Mál Flokks fólksins á dagskrá borgarstjórnar 16. maí 2023

Flokkur fólksins er með 3 mál á fundi borgarstjórnar 16. maí næstkomandi

Umræða um úrbætur á starfsaðstöðu nemenda og kennara í Laugarnesskóla (að beiðni fulltrúa Flokks fólksins)

Umræða um húsaleigumarkaðinn Í Reykjavík (að beiðni fulltrúa Flokks fólksins)

Umræða um Kveikjum neistann í Reykjavík (að beiðni fulltrúa Flokks fólksins)

 

Mál 1

Umræða um úrbætur á starfsaðstöðu nemenda og kennara í Laugarnesskóla (að beiðni fulltrúa Flokks fólksins)

Greinargerð með umræðu:

Nýlega barst ályktun frá fulltrúum starfsfólks Laugarnesskóla en þar segir að í of mörg ár hafa nemendur og starfsfólk Laugarnesskóla unnið í heilsuspillandi starfsumhverfi vegna myglu, rakaskemmda og leka. Einnig hafa þau ítrekað þurft að skipta um stofur meðan plástrað er yfir myglu og rakaskemmdir. Starfsfólk hefur hrökklast úr starfi vegna veikinda tengdum myglu.  Frá því í haust hefur ekki verið hægt að kenna í hluta heimilisfræði stofunnar vegna viðhaldsframkvæmda. Þessum framkvæmdum er enn ekki lokið og hafa iðnaðarmenn ekki sést í marga mánuði.

Í of mörg ár hafa nemendur og starfsfólk Laugarnesskóla unnið í heilsuspillandi starfsumhverfi vegna myglu, rakaskemmda og leka. Frá því í haust hefur ekki verið hægt að kenna í hluta heimilisfræðistofunnar vegna viðhaldsframkvæmda. Þessum framkvæmdum er enn ekki lokið og hafa iðnaðarmenn ekki sést í marga mánuði. Skólayfirvöld hafa ítrekað óskað eftir úrbótum við Reykjavíkurborg sem er vel kunnugt um stöðuna.

Laugarnesskóli er löngu sprunginn og nemendum hefur fjölgað hratt undanfarin ár. Spár Reykjavíkurborgar um nemendafjölda og áform um uppbyggingu í hverfinu benda einnig til þess. Skortur á kennslustofum og plássleysi í öðrum rýmum, s.s. sérgreinastofum, íþróttaaðstöðu, mötuneyti, eldhúsi og vinnuaðstöðu er því ekki tímabundið vandamál.

Það er með ólíkindum að það taki svona langan tíma að hefja viðgerðir og undirbúa viðbyggingu. Þegar spurt er um hvað veldur töfum er sífellt klifað á að verið sé að undirbúa, ,,að stilla upp” eins og það er gjarnan orðað hjá borgaryfirvöldum þegar skólasamfélagið ýtir við málinu. Sagt er að “framkvæmdaaðilar séu að stilla upp”. Enginn veit svo sem hvað er átt við með því eða hvort það merki að hefja eigi brátt alvöru framkvæmdir.

Hér er ekki um einsdæmi að ræða. Hávær hróp hafa borist lengi frá skólasamfélaginu vegna myglu og raka vanda í fjölmörgum skólum borgarinnar. Frá árinu 2018 hefur greinst mygla í yfir 30 skólahúsum sem tilheyra borgarreknum leik- og grunnskólum samkvæmt samantekt fréttastofu RÚV frá því í haust. Þá voru yfir 1.200 grunn- og leikskólabörn í húsnæði utan skólalóðar heimaskóla vegna mygluvandamála, 860 grunnskólabörn og 350 leikskólabörn. Síðan þá hafa líklega bæst við hátt í hundrað börn. Mörg þúsund börn verða fyrir raski á skólastarfi vegna myglu og raka. Skaðsemi og önnur áhrif af þessu eru með öllu óljós.

 

 Mál 2

Umræða um húsaleigumarkaðinn Í Reykjavík (að beiðni fulltrúa Flokks fólksins)

Greinargerð með umræðu

Húsnæðisskortur í Reykjavík er mikill. Það sárvantar húsnæði af öllu stærðum og gerðum. Framboð og eftirspurn er ekki í jafnvægi. Það hefur verið byggt en ekki nóg. Reykjavíkurborg ber hér ríka ábyrgð. Borgarmeirihlutinn hefur einblínt á að þétta byggð. Að þétta byggð er dýrt og tekur langan tíma og íbúðir á þéttingarreitum eru rándýrar. Efnafólk hafa notið góðs af og sölsað undir sig mörgum eignum sem leigðar eru á okurverði. Segja má að frumskógarlögmálið gildi á þessum markaði.

Leigjendur eru að kikna undan hárri leigu. Ekki er vitað hversu margir búa við óviðunandi og jafnvel við stór hættulegar aðstæður, í húsnæði sem er ekki samþykkt en fólk  borgar þó okkur leigu fyrir húsnæðið.

Ójöfnuður í samfélaginu hefur aukist mikið síðustu ár. Lágtekjufólk greiðir allt að 70% af ráðstöfunartekjum sínum í leigu. Það er hlutverk stjórnvalda að tryggja sanngjarnt leiguverð í samræmi við greiðslugetu leigjenda og vill Flokkur fólksins skoða að setja á leiguþak /leigubremsu eins og víða tíðkast í löndum sem við berum okkur helst saman við.

Borgin getur beitt sér fyrir að sett verði leiguþak eða leigubremsa t.d. tímabundið á meðan ástandið er svo bagalegt. Ljóst er að hvatning til leigusala að stilla leiguverði í hóf hefur ekki áhrif. Hvað er borgarmeirihlutinn annars að gera til að beita sér í þessum málum.

Á meðan ástandið er svo slæmt þarf  einnig að auka beinan stuðning við leigjendur í formi húsnæðisbóta. Gera þarf betur fyrir þá sem nú búa við hættulegar aðstæður vegna þess að húsnæði er óíbúðarhæft.

Það er ekki ein báran stök því leiga hefur einnig hækkað hjá Félagsbústöðum og eru margir leigjendur að sligast. Sá hópur sem um ræðir hjá Félagsbústöðum eru flestir efnaminni og fátækir. Ef leigjendur standa ekki í skilum þá er skuld þeirra send í innheimtu til Motus. Harkalegar innheimtuaðgerðir eru ekki til að bæta þegar illa stendur á hjá fólki fjárhagslega. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill fá umræðu um hvað Reykjavíkurborg geti gert í stöðunni, hvað úrræða er hægt að grípa til svo létta megi undir með leigjendum á meðan leigumarkaðurinn er svona erfiður eins og raun ber vitni.

 

Mál 3

Umræða um þróunarverkefnið Kveikjum neistann í Reykjavík (að beiðni fulltrúa Flokks fólksins)

Greinargerð með umræðunni:

Umræða að beiðni borgarfulltrúa Flokks fólksins að skólayfirvöld í Reykjavík taki upp verkefnið Kveikjum neistann sem þróunarverkefni í 1-3 grunnskólum í Reykjavíkur. Verkefnið Kveikjum neistann hefur skilað góðum árangri í Vestmannaeyjum. Hér er um að ræða verkefni sem nýst gæti nemendum í Reykjavík afar vel.

Kveikjum neistann er rannsóknar og þróunarverkefni sem Grunnskóli Vestmannaeyja tekur þátt í og hefur verið í gangi með nemendum í bráðum tvö ár. Þau Hermundur Sigmundsson prófessor við NTNU og HÍ og Svara Þ. Hjaltalín, sérkennari og læsisfræðingur eiga veg og vanda af verkefninu sem er í umsjá Rannsóknarseturs um menntun og hugarfar við HÍ.

Markmið Kveikjum neistans er metnaðarfullt. Eitt af þeim er að 80-90% barna teljist læs við lok 2. bekkjar og er árangur mældur út frá einföldu stöðumati sem nefnist LÆS. Kennt er eftir hljóðaaðferðinni, eftirfylgni er góð og einstakir þjálfunartímar þar sem öll börnin fá réttar áskoranir. Stundatöflu hefur verið breytt, dagurinn einfaldaður, hreyfing aukin og settir inn frjálsir tímar sem vekja gríðarlega lukku.

Verkefnið er þróunar- og rannsóknarverkefni með heildstæða nálgun í skólastarfið. Áherslur verkefnisins snúa að læsi, stærðfræði, náttúrufræði, hreyfingu og hugarfari nemenda. Höfuðáherslan er á að allir nemendur nái að brjóta lestrarkóðann, þ.e. geti tengt saman hljóð og lesið orð og þar með leggja grunninn að fjölbreyttu og öflugu námi í lestri, lesskilningi og skapandi skrifum. Mældur hefur verið árangur frá upphafi og sýna niðurstöður að væntanlega ná 94 af 96 nemendum að brjóta lestrakóðann eða 98% nemenda í þessum tveimur fyrstu árgöngum verkefnisins (1. og 2. bekkur). Árangur lofar góðu í Vestmannaeyjum.

Staða margra nemenda í lestri og lesskilningi í Reykjavík er ekki nógu góð. Þetta hafa PISA kannanir sýnt okkur undanfarin ár en 16% barna ná ekki stigi tvö í PISA í lesskilningi, sem sagt lesa sér ekki til gagns. Úr þessu má ekki gera lítið eða hunsa.

Ef horft er til barna sem eru af erlendu bergi brotin þá er staðan sú að 92.5% barna og unglinga eru á rauðu og gulu ljósi hvað varðar íslensku kunnáttu þeirra. Þessum börnum þarf að hjálpa strax að læra málið, í þeim er gríðarlegur mannauður. Einnig þarf að huga sérstaklega að þeim börnum sem ekki geta nýtt sér hefðbundnar kennsluaðferðir. Þau börn þurfa oft að fá aðstoð hjá sérkennara og þau þurfa lengri tíma og meira næði en gengur og gerist í almennum bekk. Gera má ráð fyrir að það séu um það bil 2-4% barna sem glíma við lesvanda af lífeðlisfræðilegum orsökum sem t.d. tengjast sjónskyni. Sum rugla bókstöfum og þurfa sem dæmi að fá stærra letur og til eru vísindi sem gefa okkur leiðir. Borgarfulltrúi væntir góðrar umræðu um þetta mál.