Á annað hundrað flóttamenn frá Úkraínu hafa óskað eftir hæli hérlendis. Væntanlega verður tekið á móti um 2.000 manns. Sumir snúa jafnvel aldrei aftur heim. Miklu skiptir að þetta fólk mæti hér hlýju, skilningi og fjölþættri aðstoð.
Margt þessa stríðshrjáða fólks mun setjast að með börn sín í Reykjavík. Við getum átt von á 200 úkraínskum börnum til Reykjavíkur, jafnvel fleiri. Borgarbúar, fyrirtæki og stéttarfélög hafa boðið fram húsnæði af öllu tagi. Þak yfir höfuðið er frumskilyrði.
Flóttamennirnir koma hingað allslausir. Hlutverk Reykjavíkurborgar er að veita flóttafólkinu fjárhagslega og félagslega aðstoð. Börnin þurfa að komast sem fyrst í leik- og grunnskóla, í frístund og tómstundir. Mikilvægt að þau geti sem allra fyrst lifað eðlilegu og öruggu lífi.
Bíða með fjárfrekar framkvæmdir Ljóst er að nú þarf borgarmeirihlutinn að endurskoða útdeilingu fjármagns. Fresta fjárfrekum framkvæmdum. Geislabaugurinn skrautlegi á Lækjartorgi verður að fara á ís. Sama gildir um önnur verkefni sem ekki eru nauðsynleg.
Flokkur fólksins vill breyta forgangsröðun við útdeilingu fjármagns. Setja á fólk og þarfir þess í fyrsta sæti. Með komu úkraínsku barnanna bætist í hóp barna sem þarfnast aðstoðar af ýmsu tagi. Meirihlutinn getur ekki lengur lamið hausum við steininn. Flokkur fólksins skorar á borgarstjóra og meirihlutann að sýna lit. Langir biðlistar eru eftir aðstoð af öllu tagi í Reykjavík. Börnin, sem bíða eftir fagþjónustu skóla, eru 1804. Langur biðlisti er eftir félagslegu húsnæði og sértæku fyrir fatlaða. Ef spilin verða ekki endurstokkuð er hætta á að Reykjavíkurborg axli hvorki ábyrgð sína um lögbundna þjónustu né megni að sinna stríðshrjáðum fjölskyldum frá Úkraínu.
Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í Reykjavík
Birt í boxinu í Fréttablaðinu 17. mars 2022