyta vindlagi, í misjafnar áttir og þau áhrif  tengjast hæð og byggingarlagi húsanna. Erfitt kann að vera að meta slík áhrif með veðurstöð. Til að spá fyrir um slík áhrif eru líkanprófanir í vindgöngum betri aðferð. Líkanprófanir eru t.d. vel þekktar áður en hafnir eru gerðar til að mæla áhrif einstakra byggingarhátta svo sem brimvarnargarða. Veðurmælingar  á nærveðri verða af ofangreindum ástæðum úreltar um leið og umhverfinu hefur verið breytt og gildir þá einu hvort mælingarnar hafi kostað 10 eða 100 milljónir. Varla verður í framtíðinni unnið með úreltar upplýsingar og leggur borgarfulltrúi Flokks fólksins til að reynt verið að halda kostnaði við upplýsingar um nærveður innan skynsamlegra marka.

Bókun Flokks fólksins við umræðu um Reykjavíkurflugvöll

Borgarfulltrúi getur tekið undir margt í umræðunni um mikilvægi flugvallarins í Vatnsmýri. Flugvöllurinn er í það minnsta ekki að fara neitt næstu árin enda enginn staður fundinn sem hentar. Helstu mótrök sem hér eru lögð fram er að það bráðvanti land fyrir húsnæði. Hægt er að byggja víða annars staðar nær og fjær en í Vatnsmýrinni. Talað er um vistvænan ferðamáta í þessu sambandi. Vistvænn ferðamáti getur orðið þótt ekki sé byggt á sama bletti. Hvernig væri að setja kraft í að efla almenningsvagnakerfið þannig að það laði mögulega fleiri að? Meirihlutinn talar um kolefnissporin en gerir ekkert til að hvetja þá sem vilja aka einkabíl til að fjárfesta í vistvænum bílum. Hugmynd um þéttingu byggðar er komin út í öfgar hjá þessum meirihluta og fátt er um samráð við fólkið í borginni. Byggð í miðbænum er auk þess hugsuð mest megins fyrir þá efnameiri. Meðalstór 4 herbergja íbúð kostar vel yfir 100 m.kr. Könnun Zenter sýnir skýrt að bærinn er að verða afar einsleitur. Ferðamenn og búendur miðborgarinnar njóta hans og aðrir sem leggja leið sína í bæinn eru að sækja skemmtanalífið frekar en að versla enda tugir verslana farnir af svæðinu. Verði haldið áfram að keyra þessa stefnu verður ekkert eftir í bænum nema veitingastaðir, barir og minjagripabúðir.

Bókun Flokks fólksins við umræðunni um tafa- og mengunargjöld sem fela munu í sér aukna gjaldtöku í umferð 

Tafagjöld sem stýritæki á umferð er aðför að bílaeigendum. Hafa verður í huga að almenningsamgöngur í borginni eru langt frá því að vera viðunandi. Jafnvel þótt þær væru skárri hentar sá ferðamáti ekki öllum. Andúð þeirra sem skipa meirihlutann í borginni gagnvart  „bílum“ líka þeim vistvænu er hrein þráhyggja. Bíllinn skal úr miðborginni. Nú hefur einnig verið bannað að leyfa fornbílaeigendum að aka niður Laugaveginn í sýningarskyni á 17. júní, sýning sem glatt hefur augu margra áratugum saman. Að setja á tafagjöld í andstöðu við borgarbúa er kúgun. Þær borgir sem sett hafa á slík gjöld í óþökk borgarbúa vara við slíku og tala þá af reynslu. Þær borgir geta þó í það minnsta státað af góðu almenningsamgöngukerfi. Hvað með þá sem minna hafa milli handanna og þá sem eiga erfitt með hreyfingu? En annað gjald mun síður en svo vera hvatning fyrir þennan hóp. Nógu slæmt er aðgengi þótt komuskattur bætist ekki við. Eins mikið og borgaryfirvöld hjala um samráð sést það sjaldan í reynd. Nýjasta dæmið um skort á samráði eru lokanir gatna í miðbænum. Í nýrri könnun Zenter og SVÞ sýna niðurstöður almenna óánægju meirihluta rekstraraðila með lokun gatna fyrir umferð. Æ færri sækja miðbæinn nema til að njóta skemmtanalífs.

Bókun Flokks fólksins við tillögu Sósalista um endurgreiðslu útsvars til hinna tekjulægstu

Það er hægt að fara ýmsar leiðir til að ná fram jöfnuði. Tillaga Sósilalista er ein leiðin. Koma þarf með sértækar aðgerðir fyrir skilgreindan hóp sem berst við fátækt. Flokkur fólksins var með tillögu um að gripið verði til sértækra aðgerða til að létta á undir með fátækum barnafjölskyldum. Tillögunni var vísað frá. Núna er hópur að störfum sem skoðar sárafátækt og mættu tillögur sem lúta að leiðum til að jafna kjör borgarbúa gjarnan vera vísað í hópinn til frekari útfærslu í stað þess að hafna þeim.  Raunveruleikinn er blákaldur og hefur verið skilgreindur m.a. af fjármálastjóra borgarinnar. Skóinn kreppir víða og ekki síst í velferðarmálum, heilbrigðis- og öldrunarmálum.  Á 9. hundrað umsókna eru eftir félagslegri leiguíbúð í Reykjavíkurborg, tæp 500 börn búa undir fátæktarmörkum og tæp 800 börn eru börn foreldra sem fá fjárhagsaðstoð í Reykjavík. Hópur efnaminna fólks og fátækra hefur orðið út undan í Reykjavík síðustu ár. Hátt leiguverð og gríðarlega erfiður húsnæðismarkaður étur upp það sem fólk þénar á mánuði. Þeir flokkar sem ríkja nú, utan Viðreisnar og Pírata hafa skilgreint sig sem jafnaðarflokkar með stefnu sem einmitt átti að bæta kjör þeirra verst settu?

Tillaga Flokks fólksins við Vatsnmýri – Póstnúmer 102

Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill styðja íbúa svæðisins í þessu máli vegna þess að yfir þá hefur verið valtað af borgaryfirvöldum. Þetta er enn eitt dæmið um að loforð um samráð er að mestu bara  í orði en ekki á borði hjá meirihlutanum. Dæmin eru víðar t.d. er gróft dæmi um yfirgang og skort á samráði hvað varðar lokanir gatna í miðborginni og ákvörðun um varanlega lokun sumra þeirra allt árið án samráðs við rekstraraðila og borgarbúa aðra en þá sem búa á miðsvæðis. Vel kann að vera að stundum sé kallað eftir sjónarmiðum íbúa og þá kannski meira til að geta sagst hafa gert það en síðan eru sjónarmið eða athugasemdir einfaldlega hunsaðar. Flokkur fólksins tekur undir með borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að á meðan  flugvöllurinn er enn í Vatnsmýrinni breytir engu þótt þetta póstnúmer sé áfram það saman. Hér er ekki um neins konar forgangsmál að ræða og óþarfi að verja fé í þetta núna sem betur mætti nota til að styrkja grunnþjónustu frekar.

Tillaga Flokks fólksins við breytingum á samþykktum 

Borgarstjórn er fjölskipað stjórnvald, eða á að vera það en þannig er það ekki beinlínis í praksís. Sem dæmi hefur borgarfulltrúi Flokks fólksins ekki tekist að hafa aðkomu að breytingar á samþykktum. Þær tillögur sem lagðar hafa verið fram í þeim efnum hafa ýmist verið felldar eða vísað frá. Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr því hjá við atkvæðagreiðslu. Af hálfu minnihlutafulltrúa hafa oft verið lagðar fram tillögur að góðum breytingum í vetur, t.d. að áheyrnafulltrúar minnihlutans fái að sitja í öllum ráðum og nefndum nema Barnaverndarnefnd til að geta betur fylgst með öllum málum. Annað dæmi er tillaga um að borgarstjórnarfundir hefjist fyrr til að þeim ljúki fyrr en oft þarf að fresta helming af málum fundarins. Þetta er einungis brot af tilraunum minnihlutans sem lagðar hafa verið fram til að stuðla að jákvæðum breytingum á samþykktir í stjórnsýslu borgarinnar.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu Skóla- og frístundarráðs á tillögunni að leggja sérstaka áherslu á að fræða börn í leikskólum um heimsmarkmiðin 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins þykir leitt að þessi tillaga skyldi ekki fá náð fyrir augum meirihlutans. Hér er um mikilvægt verkefni að ræða þe. innleiðing á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna þar sem lagt er sérstaklega til að fjallað verði um þau í leikskólum borgarinnar. Þessi tillaga fellur ekki illa að menntastefnunni sem kemur einnig inn á heimsmarkmiðin. Flokkur fólksins er hér að huga að þeim yngstu ekki síður enda geta flestir verið sammála því að með því að byrja snemma og einmitt á leikskólaaldri er líklegt að börnin meðtaki fræðsluna og geti byrjað að taka þátt á eigin forsendum allt eftir aldri, getu og þroska.  Allt efni er hægt að fá að kostnaðarlausu hjá Félagi Sameinuðu þjóðanna og á netinu. Mikilvægt er ekki síður að grunnskólar leggi áherslu á Heimsmarkmiðin í sinni almennu kennslu, starfi og leik. Það er því leitt að þessi tillaga fékk ekki brautargengi eins og hún væri ekki þess verð að fá nánari skoðun. Vel hefði má leyfa henni að fljóta með samhliða innleiðingu menntastefnu. Borgin á að vera frumkvöðull hvað þetta varðar, draga vagninn og gera það með reisn.

Bókun Flokks fólksins við tillögunni um að hafa samráð við rekstraraðila og borgarbúa um varanlegar lokanir göngugatna

Tillögu eða krafa Flokks fólksins um að haft verði samráð við rekstraraðila og borgarbúa vegna lokana í miðbænum var frestað í Skipulagsráði 5. júní. Um þriðja hundrað rekstraraðila við Laugaveg hafa með undirskrift sinni mótmælt ákvörðun um lokanir og óttast um afkomu sína. Fyrir liggur tvíþætt viðhorfskönnun sem Zenter rannsóknir framkvæmdi fyrir Miðborgina okkar og Samtök verslunar og þjónustu. Niðurstöður sýna mikla óánægju hjá rekstraraðilum og hjá borgarbúum sem búa ekki miðsvæðis. Fyrirtæki sem þjónusta mat, drykki og minjagripi ganga og ánægja er helst meðal yngra fólks og þeirra sem sækja skemmtanalífið. Það stefnir í einsleitan bæ bæði hvað varðar rekstur og mannlíf. Niðurstöður hljóta að vera áfall fyrir borgaryfirvöld og Miðborgina okkar sem greinilega væntu þess að sjá stuðning við stefnuna. Þvert á móti sýna niðurstöður að göngugötur eru að fæla fólk frá. Verði ekki horfið frá þessari stefnu er bærinn að missa af 4. hverjum viðskiptavini. Ekki eru allir undrandi því sterkar vísbendingar voru um að stór hluti fólks er hættur að sækja miðbæinn. Samráð hefur verið lítið sem ekkert. Sérstakt er að skoða kynjamismun í þessu sambandi en  25% karla og 21% kvenna myndu koma sjaldnar ef göngugötur væru varanlegar. Rekstraraðilar í miðbænum hafa ekki efni á því að missa svona stóran viðskiptavinahóp.