Bókun Flokks fólksins við Kynningu á aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar gegn ofbeldi 2022 – 2024:
Aðgerðaráætlunin var unnin af ofbeldisvarnarnefnd Reykjavíkurborgar. Hún er ágætur leiðarvísir. Fleiri aðgerðum mætti bæta við s.s. Er varða eldra fólk og heimilisofbeldi/einelti, einnig að lýsing í borginni er stór öryggisþáttur, öryggismyndavélar á leiksvæðum svo fátt sé nefnt. Ýmsar spurningar vakna og þá helst hvernig áætluninni er og verður framfylgt og hvert sé hlutverk Ofbeldisvarnarráðs í því sambandi. Talað er um að það eigi að birta tölfræði upplýsingar sem taka á saman velferðarsviði og hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu með reglubundnum hætti á vef borgarinnar. Einnig eiga að vera upplýsingar í tengslum við verkefnið Saman gegn ofbeldi á vefsíðu borgarinnar um hvert brotaþolar og gerendur geta leitað til að fá aðstoð. Fulltrúi Flokks fólksins leitaði að þessum upplýsingum á heimasíðu borgarinnar og fann ekki. Innleiða á verkefnið/verklagið Opinskátt um ofbeldi í öllum hverfum borgarinnar. Í því felst m.a. að ræða á við börn um ofbeldi og gera þau færari í að taka afstöðu gegn því. Þetta eru göfug markmið en segja má að þessi verkefni sé nokkuð út og suður. Nú er komið nýtt fyrirkomulag, Ofbeldisvarnaráð, sem Flokkur fólksins telur að koma þurfi sterkar inn í málaflokkinn t.d. hvað varðar eftirfylgni.
Bókun Flokks fólksins við Kynningu á verkefninu Saman gegn ofbeldi:
Flokkur fólksins styður svo sannarlega verkefnið Saman gegn ofbeldi. Með góðu samstarfi þeirra aðila sem koma að verkefninu hefur það skilað góðum árangri. Markmiðið á alltaf að vera að útrýma hvers kyns ofbeldi og senda skýr skilaboð um að ofbeldi sé ólíðandi. Fulltrúa Flokks fólksins telur mikilvægt að mannréttinda og ofbeldisvarnaráð hafi góða samvinnu við þá sem fara fyrir verkefninu og hjálpi til með öllum ráðum til að verkefnið skili árangri.
Bókun Flokks fólksins við liðnum Umræða um ofbeldi í almannarými:
Fréttir um ofbeldi í almannarými undanfarna daga og mánuði vekur ugg hjá borgarbúum. Greinilegt er að ofbeldi er að færast í aukana. Auknar hópamyndanir svokallaðra gengja og almennt aukinn vopnaburður. Flokkur fólksins tekur þessar vísbendingar alvarlega og vill að farið verði í markvissar aðgerðir og rýna þetta aukna ofbeldi. Í því samhengi má nefna tillögu Flokks fólksins um samvinnu vegna aukins ofbeldis ungmenna. Mikilvægt er að auka sýnileika lögreglu í almannarýmum en það hefur verið gert á Norðurlöndum og gefist vel. Í aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar gegn ofbeldi 2022 – 2024 segir: Samfélagslögreglur verði starfandi á öllum lögreglustöðvum höfuðborgarsvæðisins. Tilraunaverkefni um samfélagslögreglur á öllum lögreglustöðvum höfuðborgarsvæðisins verði sett á fót í þeim tilgangi að auka nærveru við borgarbúa, vera sýnilegri og aðgengilegri og auka með þeim hætti traust borgarbúa til lögreglu. Segir jafnframt í aðgerðaráætluninni að verkefnið eigi að vera komið til framkvæmda haustið 2022. Við viljum öll búa í öruggu samfélagi frá vöggu til grafar. Við viljum að börnin okkar geti leikið sér á öruggum leikvöllum, að öryggismál skólanna sé í lagi og að þar sé unnið gegn einelti og hvers kyns ofbeldi. Þegar við eldumst viljum við finna fyrir öryggi og að við getum verið örugg þegar við hreyfum okkur utandyra.
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um aðgerðaráætlun:
Aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar gegn ofbeldi 2022 – 2024 er unnin af ofbeldisvarnarnefnd Reykjavíkurborgar. Hún er sett fram til að fá yfirsýn yfir þau fjölmörgu verkefni sem borgin sinnir í vinnu gegn ofbeldi. Henni er einnig ætlað að vera vegvísir í baráttunni gegn ofbeldi og tryggja að þau verkefni sem tilgreind eru verði framkvæmd. Aðgerðaráætlunin er sannarlega viða mikil og metnaðarfull. Metnaðarfullum hugmyndum þarf að fylgja eftir. Hver er ábyrgð ofbeldisvarnaráðs á þessari aðgerðaráætlun? Í áætluninni eru vissulega nefndir ábyrgðaraðilar fyrir sérstökum verkefnum og víða nefnt að verkefni eigi að vera komin til framkvæmda haustið 2022. Það sem Flokki fólksins langar að vita er hvað gerist ef einhver ábyrgðaraðili fer ekki eftir aðgerðaráætluninni? Það er ekki nóg að skrifa fallegar stefnur/ áætlanir það þarf að fylgja þeim eftir annars verða þau bara orðin tóm. MSS22110219
Vísað til umsagnar mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu.