Baráttumál Flokks fólksins lögð í dóm borgarbúa 14. maí
Hinn 14. maí er gengið til sveitarstjórnarkosninga. Þetta er hátíðardagur því á slíkum degi er lýðræðið áþreifanlegt. Við fáum tækifæri til að velja það fólk sem við treystum til forystu.
Fyrir fjórum árum var ég svo lánsöm að vera kosin í borgarstjórn. Flokkur fólksins lenti í minnihluta eins og kunnugt er. Á þessum tíma hef ég lagt nótt við dag til að vinna að framfaramálum í þágu borgarbúa, eins og sjá má á þeim hundruðum mála, tillagna, fyrirspurna og bókana sem flokkurinn hefur lagt fram og koma fram í fundargerðum, á samfélagsmiðlum og á heimasíðunni kolbrunbaldurs.is.
Auk þess höfum við í Flokki fólksins skrifað tugi greina um þau framfaramál sem meirihlutinn í borgarstjórn setti lóðbeint í ruslatunnuna. Allt er þetta gert í þeirri von að dropinn holi steininn. Á þessum tíma hef ég lært að borgarstjórn Reykjavíkur starfar í bergmálshelli þar sem allt gengur út á að tryggja sér áframhaldandi völd í blindri trú á eigin ágæti. Brýnum úrbótum á grunnþjónustu er stungið undir stól af því að þau mál eru svo „leiðinleg“. Í staðinn tekur meirihlutinn sig til kostanna og fjármagnar alls kyns dýr gæluverkefni sem honum finnst skemmtilegt að föndra við. Allt á kostnað fólksins í borginni.
Bál óréttlætis og sorgar
Í mér brennur bál óréttlætis og sorgar þegar ég hugsa til þess hvernig farið hefur verið með fólk í Reykjavík sem býr við skerta örorku, fólk á lúsarlaunum, fólk sem missti allt sitt í hruninu og á annað hundrað eldri borgara sem bíða nú ýmist eftir hjúkrunar- og dvalarheimili eða þjónustu til að geta verið sem lengst heima. Biðlistar eftir þjónustu lengjast og fátækt fer vaxandi í Reykjavík með tilheyrandi vanlíðan.
Flokkur fólksins er með skýra stefnu. Við viljum að Reykjavík sé fyrir alla, ekki bara suma. Við viljum að áður en farið er í fjárfrek milljarðaverkefni, sem ekki er brýn þörf á, eins og skreytingar og umbyltingu torga, þurfi fyrst að tryggja að allir eigi heimili og mat á diskinn.
Flokki fólksins hefur blöskrað eyðsla meirihlutans á 13 milljörðum króna í stafræna umbreytingu, ekki af því hún sé ekki nauðsynleg heldur vegna þess að með þetta fé hefur verið bruðlað og því eytt í þróunarvinnu á lausnum sem nú þegar eru víða til. Ein tillaga Flokks fólksins gekk út á að taka hluta af þessum 13 milljörðum króna og hækka þess í stað fjárheimildir til að ráða fagfólk svo ráðast megi til atlögu gegn biðlistum í borginni. Ég hef starfað sem sálfræðingur í áratugi og löngu áður en ég varð oddviti Flokks fólksins var ég farin að mótmæla löngum biðlistum barna til sálfræðinga og talmeinafræðinga. Á biðlista barna, sem bíða eftir fagþjónustu Skólaþjónustunnar, eru nú rúmlega 1800 börn og hefur biðlistinn fimmfaldast á fjórum árum. Bið er í alla þjónustu fyrir börn og enn hefur Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna ekki verið innleiddur í Reykjavík.
Forgangsraða þarf málum með þarfir og þjónustu borgarbúa að leiðarljósi, stöðva bruðl og leikaraskap með fjármagn borgarinnar en nota það þess í stað til að bæta lífsgæði og aðstæður þeirra sem eru illa staddir.
Sýnum skynsemi í húsnæðismálum
Flokkur fólksins vill taka á hinum alvarlega skorti á húsnæði af öllum gerðum í Reykjavík fyrir alla aldurshópa. Húsnæðisskorturinn bitnar sífellt harkalegar á almenningi, sérstaklega efnaminna fólki og veldur aukinni verðbólgu. Flokkur fólksins styður þéttingu byggðar í grónum hverfum þar sem möguleiki er á stækkun innviða eins og t.d. í Grafarvogi og í Úlfarsárdal. Ómarkviss þéttingarstefna meirihlutans hefur hins vegar leitt til þess að í mörgum hverfum eru innviðir sprungnir og sumir þéttingarreitir eru orðnir að skuggabyggð.
U.þ.b. 600 manns eru á biðlista eftir félagslegu húsnæði og á annað hundrað eftir sértæku húsnæði fyrir fatlað fólk. Útrýma þarf húsnæðisskorti aldraðra. Til þess að aldraðir geti búið eins lengi heima og þeir vilja, þarf að tryggja þeim fullnægjandi heimaþjónustu.
Lokaorð
Ég hef sem sálfræðingur lært að hlusta og þannig hef ég hlustað á alla þá sem leitað hafa til mín á kjörtímabilinu. Þeim hef ég reynt að hjálpa af fremsta mætti og á þann veg sem ég hef mátt og getað t.d. með því að vísa þeim veginn í völundarhúsi borgarkerfisins. Segja má að hvert sem ég hef farið mæti mér hlý orð og fallegt bros. Ég hef því vonandi gert eitthvað rétt.
Nú er komið af því að velja aftur og komið að því að leggja mín verk og mig sjálfa sem stjórnmálamann í dóm kjósenda. Ég er orkumikil og brenn fyrir réttlæti og bættara samfélagi. Framboðslisti Flokks fólksins er skipaður breiðum hópi fólks sem brennur fyrir málefnum borgarbúa. Við lofum því að berjast áfram fyrir hagsmunum ykkar með kjafti og klóm, blóði, svita og tárum fáum við til þess umboð.
Sjáumst í baráttunni fyrir betri Reykjavík!
Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, sálfræðingur og oddviti Flokks fólksins, skipar 1. sæti á lista flokksins í komandi borgarstjórnakosningum
Birt í Morgunblaðinu 13. maí 2022