Seinni umræða fjárhagsáætlunar, tillögur og bókanir Flokks fólksins. Borgarstjórn 6. desember 2022

Hér eru bókanir Flokks fólksins við fjármálaþættina á fundi borgarstjórnar við seinni umræðu Fjárhagsáætlunar

Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árin 2023-2027

Fjárhagsstaða Reykjavíkurborgar er kolsvört. Árshlutauppgjörið sýnir verri stöðu en von var á. Það er ekkert eftir af daglegum rekstri upp í fjárfestingar og afborganir lána. Veltufé frá rekstri í A-hluta er rúmar 800 milljónir af 111 milljarða tekjum eða 0,8%. Það þyrfti að vera 10 sinnum hærra til að vera ásættanlegt.
Skammtímaskuldir eru í fyrsta sinn um nokkurra ára skeið hærri en handbært lausafé, sem er ávísun á aukningu dráttarvaxta. Á tímabilinu 2021 – 2023 er aukning langtímaskulda um einn milljarður króna á mánuði.
Flokkur fólksins hefur síðastliðin þrjú ár bent á bruðl með fjármuni á þjónustu- og nýsköpunarsviði. Árangur sviðsins er ekki í neinu samræmi við það gríðarlega fjármagn sem það hefur haft til umráða. Langt er í land með að lausnir séu tilbúnar fyrir skóla- og frístundasvið og umhverfis- og skipulagssvið. Nú varar fjármálastjóri borgarinnar sérstaklega við hvernig matsbreytingar á eignum Félagsbústaða eru færðar í reikningsskilum borgarinnar.
Það stefnir í 15.3 milljarða halla í rekstri borgarinnar. Fækka á starfsfólki leikskóla milli ára þegar hundruð barna bíða eftir leikskólaplássi. Nú eru 2048 börn á biðlista eftir leikskólaplássi en voru um 400 árið 2018. Hér birtist forgangsröðun þessa meirihluta, draga skal saman í grunnþjónustu en standa vörð um “gæluverkefni”

 

Liður 2
Fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar fyrir árin 2023-2027:

Þungi afborgana af langtímaskuldum mun vaxa verulega frá árinu 2021 til 2023. Talið er að fjármálin færist hratt til betri vegar eftir 2 ár eða svo. Hvað stendur á bak við slíka framtíðarsýn? Á hvaða forsendum byggja t.d. áætlanir um fimmföldun veltufjár frá rekstri við lok tímabilsins hjá A-hluta? Í aðgerðaáætlun meirihlutans er varla nokkuð hreyft við gríðarlegri yfirmönnun í stjórnsýslu borgarinnar. Athygli vekur að á sama tíma mun lausafjárstaða A-hluta versna og afborganir langtímaskulda meira en tvöfaldast. Langtímaskuldir vaxa ár frá ári á sama tíma og lítið sem ekkert stendur eftir af rekstri A-hluta borgarsjóðs til greiðslu afborgana og til fjárfestinga. Mikilvægt er að fyrir liggi hverjar eru forsendur fyrirhugaðrar endurreisnar á fjármálum A-hluta borgarsjóðs. Aðgerðaáætlun sem byggir á 92 úrbótatillögum meirihlutans skila rétt um einum milljarði í sparnað. Það er innan við 1% af heildarveltu A-hluta borgarsjóðs. Það er ekki mikil breyting, þrátt fyrir digur loforð um slíkt í aðdraganda kosninga sl. vor. Framundan eru stór og fjárfrek fjárfestingarverkefni sem fara á í á meðan skerða á enn frekar þjónustu við börn og unglinga.

 

Liður 3
Fjármálastefna Reykjavíkurborgar fyrir 2023 -2027

Öll meginmarkmið fjármálastefnu Reykjavíkur virðast horfin. Skýr langtímasýn um sjálfbærni og varfærni í fjármálastjórn borgarinnar var sá kjarni sem byggt var á en nú stefnir í 15.3 milljarða halla af rekstri borgarinnar. Hagræðingartillögur meirihlutans höggva ekki hvað síst í þjónustu við viðkvæmustu hópana og það á vakt jafnaðarflokksins Samfylkingarinnar. Staðan er það slæm að ekki er fyrirséð að stöðugleiki í fjármálum náist á næstu árum ef ekki verður mikil breyting á áherslum í rekstri borgarinnar. Flokkur fólksins kallar eftir ábyrgum ákvörðunum um aðhald í rekstri jafnframt því sem fjárfesta verði í samfélagslegum innviðum, arðsömum verkefnum og auknum lífsgæðum borgarbúa. Dregið hefur úr lífsgæðum fjölmargra borgarbúa. Fátækt hefur aukist og biðlistar eftir nauðsynlegri þjónustu í sögulegu hámarki. Stokka þarf spilin upp á nýtt og leitast við að tryggja að þörfum fólks sé mætt. Í því sambandi sé sérstaklega horft til barna, öryrkja á leigumarkaði og eldra fólk sem býr við bág kjör. Flokkur fólksins tekur undir mikilvægi grænna áherslna en það hlýtur að þurfa að byrja á að veita þá þjónustu sem kveðið er á um í sveitarstjórnarlögum. Í stuttu máli er fátt í fjármálastefnu borgarinnar sem vekur bjartsýni og tengir við Reykjavíkurborg um þessar mundir.

 

Liður 4
Bókun við tillögum meirihlutans:

Tillögur meirihlutans þótt margar séu ná of skammt þegar á heildina er litið. Flokkur fólksins ól þá von í brjósti að þjónustu við börn yrði hlíft en sú von er brostin. Leggja á niður starfsemi unglingasmiðja, stytta opnunartíma félagsmiðstöðva og segja á upp eða breyta til lækkunar þjónustusamningi vegna rekstrar þjónustumiðstöðvar fyrir eldri borgara við Sléttuveg 25-27.
Á sama tíma stendur meirihlutinn vörð um miðlæga stjórnsýslu og þjónustu- og nýsköpunarsvið sem fengið hefur á annan tug milljarða og sem stór hluti hefur farið í tilraunastarfsemi á stafrænum lausnum sem jafnvel hafa verið til „út í búð“. Mikil þensla hefur verið á þessum sviðum síðastliðin ár. Gengið er of skammt í að lækka fjárframlög til fjárfestinga eins og skreytingar og endurgerð torga og þrengingar gatna. Nær hefði verið að setja meira fjármagn í viðhald t.d. skólabyggingar. Reikna má að ekkert lát verði á tíðindum af myglu og rakaskemmdur húsnæði á vegum borgarinnar enda árum saman trassað að sinna viðhaldi. Ekki orð er minnst á að lögbundna þjónustu sem er víða ábótarvant eða biðlista barna eftir þjónustu fagfólks skóla sem farið hefur úr 400 börn í 2048 börn á fjórum árum. Slök fjármálasýsla og óábyrg fjármálastjórnun hefur verið lengi viðvarandi í borgarstjórn.

Liðu 5
Bókun við afgreiðslu meirihlutans á tillögum Flokks fólksins: 

Flokkur fólksins leggur fram 17 sparnaðartillögu og tillögur um breytta forgangsröðun í þágu viðkvæmra hópa. Lagt er til að foreldrar með tekjur undir 461.086 kr. á mánuði (þ.e. 5.533.032 kr. á ári) fái fríar skólamáltíðir í skólum borgarinnar fyrir börn sín og að fjárhæðin 30.2 milljónir komi til lækkunar áskriftargjalda innlendrar og erlendrar ráðgjafar sem þjónustu- og nýsköpunarsvið eyðir talsverðu fé í árlega.
Tillögur Flokks fólksins eru um eftirfarandi:
Hagræðingu og forgangsröðun í lögbundna þjónustu
Tilfærslu starfsfólks innan leikskóla í stað þess að segja fólki upp
Að hagræðingarkrafa verði hækkuð á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara
Að laun formanna íbúaráða verði lækkuð til jafns við laun annarra í ráðum
Lækkun útgjalda vegna leigubílaferða
Að lækka kostnað vegna utanlandsferða
Styrkingu dagforeldra
Flutning fjármagns innan borgarkerfis
Aukið fjármagn til námskeiða fyrir börn og foreldra
Tilraunaverkefni á útboði sorphirðu í einu póstnúmeri
Úttekt á húsnæðismálum öryrkja í Reykjavík
Úrbætur á aðgengi í skólum Reykjavíkurborgar
Vegna úrbóta á biðstöðvum
Breytingar á skipuriti Þjónustu- og nýsköpunarsviðs
um breytingar á þjónustuþáttum fyrir eldra fólk í eigin húsnæði
Meirihlutinn hefur fellt allar tillögur Flokks fólksins án raka og gildir einu hvort lagt er til að draga úr leigubílakostnaði eða tryggja fátækum barnafjölskyldum mat á diskinn.

Tillögur Flokks fólksins ásamt greinagerðum

F1 Tillaga um fríar skólamáltíðir

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að foreldrar þeirra verst settu fái fríar skólamáltíðir fyrir börn sín í leik- og grunnskólum Reykjavíkur. Í því felst að einstæðir foreldrar með tekjur undir 461.086 kr. á mánuði (þ.e. 5.533.032 kr. á ári) fái fríar skólamáltíðir í skólum borgarinnar fyrir börn sín. Miðað verði við frítekjumörk einstæðra foreldra sem njóta stuðnings og eru með tekjur undir kr. 5.533.032  á ári. Heildarkostnaður við tillöguna nemur 30,2 milljónum. Fjárhæðin komi til hækkunar á fjárheimildum skóla- og frístundasviðs og verði fjármögnuð með lækkun á fjárheimildum þjónustu- og nýsköpunarsviðs sbr. tillaga F-2

Greinargerð:

Talið er að einstæðir foreldrar, þ.e. öryrkjar, atvinnulausir og annað lágtekjufólk (ein fyrirvinna), búi við- og í hættu á að falla í fátækt. Samkvæmt Hagstofu Íslands eru börn einstæðra foreldra í Reykjavík 7.251 undir 18 ára (2021). Þar af er talið að 2.465 börn (34% barna) einstæðra foreldra búi við- og séu í hættu á að falla í fátækt. Það eru 811 börn í leikskólum og 1.654 börn í grunnskólum borgarinnar.

Samkvæmt gjaldskrá Reykjavíkurborgar fyrir árið 2023 kostar máltíð fyrir barn í leikskóla 13.270 kr. á mánuði og skólamáltíð í grunnskóla 11.744 kr. á mánuði. Tillagan felur í sér að börn einstæðra foreldra í leikskólum: þ.e. 811 börn fái frían morgunverð, hádegisverð, síðdegishressingu, þ.e. 13.270 kr. pr. barn á mánuði. Ennfremur fái börn einstæðra foreldra Í grunnskólum: 1.654 börn, fría skólamáltíð, þ.e. 11.744 kr. pr. barn á mánuði.

Frítekjumörk einstæðra foreldra, byggja á „framfærsluviðmiði“ Umboðsmanns skuldara (UBS). Þar er miðað við að fólk geti aðeins veitt sér lágmarksframfærslu um takmarkaðan tíma, meðan verið er að hjálpa fólki úr skuldavanda. Þegar talað er um lágmarks framfærsluviðmið er jafnframt miðað við – að fólk hefði tekjur sem duga til lágmarks­ framfærslukostnaðar. Lágmarks framfærsluviðmið (UBS) fyrir einstætt foreldri með eitt barn á framæri er kr. 249.455. Það er fyrir utan fæðiskostnað í skóla 11.631 og húsnæðiskostnað: Húsnæði er  170.000 kr. rafmagn, hiti, hússjóður og trygging 30.000 kr. Samtals: 461.086 kr. á mánuði. Árstekjur þurfa að vera 5.533.032 kr.

Í skýrslu um Lífskjör og fátækt barna á Íslandi (með leyfi forseta) 2004-2016 (Skýrsla unnin fyrir Velferðarvaktina), segir, m.a.: Brýnast er að bæta lífskjör einstæðra foreldra og barna þeirra. Nærri fjögur af hverjum tíu börnum undir lágtekjumörkum eru börn einstæðra foreldra. Allur þorri einstæðra foreldra er í neðri helming tekjudreifingar (Kolbeinn H. Stefánsson, 2019: 88).

Það er samhljóða niðurstöðum rannsóknar um: Lífsskilyrði barnafjölskyldna á Íslandi: Hvað getur skýrt bága stöðu einstæðra mæðra með börn á framfæri (Harpa Njáls, 2009: Rannsóknir í félagsvísindum X, 153-167).

Það er smánarblettur á okkar auðuga samfélagi hversu margir búa hér við sára fátækt. Fórnarlömb fátæktar eru ekki síst börn sem vegna fjárskorts foreldra geta ekki stundað þær íþróttir sem þau langar að stunda eða sinna öðrum áhugamálum. Áætlað er að um eða yfir 10% íslenskra barna búi á heimilum þar sem tekjur eru undir lágtekjumörkum. Áður hefur verið vísað, með leyfi forseta í skýrslu Barnaheilla um fátækt þar sem fram kemur að um 22% foreldra segjast ekki geta greitt skólamat fyrir börnin sín og um 19% segjast ekki geta greitt fyrir íþróttir eða tómstundir barna sinna.

Ójöfnuður ríkir innan menntakerfisins og vöntun er á opinberri áætlun um hvernig eigi að uppræta fátækt meðal barna hér á landi. Fátækt ógnar börnum í Reykjavík, börnum sem tilheyra fjölskyldum með erfiðar félagslegar og efnahagslegar  aðstæður,  fjölskyldur sem greiða um  70% af ráðstöfunartekjum tínum í húsaleigu. Ástandið hefur tekið toll af andlegri heilsu margra barna eins og sjá má á tilkynningum.

 

F2 Tillaga vegna lækkunar útgjalda til áskrifta, innlendrar- og erlendrar ráðgjafar

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að fjárheimildir þjónustu- og nýsköpunarsvið verði lækkaðar um 30,2 m.kr., vegna lækkunar áskriftargjalda og lækkunar innlendrar og erlendrar ráðgjafar. Fjárhæðinni verði varið til að mæta tekjutapi vegna frírra skólamáltíða barna einstæðra foreldra í leik- og grunnskólum, sbr. tillögu F-1

Greinargerð:

Tillagan felur í sér að þjónustu- og nýsköpunarsvið segi upp erlendum áskriftum að hluta til og samningum við erlend ráðgjafarfyrirtæki auk innlendra áskrifta og ráðgjafar.

 

F3 Tillaga um hagræðingu og forgangsröðun í lögbundna þjónustu

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að farið verður í að skilgreina lögbundið hlutverk Reykjavíkur og fjármagni forgangsraðað í lögbundna grunnþjónustu. Einnig er lagt til að farið verði í kerfisbundinn niðurskurð á skrifstofu borgarstjóra og í annarri stjórnsýslu borgarinnar þar sem flestar ráðningar hafa átt sér stað og mesta þenslan. Einnig leggur fulltrúi Flokks fólksins til að skoðað verði ráðningarbann í eitt ár í miðlægri stjórnsýslu ásamt því að stofnaður verði vinnuhópur allra flokka í borgarstjórn sem hefur það hlutverk að fara í saumana á áætlanagerð borgarinnar í þeim verkefnum sem farið hafa fram úr áætlun ásamt því að koma með tillögur um nýtt verklag.

Greinargerð:

Fulltrúi Flokks fólksins telur að í ljósi mikils hallareksturs borgarsjóðs og ráðningarbanni borgarstjóra í kjölfar þess, að fara þurfi í enn frekari aðhaldsaðgerðir innan borgarinnar. Ljóst er að fyrrverandi meirihluti, sem er nánast sá sami og núverandi, hefur með ákvörðunum undanfarinna ára stuðlað a.m.k. að einhverju leyti  að þeirri stöðu sem nú er komin upp. Við bættist Covid og afleiðingar þess.
Það þarf að fara ofan í rekstur borgarinnar á heildstæðan hátt og vinda ofan af þeirri eyðslu sem átt hefur sér stað í hinum og þessum gæluverkefnum meirihlutans í borginni.

Flokkur fólksins vill horfa til þjónustu- og nýsköpunarsviðs. Flokkur  fólksins hefur núna í næstum 3 ár gagnrýnst þann gengdarlausa fjáraustur sem búið er að veita í þá tilraunakenndu nálgun Þjónustu og nýsköpunarsviðs í stafrænni umbreytingu. Þrátt fyrir mikla gagnrýni frá innlendum fagaðilum sem og öðrum, hefur meirihutinn haldið ótrauður áfram að ausa fjármagni í þessa tilraunastarfssemi sem oft á tíðum lítið hefur komið úr úr hingað til. Áfram er haldið. Hagræðing er lítil, aðeins á að fækka um 1 stöðugildi.Fjármagnið sem eytt hefur verið er tapað og afurðir sem eftir liggja ekki í neinu samræmi við milljarðana.

Samkvæmt erlendum rannsóknum er það vitað að stór hluti þess fjármagns sem opinberir aðilar hafa eytt  í stafræna þróun og nýsköpun, er glatað fé þegar miðað er við áþreifanlegan árangur.

 

F4 Tillaga um tilfærslu starfsfólks innan leikskóla í stað þess að segja fólki upp

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að í stað uppsagna á starfsfólki í leikskólum borgarinnar verði tilfærslur á núverandi starfsfólki á milli starfsstaða eftir því sem nauðsynlegt er vegna skipulagsbreytinga.

Greinargerð:

Tillagan felur í sér að engum starfsmanni verði sagt upp á leikskólum borgarinnar heldur verði fólk fært frekar til í störfum eftir því sem reynist nauðsynlegt vegna skipulagsbreytinga t.d. í kjölfar Covid.

Við fyrstu umræðu kom það fram hjá meirihlutanum að fækka ætti starfsfólki á leikskólum. Um þetta var fjallað í öllum fjölmiðlum í kjölfarið. Talað var um eina 75 starfsmenn í leikskólum sem sagðir eru hafa verið ráðnir vegna Covid. Þessar upplýsingar komu eins og reiðarslag í ljósi mikillar manneklu á  leikskólum borgarinnar. Vandræðagangurinn vegna manneklu í leikskólum á sér engin takmörk. Dæmi eru um að foreldrar séu  beðnir að sækja börn sín jafnvel klukkustund eftir að þau koma á leikskólann af því það er mannekla og veikindi. Flokkur fólksins leggur til að haldið sé í hvern einasta starfsmann leikskóla þótt hann hafi verið ráðinn til að sinna hólfun vegna Covid.

 

F5 Tillaga um skipulagsbreytingar hjá skrifstofu borgarstjóra og borgarritara

Flokkur fólksins leggur til að hagræðingarkrafa verði hækkuð á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.

Greinargerð:

Hér mætti bæði sameina verkefni og undirskrifstofur og einfalda verkferla. Sum verkefni mega fara á bið og jafnvel einhver má hætta við. Sum kunna að vera barn síns tíma og tímabært að leggja þeim. Til stendur að fækka um einn starfsmann en ganga þarf lengra enda hefur þensla skrifstofunnar verið einna mest innan borgarkerfisins.

Áfram á að hafa það að markmiði að  draga úr eða fresta ráðning­um þar sem við á og draga úr launa­kostnaði. Rúm­lega 60% af rekstr­ar­út­gjöld­um A-hluta borg­ar­sjóðs í hlut­falli við tekj­ur er launa­kostnaður. Þetta hlut­fall hef­ur farið hækk­andi á síðustu árum og úti­lokað að ná fram hagræði í rekstri nema tak­ast á við þenn­an stærsta út­gjaldalið borg­ar­inn­ar með mark­viss­um hætti.

 

F6 Tillaga um breytingar á íbúaráði

Flokkur fólksins leggur til að laun formanna íbúaráða verði lækkuð til jafns við laun annarra í ráðum.

Greinargerð:

Greiðslur til formanns íbúaráðs eru 140 þúsund krónur fyrir hvern fund. Flokkur fólksins telur að til viðbótar við lækkun launa þá verði einnig gerðar þær breytingar að formennska verði róteruð milli íbúaráðsfulltrúa. Sjálfsagt er að formennskan fari milli ráðsmanna t.d. í eitt ár í senn. Það er lýðræðislegt og gefur minnihlutafulltrúum ráðsins ríkara vægi í ráðinu.

 

F7 Tillaga um lækkun útgjalda vegna leigubílaferða

Flokkur fólksins leggur til að notkun leigubíla fyrir starfsfólk borgarinnar verði eingöngu í undantekningartilfellum.

Greinargerð:

Leigubílanotkun er afar misjöfn eftir sviðum. Ef tekið er árið 2020 (fyrir COVID) er velferðarsvið hástökkvari í leigubílanotkun með 35.171.154 kr. Af þessu má draga þá ályktun að velferðarsvið hlýtur að verða að fara að skoða hvort ekki sé hægt að taka færri leigubíla. Finna þarf aðrar leiðir til að koma starfsfólki milli staða í þeim tilfellum sem þess þarf, öðruvísi en að notast við rándýran ferðamáta eins og leigubíla. Meirihlutinn í borgarstjórnar hefur linnulaust hvatt borgarbúa til að hjóla eða taka strætó og slíkt ætti allt eins að eiga við borgarstarfsmenn.

Flokkur fólksins spurðist fyrir um leigubílakostnað starfsmanna borgarinnar í maí 2022. Ástæða fyrirspurnarinnar er að eftir því hefur verið tekið að þegar viðburðir eru á vegum velferðarsviðs má sjá eitthvað starfsfólk koma á leigubíl, stundum nokkrir saman í bíl en stundum einn í bíl.
Í svari frá velferðarsviði er aðeins sundurliðað hve mikill heildarkostnaður var á hvert undirsvið velferðarsviðs og svo tekið dæmi um hvaða ástæður liggi að baki mestum hluta kostnaðarins, þ.e. „Önnur notkun á leigubílum er vegna vitjana á heimili, starfsstaði eða á fundi.“ Ekki er hægt að sundurliða notkunina meira en þetta. Kjörnir fulltrúar verða að hafa nákvæmari upplýsingar til að geta sinnt sínu aðhaldshlutverki.  Hvað sem þessu líður er fjárhæðin há sem fer í leigubílakostnað sérstaklega á velferðarsviði. Það er alltaf hægt að réttlæta hvers konar útgjöld með vísan í að “réttir aðilar” hafi gefið grænt ljós vegna þeirra og að almennt séu góðar ástæður fyrir þeim.

 

F8 Tillaga um að lækka kostnað vegna utanlandsferða

Flokkur fólksins leggur til að öll svið og ráð stilli ferðum erlendis í hóf næsta ár vegna fjárhagsstöðu borgarinnar.

Greinargerð:

Notast skal við fjarfundarbúnað og streymi í stað þessa að taka sér ferð á hendur. Reynist nauðsynlegt að fara erlendis nægir að einn fari og deili reynslu og upplifun af fundi/ráðstefnu með samstarfsfólki þegar heim er komið. Það er allt of algengt að þegar t.d. borgarstjóri fer í ferðir erlendis að hann þurfi alltaf einhvern með sér. Fara á vel með skattfé borgarbúa og frítt föruneyti með borgarstjóra til útlanda flokkast ekki undir að fara vel með fé. Í síðustu vikunni í nóvember fór borgarstjóri í fjögurra daga ferð til Kaupmannahafnar og Parísar ásamt aðstoðarmanni. Ekki fylgdi kostnaður með þegar tilkynnt var um fyrirhugaða ferð í borgarráði. Stuttu áður tók borgarstjóri ferð á hendur til Barcelona, og til Amsterdam í október, ásamt fylgdarliði. Borgarfulltrúi kallar hér eftir betri ráðdeild með fjármuni borgarinnar.

 

F9 Tillaga um styrkingu dagforeldra

Flokkur fólksins leggur til að veittir verði styrkir til dagforeldra vegna ákveðins fjölda barna og aðstöðustyrks. Útgjaldaaukningin verði fjármögnuð af ófyrirséð.

Greinargerð:

Haustið sem nú hefur kvatt hefur verið einstaklega erfitt fyrir dagforeldra en i á annan hátt en  áður,  foreldrar hafi sagt upp plássunum sínum þar sem þau fengu úthlutað leikskólaplássi og dagforeldrar fyllt í þau pláss strax. Svo kemur uppá að þeir foreldrar fá svo ekki leikskólaplássin sín og sitja eftir með sárt ennið með ekkert pláss og dagforeldrar geta lítið hjálpað þar og erfitt að vísa frá. Stundum bjóða leikskólarnir pláss með stuttum fyrirvara. Starfsöryggi dagforeldra hefur verið í uppnámi lengi. Neyðarástand ríkti í málefnum leikskólanna í haust þegar í ljós koma að plássum sem búið var að úthluta voru ekki til. Þau voru ekki til því ekki var búið að byggja leikskólana. Þessi mál eru enn í miklum ólestri enda þótt búið sé að reyna að kroppa í vandann og róa foreldra. Allir flokkar í borgarstjórn lögðu sitt af mörkum með því að koma með tillögur til lausna. Tillögur Flokks fólksins um styrki til þeirra verst settu foreldra og tilboð um heimagreiðslu til foreldra sem það gátu nýtt sér voru aldrei afgreiddar. Allir flokkar voru þó sammála um að styðja við dagforeldra til að styrkja starfsöryggi þeirra og fjölga dagforeldrum en flótti hefur orðið úr stéttinni  undanfarin ár. Ákveðið var að til hækkunar kæmi  á niðurgreiðslu til dagforeldra vegna barna hjá dagforeldrum. Hækkunin er óveruleg, 3220 kr. sem hækkunin hljóðar uppá hjá giftum/sambúðarfólki með vistun í 8,5 tíma. Hækkunin var skammarlega lág, eiginlega nánasarleg. Í raun er þetta nánasarleg hækkun og eins og margir hafa orðað það, dugar ekki fyrir einni pizzu. Fulltrúi Flokks fólksins taldi, miðað við umræðu í ágúst og september að hækkunin yrði talsvert hærri, í það minnsta að hún skipti sköpum í lífi fjölskyldna sem hér um ræðir. Þess vegna telur borgarfulltrúi Flokks fólksins að nú sé rétt að gera betur við dagforeldra til að styrkja stöðu þeirra og fá fleiri um borð. Lagt er til að bjóða dagforeldrum sem að ekki eru með 4-5 börn viðbótarniðurgreiðslu og einnig aðstöðustyrk til allra dagforeldra í Reykjavík sem áður hefur verið samþykktur en síðan ákveðið að yrði ekki greiddur í bráð. Þessi viðbótarniðurgreiðsla myndi hjálpa þeim dagforeldrum sem ekki hafa náð að fylla í plássin sín. Aðstöðustyrkurinn væri til að efla dagforeldra og bæta kjör þeirra og  aðstöðu.

 

F10 Tillaga um flutning fjármagns innan borgarkerfis

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að hækka enn frekar viðhaldskostnað til skólabygginga og annarra bygginga þar sem börn stunda nám eða tómstundir. Verkefni eins og endurgerð Lækjartorgs, Kirkjustrætis eða annarra skreytingatorga/mannvirkja verði sett á bið og fjármagnið verði flutt þaðan í skólabyggingar.

Greinargerð:

Nánast vikulega koma nýjar fréttir af myglu í byggingum á vegum borgarinnar. Myglu- og rakavandamál hafa komið upp í 27 skólum frá 2018. Yfir þúsund börn stunda nám annars staðar. Þetta kemur fram í samantekt frá borginni. Raskið er mikið m.a.  vegna fjarlægðar frá skólalóð. Ástæður er leki frá gluggum og þökum, illa hönnuð hús, steypa að súrna og skortur á rakavörnum. Fyrir liggur fjárfestingarstefna, ákveðnar upphæðir sem eyða má í fjárfestingar. Þar er forgangurinn án efa réttur, þ.e. húsnæðisuppbygging og viðhaldsmál og verkefni sem klárlega stuðla að vexti borgarinnar. Viðhaldsþátturinn er stærri og meiri en áætlað hefur verið og þarf því að skoða að bæta í hann.

Í fyrra lagði Flokkur fólksins það til að skoðað yrði uppgjör á innri leigu og skil til sviða vegna viðhalds á þriggja ára fresti. Sú tillaga var felld eins og aðrar tillögur minnihlutans. Það er ekki fast í hendi að sá hluti innri leigu sem innheimtur er af skólum og öðrum stofnunum borgarinnar og ætlað er til viðhalds fari í viðhald en sé ekki notað í annað. Lagt er til að skoðað verði uppgjör á innri leigu og skil til sviða vegna viðhalds á þriggja ára fresti. Eldra húsnæði er viðkvæmast. Flokkur fólksins er með það á hreinu  hversu stór hluti innri leigu af skólum fari í a) raunverulegt viðhald og endurbætur á skólum og b) byggingu nýs skólahúsnæðis. Þannig verði skýr greinarmunur gerður á því hvaða hluti innri leigunnar fari í raunverulegan húsnæðiskostnað skóla og hvaða hluti fari bara í afborganir af einhverjum lánum, eða annarra óskyldra verkefna. Margsinnis hefur komið ábending frá innri endurskoðun um að  ósamræmi sé á milli þess sem fram kemur í forsendum fyrir viðhaldi eigna í útreikningi á innri leigu og þeirri upphæð sem fer í raunverulegt viðhald. Í skýrslum sínum hefur innri endurskoðandi bent á að endurskoða þurfi forsendur fyrir útreikningi á innri leigu miðað við þau markmið sem innri leigu er ætlað að standa undir.

 

F11 Tillaga um aukið fjármagn til námskeiða fyrir börn og foreldra.  

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að farið verði í að fjölga tíðni nauðsynlegra námskeiða fyrir börn og foreldra. Útgjaldaaukinn verður tekinn af liðnum ófyrirséð.

Greinargerð:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur fengið fjölmargar kvartanir frá svekktum foreldrum sem hafa beðið lengi eftir að börnin þeirra komast á námskeið sem þessi enda talin afar hjálpleg og gefandi fyrir börnin. Ekki skortir fagfólk til að sinna þessum verkefni, það þarf að ráða fleiri og það kostar fjármagn. Þessi námskeið geta ýmsir fagaðilar haldið utan um og sinnt að undangenginni þjálfun. Eðlileg bið gæti verið 2-3 vikur en biðin á ekki að þurfa að vera lengri.

Biðin er slæm fyrir börn og auðvitað alla aðra líka en á sama tíma bíða á fjórða hundrað barna  eftir að komast á helstu námskeið á vegum borgarinnar s.s. PMTO foreldranámskeið, Klóka krakka og fleiri námskeið. PMTO námskeiðin hafa gefið sérlega  góða raun. Börn og aðrir viðkvæmir hópar eiga einfaldlega ekki að þurfa að bíða. Hér eiga valdhafar að sjá sóma sinn og forgangsraða fjármunum í þágu þjónustu við fólkið. Nýlega kom út ársskýrsla velferðarsviðs. Fulltrúa Flokks fólksins fannst sérstaklega athyglisverðar upplýsingarnar um stuðningsþjónustu fyrir börn og foreldra. Þar koma fram algengustu ástæður tilvísana barna til stoðþjónustu. Aukning er á öllum ástæðum tilvísana. Langmesta aukningin milli ára er hins vegar vegna tilfinningalegs vanda, eða um 63% og vegna málþroskavanda, eða 62%. Einbeitingarvandi hefur aukist frá 280 í 456 börn. Hér eru án efa vísbendingar um ADHD.

 

F12 Tillaga um tilraunaverkefni á útboði sorphirðu í einu póstnúmeri

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að farið verði í útboð á sorphirðu í einu póstnúmeri innan Reykjavíkur ásamt því að kanna hagkvæmni á útboði vegna þjónustu við djúpgáma.

Greinargerð:

Öll sveitarfélög önnur en Reykjavík bjóða út sorphirðu og er ekki að sjá annað en að slíkt hafi reynst vel. Flokkur fólksins leggur til að gerð verði hagkvæmnisúttekt á þjónustu við djúpgáma með þeim tækjum og tólum sem til þess þarf en SORPA hyggst sjálf þjónusta djúpgáma. Flokkur fólksins bendir í þessu sambandi á skýrslu norrænu samkeppniseftirlitanna frá 2016 „Competition in the Waste Managment Sector. Preparing for a Circular Economy“. Löngu er tímabært að auka flokkun á söfnunarstað en í þessu stóra verkefni þarf að huga að kostnaði. Það er skylda sveitarfélags að fara vel með fjármagn, útsvar borgarbúa og finna ávallt hagkvæmustu leiðirnar. Í þessu stóra verkefni er ekki að sjá að kannað hafi verið hvort hagkvæmara sé að bjóða út einstök verk og verkefni eins og flest önnur sveitarfélög hafa gert. Þetta gagnrýnir fulltrúi Flokks fólksins.

 

F13 Tillaga um úttekt á húsnæðismálum öryrkja í Reykjavík 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að skipaður verði starfshópur til að gera úttekt á búsetuhögum öryrkja og búsetuúrræðum í Reykjavík. Óskað er eftir því að lögð verði áhersla á þá aðila sem eru á leigumarkaði með hliðsjón af niðurstöðum rannsóknar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands sem unnin var fyrir ÓBÍ.

Greinargerð:

Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði rannsókn á húsnæðismálum fatlaðs fólks fyrir ÖBÍ réttindasamtök og var skýrsla með niðurstöðum hennar kynnt 17. nóvember 2022. Þær leiddu í ljós að 58% öryrkja búa í eigin húsnæði samanborið við 74% allra fullorðinna. 29 prósent öryrkja eru á leigumarkaði en 13 prósent allra fullorðinna hér á landi. Öryrkjar á leigumarkaði sögðu almennt erfitt að fá leigt húsnæði á almennum markaði og sögðust greiða stóran hluta tekna sinna í í rekstur húsnæðisins. Alls sögðust 12% greiða meira en 75% útborgaðra launa en 25% greiða á milli 51% og 75%. Þá reyndust öryrkjar tvöfalt líklegri en aðrir til að hafa miklar áhyggjur af húsnæðiskostnaði, eða 38% samanborið við 19%. Með hliðsjón af þessum niðurstöðum er brýnt að láta gera úttekt á búsetuhögum öryrkja og búsetuúrræðum sem þeim standa til boða í Reykjavík og leggja þá úttekt til grundvallar við stefnumótun og ákvarðanatöku í húsnæðismálum borgarbúa.

 

F14 Tillaga um úrbætur á aðgengi í skólum Reykjavíkurborgar

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til skoðað verði hvernig hægt sé að leysa þann aðgengisvanda sem er að finna í skólum Reykjavíkurborgar. Fjármagn verði flutt frá verkefnum eins og þrengingu gatna og endurgerð á Lækjartorgi og það fjármagn nýtt til að bæta aðgengi fyrir fötluð börn að skólum og öðrum samkomustöðum barna.

Greinargerð:

Rannsóknir hafa sýnt að aðgengi að skólum og stöðum þar sem frístundastarf barna fer fram er víða ábótavant og jafnvel mjög slæmt. Fötluð börn hafa reynslu af ýmiskonar aðgengishindrunum stundum vegna þrengsla og þá óttast þau að detta, og einnig þar sem eru aðeins tröppur en engin lyfta. Oft er jafnvel tregða að gera breytingar á húsnæði til að gera það aðgengilegt, sér í lagi þegar kemur að gömlum húsum. Í þessu þarf að gera betur að mati Flokks fólksins. Aðgengi snýst ekki aðeins um aðgengi fyrir hjólastóla, það snýst einnig um aðgengi fyrir sjón- og heyrnarskerta. Þetta er í samræmi við Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem var lögfestur á Alþingi 20. febrúar 2013 með lögum nr. 19/2013.

 

F15 Tillaga vegna úrbóta á biðstöðvum

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að verkefni um endurgerð og lagfæringum biðstöðva verði hraðað, og bætt verði við að minnsta kosti 50 biðstöðvum umfram það sem áætlað er. Fjármagn verði flutt frá verkefnum eins og þrengingu gatna og endurgerð á Lækjartorgi/Kirkjustræti.

Greinargerð:

Árið 2020 var gerð úttekt á biðstöðvum hvað varðar aðgengi. Skoðað var yfirborð Þá voru yfir 500 biðstöðvar metnar ófullnægjandi. Til stóð að lagfæra 12 sem voru allra verst farnar bæði um aðgengi og yfirborð.  Við þá tölu hefur nokkrum  verið bætt við á þeim tveimur árum sem liðin eru. Í úttektinni kom fram að aðeins 11 biðstöðvum af 556 var aðgengi viðundandi.  Flokkur fólksins lagði fram tillögu 2019 um endurbætur á öllum biðstöðvum strætó sem voru þá víða í lamasessi. Tillagan kom til afgreiðslu þremur árum síðar og var þá felld.Aðgengi og lélegt yfirborð stétta við strætó biðstöðvar hefur auðvitað komið verst niður á fötluðu fólki. Staðfest var í umsögn með málinu að endurbætur eru á bið vegna væntanlegrar borgarlínu sem búið er að upplýsa um að tefjist um 3-5 ár. Flokkur fólksins óttast að þessi mál verði látin danka. Nú hefur borgarlínuverkefnið tafist og er því enn ríkari ástæða til að endurbæta biðstöðvar. Flokkur fólksins telur að endurmeta verði endurbætur á þeim fjölda biðstöðva sem eru í lamasessi í ljósi fyrirsjáanlegrar seinkunnar.

 

F16 Tillaga um breytingar á skipuriti Þjónustu- og nýsköpunarsviðs

Lagt er til að borgarstjórn samþykki að gera svohljóðandi breytingar á skipuriti og innra skipulagi þjónustu og nýsköpunarsviðs Reykjavíkur:

Nafni sviðsins verði breytt í „Upplýsinga og þjónustusvið Reykjavíkurborgar“ sem skiptist í eftirfarandi starfseiningar:

  • Skrifstofa sviðsstjóra: Ber ábyrgð á fjármálum, áætlanagerð, mannauðs- og persónuverndarmálum og því að markmiðum sviðsins sé náð.
  • Verkefnastýring og þróun: Umsjón með stafrænni umbreytingu, ráðgjöf og eftirfylgni.
  • Borgarskjalasafn:Allar skjalaeiningar ásamt gagnaþjónustu og allri rafrænni skjala- og teikningavinnslu. Umsjón með innleiðingu upplýsingastjórnunarkerfa.
  • Upplýsingaþjónusta: Þjónustuver Reykjavíkurborgar ásamt einni rafrænni þjónustumiðstöð sem heldur utan um rafrænar umsóknir fyrir öll svið og skrifstofur borgarinnar. Umsjón með vefjum Reykjavíkurborgar.
  • Tækniþjónusta: Tækniborð, tækjaumsjón og kerfisrekstur.

 

Greinargerð:

Í ljósi slæmrar fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar er þörf á markvissum aðgerðum til þess að draga úr eyðslu og hefja aðgerðir til árangurs í þeim málaflokkum sem borginni ber skylda til þess að sinna. Í stað þess að Reykjavíkurborg haldi áfram með viðamiklar notendarannsóknir, uppgötvanir og  þróun á lausnum verður í staðinn leitað til fyrirtækja á einkamarkaði sem bestu reynsluna hafa á því sviði.

Það er löngu þekkt að miðstýrðar nýsköpunaráætlanir í opinbera geiranum hafa að stærstum hluta mistekist eða tekið langan tíma í framkvæmd með tilheyrandi kostnaði. Fyriræki á einkamarkaði ásamt sprotafyrirtækjum hafa tekið langt fram úr hinu opinbera í þessum efnum. Einföldun allra þjónustuferla borgarinnar gagnvart borgarbúum er eins og flestir vita nauðsynleg. En það er ekki það eina sem þarf að einfalda. Flókið innra skipulag í formi útbólginnar stjórnsýslu er fyrirbæri sem einnig þarf að takast á við. Í þessum breytingartillögum mun felast sparnaður vegna samlegðaráhrifa þar sem Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög ásamt ríkinu, leggjast á eitt við að veita almenningi sambærilega rafræna þjónustu. Sparnaður felst í því  að fækka skrifstofum og millistjórnendum sviðsins með því að sameina skrifstofur sem hafa með samþætta starfsemi að gera. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur auk þess til  til að eflt verði til muna samstarf með Sambandi Íslenskra sveitarfélaga og Stafrænu Íslandi varðandi sameiginlegt útboð lausna og innleiðinga. Reykjavíkurborg taki þátt í uppbyggingu sameiginlegs þekkingarbrunns sveitarfélaga og ríkisins varðandi stafræna umbreytingu.

Allar skjalaeiningar Reykjavíkurborgar ásamt gagnaþjónustu verða færðar undir Borgarskjalasafn. Með því er allri skjala- og gagnavinnslu Reykjavíkurborgar ásamt innleiðingu upplýsingastjórnunarkerfa, komið á einn stað sem auðveldar heildaryfirsýn allra skjalamála borgarinnar.

Öll upplýsingamiðlun Reykjavíkurborgar verður einfölduð og efld með sameiningu skrifstofa sem hafa með ýmiskonar upplýsingamiðlun til íbúa að gera, undir einni skrifstofu Upplýsingaþjónustu.

Rafræn þjónusta Reykjavíkurborgar er í grunninn ekkert öðruvísi en sú rafræna þjónusta sem aðrir opinberir aðilar eru að veita og nýtist íbúum best ef um ákveðið samræmi er að ræða. Það á ekki að skipta máli hvert fólk flytur ef viðmót þeirrar rafrænu þjónustu sem í boði er, breytist lítið sem ekkert óháð því hvar fólk býr. Þegar upp er staðið er það þjónustan við notendur hvar sem þeir búa á hverjum tíma, sem öllu máli skiptir.

Reykjavíkurborg er ekki hugbúnaðarfyrirtæki heldur á að leita samninga við reynslumikil hugbúnaðarfyrirtæki á einkamarkaði um tilbúnar lausnir. Ríkið hefur einmitt farið þá leið að nýta þekkingu einkafyrirtækja varðandi innleiðingu lausna sem nú þegar eru til eða er verið að þróa áfram.

Flokkur fólksins hefur lagt til að Innri Endurskoðun verði falið það verkefni að gera ítarlega úttekt á því hvað útvistun notendaþjónustu Reykjavíkurborgar hefur kostað borgarsjóð. Einnig að Innri Endurskoðun beri saman með nákvæmum hætti mismundandi kosti með það í huga að fá sem gleggsta mynd af raunverulegum kostnaði eða sparnaði ef hann er til staðar. Nýta á áfram verktaka í notendaþjónustu á álagspunktum eins og áður, en samhliða þjónustukjarna fastra starfsmanna.

Þegar farið er yfir verkefnastöðu þjónustu- og nýsköpunarsviðs má sjá að ekki liggja fyrir skýr verkefnatengd markmið með nákvæmri tíma- og framkvæmdaráætlun samkvæmt nútímakröfum um eftirfylgni og árangur. Flest verkefni hafa verið og eru enn í einhvers konar tilrauna- og þróunarfasa eins og verið sé að finna upp hjólið. Samtök iðnaðarins og aðrir fagaðilar hafa bent á að Reykjavíkurborg hafi verið að ráða til sín tugi sérfræðinga með það að markmiði að hefja hugbúnaðarframleiðslu í beinni samkeppni við fyrirtæki á einkamarkaði.

Þær tillögur sem hér eru lagðar fram fela í sér að „notendarannsóknum“ í þeim mæli sem þær hafa verið, verði hætt og Gróðurhúsið og aðrar tilraunasmiðjur með tilheyrandi kostnaði verði lagðar niður. Leitað verður þess í stað til fagaðila sem tækju að sér stutt verkefni varðandi greiningarferla þegar á þarf að halda.

Áralöng hugmynda- og tilraunastarfsemi sem Þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur verið með í gangi undir merkjum Gróðurhússins og annarra verkefnastofa, hefur hvorki skilað afurðum né raunverulegum lausnum til borgarbúa að heitið geti.  Tilraunastarf þarf ekki að vinna þegar lausnir eru til staðar og hafa farið í gegnum innleiðingarferli með góðum árangri annarsstaðar.

Stafrænar lausnir eru framtíðin og munu flýta fyrir þjónustu. Staðan í Reykjavík er slæm. Það líður varla sú vika að þjónustuþegar kvarta ekki yfir seinagangi í afgreiðslu umsókna hjá borginni og skorti á tilbúnum lausnum sem beðið hefur verið eftir. Sem dæmi hefur stór hluti leikskólainnritunar hefur verið ábótavant með tilheyrandi óhagræði og skorti á yfirsýn fyrir bæði stjórnendur sem og foreldra.

Það virðist vera sem stór hluti þeirra fjármuna sem úthlutað hefur verið í stafræna umbreytingu, hafi endað inn á sviðinu sjálfu í margvíslegar innri breytingar sem margar hverjar munu í þokkabót þýða enn meiri útgjöld þegar fram líða stundir. Það er hlutverk innri endurskoðunar að fara gaumgæfilega yfir rekstur sviðsins með framangreinda kostnaðaraukningu í huga.

Fulltrúi Flokks fólksins telur að sviðið, sem er ábyrgt fyrir því hvernig fjármagnið er notað, hafi á vissan hátt verið að leika sér með peninga útsvarsgreiðenda. Strax í byrjun hefði átt að leita að lausnum sem þá þegar voru til og farnar að virka. Dæmi um það eru „rafrænar undirskriftir“ sem Þjónustu- og nýsköpunarsvið var lengi með í uppgötvunarfasa og fór svo með í einhvern þróunarfasa á sama tíma þegar fjölmörg fyrirtæki og stofnanir voru fyrir löngu búnar að innleiða þessar lausnir. Hagkvæmast hefði verið að eiga samvinnu við önnur sveitarfélög og Stafrænt Ísland í þeim málum sem öðrum.

Fulltrúi Flokks fólksins hefur gagnrýnt þetta í meira en þrjú ár, með bókunum, blaðaskrifum og fyrirspurnum og lifir enn í þeirri von að dropinn holi steininn. Því miður eru tugir eða hundruð milljóna flognar út um gluggann í óskilgreinda ráðgjöf frá erlendum og innlendum fyrirtækjum og tilraunaverkefnum sviðsins, án skilgreindra markmiða og óviss árangurs.

 

F17 Tillaga um breytingar á þjónustuþáttum fyrir eldra fólk í eigin húsnæði

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að stofnað verði sálfélagslegt meðferðarúrræði fyrir eldri borgara sem búa á hjúkrunarheimilum eða í heimahúsi til að fyrirbyggja eða draga út notkun geðlyfja.

Greinargerð:

Flokkur fólksins leggur til að sérstaklega sé gert könnun á hvar skóinn kreppir í heimaþjónustu og aðstoð við eldra fólk sem býr heima. Margir af þeim hópi búa einir.

Hvað varðar viðbótarþjónustuþætti þá á eldra fólk oft erfitt með ákveðnar hreyfingar þegar árin færast yfir. Það eru hreyfingar sem verk sem kallar á að bogra eða teygja sig upp. Verkefni eins og að setja í þvottavél, taka úr þvottavél og setja í þurrkara eða hengja upp geta reynst sumu eldra fólki erfið. Einnig að skipta á rúmi eða sjá um flokkun sorps og koma sorpi út úr húsi t.d. um hávetur. Lagt er til að eftirfarandi þætti verð skoðaðir sérstaklega

  1. Flokka sorp og koma sorpi út úr húsi
  2. Taka úr þvottavél og hengja upp þvott
  3. Skipta á rúmi

Allt kallar þetta á ákveðna hreyfigetu sem aldrað fólk sem vill búa eins lengi heima getur kannski ekki. Þessari þjónustu verður velferðarsvið að koma á laggirnar án vandkvæða. Aðstæður eldri borgara sem búa heima eru mismunandi. Sumir eldri borgarar sem búa einir eiga ekki ættingja eða vini sem þeir geta leitað til eftir aðstoð með þætti sem þjónusta velferðarsviðs býður ekki upp á.

Hvað varðar sálfélagslegt úrræði þá hefur borgarfulltrúi Flokks fólksins áhyggjur af einmannaleika hjá þessum hópi.  Þessi hópur er einnig sennilega sá sem minnst er tæknivæddur og ekki allir nota þá velferðartækni sem er þó í boði. Kanna þarf með þennan hóp núna en ekki bíða eftir að aðgerðarplan Lýðræðisstefnu komi í virkni.  Einnig er bent á að fólkið sjálft er  kannski ekki að leita eftir meiri stuðning. Það eru margir á þessum aldri sem vilja ekki láta hafa mikið fyrir sér, vilja ekki gera neinar kröfur og láta sig frekar hafa einmanaleika. Finna þarf þá sem þarfnast félagsskapar og sálfélagslegs stuðnings og koma til þeirra með tilboð um hvorutveggja eftir atvikum.