Bókun Flokks fólksins við bréfi mannréttindastjóra dags. dags. 29. apríl 2021, um stofnun starfshóps um ókyngreinda aðstöðu í skóla- og frístundahúsnæði Reykjavíkurborgar.
Lagt er fram erindisbréf um starfshóp um ókyngreinda aðstöðu í skóla- og frístundahúsnæði sem vinna á áætlun um forgangsröðun framkvæmda við skólahúsnæði með það sérstaklega í huga að tryggja aðgengi. Lögin eru enn óbreytt en eru í endurskoðun. En eins og stendur kveða lögin á um „að þar sem skilrúm salernisklefa ná ekki niður að gólfi og upp að lofti skulu salernisrými vera aðgreind fyrir konur og karla.“ Reglugerðin kveður ekki á um kyngreinda búnings- og baðaðstöðu. Skiljanlega vill Reykjavíkurborg vera í fararbroddi og sjálfsagt er að hafa skýr markmið. Tekur fulltrúi Flokks fólksins undir þau öll. Vinna þarf gegn allri mismunun. Víða mætti bæta aðgengi og aðstöðu í búnings- og baðsaðstöðu í húsnæði á vegum borgarinnar t.d. þeirra sem búa við fötlun af einhverju tagi. Aðstæður eru verri í eldra húsnæði. Vöntun er víða á aðstöðu fyrir foreldra fatlaðra barna og barna sem þurfa sérstaka aðstoð og eru af öðru kyni, einnig fatlað fólk með aðstoðarmann af öðru kyni og börn að aðstoða foreldra sem eru af öðru kyni. Loks má nefna þá sem er t.d. með stóma. Fulltrúi Flokks fólksins myndi vilja sjá hópinn horfa til allra þessara þátta, aðgengi almennt.
Bókun Flokks fólksins Lögð fram til samþykktar umsögn mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs dags. 29. apríl 2021, um tillögu borgarstjóra um aðild Reykjavíkurborgar að tengslanetinu Cities Coalition for Digital Rights.
Borgarstjóri hefur lagt til að hann verði fulltrúi í bandalaginu Cities Coalition for Digital Rights og sviðsstjóri þjónustu- og nýsköpunarsviðs staðgengill. Umsagnarbeiðni (drög) er lögð fram í mannréttindaráði til samþykktar eða synjunar. Ekki fylgja upplýsingar um hvort þetta skapi einhvern kostnað t.d. hvort borgarstjóri hyggist leggja land undir fót til að mæta á fundi? Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að vel er hægt að taka þátt í bandalaginu í gegnum fjarfundi. Sjálfsagt er að fylgjast með en minnt er á að Reykjavíkurborg er ekki hugbúnaðarfyrirtæki heldur sveitarfélag sem hefur skuldbindingar gagnvart fólkinu. Finna má nú þegar dæmi um snjalllausnir sem komnar eru í notkun í öðrum stofnunum og sem Reykjavíkurborg gæti nálgast og aðlagað að þjónustuþörfum borgarinnar. Svið borgarinnar vita best hvað þau þurfa og hvernig sú aðlögun þarf að vera. Þetta gera aðrar stofnanir og það fyrir brotabrot af því fjármagni sem sett hefur verið í stafræna umbreytingu sem eru 10 milljarðar. Fulltrúi Flokks fólksins hvetur til þátttöku borgarstjóra í þessu áhugaverða bandalagi í gegnum snjallausnir/fjarfundi og umfram allt að reyna að læra sem mest af öðrum. Þótt fulltrúi Flokks fólksins styðji prinsippið enda hér aðeins um drög að ræða styður hann engin fjárútlát sem munu tengjast þessu svo það sé alveg skýrt.
Lögð fram umsögn þjónustu- og nýsköpunarsviðs dags. 30. apríl 2021, um tillögu borgarstjóra um styrk til Nýsköpunarvikunnar 2021:
Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að það sé ekki hlutverk hins opinbera að vera að eyða háum fjárhæðum af almannafé í þá tilraunastarfssemi sem nýsköpunarvinna í rauninni er. Það eru fyrst og fremst einkafyrirtæki sem eiga að leiða þennan nýsköpunarvagn; það eru einkaaðilar sem eiga að taka þá fjárhagslegu áhættu sem fólgin er í nýsköpun. Það er ekki hægt að réttlæta það lengur að meirihlutinn í Reykjavík skuli vera að auka fjármagn enn frekar undir merkjum nýsköpunar á kostnað þjónustu við fólkið bæði grunnþjónustu að aðra sem borgarbúa þurfa. Nýsköpun er litla barn þessa meirihluta og er greinilega í forgangi. Orðið nýsköpun er farið hljóma eins og einhverskonar mantra sem meirihlutinn fer með aftur og aftur til þess að réttlæta það mikla fjármagn sem búið er að setja í þessa hluti margsinnis án skilgreininga, skýrra markmiða og oft án sýnilegs árangurs eða afurða. Reykjavíkurborg á að fylgjast með því sem einkaaðilar hérlendis sem erlendis, eru að gera í þessum málum og nýta sér svo þær lausnir sem það nýsköpunarferli skilar af sér og sannað er að beri árangur. Þannig er best farið með fjármuni Reykvíkinga.
Bókun við svari vegna fyrirspurnar til mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs á fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um ferðakostnað:
Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst hann ekki hafa fengið skýr svör við spurningum sínum um ferðakostnað háttsettustu manna á sviði þjónustu- og nýsköpunarsviðs og sundurliðun á kostnaðinum og veit ekki hvert vandamálið er. Oft áður hefur verið spurt um kostnað sviða vegna ferðalaga, ráðstefna, funda og annað og koma þá tölur sem hafa verið sundurliðaðar eftir árum, erindum og á starfsfólk/starfstitlum án vandkvæða. Það er ekki tilfellið í þessu svari og hafa samt verið gerðar tvær tilraunir. Í seinna svari sem kemur frá skrifstofustjóra borgarstjórnar eru sýndar tölur frá 2016 og 2017, eftir deildum og er upphæðin tæpar 6 milljónir en fulltrúi Flokks fólksins vill fá sundurliðun eftir starfsheitum og ástæður ferðalagana. Fulltrúi Flokks fólksins er orðinn tortrygginn vegna þess hversu erfiðlega gengur að fá svör í ljósi þess að sviðinu hefur verið veitt 10 milljarða innspýting. Það er réttur borgarbúa að fylgst sé með þegar upphæðir eru af þeirri stærðargráðu sem ÞON er að höndla með. Sér í lagi þegar um er að ræða óljósar og óskilgreindar áætlanir sem tengjast nýsköpun og stafrænni umbreytingu og ferðalögum og fleiru þessu tengdu. Nú þegar nauðsynlegt er að velta við hverri krónu vegna slæmrar stöðu borgarinnar er krafan um skerpingu á markmiðum enn háværari.