Umhverfis- og skipulagsráð 14. júní 2023

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:Lögð fram skipulagslýsing umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa, dags. í maí 2023, vegna gerð nýr deiliskipulags fyrir þróunarsvæði við Suðurfell. Skipulagslýsingin tekur til þróunarsvæðis í suðausturhluta Fellahverfis:

Um er að ræða fyrstu skref um byggingar á þróunarsvæði við Suðurfell. Ekki virðist á þessu stigi vera ger ráð fyrir atvinnustarfsemi, en þarna virðist vera t.d rými fyrir starfsemi tengda Elliðaárdalnum svo sem eitthvað sem tengist gróðri, ræktun eða annað sem gleður þá sem vilja njóta fallegrar náttúru. Ennfremur hefur átt sér stað breyting á stærð reits með tilkomu Arnarnesvegar. Arnarnesframkvæmdin mun rýra þetta svæði og verður það sannarlega ekki eini skaðinn sem sú framkvæmd mun skemma eins og fulltrúi Flokks fólksins hefur margt bókað um síðustu árin.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram erindi Landupplýsingardeildar, dags. 7. júní 2023, um afmörkun sjö lóða fyrir fasteignir ríkisins í Keldum, samkvæmt breytingarblaði umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 7. júní 2023:

Samkeppni um þróun Keldnalands er komin af stað. Fulltrúi Flokks fólksins veltir því upp hvort því sé ekki ótímabært að afmarka lóðir eins og hér er lagt til. Með því er verið að binda hendur þeirra sem munu taka þátt í samkeppninni. Þær lóðir sem verið er að afmarka eru inn á miðju Keldnalandinu.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:Lagt fram bréf dags. 8. júní 2023 með bókun íbúaráðs Breiðholts um safnstæði fyrir rafskútur innan hverfisins:

Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir bókun íbúaráðs Breiðholts um að það “telur brýnt að umhverfis- og skipulagsráð leiti lausna í sátt við íbúa um skilgreina safnstæði fyrir rafskútur/ rafskutlur innan hverfisins sem hægt er að skila og leigja skutlu” og vill bæta við að það sama þarf að gera fyrir önnur hverfi.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um vagnaflota Strætó bs., sbr. 17. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 1. mars 2023. Einnig er lagt fram svar Strætó bs. dags. 27. mars 2023:

 

Flokkur fólksins bendir á að mikilvægt er að nýjir vagnar verði ekki knúnir jarðefnaeldsneyti. Þótt óljósar fregnir séu um litla söfnum metans á að gera ráð fyrir því eldsneyti í framtíðinni  að mati fulltrúa Flokks fólksins. Metani má safna úr öllum lífrænum úrgangi. Rafmagn er einnig góður kostur, sérstaklega með beinni tengingu við raflínur. Þá sparast þungir rafgeymar.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um meðhöndlun kvartana hjá Strætó bs., sbr. 31. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 25. janúar 2023. Einnig er lagt fram svar Strætó bs. dags. 28. febrúar 2023:

Spurt var um meðhöndlun kvartana hjá Strætó bs. Segir í svari að fyrirspurnir og kvartanir séu  settar undir sama hatt og nefndar ábendingar sem er sérkennilegt því kvörtun er hvorki fyrirspurn né ábending og fyrirspurn og ábendingar þurfa  sannarlega ekki að vera kvörtun. Flokka þarf strax og svara þeim sem sendir málið inn. Fulltrúi Flokks fólksins hefur heyrt í mörgum sem hafa sent fyrirspurn eða kvörtun en ekki fengið viðbrögð. Vissulega skiptir mestu að leysa úr því sem að er og leiðrétta agnúa  en til að “loka hringnum” er mikilvægt að sá sem sendir inn kvörtunina fá einhver viðbrögð. Komi kvörtun um t.d. að vagn hafi ekki komið á biðstöð þarf sá sem kvartar fá að vita ástæðuna. Var það vegna umferðartafa, bilunar í vagni eða fjarvist vagnstjóra eða að ekki tókst að manna vakt vagnstjórans? Það er nokkuð ólíkt að t.d. benda á hvað betur megi fara í leiðarkerfi annars vegar og hins vegar að kvarta t.d. vegna glæfralegs aksturslags bílstjóra. Fulltrúi Flokks fólksins óttast að Strætó anni ekki þessum erindum nógu vel vegna fjölda þeirra.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hvort fylgst er með aksturslagi strætóbílstjóra, sbr. 27. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 1. febrúar 2023. Einnig er lagt fram svar Strætó bs. dags. 28. febrúar 2023:

Flokkur fólksins spurði um hvort fylgst sé með aksturslagi strætóbílstjóra. Spurt var vegna þess að „farþegar“ hafa haft samband og sagt frá tilfellum glæfraaksturs sem lán var að olli ekki meiðslum farþega. Fram kemur í svari að  í  grunn- og nýliðaþjálfun vagnstjóra sé aksturslag og mikilvægi þjónustulundar ítarlega rætt við vagnstjóra. Flestir vagnstjórar sýna farþegum án efa kurteisi og þjónustulund en komi hins vegar kvörtun þarf Strætó að bregðast strax við og setja sig í samband við hlutaðeiganda.  Ef fólk er hunsað með kvörtun leita mál gjarnan á samfélagsmiðla og í fréttir sem verður til þess að öll stéttin verður kannski dæmd. Spurt var einnig um tölfræði kvartana. Leitt er að sjá að fjöldi kvartana vegna „aksturslags“ hefur aukist frá því fyrir Covid. Árið 2018 voru þær 317 en árið 2022 voru þær komnar í 352. Kvörtunum vegna „framkomu“ hefur fjölgað mikið en árið 2918 voru þær 321 en árið 2022 hafði þeim fjölgað í 560. Hér er sterk vísbending um að eitthvað er ekki í lagi.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um bækling Nordic Safe, sbr. 22. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 22. nóvember 2022. Einnig er lagt fram svar skrifstofu stjórnsýslu og gæða, dags. 7. júní 2023:

Fulltrúi Flokks fólksins spurði um  drög að upplýsingabækling sem tilbúinn átti að vera haustið 2022. Um er að ræða upplýsingabækling í tengslum  Aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar gegn ofbeldi 2022 – 2024 og   “Nordic Safe Cities” sem hafa gefið út slíka bæklinga. Hætt hefur verið við þetta af hálfu borgarinnar sem ætla frekar samkvæmt svari að “flétta verklagi og leiðbeiningum vegna öryggissjónarmiða inn í vinnu að gerð draga að borgarhönnunarstefnu sem nú stendur yfir. Fulltrúi Flokks fólksins telur að fínt sé að þessar upplýsingar liggi fyrir.

 

Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um stöðu brennsluverkefnis, sbr. 30. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 31. maí 2023.

Vísað til umsagnar Sorpu bs. USK23050328

 

Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um endurvinnslu mjólkurferna, sbr. 24. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 7. júní 2023.

Vísað til umsagnar Sorpu bs. USK23060072

 

Ný mál

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um fjölda kvartana sem borist hafa Strætó:

Fjöldi kvartana vegna framkomu strætóbílstjóra hefur fjölgað svo um munar eftir Covid. Árið 2018 voru kvartanir vegna framkomu bílstjóra 239 en árið 2022 voru þær 560 eða 239 kvörtunum fleiri.  Flokkur fólksins óskar skýringa á hverju þetta sætir? Er þjónustustefna Strætó ekki að ná nógu vel til bílstjóra? Hvað er Strætó að gera í þessu, hvaða leiða er verið að leita ef einhverra?

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um langtímaveikindi á umhverfis- og skipulagssviði og hvort tilfellum hafi fjölgað:

Fram hefur komið að mikið er um langtímaveikindi að ræða á umhverfis- og skipulagssviði. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um langtímaveikindi á umhverfis- og skipulagssviði síðustu árin s.s. hvort tilfellum langtímaveikinda hefur fjölgað? Einnig hvort það sé hlutfallslega meira um líkamleg veikindi að ræða vegna eðli starfa? Hefur verið skoðað hvort rekja megi veikindin sérstaklega til kulnunar í starfi? Óskað er almennra upplýsinga um þessi mál hjá sviðinu, tölulegra upplýsinga USK23060151

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um fjölda nemenda sem sótt hafa um í Vinnuskólanum og hvað margir fengu ekki það tímabil sem sótt var um:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvað mörg börn sóttu um vinnu hjá Vinnuskólanum fyrir sumarið 2023. Hver hefur þróun umsókna í Vinnuskólinn verið síðustu árin, fjölgun/fækkun fyrir og eftir Covid? Hvað mörg börn fengu ekki  vinnu í Vinnuskólanum þetta sumar? Hvað mörg börn fengu ekki vinnu á því tímabili sem þau óskuðu eftir? Hefur verið gerð viðhorfskönnun meðal barna og foreldra um fyrirkomulag og innihald vinnuskólans? Ef svo er, hverjar voru niðurstöðurnar?