Undirbúningur undir borgarstjórnarfund 20. desember 2022. Þemafundur. Umræðuefni: Framtíðarþjónusta við eldri borgara í Reykjavík
Greinargerð borgarfulltrúa Flokks fólksins við umræða um framtíðarþjónustu við eldri borgara í Reykjavík.
Hvernig við viljum sjá þjónustuna þróast, stefnur, áherslur og hver verður þörfin og hvernig viljum við sjá þjónustu við aldraða þróast.
Flokkur fólksins hefur lagt fram fjölda tillagna til að bæta þjónustu við eldra fólk í Reykjavík, bæði þá sem eru á hjúkrunarheimilum og sem búa heima. Einnig hafa verið lagðar fram tillögur um að fjölga þjónustuþáttum við eldra fólki sem býr heima.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins mun ræða sérstaklega um stuðningsþjónustu og nýjar reglur um stoð- og stuðningsþjónustu fyrir fullorðið fólk.
Stoð og stuðningsþjónusta er annars vegar praktísk og hins vegar sálfélagslegur stuðningur. Borgarfulltrúi Flokks fólksins mun ræða aðstoðina sem þjónustuþeginn þarf. Sú þjónusta á að koma auðveldlega til þjónustuþegans að mati Flokks fólksins og um hana á aldrei að þurfa að vera barátta eða ágreiningur. Áður en þjónustan hefst er gert mat á stuðningsþörf. Flokkur fólksins bendir á að þörf á stuðningi getur breyst hratt. Sem dæmi getur eldri einstaklingur verið metinn á einhverjum tímapunkti að hann geti farið út með rusl, skipt á rúmi eða hengt upp þvott. En það getur breyst í einu vettvangi. Reynslan á mati er að oft líður langt á milli matsins. Helst þyrfti að vera árlegt mat og jafnvel oftar eftir atvikum. Bæði sjón, heyrn og hreyfing breytist árlega eins og gengur þegar komið er á þennan aldur. Kvartanir hafa borist til borgarfulltrúa um að eftir að reglum var breytt hefur fólki verið ætlað að gera hluti sem það hefur ekki lengur getu til. Þetta þarf að skoða og ræða opinskátt.
Ef að búa heima á að vera alvöru kostur þarf að bæta ýmsum nýjum þjónustuþáttum við og hefur fulltrúi Flokks fólksins lagt fram tillögur að hugmyndum um nýja þjónustuþætti. Þjónusta þarf einnig að vera um helgar og á rauðum dögum ef þess er þörf en dæmi er um að miklir erfiðleikar hafa verið að fá t.d. aðstoð við böðun lendi þjónustan á rauðum degi.
Í nýrri rannsókn Berglindar Blöndal á aðstæðum aldraðra kemur fram að þunglyndi og einmanaleiki einkenndi þátttakendur rannsóknarinnar og voru sumir einnig vannærðir. Fleiri rannsóknir hafa sýnt að þunglyndi og einmanaleiki einkenna þennan viðkvæma hóp sem gefur til kynna að hlúa þarf vel að honum. Einmanaleiki háir sérstaklega þeim sem búa einir. Sumir eldri borgarar sem búa einir eiga ekki ættingja eða vini sem þeir geta leitað til eftir aðstoð með þætti sem þjónusta velferðarsviðs býður ekki upp á. Þessi hópur er einnig sennilega sá sem minnst er tæknivæddur og ekki allir nota þá velferðartækni sem er þó í boði og hefur vissulega gagnast mörgum.
Ein tillaga frá fulltrúa Flokks fólksins um að koma á laggirnar sálfélagslegu meðferðarúrræði fyrir eldri borgara á hjúkrunarheimilum og í heimahúsum til að draga úr einmanaleika og notkun geðlyfja vegna dapurleika, kvíða og einmanaleika var vísað til velferðarráðs með öllum greiddum atkvæðum á fundi borgarstjórnar 2.2. 2021. Þar var tillagan felld. Líðan eldra fólks er misgóð enda aðstæður þeirra mismunandi. Huga þarf að hverjum og einum út frá einstaklingsþörfum og áhuga.
Hér að ofan er brot af þeim atriðum sem borgarfulltrúi Flokks fólksins vill ræða undir þessum lið á fundi borgarstjórnar 21. desember
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Afgreiðsla skóla- og frístundaráðs á tillögu fulltrúa í ungmennaráði Laugardals, Háaleitis og Bústaða um hinseginfræðslu fyrir foreldra krakka í grunnskólum – framlagning:
Flokkur fólksins vill þakka fyrir tillögu frá fulltrúum í ungmennaráði Laugardals, Háaleitis og Bústaða um hinsegin fræðslu fyrir foreldra krakka í grunn- og leikskólum borgarinnar. Börn og ungmenni hafa verið að biðja um meiri hinseginfræðslu. Það er ekki síður brýnt að bjóða upp á hinseginfræðslu fyrir foreldra og forráðamenn í öllum grunnskólum. Það skiptir máli að forráðamenn geti svarað spurningum sem vakna hjá krökkum og að fræðandi og uppbyggileg samtöl geti átt sér stað inn á heimilunum. Sjálfsagt er að leggja áherslu á rafræna fræðslu en einnig er mikilvægt að bjóða upp á samtal. Rafrænar leiðir koma aldrei í staðinn fyrir að eiga samtal, geta spurt spurninga, fengið svör og átt samræður. Fulltrúi Flokks fólksins vill benda á tillögu frá Flokki fólksins um að gerð verði úttekt á jafnréttisfræðslu í skólunum, hvernig henni er háttað og hvernig hún hefur þróast undanfarna áratugi. Tillagan var felld. Allt frá því fyrstu jafnréttislögin voru sett árið 1976 hefur íslenskum skólum verið skylt að fræða nemendur um jafnrétti kynja en í ljós hefur komið að kynja- og hinseginfræði er af skornum skammti. Innleiðing á fræðslu af þessum toga er vandmeðfarin og þarf að vera með fjölbreyttum hætti á á öllum skólastigum og með öllum aldurshópum.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, dags. 14. desember 2022, varðandi stofnun Áfangastaðastofu höfuðborgarsvæðisins:
Flokkur fólksins er ávallt áhugasamur um hvað svona lagað kostar enda mikilvægt að horfa til þess vegna fjárhagsvanda Reykjavíkur. Fram kemur að miðað við forsendur sem lagðar eru fram í skýrslunni, þ.e. að starfsemi áfangastaðastofu verði byggð upp á árinu 2023 og að fullri starfsemi verði komið á árinu 2024, er gert ráð fyrir að heildarkostnaður sem skiptist milli sveitarfélaganna á árinu 2023 nemi 39.590.000 kr., og er þar miðað við tiltekið hlutfall, eða 37%, af kostnaði við fulla starfsemi samkvæmt fyrirliggjandi rekstrargreiningu KPMG. Hlutur Reykjavíkur er 56,33%, 22.301.047. Nú liggur fyrir að fjárhagur borgarinnar er kominn fram á heljarþröm og ekki króna eftir til að greiða af lánum. Þá veltir fulltrúi Flokks fólksins því fyrir sér hvernig á að fjármagna þetta, hvaðan eiga þessir peningar að koma? Vissulega er hægt að lækka rekstrarkostnað, finna þarf leiðir til þess. Jákvætt er þó að sjá í gögnum að skipa á í stjórn eftir stærð sveitarfélaganna.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Atvinnu- og nýsköpunarstefna, Kynning, Gistinætur á höfuðborgarsvæðinu – sumarið 2022:
Það verður að tryggja stöðugt framboð á lóðum fyrir uppbyggingu á íbúðarhúsnæði að mati Flokks fólksins. Ferðamannabransinn á Íslandi er sveiflukenndur og einkennist af offjárfestingu þegar vel gengur. Ferðamannabransinn er sannarlega mikilvægur okkur Íslendingum en allir Íslendingar þurfa einnig að hafa þak yfir höfuð sitt. Hver einasta lóð sem fer undir nýtt hótel er lóð sem ekki verður hægt að nýta til uppbyggingar íbúða. Ef illa gengur í ferðamannabransanum munu þessi hótel ekki nýtast undir íbúðir, heldur munu þau standa auð – það sáum við í COVID. Á meðan húsnæðisverð er jafn hátt og raun ber vitni og útilokað er fyrir venjulegt fólk að safna fyrir útborgun á íbúð ætti ekki að úthluta lóðum undir hótel í borginni. Flokkur fólksins vill huga að þörfum borgarbúa fyrst og síðast og setur fæði, klæði og húsnæði í forgang.