Borgarráð 27. október 2022

Bókun Flokks fólksins við tillögu meirihlutans um að fela íþrótta- og tómstundasviði (ÍTR) að gera samkomulag við Farfugla um afnot langtímagesta að tjaldstæðinu í Laugardal ásamt því að kanna möguleika á staðsetningu fyrir langtímastæði fyrir húsbíla með íbúum sem nú búa á svæðinu í Laugardal:

Það er mat  Flokks fólksins að hér sé um mikla hækkun að ræða, hækka á upp í 50 þúsund. Hér er þó aðeins um 15 stæði að ræða sem ekki geta verið á stæðinu eftir 15. maí því ekki er gert ráð fyrir langtímaleigu á svæðinu eftir 15. maí 2023, miðað við núverandi forsendur. Þörfin fyrir hjólhýsastæði er eflaust miklu meiri og ástæða væri til að kanna hvort fleiri svæði kæmu til greina. Þetta búsetuform léttir á húsaleigumarkaði og er því jákvætt fyrir borgina og þá sem þetta búsetuform kjósa. Mikilvægt er að ganga í það sem fyrst að finna langtímastæði. Óvissan er mikil og kvíði og áhyggjur samhliða henni sem leggjast þungt á leigjendur.

 

Bókun Flokks fólksins við 7. lið fundargerðar íbúaráðs Grafarholts og Úlfarsárdals:

Íbúaráð Grafarholts og Úlfarsárdals leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: „Óskað er eftir upplýsingum um stöðu á úthlutuðum en óbyggðum lóðum í eldri hluta Úlfarsárdals. Hversu margar eru þær nú og hefur nýlega verið rekið á eftir lóðarhöfum um að hraða uppbyggingu?“ Íbúaráð Grafarholts og Úlfarsárdals hefur áður óskað eftir stöðu mála og fékk svar fyrir ári. Flokkur fólksins hefur einmitt verið með þessar fyrirspurnir og það oftar en einu sinni, síðast 10. ágúst 2022. Þeim hefur verið vísað til  umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs og byggingarfulltrúa. Aldrei hafa borist svör. Síðast var vitað um 30 sérbýlislóðir, allt lóðir  sem Reykjavíkurborg bauð út árið 2006 og seldi hæstbjóðendum og fékk greitt fyrir þær fyrir 15-16 árum. Á þessum lóðum má víða sjá rusl og drasl og oft byggingarefni sem legið hefur á víð og dreif um lóðirnar og fokið um hverfið. Umræðuna um lóðarskort þarf ekki að kynna. Það sárvantar húsnæði sem hefur leitt til þess að fasteignamarkaðurinn er ekki í jafnvægi. Þegar skipulagsyfirvöld veita byggingarleyfi eiga að fylgja því  tímamörk sem umsækjandi hefur til að fullklára bygginguna. Útgefið leyfi þarf að leiða til þess að bygging rísi á viðkomandi lóð innan ákveðins tíma.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð Strætó bs. frá 14. október lið 14:

Hefja þarf næturstrætó hið fyrsta aftur í Reykjavík. Eins og fram hefur komið í umræðunni hefur skapast vandi í miðbænum vegna  mannfjölda sem er að reyna að  komast heim til sín á kvöldin um helgar. Næturleiðir minnka þann vanda og geta komið fleirum heim með öruggum hætti. Ástæða er til að halda akstri áfram á stærstu næturleiðunum þar sem þær eru ágætlega nýttar. Sjálfsagt er að skoða hagræðingarleiðir s.s. að láta alla farþega sem borga stakt gjald greiða tvöfalt fargjald líkt og var fyrir heimsfaraldur. Fleiri leiðir mætti skoða. Flokkur fólksins veltir fyrir sér hvort fólk almennt hafi vitað af næturstrætó, svo sem hvar þeir væru staðsettir og tímasetningar. Þetta eru nýjar leiðir sem ekki hafa verið í gangi árum saman. Það tekur því tíma fyrir fólk að átta sig á notkunarmöguleikum leiðanna.

 

Bókun Flokks fólksins við undir 7. lið  fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 26. október 2022:

Kynntar eru niðurstöður netkönnunar Maskínu um viðhorf til göngugatna. Engar upplýsingar um niðurstöður fylgdu með í útsendum gögnum. Úrtakið var 1078 svarendur í Reykjavík og er sagt að það endurspegli þjóðina vel. Neikvæðir eru færri en jákvæðir gagnvart göngugötum í miðbænum. Eftir því sem fólk er eldra þeim mun neikvæðara er það gagnvart göngugötum. Þeir sem búa fjær miðbænum eru neikvæðari gagnvart göngugötum en þeir sem búa nálægt þeim. Neikvæðum hefur þó fækkað frá síðustu könnun. Þessar niðurstöður koma ekki beinlínis á óvart ef horft er á heildina. Flokkur fólksins lítur á þetta með þeim hætti, allavega að hluta til, að þeir sem búa lengst frá miðbænum eiga stundum í basli með að komast í bæinn til að njóta göngugatna. Almenningsvagnar virka ekki vel fyrir alla hópa og þeir sem vilja koma á bílnum sínum óttast að fá ekki bílastæði. Ákveðinn hópur treystir sér ekki í bílastæðahúsin og má þar nefna kannski helst eldra fólk og öryrkja. Það er mat margra að miðbærinn með sínum ágætu göngugötum sé helst að þjóna og gleðja íbúa við þessar götur og nágrenni og ferðamenn. Verslun, almenn og fjölbreytt verslun eins og hún var er ekki lengur í miðbænum sem skartar einna helst veitingastöðum, krám, börum og verslunum fyrir ferðamenn.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um verkefnið Kveikjum neistan, hvað er að frétta af tillögu Flokks fólksins með innleiðingu verkefnisins:

Flokkur fólksins lagði fram tillögu í borgarráði um verkefnið Kveikjum neistann 18. ágúst 2022 og var henni vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs. Lagt var til að verkefnið Kveikjum Neistann yrði innleitt í grunnskólum Reykjavíkur í samráði við skólasamfélagið þar sem það hefur sýnt einstaklega skýrt að það er að virka og er skemmst að vísa til reynslunnar í Vestmannaeyjum. Hvenær er að vænta svars/umsagnar og afgreiðslu þessarar tillögu?

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs. MSS22080111

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hvernig innkaupum þjónustu- og nýsköpunarsviðs er skipt á milli sviðsins sjálfs og svo innkaupaskrifstofu Reykjavíkurborgar:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvernig innkaupum þjónustu- og nýsköpunarsviðs er skipt á milli sviðsins sjálfs og svo innkaupaskrifstofu Reykjavíkurborgar. Sér innkaupaskrifstofa Reykjavíkur um innkaup/útboð fyrir hönd sviðsins að hluta til eða að öllu leyti? Er lögfræðiteymi þjónustu- og nýsköpunarsviðs starfandi á innkaupaskrifstofu varðandi lögfræðileg málefni tengd innkaupum og útboðum? Einnig óskar fulltrúi Flokks fólksins eftir að vita hvort önnur svið eða skrifstofur séu með lögfræðinga hjá sér til þess að sjá um innkaupa og útboðsmál. Ef svo er, hvar liggur línan á milli verkefna innkaupaskrifstofu og svo innkaupa og útboðsmála hvers sviðs eða skrifstofu fyrir sig?

Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs. MSS22100259

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um árangursmælingar sérkennslu:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvort hafnar eru árangursmælingar á sérkennslu í grunnskólum Reykjavíkur. Flokkur fólksins var með tillögu um að gera slíkar mælingar fyrir nokkrum misserum. Miklu fé er varið í sérkennslu á hverju ári eða um fimm milljörðum sem er hið besta mál. En ávallt þarf að spyrja hvort sérkennslan sé vel skilgreind og einstaklingsmiðuð og hvort hún sé að skila mælanlegum árangri. Einnig er mikilvægt að barn fái viðhlítandi greiningu áður en það fer í sérkennslu til þess að hægt sé að haga sérkennslunni þannig að hún mæti þörfum barnsins. Til þess að vera fullviss um að barn sé að fá það út úr sérkennslunni sem það þarf verður að mæla árangur og aðeins þannig er hægt að endurbæta hana eftir þörfum og á forsendum barnsins. Löngu tímabært er að meta með kerfisbundnum hætti árangur með reglulegum hlutlægum mælingum til að greina hvort sérkennslan hafi leitt til bættrar stöðu barna og ef ekki, að greina og innleiða þá helstu tækifæri til úrbóta.

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs. MSS22100260