Umhverfis- og skipulagsráð 12. október 2022

Bókun Flokks fólksins við liðnum Efra Breiðholt, hverfisskipulag, breyting á hverfisskipulagi vegna skilmálaeiningar:

Skipulagsyfirvöld leggja til að fella út tvær skilmáleiningar úr hverfisskipulagi vegna skörunar við deiliskipulag Arnarnesvegar sbr. tillögu að breytingu á hverfisskipulagi fyrir Efra Breiðholt sem sett er fram á uppdrætti og í
greinargerð dags. 30.04.2021 br. 05.10 2022.

Lagt er til að tillagan verði samþykkt án grenndarkynningar og auglýsingar þar sem hún varði ekki hagsmuni annarra en umsækjanda og/eða sveitarfélagsins eins og segir í tillögunni. Þegar samþykkt liggur fyrir í umhverfis- og skipulagsráði þá er lagt til að bæði breytingartillögur fyrir hverfisskipulag og nýtt deiliskipulag fyrir Arnarnesveginn hljóti staðfestingu í B-deild Stjórnartíðinda samtímis. Flokkur fólksins mótmælir þessum vinnubrögðum og að halda eigi ótrautt áfram með 3ja áfanga Arnarnesvegar þrátt fyrir að málið sé enn í kæruferli. Aðgerðin stríðir auk þess gegn öllu því sem þessi og síðasti meirihluti og þessi segist standa fyrir. Byggja á aðgerðina á úreltu umhverfismati. Það er hvorki umhverfislega né siðferðilega rétt að byggja svo stóra framkvæmd á tveggja áratuga gömlu umhverfismati. Vinir Vatnsendahvarfs og Vinir Kópavogs sem og Elliðaárdalsins hafa kært málið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

 

Bókun flokks fólksins við liðnum Seljahverfi, hverfisskipulag, breyting á hverfisskipulagi vegna skilmálaeiningar:

Skipulagsyfirvöld leggja til að gerðar verði breytingar á hverfisskipulagi Efra Breiðholts og Seljahverfis og að tillagan verði samþykkt án grenndarkynningar og auglýsingar. Rökin eru sögð þau að hún varði ekki hagsmuni annarra en umsækjanda og/eða sveitarfélagsins. Þegar samþykkt liggur fyrir í umhverfisog skipulagsráði þá leggja skipulagsyfirvöld það til að bæði breytingartillögur fyrir hverfisskipulag og nýtt deiliskipulag fyrir Arnarnesveginn hljóti staðfestingu í B-deild Stjórnartíðinda samtímis. Hér er gróflega farið áfram með aðgerð sem ekki einu sinni hefur verið útkljáð í kæruferli. Vinir Vatnsendahvarfs og Vinir Kópavogs sem og Elliðaárdalsins hafa kært málið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Flokkur fólksins mótmælir þessum vinnubrögðum og skorti á samráði við íbúa í nágrenni Vatnsendahvarfs sem og fleiri hagaðila. Aðgerðin er í hrópandi ósamræmi við allt tal um Grænt plan. Flokkur fólksins hefur margrætt þetta mál í borgarstjórn og þá helst að nauðsynlegt sé að gera nýtt umhverfismat. Í aðdraganda kosninga var því lofað, af Framsókn, á fundi með Náttúruvinum Reykjavíkur að gert yrði nýtt umhverfismat fyrir 3. kafla Arnarnesvegar, enda hvorki umhverfislega né siðferðilega rétt að byggja svo stóra framkvæmd á tveggja áratuga gömlu umhverfismati.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum Arnarnesvegur, nýtt deiliskipulag, bréf skipulagsstofnunar:

Áfram er haldið áfram með Arnarnesveginn og ekkert umhverfismat. Flokki fólksins finnst áhugavert orðalagið „Lagt er til að tillagan verði samþykkt án grenndarkynningar og auglýsingar þar sem hún varði ekki hagsmuni annarra en umsækjanda og/eða sveitarfélagsins“ Eiga sem sagt íbúar sem nýta sér þetta svæði til útivistar engra hagsmuna að gæta? Alveg ljóst er að ekki er áhugi á að hlusta á hvað fólki finnst um þetta mál og greinilega enginn áhugi á nýju umhverfismati. Málið er í kæruferli. Það er lágmark að bíða eftir niðurstöðu úr því ferli. Flokkur fólksins mótmælir þessu vinnubrögðum og skorti á samráði við íbúa í nágrenni Vatnsendahvarfs sem og fleiri hagaðila. Aðgerðin er í hrópandi ósamræmi við allt tal um grænt plan. Flokkur fólksins hefur margrætt þetta mál í borgarstjórn og þá helst að gera skuli skilyrðislaust nýtt umhverfismati. Þetta á að gera þrátt fyrir að Framsókn hafi lofað á fundi með Náttúruvinum Reykjavíkur að gert yrði nýtt umhverfismat fyrir 3. kafla Arnarnesvegar. Það er hvorki umhverfislega né siðferðilega rétt að byggja svo stóra framkvæmd á tveggja áratuga gömlu umhverfismati.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum Suðurlandsvegur:

Skipulagsyfirvöld leggja til nýtt deiliskipulag Suðurlandsvegar.  Athugasemdir koma mest frá þeim sem nota nú svæðið til starfsemi og útivistar. Flokkur fólksins hvetur til þess að tekið verði tillit til þeirra, en þessi framkvæmd mun bæta umferðarflæði og umferðaröryggi og er því ásættanleg.

 

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um minni grasslátt á umferðareyjum, umsögn. Málinu vísað áfram

Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að Reykjavíkurborg hætti að slá gras á mönum og umferðareyjum, sbr. 9 liður. fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 21. september 2022, sbr. 51. liður fundargerðar borgarráðs, dags. 7. júlí 2022, ásamt umsögn skrifstofu
umhverfisgæða, dags. 4. október 2022.

Lagt er til að Reykjavíkurborg hætti að slá gras á mönum og umferðareyjum. Að slá þessi svæði er óþarfi eins og margir hafa bent á. Þarna er færi á að spara án þess að spilla umhverfinu að nokkru ráði. Villigarðar eða órækt er nú viðurkennd sem hluti af sjálfbærni. Þessi svæði eiga að fá frið til að þróast samkvæmt náttúrulegum ferlum.

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða, inn í vinnu við frekari áform um að breyta slegnum svæðum á vegum borgarinnar.

 

Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um hreinsun, svar (USK22080112) Mál nr. US220168 Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hreinsun, sbr. 59. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 10. ágúst 2022 ásamt greinargerð. Einnig er lagt fram svar skrifstofu reksturs og umhirðu borgarlands, dags. 6. október 2022.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: Tæming sorpstampa virðist einfaldlega ekki vera nægilega markviss og tíð. Í svari kemur fram að við verkefnið að losa ruslastampa austan Elliðaáa þar með talið í Seljahverfi séu notaðir tveir bílar, en ábendingum um yfirfulla stampa er brugðist við með öðrum flokkabílum. Þar sem ábendingar eru tíðar verður að telja líklegt að bæta verði reglulega tæmingu, jafnvel þótt það kosti þriðja bílinn. Regluleg vinnubrögð er alla jafna mun hagkvæmari en að bregðast við þegar í óefni er komið. 17.

 

Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um sorpkostnað (USK22090138) Mál nr. US220189

Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um sorpkostnað sbr. 29. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 24. ágúst 2022. Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram fyrirspurn um hver sorpkostnaður Reykjavíkurborgar er við tæmingu tunna per íbúðareiningu og hver sambærilegur kostnaður er í nágrannasveitarfélögum.

Eins og hvert heimili þarf Reykjavíkurborg að horfa vel í alla útgjaldaliði og leita allra ráða til að hagræða. Í skýrslu sem ég hef áður bent á (Competition in the waste managment sector) og gefin er út af samkeppniseftirlitinu árið 2016 eru helstu niðurstöður þær að sveitarfélög sem nota útboð við meðhöndlun úrgangs spara sér 10 – 47% frá kostnaði við eldri kerfi. Er það ekki skylda okkar borgarfulltrúa að skoða hvort að hægt sé að ná sparnaði í sorphirðu við heimili? Ef að skoðun leiðir í ljós að þetta sé í góðum málum þá er það fínt og þá allavega búið að skoða þetta.

 

Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um stafræna umbreytingu á umhverfis- og skipulagssviði (USK22090142) Mál nr. US220191

Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um stafræna umbreytingu á umhverfis- og skipulagssviði, sbr. 30. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 24. ágúst 2022.

Í október 2021 óskaði skrifstofustjóri upplýsinga- og skjalastýringar eftir að borgarráð heimili Þjónustu- og nýsköpunarsviði að hefja útboðsferli á fyrsta fasa verkefnisins Átak í teikningaskönnun þ.e. þeim hluta sem snýr að skönnun. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsingar um framgang verkefnis Átaks? Nýlega var birt yfirlit yfir netspjall borgarinnar og má sjá að helmingur þeirra afgreiðslna snúa að aðgengi að teikningum sem geymdar eru í kjallara Borgartún 12-14. Aðgengi að þessum gögnum skyldi maður ætla að ætti að vera orðið rafrænt. Í þessu samhengi er vert að spyrja af hverju stafræn umbreyting er komin svo skammt á veg hjá umhverfis- og skipulagssviði þrátt fyrir að ríflega 13 milljörðum hefur verið varið í stafræna umbreytingu hjá þjónustu og nýsköpunarsviði? Einnig er spurt hvar ábyrgðin liggur. Liggur hún hjá þjónustu- og nýsköpunarsviðs (ÞON) nú kallað Stafrænt svið eða hjá umhverfis- og skipulagssviði?

 

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssvið