Hin hliðin á djamminu

Í nóvember 2018 lagði Flokkur fólksins fram tillögu um að borgin tryggði eftirlit með framkvæmd reglugerðar um hávaðamengun í borginni og að henni yrði fylgt til hins ýtrasta. Tillögunni var vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs þar sem hún er enn. Ekki á að setja tillöguna á dagskrá fyrr en eftir kosningar. Aðdragandinn að því máli var að hópur fólks hafði komið að máli við mig og lýst ömurlegri tilveru um nætur þegar stemning gesta næturklúbba er í hámarki. Það var mér bæði ljúft og skylt að leggja vekja athygli á málinu.  Hér er verið að tala um næturklúbba sem eru opnir til kl. 4.30 með tilheyrandi hávaða, götupartíum, skrílslátum, sóðaskap og ofbeldi. Margir hafa léð máls á þessu en ekki fengið hlustun hjá núverandi meirihluta.

Hvað er til ráða

Það er enginn að tala um að banna næturklúbba. En það er ekki hægt að bjóða fólki og fjölskyldum sem þarna býr að geta ekki sofið fyrir hávaða og skrílslátum. Finna þarf aðrar lausnir og við hjá Flokki fólksins viljum skoða þær með borgarbúum.

Fyrsta skrefið er að virða gildandi reglugerðir. Lækka hávaðann og draga mikið úr bassanum (e. subwoofer). Hann er versti skaðvaldurinn þar sem hann berst langar leiðir og heyrist í gegnum þykkustu veggi marga tugi metra frá skemmtistöðunum. Í öðru lagi verður Lögreglan og heilbrigðiseftirlitið að fara eftir lögum; leysa upp óæskilegar hópamyndanir (götupartí) og fara vandlega yfir húsakynni þessara næturklúbba með tilliti til hljóðvistar. Einhver viðurlög hljóta að vera sé farið yfir leyfileg hávaðamörk, en hávaðinn á götum má ekki vera mikið yfir 50 desíbelum (Evrópusambandið mælir með 40db).

Ein hugmynd er að ráða Næturlífsstjóra sem héldi utan um þennan málaflokk hjá borginni, safnaði öllum kvörtunum á einn stað – í hvaða formi sem þær berast til viðkomandi stofnana; rafrænt, bréfleiðis eða símleiðis – og hefði eftirlit með að reglugerðum og lögum sé framfylgt. Eins og staðan er í dag er ekkert samtal á milli stofnana, borgarinnar, lögreglu, heilbrigðiseftirlits, vinnueftirlits, byggingareftirlits og sýslumanns að því er virðist. Samræma þarf aðgerðir með tilliti til þessa málaflokks. Til þess að eigendur skemmtistaðanna missi ekki of stóran spón úr aski sínum er mikilvægt að fá fólk til að byrja skemmtanalífið fyrr, sem mun gerast að sjálfu sér um leið og lokað er fyrr.  Slagorðið er; eftir eitt ei heyrist neitt (sbr. eftir einn ei aki neinn). Samhliða þessum breytingum yrði unnið að uppbyggingu á sérstöku skemmtanasvæði (e. party zone) fyrir utan almenna íbúabyggð handa þeim sem vilja djamma og tjútta fram á morgun , t.d. utarlega á Grandanum eða í einhverju öðru iðnaðarhverfi. Þar gæti lögreglan einnig haft mun betra eftirlit með því að allt fari vel fram. Sömuleiðis er afar brýnt að bjóða upp á næturstrætó til að flytja fólk aftur til heimkynna sinna þegar það er búið að fá nóg.

Flokkur fólksins í borgarstjórn hefur látið einskis ófreistað á kjörtímabilinu að berjast fyrir bættri þjónustu við borgarbúa og hlusta á raddir sem allra flestra. Sjá má öll framlögð mál Flokks fólksins á vefsíðunni www.kolbrunbaldurs.is

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir er borgarfulltrúi Flokks fólksins og skipar  1. sæti á lista Flokks fólksins í komandi borgarstjórnarkosningum

Birt í Fréttablaðinu 20. apríl 2022