Oddvitaræða fyrri umræðu Ársreiknings (2022) 2. maí 2023

Oddvitaræða Flokks fólksins

Fáum óraði fyrir hversu slæm staða borgarinnar er í kjölfar stjórnarsetu Samfylkingar, Pírata, Viðreisnar og VG og áfram núna með VG úti en Framsókn inni. Allt of stór hópur barna, öryrkja og eldra fólks á um sárt að binda og líður ekki vel. Of margar fjölskyldur og einstaklingar geta ekki séð sér farborða og hafa áhyggjur af grunnþörfum sem eru fæði, klæði og húsnæði.

Vissulega er ekki allt svart. Ýmislegt gengur vel og eitt og annað hefur verið gert enda væri annað skrítið. Flokkur fólksins ætlar ekki að taka það af meirihluta fulltrúum að útlista “sigrum” sínum á þessum og næsta fundi borgarstjórnar. Það sem klárlega getur ekki flokkast debet megin í árangurs bókhaldið eru leikskólamálin. Stór hópur af ömmum og öfum og öðrum ættingjum og vinum foreldra eru nú í fullri vinnur fyrir Reykjavíkurborg að passa börnin þegar leikskóli er lokaður vegna ýmist myglu, manneklu eða meðan beðið er eftir að leikskólar rísi. 

Óveðurský hafa verið að hrannast upp lengi, löngu áður en Covid skall á, eða Úkraínustríðið og ekki er hægt að kenna fötluðu fólki um sem kallar eftir þjónustu sem það réttilega á skilið. Í skýringum fyrir ástandinu er verðbólga nefnd sem sannarlega hefur kollvarpað fjármálaáætlunum víða. 

 

En þá má spyrja hvar Varfærnisreglan er? Varfærni í reikningsskilum sveitarfélaga á til dæmis að koma í veg fyrir að eignir og tekjur séu ofmetnar og skuldir vanmetnar. Ofmat á eignum og tekjum eða vanmat á skuldum og skuldbindingum getur leitt af sér freistnivanda sem leiðir til meiri lántöku en reksturinn stendur undir eins og sérfræðingar myndu orða þetta. 

Fjárhagur Reykjavíkurborgar hefur tekið lóðrétta stefnu niður á við. 

Áhersla meirihhutans hefur lengi verið á dauða hluti. Í stað þess að fókusa á að hugsa þak fyrir alla og það hratt, hefur gríðarvinna og tími farið í að finna hvernig stafla má sem mest af  litlum rándýrum íbúðum. Einnig þrengja götur, koma bílum úr miðborginni, setja blómaker og bekki, að steypa torg og skreyta. 

 

Svo kom skellurinn, Covid. Þegar maður sýnir ekki fyrirhyggju og heldur að allt verði bara alltaf gott þá getur illa farið ef áfall dynur yfir. Safna til mögru áranna gleymdist alveg, eða vera bara svo skynsamur að vita að allt getur gerst. Fjármálastjórnun hefur verið óábyrg að þessu leytinu til og nú er komið að skuldadögum. 

Stór hluti af ruglinu er allt þetta með ÞON og hið stafræna. Þar er einhver blindni í gangi, eða þrjóska nú eða bara einhver þráhyggja, kannski allt þetta?  

Það er skoðun borgarfulltrúa Flokks fólksins að opinn tékki frá meirihlutanum til ÞON til að leika sér í tilrauna smiðjum á stóran þátt í þeim fjárhagserfiðleikum sem Reykjavík er í núna. Þjónustu og nýsköpunarsvið hefur fengið ómælt fjármagn til að leika sér í uppgötvunar- tilrauna og þróunarleikjum sem er hlutverk einkaframtaskins en ekki sveitarfélags. Þjónusta við fólkið hefur liðið fyrir slíkan leikaraskap á vakt þessa og síðasta meirihluta. Hvar eru afurðirnar sem lofað var, hver er afraksturinn? Hvar er t.d. Gagnsjáin? Hverjum hefði órað fyrir að eftir að hafa horft á eftir á annan tug milljarða renna til málaflokksins að ennþá þurfa foreldrar að handskrifa 6-7 blaðsíður ef þeir ætla að innrita barn sitt í leikskóla? 

Og áfram heldur þenslan. Nú er verið að auglýsa eftir enn fleira starfsfólki í miðjum sparnaðar leiðangri borgarinnar sem ekki á krónu til að greiða af næsta láni, heldur þarf að taka lán til að greiða af lánum.

 

Ársreikningur

Í ljós kemur að fjárhagsstaða A-hluta borgarsjóðs hefur enn versnað frá fyrra ári. Hallarekstur hefur vaxið og taka verður lán í sívaxandi mæli til að fjármagna afborganir lána og fjárfestingar.

Í þessu sambandi má minna á að fyrir ári síðan, í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga, var því þráfaldlega haldið fram af hálfu þáverandi meirihluta að rekstur borgarsjóðs stæði styrkum fótum. Nú liggja staðreyndir málsins fyrir svo ekki verður um deilt.

Svona hljóðaði bókun meirihlutans við fyrri umræðu ársreiknings 2021 á fundi borgarstjórnar í fyrra 2022.

Með leyfi forseta

“Ársreikningur Reykjavíkur skilar gríðarlega sterkri niðurstöðu við krefjandi aðstæður. Niðurstaðan er mun sterkari en áætlanir gerðu ráð fyrir, þrátt fyrir mikinn auka kostnað vegna COVID, sérstaklega í skólum og velferðarþjónustunni. Þar sýndu starfsfólk og stjórnendur ótrúlega útsjónarsemi og seiglu og er öllu því fólki þakkað sérstaklega. Borgin brást einnig við COVID með því að auka fjárfestingar. Þar erum við að fjárfesta í innviðum hverfanna okkar og lífsgæðum fyrir borgarbúa, með grænum áherslum í samræmi við græna planið. Þessi ársreikningur staðfestir því ábyrga fjármálastjórn, öflug og rétt viðbrögð við erfiðum aðstæðum, góða frammistöðu starfsfólks og stjórnenda og sterka stöðu borgarsjóðs og samstæðunnar í heild. Það er gott veganesti inn í framtíðina.”

Þessi bókun er gróflega stillt upp til að slá  ryki í augu borgarbúa og sannfæra þá um að fjárhagsstaða borgarinnar sé sterk.

Hér er farið gegn meginatriðum í reikningsskilum sveitarfélaga. Tvö af meginatriðum í reikningsskilum sveitarfélaga eru gagnsæi og skýrleiki. Reikningsskil sveitarfélaga eiga að vera til þess að skýra fjármál fyrir íbúum þeirra en ekki til að slá ryki í augu íbúanna og fela raunverulega fjárhagsstöðu viðkomandi sveitarfélags. Hér skal nefna reikningsskil Félagsbústaða sem við höfum ítrekað deilt um í þessum sal. 1.   

Í uppgjöri A+B hluta (samstæðu borgarsjóðs) eru færðar 20.5 milljarðar til tekna vegna matsbreytinga eigna. Óskiljanlegt er að borgin skuli halda sig við að færa til tekna í rekstrarreikningi samstæðu borgarsjóðs reiknaðar tekjur af matsbreytingu eigna. Það standa engir fjármunir eða tekjur bak við þessa reikningsfærslu heldur einungis innistæðulausar tölur. 

Að reikna matsbreytingar eigna, sem aldrei verða seldar, til tekna er allavega ekki gott dæmi um gagnsæi og skýrleika í reikningsskilum sveitarfélags.

En áfram með hina skelfilegu fjármálastöðu 

Veltufé frá rekstri A-hluta  2022 er nálægt 0 eða rúmar 400 milljónir en þyrfti að vera nær 14 milljarðar. (Miðað við þá viðteknu reglu að veltufé frá rekstri þurfi að vera nálægt 9% af heildartekjum til að hægt sé að segja að fjárhagsstaðan sé í þokkalegu jafnvægi) 

Halli á rekstri A hluta borgarsjóðs á árinu 2022 er 15.6 milljarðar króna. Til samanburðar má nefna að á árinu 2021 var halli á rekstri borgarsjóðs 3.8 milljarðar króna.

Veltufjárhlutfall, hlutfall lausafjár og skammtímaskulda hefur lækkað milli ára og nálgast nú núll.

Lausaskuldir nálgast það að verða hærri en lausafé. 

Afborganir langtímaskulda hjá A-hluta hækka um 44% milli áranna 2021 og 2022. Það er eðlileg afleiðing sífelldrar lántöku. 

Langtímaskuldir A-hluta borgarsjóðs hafa hækkað um 22% frá síðasta ári.

Afar sérstakt er að málefni fatlaðs fólks séu tekin sérstaklega fyrir og þeim kennt um mikinn hallarekstur Reykjavíkurborgar vegna þess að forsvarsmenn Reykjavíkurborgar tóku fullan þátt í samningum um yfirfærslu á málefnum fatlaðs fólks til sveitarfélaganna á sínum tíma og bera því ábyrgð á stöðu málsins.

Það verður ekki umdeilt lengur að fjárhagur A-hluta borgarsjóðs, sem er kjölfestan í rekstri borgarinnar, nálgast hættustig.

Eftirlitsnefnd sveitarfélaga hefur vakið formlega athygli á þessari stöðu. Viðbrögð borgarstjóra voru að gera lítið úr störfum eftirlitsnefndarinnar. Fyrir liggur umsögn umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 24. apríl 2023 um eftirlitbréfið.

Ýmsar spurningar vakna við lestur umsagnarinnar en líka er eftir því tekið hvað stór hluti umsagnarinnar eru afsakanir. Ýmsu er kennt um s.s.  áhrif óstöðugleika í efnahagslífinu (Úkraínustríðið, vaxtahækkanir og verðbólgu). 

Segir í umsögninni að rekstrarafkoma verði neikvæð á árunum 2023 og 2024 en áætlað er að hún verði jákvæð frá og með árinu 2025. Það er jú áætlun en nú hefur verðbólgan hækkað og reiknað er með áframhaldandi stýrivaxtahækkunum. 

Nýlega birtust einmitt verðbólgutölur mun hærri en greinendur höfðu vænst, ásamt öðrum hagvísum sem sýna mikinn þrótt í hagkerfinu. Þetta þýðir að líkur eru á að vextir Seðlabanka verði hækkaðir í annað sinn í röð um 100 punkta. Borgarfulltrúi Flokks fólksins spyr, hvar er forsjárhyggjan hér og er ekki rétt að gera ráð fyrir hinu versta og svo auðvitað vona hið besta?

Þá spyr Flokkur fólksins, hvert er áætlað samanlagt tap borgarsjóðs á þeim árum þar til rekstrarafkoma verður jákvæð? 

Miðað er við að veltufé frá rekstri verði 7,5% af heildartekjum á árinu 2025 samkvæmt því sem fram kemur í umsögninni en viðmiðið er almennt 9,0% af heildartekjum til að jafnvægi ríki milli rekstrar annars vegar og afborgana lána og kostnaðar við fjárfestingar hins vegar. 

Þá er spurt:

Af hverju er ekki miðað við 9,0% í framlagðri áætlun? 


Fleiri spurningar koma upp eins og:

Hvað vantar mikla fjármuni upp á svo að reksturinn skili ásættanlegu veltufé frá rekstri á þeim árum sem það tekur að ná settu markmiði?
Hvað þarf að taka mikið aukalega af lánum á því tímabili þegar lántaka er yfir 70% af fjárfestingum þar til endanlegu markmiði er náð? 

Þetta eru spurningar sem ég veit að aldrei muni fást nein svör við en eru líka hér framsettar ef ske kynni að einhver vildi pæla í þessum hlutum

Það er okkar mat í Flokki fólksins að leggja þarf fram trúverðuga aðgerðaáætlun um rekstur borgarinnar, sölu eigna, fyrirhugaða lántöku og fjárfestingar sem svar við bréfi eftirlitsnefndar. 

Í slíkri aðgerðaáætlun verður að setja fram sundurliðuð töluleg markmið um einstaka þætti hennar svo hægt sé að leggja mat á hverjum tíma á hvernig gengur að framfylgja framlagðri aðgerðaáætlun. Öll önnur framsetning er bara ekki trúverðug.

Það er þess vegna sem fulltrúi Flokks fólksins lagði til að leitað verði strax leiðbeiningar eftirlitsnefnda um fjármál sveitarfélaga um hvernig Reykjavík geti hagrætt í rekstri. Það er betra að hafa vaðið fyrir neðan sig og leita allra leiða og fá þá ráðgjöf sem mögulega býðst.
(Flokkur fólksins leggur til að Reykjavík óski leiðsagnar frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga um hvernig Reykjavíkur getur hagrætt í rekstri og náð þannig undirtökum í rekstri borgarinnar. Reykjavík er komin yfir þau skuldaviðmið sem sveitarfélögum eru sett.) 

Vandinn er líka sá að það er ljóst að lánstraust borgarinnar hefur hrakað og viðvörunarljós blikka víða. Margt annað er að. margir eru óánægðir með þjónustu í borginni og viðbrögð hennar við erindum.

Sem dæmi, það hefur ekki  tekist að auka skilvirkni. Margir nefna seinagang í afgreiðslu margs konar mála, bæði erindi frá einstaklingum og fyrirtækjum. Vandi í skilvirkni er vandi stjórnenda og í stjórnkerfi borgarinnar mjög víða skortir verulega á skilvirkni. Margir eru hræddir við að gjaldþrot blasi við. Lánatökur undanfarin ár, jafnar og stöðugar eru eitur í þeirri tíð sem nú ríkir. 

Það er því ekki skrítið að maður spyr hvar hefur forsjárhyggjan verið, skynsemin, dómgreindin, yfirvegunin í þessum og síðasta meirihluta? Það hefur verið farið afburða illa með fjármagn borgarinnar svo illa að það jaðrar við að vera hreinn og klár barnaskapur.  

Húsnæðisvandamálin eru auðvitað hvað alvarlegust. Það vantar húsnæði. Framboð og eftirspurn er ekki í jafnvægi. Á meðan vöntun er á húsnæði eru íbúðir dýrar og aðeins þeir efnameiri geta keypt. Aðrir sem verða að láta leigumarkaðinn duga en þar má segja að frumskógarlögmálið gildi. Leigjendur eru að kikna undan hárri leigu. Ekki er vitað hversu margir búa við óviðunandi og jafnvel stór hættulegar aðstæður, í húsnæði sem er ekki samþykkt en þar sem fólk borgar allt að 80% af ráðstöfunartekjum sínum. Eins mikið og búið er að þrasa um húsnæðismálin er eitt deginum ljósara, það hefur ekki verið byggt nóg til að hýsa alla þá sem vilja búa í Reykjavík. 

Enn heldur áfram þensla á þjónustu- og nýsköpunarsviði eins og enginn sé morgundagurinn. Nýlega var verið að auglýsa eftir enn fleiri sérfræðingum í stafrænar lausnir.

Borgarstjóri ber sig vel þrátt fyrir kolsvartan ársreiknig, virðist sofa vel, áhyggjulaus og léttur þegar hann ræðir mál um eins og Nýja Skerjafjörðinn og verðandi borgarstjóri virðist hafa gengið inn í þennan meirihluta án nokkurra spurninga. Engin gagnrýn hugsun, ef eitthvað er þá skammar verðandi borgarstjóri minnihlutann fyrir að vera með leiðindi og úrtölur.  Ég vil benda á það er alveg leyfilegt að vera í meirihluta en engu að síður að vera maður sjálfur, hlusta á innsæi sitt og segja skoðun sína þótt hún rými ekki alltaf við “meirihlutann” í meirihlutanum. Að fljóta sofandi að feigðarósi, jáa og jamma við öllu án þessa að hugsa, án þess að hlusta leiðir ekki til góðs fyrir neinn. Það þarf ekki að kvitta upp á allt sem borgarstjóri og fulltrúar frá síðasta meirihluta segja og gera. En það virðist vera þannig allavega út á við.

Flokkur fólksins berst fyrir sínum áherslumálum svo sem að útrýma fátækt. Ógn fátæktarinnar leggst mismunandi á fjölskyldur en verst á börnin í þeim fjölskyldum sem bágast standa. Sýnt hefur verið fram á með rannsóknum að ójöfnuður hefur aukist. Þeir sem neyðast til að vera á leigumarkaði og eru ekki með þess hærri tekjur ná engan vegin endum saman. Lítið er eftir ef þá nokkuð þegar búið er að greiða nauðsynjar.

Flokkur fólksins hefur ítrekað lagt til að gert verði betur við þá sem eru  verst settir, þeim veitt sérstaka og sértæka aðstoð meira en nú er gert. Horfa þarf sérstaklega til barnafjölskyldna þar sem áhrifin eru neikvæðust á börn. Til þess þarf skýra stefnu í samræmi við ákvæði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Flokkur fólksins lagði til að farið verði með kerfisbundnum hætti í að vinna að innleiðingu Barnasáttmálans. Tillögunni var vísað til borgarstjórnar og er þar enn óafgreidd.

 

Flokkur fólksins er óþreytandi í umræðunni um biðlista. 

Áfram vex biðlisti barna eftir þjónustu þrátt fyrir stofnun Keðjunnar og Betri Borg fyrir börn. Út á við er ekki skýrt af hverju þessi útfærsla og nýjar stofnanir og svið ná ekki að klípa af biðlistanum? 

Ástandið hefur tekið toll af andlegri heilsu foreldra og barna. Tilkynningar um vanrækslu, ofbeldi og áhættuhegðun hafa aukist. Ein af afleiðingum þess ástands sem ríkir nú í Reykjavíkurborg er vopnaburður eggvopna og barefla ungmenna. Í borgarstjórn á haustdögum lagði Flokkur fólksins fram tillögu um að stýrihópur yrði settur á laggirnar sem myndi kortleggja aukinn vopnaburð eggvopna meðal ungmenna í Reykjavík. Tillögunni var vísað til ofbeldisvarnaráðs en hefur ekki fengið frekari skoðun þar.

 

Að lokum: 

Horfa þarf til frekari sparnaðar. Til að ná niður verðbólgu þarf að auka tekjur og draga úr fjárfestingum. Þetta er meirihlutinn ekki að gera alla vega ekki nógu mikið heldur ætlar að halda áfram með Grófarhús, Lækjartorg og ýmislegt annað sem er fjárfrekt og ekki brýnt. 

Við síðari umræðu um fjárhagsáætlun 2022 lagði fulltrúi Flokks fólksins fram 17 sparnaðartillögur. Meðal tillagna var að hagræða og forgangsraða í þágu lögbundinnar þjónustu og að ekki komi til uppsagna starfsfólks á leikskólum. Margt smátt gerir eitt stórt og vill fulltrúi Flokks fólksins að dregið verði úr útgjöldum vegna ýmiskonar óþarfa . Stoppa þenslu, draga saman seglin á meðan svo slæmt er í sjó.

Úrbótatillögur meirihlutans hjuggu sumar of nærri mikilvægari þjónustu við fólk. Sparnaðartillögur hefðu þurft að varða stærri verkefni, fjárfrek  verkefni sem geta vel beðið betri tíma. 

Það liggur í augum uppi að kostnaðareftirlit hlýtur að vera lítið með tilliti til þess að það er því sem næst ekkert veltufé frá rekstri. Það eru  sívaxandi skuldir, gríðarlegar fjárfestingar á þenslutímum (fjárfestingar eru dýrar á slíkum tímum), vaxandi þungi afborgana langtímalána sem eru borgaðar með nýrri lántöku. Afborganir lána eru fjármagnaðar að nýjum lántökum. Það endar bara á einn veg ef ekki verður úr bætt, spírall sem einungis mun versna ef ekkert breytist. 

Rekstur  A-hlutans stefnir í vandræði innan ekki margra ára ef ekki verður mikil breyting á rekstri borgarinnar.