Fatlaðir fastir í rafrænum ranghölum, grein birt í Fréttablaðinu 8. desember 2021

Nýlega var tekið í notkun nýtt rafrænt greiðslukerfi hjá Strætó bs. Kerfið er hamlandi fyrir öryrkja og fólk með þroskaskerðingu. Greiðslukerfið virkar þannig að farsími eða kort er sett upp við skanna í vagninum þegar greitt er fyrir farið. Öryrkjar fá afslátt af Strætó-fargjaldinu en til að virkja afsláttinn þurfa þeir að skrá sig inn með rafrænum skilríkum. Vandinn er sá að stór hópur fólks með þroskahömlun er ekki með rafræn skilríki. Sökum fötlunar geta þau ekki valið lykilorð og mega ekki fá aðstoð við það.

Verið er að brjóta margvísleg lög sem eiga að tryggja réttindi fatlaðra. Hér er enn eitt dæmið. Fjölmargir sem koma að málefnum fatlaðra einstaklinga hafa varað við einhliða upptöku rafrænna lausna. Fatlaðir einstaklingar eru mismunandi og með mismunandi þarfir.  Rafrænir hlekkir, sem stjórnvöld nútímans hafa keyrt í gegn án þess að hlusta á varnaðarorð m.a. frá Þroskahjálp, eru mannréttindabrot.   Hinn rafræni faðmur hins opinbera er ekki eins tryggur og ætla mætti og býður upp á margskonar mistök.

Allar leiðir lokaðar

Eins mikla kosti og rafrænar lausnir hafa þá þarf að horfa til þeirra sem ekki geta nýtt þær og finna fyrir þann hóp aðrar lausnir. Segja má því að kerfið sé vanhugsað frá upphafi þegar kemur að ákveðnum hópum í samfélaginu.  Dæmi eru um að fólk með þroskahömlun hafi engan aðgang að upplýsingum eða öðrum þjónustuleiðum sem kalla á auðkenningu vegna þess að það hefur ekki getað sótt um rafræn skilríki. Hvorki ríki né borg virðast hafa sérþarfir þessa hóps í huga.

Stefnt er að því að gera biðlista miðlæga og rafræna. Auðvitað mun það verða gott þegar biðlistar verða miðlægir og rafrænir þannig að fólk geti séð hvar það er í röðinni. En fyrir fatlað fólk sem ekki getur auðkennt sig með rafrænum leiðum þarf að finna aðrar leiðir. Það er einfaldlega réttlætismál að fatlaðir fái sömu upplýsingar og þeir sem nota rafrænar lausnir.  Þess utan leysa „rafrænir biðlistar“ að sjálfsögðu ekki hinn alvarlega biðlistavanda sem virðist lengjast stjórnlaust bæði hjá ríki og borg. Flokkur fólksins vill að biðlistum sé einfaldlega eytt og ætti það að vera aðaláherslan. Það linar engar þjáningar að geta flett því upp í rafrænum gagnagrunni að vera númer 346 í röðinni Rafrænar lausnir munu ekki fjölga starfsfólki sjúkrahúsa né í umönnun fatlaðra.

Höfum mennskuna í fyrirrúmi

Sá hópur sem hér um ræðir hefur lent á skjön í borgarkerfinu. Foreldrum þessara einstaklinga er einnig meinaður aðgangur að upplýsingunum þar sem viðkomandi er yfir 18 ára. Það er nauðsynlegt að mæta þörfum fatlaðra á mennskan máta og hlusta á raddir þeirra og hagsmunasamtaka í stað þess að aðeins að nýta stafrænar lausnir til að ná fram skammtíma „hagræðingu“ fyrir þjónustuveitendur. Nauðsynlegt er að bjóða aðrar auðkennisleiðir ásamt því að útbúa auðlesið upplýsingaefni á pappírsformi.

Það ekki heillavænlegt að velja aðeins stafræna einstefnu!
Fatlaðir einstaklingar verða alltaf hluti af þjóðfélaginu.

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, sálfræðingur og oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur

Rut Ríkey Tryggvadóttir, klæðskerameistari og móðir fatlaðs einstaklings

Birt í Fréttablaðinu 8. 12. 2021