Í borgarstjórn 20. september var umræða að beiðni Flokks fólksins sem bar þessa yfirskrift.
Hefur bruðl og sóun hafi átt sér stað í stafrænni umbreytingu Reykjavíkurborgar?
Svar borgarfulltrúa Flokks fólksins er „já“.
Liðin eru tæp tvö ár frá því að borgarstjórn samþykkti að leggja 10 milljarða í stafræna umbreytingu á þriggja ára tímabili. Upphæðin var komin á síðasta kjörtímabili í 13 milljarða og á þessu kjörtímabili á að auka fjármagn enn frekar í málaflokkinn.
Stafræn umbreyting er sannarlega mikilvægt framfaraskref. Um það er ekki deilt heldur hvernig sýslað hefur verið með þetta mikla fjármagn af lausung og leikaraskap. Afurðir, þ.e. þær stafrænu lausnir sem litið hafa dagsins ljós eru ekki í takti við fjármagnið sem búið er að eyða í þær. Verulegur hluti þessa fjármagns hefur farið í að gera ásýnd innviða sviðsins, Þjónustu- og nýsköpunarsviðs (ÞON), sem glæsilegasta. Viðbótarhúsnæði hefur verið leigt og ráðnir fjöldi sérfræðinga með tilheyrandi hlunnindum þ.m.t. hópur lögfræðinga úr einkageiranum. Stór kostnaður fer í umgjörð og háar fjárhæðir hafa verið greiddar fyrir ráðgjöf frá erlendum ráðgjöfum. Hvergi er hægt að sjá hvernig þessi ráðgjöf hefur nýst til lausna fyrir borgarbúa. Halda mætti að Reykjavíkurborg sé að mynda hugbúnaðarfyrirtæki sem ætlað er að fari á samkeppnismarkað.
Ef horft er á stöðu stafrænna lausna hefur nálgun sviðsins undanfarin ár einkennst af fumkenndri tilraunastarfsemi þar sem miklum tíma og fjármunum hefur verið eytt í að uppgötva, þróa og gera tilraunir á stafrænum lausnum sem margar hverjar voru til fyrir og komnar í fulla virkni t.d. hjá Stafræna Íslandi og öðrum fyrirtækjum.
Röng forgangsröðun, áhersla á heimsfrægð
Forgangsröðun verkefna var strax í upphafi röng. Byrjað var á margra mánaða tilrauna- og uppgötvunarferli í svokölluðu Gróðurhúsi sem virtist vera til þess eins að öðlast skemmtilega upplifun. Hugmyndir að verkefnum spruttu fram sem hvorki voru brýn né nauðsynleg og má þar nefna fjöldi alls kyns mælaborða, viðburðar- og sorphirðudagatöl og sundgestayfirlit svo fátt eitt sé nefnt.
Þær lausnir sem sárlega var beðið eftir voru aftar á forgangslista og þegar þær birtust komu ótal vandræði í ljós. Má nefna skjalakerfið Hlöðuna í því sambandi og nýjan vef Reykjavíkurborgar. Enn sést ekki til stafrænnar lausnar umhverfis- og skipulagsráðs sem létta myndi stórlega á umsóknum um byggingarleyfi með tilheyrandi teikningum.
Allt þetta má sjá reifað í háfleygum lýsingum í nýútkominni Ársskýrslu þjónustu- og nýsköpunarsviðs fyrir árið 2021. Skýrslan er í raun ótrúleg lesning þar sem hún snýst ekki hvað síst um markmið sviðsins að ná einhvers konar heimsfrægð á sviði stafrænna umbreytinga. Ítrekað er því lýst hvernig stafræn vegferð borgarinnar sé einsdæmi, „engri annarri lík“ eins og segir í Ársskýrslunni. Sumt sem þarna á sér stað er komið úr böndum að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins, t.d. hin mikla þensla sviðsins og sú gríðarlega áhersla að ætla að „sigra hinn stafræna heim“ á erlendri grundu.
Flokkur fólksins vill horfa á árangur sem gagnast Reykvíkingum. Efla það þarf stafræna þjónustu fyrir leikskóla borgarinnar. Þar hefur ekkert stafrænt gerst í mörg ár. Þetta hefur opinberast í þeim vanda sem leikskólar borgarinnar hafa glímt við undanfarið. Það sárvantar betri yfirsýn og upplýsingar til foreldra. Þetta hefur valdið töfum á þjónustu við foreldra barna sem sækja um leikskólapláss.
Mun nýtt Stafrænt ráð veita aðhald?
Á þriðja ár hefur verið reynt að benda á bruðlið, ranga forgangsröðun, sérkennilega áherslu á þessu flotta ytri ásýnd. Flokkur fólksins hefur verið með fjölmargar fyrirspurnir, lagt fram tillögur um betri ráðdeild og meiri hagkvæmni og almennt reynt sem fulltrúi í minnihluta að sinna hlutverki sínu sem er að veita aðhald og sinna eftirliti.
Allt of mörg stafræn verkefni hafa verið illa skilgreind og mörg eru enn ýmist í þróunar, uppgötvunar– eða tilraunafasa. Önnur verkefni hafa dagað uppi eftir að búið var að setja í þau umtalsverðar fjárupphæðir. Byrja hefði átt fyrir þremur árum að forgangsraða efst á lista lausnum til að einfalda umsóknarferli hjá umhverfis- og skipulagssviði, skóla- og frístundasviði og velferðarsviði í stað lausna sem ekki eru brýn eða liðka sérstaklega fyrir beinni þjónustu við borgarbúa. Vissulega er nú komin „nýr“ meirihluti og sett hefur verið á laggirnar sérstakt ráð sem halda á utan um málaflokkinn. Hér er um að ræða útsvarsfé borgarbúa og víða er brýn þörf á að bæta þjónustu. Kallað er eftir gagnrýnni hugsun og aðhaldi frá nýjum meirihluta borgarstjórnar og hinu nýja Stafræna ráði.
Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í Reykjavík
Einar Sveinbjörn Guðmundsson, kerfisfræðingur, skipar 3. sæti á lista Flokks fólksins í Reykjavík
Birt í Fréttablaðinu 21. september 2022