Einelti getur verið að viðgangast án vitundar kennara. Eigi eineltið sér stað í skólanum á það sér oftar stað utan kennslustundar en t.d. í frímínútum eða í eða frá skóla. Einelti sem viðgengst inn í tíma er oft mjög dulið/falið.
Kennarar sem þekkja bekkinn vel, börnin og samspil þeirra geta haft grunsemdir um að ekki sé allt með felldu án þess að beinlínis sjá nokkuð athugavert við hegðun barnanna eða viðmót. Til að kennari átti sig betur á andrúmslofti bekkjarins er góð hugmynd að leggja fyrir krakkanna líðan-könnun. Í EKKI MEIR má sjá dæmi um slíkar kannanir. Séu vísbendingar um einelti er mikilvægt að grípa strax inn, láta foreldra vita og ræða við börnin einstaklingslega og/eða í hóp.
Einelti á sér sjaldnar stað inn í bekk en t.d. á skólalóðinni.
Það viðhorf hefur lengi verið ríkjandi að eineltismál eigi að vera á ábyrgð kennara. Kennurum hefur verið ætlaður stór þáttur, ekki einungis í úrvinnsluferli eineltismála, heldur einnig forvörnum og eftirliti. Enda þótt margir kennarar hafi ágæta þekkingu á eineltismálum þá hníga að því ákveðin rök að ábyrgð úrvinnslunnar ætti ekki að vera á þeirra herðum.
Verksvið kennara er í grunninn viðamikið og fjölþætt. Ásamt því að kenna er hlutverk þeirra að sjá til þess að börnin njóti sín í bekknum. Kennurum er einnig ætlað að viðhalda traustu sambandi við foreldra til að tryggja að þörfum barnanna sé mætt í skólastofunni. Til að geta sinnt þessu hlutverki sem best ætti kennari ekki að bera ábyrgð á úrvinnslu máls ef aðilar eru nemendur hans. Kennarar geta að sjálfsögðu skipst á að sitja í eineltisteymi skólans og vikið sæti ef aðilar máls eru nemendur þeirra. Að öðrum kosti er hætta á hagsmunaárekstri.
Kennarar eru hins vegar lykilaðilar þegar kemur að því að sinna forvarnarfræðslu og kenna lífsleikni. Í kjölfar kvörtunar um stríðni eða einelti fá kennarar iðulega eftirlitshlutverk. Þótt kennarar eigi ekki sæti í eineltisteymi skólans geta þeir, á ýmsum stigum í úrvinnslu málsins, veitt eineltisteyminu gagnlegar upplýsingar um börnin sem um ræðir.