Flokkur fólksins telur borgina hafa gert mistök – Kvörtunum fækkaði mikið á milli ára en af hverju

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins hjá Reykjavíkurborg telur það hafa verið mistök hjá borginni að leggja af embætti umboðsmanns borgarbúa í þeirri mynd sem það var.

Kvörtunum og fyrirspurnum hefur fækkað töluvert á milli ára sem Borgarfulltrúinn telur að sé vegna þess að fólk viti ekki hvert það eigi að senda kvörtunina.

Áheyrnarfulltrúinn hjá Reykjavíkurborg, Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir kom með fyrirspurn um fjölda kvartana til umboðsmanns borgarbúa eða innri endurskoðunar í desember 2021. Árið 2020 var starfsemi umboðsmanns borgarbúa og starf persónuverndarfulltrúa sameinað inn í Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar. Fyrirspurning hljóðaði eftirfarandi:

Nú er komið rétt um ár síðan embætti umboðsmanns borgarbúa var lagt niður í þeirri mynd sem það var og sameinað innri endurskoðun. Hlutverkinu er lýst innan innri endurskoðunar þannig að borgarbúum sé veitt ráðgjöf og þeim leiðbeint í þeim samskiptum sínum við borgina og fræðir jafnframt starfsmenn borgarinnar um framkvæmd innra eftirlits, persónuvernd og meginreglur stjórnsýsluréttar. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um fjölda kvartana, erinda og fyrirspurna frá því sameiningin átti sér stað, skiptingu mála eftir tegundum, skipting mála eftir sviðum og skrifstofum, skiptingu mála eftir kynjum og aldursgreiningu, skiptingu mála eftir afgreiðslu þeirra og stöð í málaskrá. Óskað er samanburðar milli ára. Hver var sami fjöldi 2018, 2019 og 2020? Fulltrúi Flokks fólksins er með þessum fyrirspurnum að kanna hvort málum hafi farið fækkandi eftir flutninginn, fjölgandi eða staðið í stað.

Í svari Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar má sjá að málum er snéru að kvörtunum, erinda og fyrirspurna hefur fækkað töluvert á milli ára. Á tímabilinu 2018-2019 voru málin 263, þau voru 219 á tímabilinu 2019-2020 og á tímabilinu 2020-2021 voru þau komin niður í 150.

Í lokaorðum svars Innri endurskoðurnar hjá Reykjavíkurborg segir orðrétt:

Í kjölfar sameiningarinnar varð vart við að málum byrjaði að fækka. Var sú fækkun rakin til þess að ákveðins misskilnings gætti varðandi sameininguna um að ekki væri lengur veitt ráðgjöf til borgarbúa með þeim hætti sem gert var hjá embætti umboðsmanns borgarbúa. Það er vissulega ekki rétt og ljóst er að leggja þarf aukna áherslu á fræðslu innan starfsstöðva Reykjavíkurborgar um starfsemi umboðsmanns borgarbúa. Til hefur staðið í lengri tíma að hefja slíka fræðslu en í ljósi aðstæðna hefur ekki verið talið skynsamlegt að standa fyrir fjölmennum fræðslufundum og því hefur það dregist.

Við teljum að fækkun mála er varða velferðarsvið megi rekja til þess að fjárhagsaðstoðin var gerð rafræn árið 2019. Sú breyting hafði í för með sér að þjónustan varð skilvirkari og aðgengilegri, auk þess sem leiðbeiningar urðu heilt yfir mun betri og var kerfið valið vefkerfi ársins 2019 af Samtökum vefiðnaðarins, sbr. https://reykjavik.is/frettir/umsokn-um-fjarhagsadstod-vefkerfi-arsins-2019. Því má segja að fækkun mála á því sviði sé í raun afar jákvæð. Jafnframt kunna að vera fleiri ástæður fyrir fækkun mála, s.s. breyttar áherslur og breyting á skráningu mála. Í kjölfar sameiningar var gerð ný samþykkt sem innleiddi ýmsar breytingar og þrengdi verksvið umboðsmanns að einhverju leyti. Sem dæmi um breytingar má til dæmis nefna að umboðsmaður borgarbúa aðstoðar einstaklinga ekki lengur við gerð skjala vegna málskots til æðra stjórnvalds.

Að lokum er bent á skýrslu Innri endurskoðunar og ráðgjafar Reykjavíkurborgar, dags. 19. nóvember 2021, þar sem farið er ágætlega yfir verkefni umboðsmanns borgarbúa. Skýrsluna er að finna á heimasíðu Innri endurskoðunar og ráðgjafar: https://www.innriendurskodun.is/utgefid-efni/starfsskyrsla-ier—verkefni-umbodsmanns-borgarbua.

Í kjölfar svarsins birti Flokkur fólksins bókun við svarinu:

Bókun Flokks fólksins við svari innri endurskoðunar og ráðgjafar, dags. 14. janúar 2022 við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um fjölda kvartana til umboðsmanns borgarbúa/innri endurskoðunar, sbr. 32. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. desember 2021:

Fulltrúi Flokks fólksins heldur að það hafi verið mistök að leggja af embætti umboðsmanns borgarbúa í þeirri mynd sem það var. Fólk veit ekki enn að hægt er að kvarta yfir málum og hvar eigi þá að gera það. Það þarf að kynna hið nýja fyrirkomulag mikið betur. Málum hefur fækkað og einmitt vegna einhvers misskilnings og skort á upplýsingum. Hefði ekki þurft að undirbúa allt þetta betur?

Segir í svari að staðið hefur lengi til að hafa fræðslu en ekki hægt vegna COVID. Sárlega vantar stóra og mikla kynningu á þessari breytingu. Ýmsar ástæður er raktar fyrir fækkun mála en fulltrúa Flokks fólksins finnst það liggja nokkuð ljóst. Hlutverkið sem umboðsmaður borgarbúa hafði hefur einfaldlega ekki náðst að virka inn á skrifstofu Innri endurskoðunar. Ekki vegna þess að starfsfólk þar sé ekki að standa sig vel heldur er hlutverkið nú tengt embætti/skrifstofu en ekki persónu en umboðsmaður borgarbúa var sérlega vinsæll og liðlegur í þjónustu sinni. Ástæða er einnig eins og réttilega kemur fram að umboðsmaður borgarbúa aðstoðar einstaklinga ekki lengur við gerð skjala vegna málskots til æðra stjórnvalds.