Martröð foreldra er að börn þeirra leiðist út í fíkniefnaneyslu. Langoftast er einhver aðdragandi sem birtist á heimilinu og í skólanum. Barn sem byrjar að neyta harðra efna fer oft hratt niður. Hefja þarf því greiningarferlið strax og meðferð í kjölfarið. Hér getur verið spurning um líf eða dauða. Þegar kemur að raunveruleikanum í þessum efnum eru ýmsar hindranir og úrræðaleysi.
Greining og meðferð
Fyrsta hindrunin er að komast í greiningu. Án greiningar, sem oftast samanstendur af vitsmunaþroskamati, mati á líðan og ADHD skimun, fæst ekki aðgangur að BUGL. Landspítalinn þjónustar ekki ungmenni í neyslu- og fíknivanda, veitir þeim hvorki afeitrunarmeðferð né bráðameðferð þrátt fyrir að heilbrigðisráðherra hafi falið Landspítalanum að sinna börnum í neyslu. Af hverju hefur Landspítalanum ekki tekist að fylgja fyrirmælum ráðherra? Ráðherra hefur samið við SÁÁ um að annast meðferð fyrir börn en í kjölfarið tekur ekkert við. Álagið á fjölskyldur barna í neyslu er gríðarlegt og að baki einu barni er fjölskylda í angist.
Hægagangur og andvaraleysi stjórnvalda
Íslenskt samfélag, borg og ríki hafa staðið sig illa í þessum málum. Barn á grunnskólaaldri á rétt á að fá vanda sinn greindan eins og Reglugerð um sérfræðiþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla kveður á um. En biðlistar eru langir og dæmi eru um að börn séu enn á biðlista þegar þau ljúka grunnskóla. Þeir foreldrar sem hafa efni á, grípa til þess ráðs að kaupa greiningu hjá einkaaðila fyrir að lágmarki 150.000 kr. Hjá Reykjavíkurborg hefur málaflokkurinn ekki verið í forgangi. Í staðinn fyrir að fjölga sálfræðingum hefur meirihlutinn í borgarstjórn ákveðið að draga úr greiningum. Ráðamenn í borginni hafa í mörg ár staðið sig illa þegar kemur að greiningum og sálfræðiþjónustu við börn. Fjármagni hefur frekar verið varið í aðra hluti en að auka og tryggja þjónustu við börn á hinum ýmsu sviðum.