Umhverfis- og skipulagsráð 26. júní 2024

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fram fer kynning á húsnæðisátaki í Grafarvogi.

Húsnæðisátakið er verkefni sem hugsað er til tveggja ára þar sem markmiðið er að vinna hratt og vel við að deiliskipuleggja og úthluta byggingarhæfum íbúðarlóðum. Grafarvogurinn býður upp á marga möguleika, hægt væri að byggja þar hratt og vel bæði stórar og litlar íbúðir, raðhús, parhús og einbýlishús. Innviðir eru til staðar sem ætti að vera auðvelt að nýta og bæta við eftir atvikum. Úlfarsárdalurinn ætti að vera næstur í forgangsröðuninni, þar er land nægt. Breiðholtið og Grafarholt eru einnig á dagskrá en einnig þarf að brjóta nýtt land undir byggð, slík er húsnæðisþörfin. Þetta þyrfti að gera allt á sama tíma ef vel ætti að vera. Ekki hefur verið byggt nærri nóg í Reykjavík síðustu árin. Í þessu þurfa að vera bæði tögl og hagldir, slíkt er neyðarástandið í húsnæðismálum í Reykjavík

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Aðalskipulagsbreyting – Verklýsing til kynningar sbr. 1. mgr. 30.gr. skipulagslaga. Kjalarnes, Grundarhverfi (og svæði utan vaxtarmarka):

Nú á að þétta byggðina. Þá er mikilvægt að gera Grundarhverfi að sjálfstæðum kjarna. Möguleikarnir sem nefndir eru tengjast landbúnaði. En í landbúnaði eru ekki alltaf tryggir tekjumöguleikar að mati fulltrúa Flokks fólksins. Landbúnaðurinn er háður styrkjum frá samfélaginu og litlar líkur eru á að sérstakir styrkir verði veittir landbúnaðarsvæði sem er í borg. Skógrækt mun ekki gefa tekjur, nema tekið verði fyrir innflutning skógarafurða. Hér virðist vera gert ráð fyrir að aðstoð og fjárstyrkur komi frá borginni. Ef byggð á að þróast með sjálfbærum hætti þarf að styðjast við atvinnu sem gefur tekjur.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa dags. 16. nóvember 2023 var lögð fram umsókn Ásgeirs Ásgeirssonar,  aukning á byggingarmagni og heimild fyrir því að reisa hótelbyggingu á hinni sameinuðu lóð, samkvæmt uppdráttum T.ark arkitekta ehf., dags. 13. júní 2024.

Um er að ræða að byggja 5 hæða hótel á þessum reit. Í breytingunni sem lögð er til felst sameining þriggja lóða í eina lóð. Gríðarleg aukning verður á byggingarmagni og er ætlunin að reisa hótelbyggingu á hinni sameinuðu lóð, samkvæmt uppdráttum T.ark arkitekta ehf., dags. 13. júní 2024. Gera má ráð fyrir þrengslum og slæmu aðgengi þarna enda nú þegar nokkur þéttleiki á svæðinu. Fulltrúi Flokks fólksins veltir því fyrir sér hvort ekki væri nær að byggja þarna íbúðir í ljósi mikils íbúðarskorts á höfuðborgarsvæðinu. Þessi reitur er þess utan afar dýrmætur, er miðsvæðis og í göngufjarlægð frá miðbænum og nágrenni. Undir þessum kringumstæðum ætti hótelbygging ekki að vera í forgangi heldur íbúarhúsnæði og nýjir innviðir til að styðja við nýjar íbúðir. Áhrif af svo stórri byggingu munu verða nokkur á umhverfið, um það er engum blöðum að fletta. Athugasemdir eiga eftir að berast og væntir fulltrúi Flokks fólksins þess að þær verði vel ígrundaðar. Verkefnið allt er býsna bratt að mati Flokks fólksins.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að breytingu á deiliskipulagi Breiðholts III, Fells vegna Völvufells (Þróunarreitur nr. 84 AR2040).

Það er miður að fjarlægja eigi allar námsmannaíbúðir á þessum stað. Ekki náðist samkomulag við félögin sem standa að námsmönnum um byggingu námsmannaíbúða þarna. Námsmannaíbúðir eru hluti af góðri blöndun að mati Flokks fólksins. Það eru miklir kostir að hafa íbúðir fyrir námsmenn helst sem víðast. Með slíkum íbúðum verða auðvitað að fylgja bílastæði. Rök námsmanna félaganna tveggja voru þau að betra sé að byggja nær skólunum.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju tillaga að hverfisskipulagi Hlíða, hverfi 3.1 Háteigshverfi; tillaga að hverfisskipulagi Hlíða, hverfi 3.2 Hlíðarhverfi og tillaga að hverfisskipulagi Hlíða, hverfi 3.3 Öskjuhlíðarhverfi,

Um er að ræða hverfisskipulag sem er ný skipulagsáætlun fyrir gróin hverfi og kemur í stað eldri deiliskipulagsáætlana sem verða felldar úr gildi. Athugasemdir hafa borist frá fjölmörgum og spanna þær vítt svið. Flestar athugasemdir virðast þó í fljótu bragði varða fækkun á bílastæðum víða í þessum hverfum eftir því sem næst er komist. Ekki er tekið undir það af skipulagsyfirvöldum. Ef margir kvarta yfir því sama þá ætti það að vera skylda skipulagsyfirvalda að hlusta og bregðast við athugasemdum með viðeigandi breytingum. Algengustu kvartanirnar í þessum málum öllu jafna eftir að farið var að þétta byggð af svo miklum krafti, lúta að of miklu byggingarmagn á grónum svæðum á kostnað rýmis, grænna svæða og birtu. Í sumum þessara hverfa eru innviðir sprungnir en samt er haldið áfram að þétta án þess að framtíðarskipulag skóla og annarra innviða liggi endilega fyrir. Skipulagsyfirvöldum er það mikið kappsmál að sýna fram á að “samráð” hafi verið haft. Slíkt “samráð” virkar þó oftast þannig að íbúar senda inn athugasemdir og lýsa yfir óánægju með eitthvað sem yfirvöld svara og þar með er málið dautt. “

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Lagt er til að umhverfis- og skipulagsráð samþykki eftirfarandi sérákvæði fyrir umferð:

  • Að óheimilt verði að leggja ökutækjum í norður- og austurkanti Skarphéðinsgötu
  • Að óheimilt verði að leggja ökutækjum í suðurkanti Karlagötu
  • Að óheimilt verði að leggja ökutækjum í norðurkanti Vífilsgötu
  • Að óheimilt verði að leggja ökutækjum í suðurkanti Mánagötu
  • Að óheimilt verði að leggja ökutækjum í norðurkanti Skeggjagötu
  • Að óheimilt verði að leggja ökutækjum í norðurkanti Hrefnugötu
  • Að óheimilt verði að leggja ökutækjum í suðurkanti Kjartansgötu
  • Að óheimilt verði að leggja ökutækjum í norðurkanti Guðrúnargötu
  • Að óheimilt verði að leggja ökutækjum í suðurkanti Bollagötu milli Rauðarárstígs og Gunnarsbrautar

Hér er um umtalsverðar breytingar að ræða, skipulagsyfirvöld vilja banna lagningu ökutækja beggja vegna í Norðurmýri á fjölmörgum götum. Verið er að þrengja mjög að bílum og skapa aukin vandræði fyrir bíleigendur. Nauðsynlegt er að fara í samráð og hafa kosningu meðal íbúa á svæðinu að mati fulltrúa Flokks fólksins. Sú hefð hefur myndast í mörgum götum í Norðurmýri að ökutækjum sé lagt beggja vegna og því er ekki bara hægt að breyta þessu með einu pennastriki án þess að ræða við fólkið sem þarna býr og hefur hagsmuni að gæta. Helstu rökin eru þau af hálfu meirihlutans að lagning beggja vegna skapi hættu. En þá er spurt, hafa orðið slys eða óhöpp sökum þessa sem rekja má beinlínis til að lagt er beggja vegna á þessum götum? Fulltrúi Flokks fólksins sér fyrir sér að hafður sé fundi með íbúunum og heyrt ofan í þá hljóðið með þetta mál. Í hverfinu og nágrenni þess ríkir nú þegar mikill bílastæðaskortur.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um upphituð biðskýli ásamt salernisaðstöðu á skiptistöð Strætó við Skúlagötu:

Skipulagsyfirvöld hafa sett upp tímabundna endastöð Strætó við Skúlagötu vegna flutnings frá Hlemmi. Reiknað er með að framkvæmdir við Hlemm taki langan tíma, jafnvel nokkur ár eða þar til fyrsti áfangi borgarlínu er kominn í gagnið. Staðsetning við Skúlagötu er óhentug og mun hafa ónæði í för með sér fyrir nærliggjandi íbúa. Það er því mikilvægt að komið verði upp fullnægjandi aðstöðu fyrir farþega á skiptistöð Strætó bs. við Skúlagötu, að komið verði upp alla vega mannsæmandi biðstöð þótt stöðin verði e.t.v. ekki nýtt sem skiptistöð. Óljóst er hvað skiptifarþegar eru margir en hafa skal í huga að fólki fer fjölgandi í Reykjavík.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Lagt er til að fela skrifstofu umhverfisgæða, starfsfólki hverfisskipulags í samvinnu við Dýraþjónustu að greina tækifæri til fjölgunar hundagerða og lausagöngusvæða fyrir hunda innan allra hverfa og leggja fram um það tillögur:

Flokkur fólksins hefur nýlega sent inn tillögur um að farið verði í róttækar breytingar og bætingar sem lúta að endurbótum og lagfæringum á hundagerðum auk þess að gerð verði ný og stærri sem og að fleiri svæði verði skilgreind fyrir lausagöngu hunda. Í þessum málum þarf að gera átak. Illa er haldið utan um mörg hundagerði í Reykjavík, það vantar sem dæmi lýsingu m.a. á Geirsnesi. Það vantar einnig sorptunnur og flest gerðin eru of lítil. Reykjavík er sennilega minnst hundavæn af þeim borgum sem við berum okkur saman við. Fulltrúi Flokks fólksins hefur einnig lagt til að almennt skal heimila gæludýr í vögnum Strætó á höfuðborgarsvæðinu þar með talið í landsbyggðarvögnum. Lagt er til að ekki skuli lengur vera skilyrði að sá sem ferðast með dýr þurfi fyrst að koma einn inn um framdyrnar til að greiða fargjald og fer síðan með gæludýr inn um aftari/miðdyr vagnsins. Þessi regla er auk þess ekki framkvæmanleg. Hvernig á að gera þetta, skilja gæludýrið eftir á götunni á meðan greitt er? Skilyrði um að gæludýr verði að vera í búri eða töskum í strætó er einnig óþarft og löngu úrelt

 Áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu um verkefnaval sumarsins:

Fulltrúi Flokks fólksins í umhverfis- og skipulagsráði leggur til að sumarið verði notað í að undirbúa og leggja drög að:

Yfirfara lýsingar við skóla og leikskóla

Bæta við stæðum þ.m.t. sleppistæðum við leikskóla t.d. eru engin stæði við leikskólann Sunnuás

Lagt er til að lengja og laga aðreinar á stórum umferðargötum eins og Miklubraut, Sæbraut og fleiri stöðum þar sem þess er þörf.

Lagt er til að hefja undirbúning á að setja göngubrýr í stað gönguljósa á stórar umferðaræðar eins og Miklubraut ásamt á Kringlumýrabraut við Suðurver og Sæbraut

Lagt er til að lýsa og mála zebrabrautir á helstu gönguleiðum og setja upp “snjallgangbrautir” við skólaleiðir

Einnig er lagt til að nota radarskilti og myndavélar til að stjórna hraða í stað hraðahindrana. Margar hraðahindranir passa ekki inn í staðla og alþjóðlegar reglur auk þess sem þeim fylgir mengun og tafir

Lagt er til að sumarið verði notað til að fjölga bílastæðum við Dalslaug í Úlfarsárdal og íþróttasvæðið þar í kring. Við laugina eru allt of fá stæði sem skapar öngþveiti.

Einnig lagt til að hámarkshraði Laugarásvegar verði merktur í bak og fyrir því þrátt fyrir mótvægisaðgerðir aka sumir þessa götu á allt of miklum hraða.

Frestað USK24060399

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um mælingar á umhverfisáhrifum:

Fulltrúi Flokks fólksins telur það mjög mikilvægt að vita hvar umhverfisáhrif eru mest og því best að sjá hvar árangur skiptir þá mestu máli. Hvað er það sem “tikkar” mest, er það fjölgun rafbíla, færri utanlandsferðir, minni úrgangur, betri flokkun o.s.frv. ? Einnig væri áhugavert að vita hversu vel hefði tekist með að fá starfsmenn Reykjavíkurborgar til að taka Strætó, eða ganga/hjóla? Um þetta er spurt og óskað er eftir tölulegum upplýsingum. Ef að Reykjavíkurborg vill ná árangri sem ég tel að allir séu sammála um þá þarf að vera mælanlegt hvaða árangur náist. USK24060404

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvort að Reykjavíkurborg mæli árangur sinn í umhverfismálum og hvort að slík mæling sýni árangur sem væri áhugavert fyrir kjósendur að vera upplýstir um? USK24060403

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um viðbrögð við mótmælum nýbyggingar í Grafarvogi:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvernig skipulagsyfirvöld og meirihlutinn hyggst bregðast við mótmælum íbúa Grafarvogs vegna fyrirhugaðrar byggingu á fjölbýlishúsi á lóð við Smárarima/Sóleyjarima en með því er gengið á grænan reit?

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn af hverju ekki hafi verið lögð drög að innviðauppbyggingu:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga hjá skipulagsyfirvöldum Reykjavíkurborgar af hverju ekki hafa verið lögð drög að frekari uppbyggingu skóla í Úlfarsárdal? Nú er Dalskóli sprunginn sem tefur frekari uppbyggingu húsnæðis í Úlfarsárdal þar sem nægt land er til ráðstöfunar. Af hverju er ekki búið að gera ráð fyrir að byggja t.d. skóla og leikskóla í Tjörnunum þ.e. nýju uppbyggingunni undir Úlfarsfelli hjá Silfratjörn USK24060405