Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju tillaga mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs um samráðsvettvang um börn og ungmenni í tengslum við ofbeldi ásamt greinargerð, sbr. 8. lið fundargerðar mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 8. júní 2023:
Flokkur fólksins fagnar að sjálfsögðu að loksins sé verið að stofna samstarfshóp til að bregðast við auknu ofbeldi meðal ungmenna. Flokkur fólksins er sammála því að í þessum málaflokki þurfi vitundarvakningu og samstillt átak allra aðila til að sporna við þessari óheilla þróun. það má segja að þessi tillaga sé nokkurs konar mótsvar eða breytingartillaga við tillögum Flokks fólksins um stofnun stýrihóps sem myndi kortleggja aukinn vopnaburð meðal ungmenna í Reykjavík, og tillögu flokksins um aukið samráð þriggja ráða. Þessi tillaga er mun viðameiri þar sem lagt er til að fulltrúar frá borgarstofnunum, ríkisstofnunum og grasrótarsamtökum taki sæti í samstarfshópnum.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um greiningu á efnahagslegum ójöfnuði í Reykjavík ásamt greinargerð:
Fulltrúi Flokks fólksins styður þessa tillögu heilshugar og þykir miður að meirihluti ákveði að vísa tillögunni frá. Eins og komið hefur fram er ójöfnuður að aukast með öllum þeim slæmu afleiðingum sem honum fylgja.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum frá mannréttinda- og ofbeldisvarnarráði Reykjavíkurborgar hvort ráðið ætli að bregðast við með einhverjum hætti vegna vanrækslu meirihlutans á málefnum barna sem enn eru föst á biðlistum eftir fagþjónustu í skólum borgarinnar. Spurt er vegna þess að fulltrúi Flokks fólksins telur að sú vanræksla sem fólgin er í því að láta biðlista lengjast ár frá ári án þess að gripið sé inn í með raunhæfum hætti, megi í raun túlka sem ákveðna tegund af ofbeldi. Þess vegna þurfi mögulega að eiga sér stað einhverskonar inngrip af hálfu mannréttinda og ofbeldisvarnarráðs hvað þetta varðar. Fulltrúinn hefur í langan tíma gagnrýnt fyrrverandi og núverandi meirihluta fyrir sinnuleysi varðandi þennan málaflokk sem m.a. hefur haft þær afleiðingar að mörg þessara barna hafa orðið af þeirri þjónustu sem þau áttu rétt á vegna aldurs. Í framhaldi af því er það alveg orðið spurning hvort grundvöllur sé fyrir málsókn á hendur Reykjavíkurborg fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu vegna þeirra mannréttindabrota sem átt hafa sér stað undanfarin ár gegn þeim börnum sem ekki hafa fengið þá þjónustu sem borginni ber að veita. MSS23080103