Stjórnsýslan í Reykjavík er umfangsmikil. Þar vinna margir sérfræðingar. Það sem þó einkennir þessa stjórnsýslu er að við langflest verk þarf að kaupa þjónustu frá sérfræðingum úti í bæ.
Verkum er útvistað í vaxandi mæli. Nýlega var nokkrum reynslumiklum tölvuþjónustumönnum borgarinnar sagt upp og verkefnum þeirra útvistað. Þetta var að sögn gert í hagræðingarskyni. Flestum er ljóst að kostnaðurinn við útvistun verður á endanum meiri en sá kostnaður sem felst í að vinnan sé unnin af fastráðnum starfsmönnum og með útivistun byggist ekki upp dýrmæt reynsla og þekking innan borgarinnar.
Fulltrúa Flokks fólksins óar við þessum endalausu ráðgjafakaupum sviða borgarinnar og þá helst þjónustu og nýsköpunarsviðs og skipulags- og samgöngusviðs. Annað dæmi er að nýlega voru lögð fram ýmis erindisbréf um stofnun starfshópa á vegum skipulags- og samgöngusviðs. Í öllum þessum erindisbréfum kemur fram að hóparnir megi kaupa ráðgjöf, eins og það sé aðalatriðið með tilvist þeirra. Það vekur upp spurningar hjá fulltrúa Flokks fólksins að þegar strax í upphafi, í erindisbréfum, eru veittar víðtækar heimildir til þjónustukaupa. Sporin hræða.
Fulltrúi Flokks fólksins vill minna á að það þarf að sýna aðhald. Verið er að sýsla með fé borgarbúa. Ráðgjöf utanaðkomandi verktaka t.d. við endurbyggingu braggans kostaði mikið en skilaði litlu. Um slíkt eru fjölmörg dæmi hjá þessum meirihluta í borgarstjórn. Hér er almennt verið að vinna tímabær verkefni, og ekki er amast við því, en það vekur spurningar hversu mikið fjármagn fer í aðkeypta þjónustu þrátt fyrir að borgin skarti tugum sérfræðinga sem einmitt eru ráðnir vegna sérfræðiþekkingar sinnar. Stórar verkfræðistofur virðast jafnvel hafa verk fyrir borgina sem meginstoð starfsemi sinnar. Í stað fjárausturs til einkafyrirtækja væri nær að byggja upp þekkingu á mikilvægum málaflokkum innan borgarkerfisins.
Í reglum Reykjavíkurborgar um framkvæmd fjárhagsáætlunar er kveðið á um að sviðsstjórar og stjórnendur skuli hafa frumkvæði að því að innleiða umbætur í rekstri til að bæta þjónustu, auka skilvirkni og lækka kostnað. Ef horft er til uppsagna tölvuþjónustustarfsmanna er tilefni til að efast um að það skili svo miklum sparnaði. Hvernig er hægt að bæta þjónustu með því að leggja niður gæðavottað þjónustuteymi? Hvernig mun það skila lægri kostnaði þegar verktakar kosta mun meira en fastir starfsmenn?
Hver man ekki eftir dönsku stráunum og kostnaðinn við ráðgjöfina um að planta dönskum stráum við Braggann, eða þá Pálmatrjánum sem áttu að rísa í Vogunum. Það vekur furðu að borgin sjái ekki hagkvæmni í því að byggja upp þekkingu og reynslu hjá eigin starfsfólki og kjósi þess í stað að útvista stórum hluta þeirra verka sem þarf að vinna á vegum borgarinnar.
Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir oddviti Flokks fólksins í Reykjavík
Birt í Fréttablaðinu 3. febrúar 2021