Símalausar skólastofur

Umræðan um snjallsímanotkun í grunnskólum og hvort eigi að banna þá í skólunum er nú aftur komin á kreik og mun kröftugri en fyrr. Það er gott og er þess vænst að hún leiði að þessu sinni til einhverrar niðurstöðu og þá niðurstöðu sem þjónar hagsmunum grunnskólanema. Skoða mætti ýmsar útfærslur. Á að banna krökkunum alfarið að koma með símana sína inn í skólabygginguna eða leyfa þeim að hafa þá meðferðis, séu þeir ofan í tösku og slökkt á þeim. Eða eiga þeir að vera í geymslu á skólatíma? Um þetta hefur m.a. verið rætt fram og aftur.

Flestum börnunum þykir þetta án efa hinar verstu hugmyndir. Mörg hugsa til þess með hryllingi að hafa ekki símana sína nærtæka, hvað þá að þurfa að láta þá af hendi.

Það breytir ekki því að margir eru uggandi yfir hversu háðir krakkarnir eru orðnir símanum. Krakkar geta ekki verið með óskerta athygli á námi og samskiptum í skólastofunni séu þau með símann í augnsýn. Með símann í vasanum, í kjöltunni eða jafnvel undir stílabókinni á borðinu getur verið erfitt að einbeita sér að samfélagsfræði, íslensku eða stærðfræði. Þegar síminn lýsist upp eða gefur frá sér veikt píp þá verður maður að athuga hvaða skilaboð eru komin á skjáinn. Við þekkjum þetta allflest. Sími ofan í tösku sem slökkt er á truflar vissulega minna.

Boð og bönn eru aldrei skemmtileg. Einstaka skólar hafa bannað snjallsímanotkun á skólatíma. Einnig hafa mildari leiðir verið reyndar s.s. að vera með vinsamleg tilmæli til foreldra, til barnanna sjálfra eða leggja til að hinir fullorðnu sammælist um að börnin skilji símann eftir fyrir utan skólastofuna á skólatíma eða heima. Svo virðist sem þessar leiðir hafi ekki skilað afgerandi árangri.

Við vitum hvað börnunum er fyrir bestu

Á meðan börnin eru í skólanum viljum við að þau sinni náminu með óskerta athygli. Það er því eðlileg spurning hvort ekki eigi að hvíla símann á meðan börnin eru í skólanum hvernig svo sem útfærslan á því er. Velja þarf útfærslu sem virkar. Eins og vitað er verja börn og unglingar umtalsverðum tíma á samfélagsmiðlum og þá oftast í gegnum snjallsíma. Börn sem hafa einangrað sig frá skóla og félögum vegna kvíða eru líklegri til að „hanga“ meira í símanum eða í tölvunni. Sýnt hefur verið fram á að tengsl eru á milli streitu og kvíða og mikillar netnotkunar sem er einna helst í gegnum símann. Það er ekki lengur umdeilt að símanotkunin sem er í mörgum tilfellum margir klukkutímar á dag getur auðveldlega valdið spennu, streitu og pirringi. Síminn er kominn með stjórnina og stýrir gjarnan líðan eigandans.

Skjánotkun hefur almennt séð mikið aðdráttarafl og á það við um fólk á öllum aldri jafnvel niður í mjög ung börn. Það er auðvelt að ánetjast skjá og sé aðgengi að skjánum ótakmarkað getur það fljótt leitt til leiða og pirrings. Aðrir hlutir daglegs lífs verða grámyglulegir í augum barna sem upplifa mestu skemmtunina vera fyrir framan skjáinn. Óhófleg og stundum stjórnlaus skjánotkun getur auðveldlega dregið úr áhuga barns á nánast öllu, líka því sem því þótti gaman að gera áður.

Reglur renna út í sandinn

Barn sem eyðir allt að fjórum tímum á dag fyrir framan skjá er í hættu með að þróa með sér kvíðatengd vandamál. Foreldrar eru margir vanmáttugir þegar kemur að reglum um skjánotkun og farsímanotkun barna þeirra. Margir reyna að setja reglur en þegar barn verður unglingur renna reglur oft út í sandinn. Mörgum foreldrum finnst oft óljóst hvað flokkast sem óhófleg notkun snjallsíma. Þá treysta foreldrar sér stundum ekki til að setja reglur af ótta við að barnið bregðist illa við því.

Ákvörðun sveitarstjórna

Þegar á allt er litið er farsælast að sveitarfélag taki ákvörðun um að skólar og þá umfram allt skólastofurnar verði símalausar. Allt sem til þarf er þor og kjarkur til að stíga þetta skref. Þeir flokkar sem skipa meirihluta þora e.t.v. ekki að taka afgerandi skref í þessu máli af ótta við frekari óvinsældir og harða gagnrýni. En hvað með hagsmuni barnanna, þarf ekki að hafa þá að leiðarljósi?

Skoða má ýmsar útfærslur en aðalatriðið er að símarnir fari ekki inn í skólastofurnar og það sama gangi yfir alla. Á meðan þessi mál eru í lausu lofti og kannski einstaka skóli er að reyna að setja reglur í þessu sambandi mun sama umræða koma upp með reglulegu millibili jafnvel næstu árin eða áratugi. Telja má víst að fjöldi foreldra verði þakklátir ef sveitarstjórnir taki af skarið og komi þessu máli á hreint. Á meðan athygli og einbeiting barna á að vera á náminu og samskiptum í skólastofunni á síminn að vera hvergi nærri.

Höfundar:

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir og Helga Þórðardóttir borgarfulltrúar Flokks fólksins

Greinin birtist í Morgunblaðinu 12. ágúst 2023