Skipulags- og umhverfisráð 21. október 2020

Bókun Flokks fólksins við liðnum Sjómannaskólareitur, breyting á deiliskipulagi

Fulltrúi Flokks fólksins áttar sig ekki alveg á hvar þetta mál er statt í hugum íbúa og þeirra sem vilja standa vörð um þetta fallega svæði í borgarlandinu. Sú breyting sem hér er gerð hljómar kannski vel en eru íbúar í nágrenninu sáttir? Fulltrúi Flokks fólksins vill fá álit íbúa/borgarbúa á henni. Margar kærur bárust og bakkað var með ákveðna þætti en aðra ekki. Talað erum um ívilnandi ákvarðanir að minnka byggingarmagnið og er það vissulega gott. Málið er enn óljóst í huga fulltrúa Flokks fólksins. Eitt er vitað fyrir víst að þessi reitur hefur tilfinningagildi fyrir fjölmarga enda einn fallegasti reitur borgarinnar. Er búið að leysa úr öðrum málum, mögulegs skuggavarps sem deiliskipulagið mun leiða af sér og útsýnisskerðingar yfir Háteigsveg, Hallgrímskirkju? Það er ósk Flokks fólksins að málinu verði frestað þar til að búið er að kynna þessar breytingar fyrir íbúum í nágrenninu og öðrum sem vilja láta sig málið varða.

Bókun Flokks fólksins við liðnum Hverfisgata 19 (Þjóðleikhúsið), óleyfisframkvæmd:

Ekki er betur séð en að vel virðist hafa verið staðið að breytingum á Þjóðleikhúsinu. Verkið var unnið í samráði við Minjastofnun og reynt er að fylgja þeim tíðaranda sem var þegar húsið var byggt. Tími sem gafst þegar hlé var á sýningarhald vegna COVID var nýtt til þessara endurbóta. Breytingar eru afturkræfar. En það láðist að fá leyfi hjá byggingarfulltrúa. Miðað við aðstæður er hægt að fyrirgefa það. Það geta vissulega allir gert mistök sem slík og þar sem allar breytingar eru afturkræfar og Minjastofnun er sátt sér fulltrúi Flokks fólksins ekki ástæðu til að dvelja við þetta mál. Vissulega þurfa öll öryggismál s.s. brunamál að vera í lagi.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um stöðu LEAN hugmyndafræði:

Árið 2018 var ákveðið að innleiða LEAN. Flokkur fólksins óskar að fá upplýsingar um hvar innleiðing LEAN aðferðarfræðinnar er stödd hjá sviðinu (USK), hvað hún hefur kostað nú þegar og hver verður endanlegur kostnaður hennar? Óskað er eftir sundurliðun á aðferðarfræðinni innan sviðsins eftir verkefnum.

Einnig er spurt:

Hefur LEAN verið innleitt formlega hjá borginni í heild?

Ástæða fyrirspurnanna.

Flokkur fólksins hefur áður spurt um LEAN og kom þá fram í svari að LEAN hafi ekki verið innleitt formlega hjá borginni í heild og engar ákvarðanir teknar um það. LEAN var um tíma mikið tískudæmi en fljótlega kom í ljós að aðferðarfræðin hentar ekki öllum starfsstöðvum auk þess sem hún er mjög dýr. Svo virtist a.m.k. um tíma sem borgin ætlaði að gleypa LEAN hrátt og því var og er enn ástæða til að spyrjast nú fyrir um stöðu málsins.

Vísað til umsagnar umhverfis – og skipulagssviðs.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hleðslustöðvar metans:

Í dag er hægt að fá metan afgreitt á fjórum stöðum á fjórum stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Dælur eru alls 10. Í áætlun er að byggja upp innviði til hleðslu rafbíla. Fjölga á stöðum um 20 á næsta ári. Stendur til að fjölga metanafgreiðslustöðum næsta ár og ef svo er hvað mörgum?

Vísað til umsagnar umhverfis – og skipulagssviðs, Skrifstofu umhverfisgæða.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu um að embætti skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa heyri undir Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar

Tillaga um að embætti skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa heyri undir Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að breytingar verði gerðar á skipuriti Umhverfis- og skipulagssviðs þannig að embætti skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa heyri undir Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar. Breytingin mun leiða til betra skipulags og hagræðingar. Eins og fyrirkomulagið er í dag eru þessar þrjár skrifstofur allar samhliða í skipuriti.

Ljóst er að Skrifstofa samgöngustjóra og borgarhönnunar er mikilvægasta skrifstofan og undir hana ættu embætti skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa að heyra. Sumir embættistitlar eru lögbundnir en aðrir tilbúnir af borginni. Hægt er að hagræða og spara með því að fækka yfirmönnum og þar með einfalda kerfið, minnka flækjustig. Líklegt er að með þessari breytingu verði þjónusta við borgarbúa skilvirkari. Skrifstofa samgöngustjóra og borgarhönnunar hefur undir höndum samgönguskipulag, framfylgir stefnumörkun, borgarhönnun, samgöngum og breytingum á samgöngumannvirkjum með öllu tilheyrandi.
Tillagan er felld.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að breytingar verði gerðar á skipuriti Umhverfis- og skipulagssviðs í hagræðingarskyni. Tillagan hefur verið felld. Skoða mætti að mati fulltrúa Flokks fólksins að setja embætti skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa undir Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

Ekki er verið að tala um að leggja embættin niður enda lögbundin.

Breytingin mun leiða til betra skipulags og hagræðingar. Með einfaldara skipulagi minnkar flækjustig og þjónusta verður betri. Nauðsynlegt er að einfalda kerfið sem mest ekki bara á þessu sviði heldur fleirum. Báknið í borginni hefur þanist út síðustu 20 ár. Nýlega kom svar um hvað margir stjórnendur eru í borgarkerfinu. Skrifstofustjórar eru sem dæmi 35 talsins.

Tillaga Flokks fólksins um að hætt verði að birta upplýsingar (bæði nöfn og kenntölur) þeirra sem senda inn athugasemdir, kvartanir eða kærur í dagskrá umhverfis- og skipulagsráðs eða fundargerðir.

Fólk sem sendir inn kvörtun/kærur á rétt á því að nöfn þeirra verði trúnaður. Nægjanlegt er að sviðið hafi þessar upplýsingar.

Fulltrúa Flokks fólksins finnst þessi birting hvorki þörf né sanngjörn enda ekki víst að birtingin sé með vitund þessara einstaklinga. Fulltrúi fólksins sendi fyrirspurn um málið til Persónuverndar sem hljóðaði svona:

Er leyfilegt að birta nöfn þeirra sem kvarta eða senda inn ábendingar í dagskrá skipulags- og samgönguráðs (birta þær opinberlega)?

Eftirfarandi svar barst:

Persónuvernd bendir á að þann 25. september sl. úrskurðaði Persónuvernd í máli er varðaði birtingu persónuupplýsinga í tengslum við deiliskipulagstillögu.

Þar var talið að heimilt hefði verið að birta nafn en ekki kennitölu vegna athugasemda við deiliskipulagstillögu. Lagt var fyrir Reykjavíkurborg að afmá kennitölu kvartanda úr athugasemd hans við deiliskipulagstillögu sem birt er á vefsíðu borgarinnar. Þá var lagt fyrir Reykjavíkurborg að veita framvegis fræðslu í samræmi við 13. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 8. gr. og 2. mgr. 17. gr. laga nr. 90/2018, vegna fyrirhugaðrar birtingar athugasemda við skipulagstillögur.

Frestað.