Skipulags- og samgönguráð 14. apríl 2021

Bókun Flokks fólksins við skýrslu Hafrannsóknarstofnunar um farleiðir laxa og urriða á ósasvæðum Elliðaáa og Leirvogsár, árin 2017 og 2018:

Lögð er fram skýrsla Hafrannsóknarstofnunar um farleiðir laxfiska á ósasvæðum Elliðaáa. Skýrslan er unnin í samstarfi við Reykjavíkurborg en borgin áætlar 13 ha landfyllingu austan megin á ósasvæði Elliðaáa þar sem gert er ráð fyrir að rísi íbúðabyggð. Strandsvæðið sem fer undir landfyllingu er mögulega nýtt af laxaseiðum á göngu sinni úr Elliðaám til sjávar. Samkvæmt skýrslunni er ekki víst að landfyllingar hafi áhrif á göngu þeirra. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af þessu því landfylling minnkar náttúrulegt lífríki við ströndina. Best væri ef þessir bakkar fengju að vera sem mest í friði og setja þar ekki stór mannvirki. Í umsögn Skipulagsstofnunar kemur fram að stofnunin telur að bein áhrif fyrirhugaðrar landfyllingar á laxfiska geti orðið talsverð og jafnvel verulega neikvæð sé horft til mögulegrar skerðingar á fæðumöguleikum og búsvæði. Hver þessi áhrif verða er þó háð óvissu þar sem ekki liggja fyrir nægilega upplýsingar um búsvæði laxfiska við ósanna, um dvalartíma laxfiska og fleira. Stofnunin minnir á meginreglu umhverfisréttar um varúð sem hefur m.a. verið lögfest í náttúruverndarlögum. Heildarvandinn er að verið er að ganga á náttúrulegar fjörur og manngera náttúru til að búa til gerviveröld þar sem náttúrulegu umhverfi með dýralífi, öllum þeim kostum sem því fylgir, er haldið fjarri.

 

Bókun Flokks fólksins Hámarkshraðaáætlun Reykjavíkur, tillaga meirihlutans:

Mikilvægt er að hafa 30 km/klst. hraða á svæðum þar sem börn fara um s.s. í nágrenni við skóla. Víða hefur hraði í íbúðagötum verið lækkaður og er það mjög af hinu góða. Þegar horft er til hraðalækkunar og hraðahindrana almennt séð togast á tveir þættir sem stundum er erfitt að samræma, annars vegar að því minni hraði því færri óhöpp en hins vegar að því hægar sem er ekið því minni er afkastageta gatnakerfisins og meiri umferðartafir og mengun eins og sjá má víða í borginni. Umferðartafir og teppur í borginni er stórt vandamál sem ekki hefur tekist að leysa þrátt fyrir að framlagðar hafi verið magar nothæfar tillögur. Þessi mál eru ekki einföld. Það dugar því skammt að segja að þeir sem benda á að lækkun hraða þýði verra umferðarflæði og skapi tafir sé byggt á einhverjum misskilningi. Enginn er að halda því fram að hærri hraði leiði ALLTAF til meiri afkastagetu götu. Margt annað í aðstæðum hverju sinni þarf að taka inn í myndina. Hér þarf því að finna einhvern milliveg og reyna að mæta þörfum sem flestra til að komast sem öruggast og best á milli staða í borginni.

Bókun Flokks fólksins við kynningu Lækjartorg, samkeppni:

Kynning er á undirbúningi samkeppni um endurbætur á Lækjartorgi og farið yfir skilyrðin. Í þessari kynningu kjarnast kannski óánægja sem var í kringum lokun gatna á Laugaveg og Skólavörðustíg sem varð til þess að svæðið er mannlaust og rými auð. Fram kemur þegar spurt er um hvort ekki eiga að bjóða notendum og rekstraraðilum í stýrihópinn að fyrst skuli tekin ákvörðun og síðan er rætt við notendur og rekstraraðila. Þetta er það samráð sem boðið er upp á, sem er auðvitað ekki samráð heldur er fyrst tekin ákvörðun og síðan er sú ákvörðun kynnt borgarbúum og hagaðilum. Þetta heitir að tilkynna ákvörðun sem valdhafar hafa tekið en ekki verið sé að hafa „samráð“.

Fulltrúi Flokks fólksins finnst sem skipulagsyfirvöld læri ekki af reynslu, læri ekki af mistökum sínum. Öll þessi leiðindi í kringum Laugaveginn sem fræg eru orðin geta því auðveldlega endurtekið sig. Fólki, notendum og hagaðilum finnst sífellt valtað yfir sig þar sem þeir fái aldrei hafa neitt um aðalatriðin að segja. Þau fá að segja til um litlu hlutina, hvar ruslatunna á að vera, bekkur og blóm? Þessi litlu atriði eru kannski þau sem skipulagsyfirvöld eiga að ákveða en notendur sjálfir eiga að ráða stóru myndinni ef allt væri eðlilegt.

Bókun Flokks fólksins Laugavegur í 9 skrefum, framvinda:

Það sem til stendur með Laugaveg í 9 skrefum kann að vera metnaðarfullt. Talað er um teymin sem eiga að stýra þessu en í þeim er enginn fulltrúi notenda eða hagaðila. Þetta eru sérkennileg vinnubrögð. Einhver í teyminu heldur síðan utan um að upplýsa notendur um ákvarðanir teymisins. Þessi aðferðarfræði vísar ekki á gott. Bjóða á notendum um borð frá byrjun, fulltrúa hagaðila, fulltrúa hverfa og fleirum. Þetta er miðbær okkar allra en ekki þröngs hóps sérfræðinga eða skipulagsyfirvalda. Aðferðarfræðin sem notuð hefur verið t.d. með göngugötur og lokanir gatna hefur skilið eftir sárindi fjölmargra, notenda og hagaðila. Kannski átti engin von á að svo sterkt orsakasamhengi myndi vera milli lokunar fyrir umferðar og hruns fjölda verslana. Þegar vísbendingar um að slíkt orsakasamhengi raungerist átti að staldra við og finna nýjan og hægari takt í aðgerðum sem fleiri gætu sætt sig við. Sá meirihluti sem nú ríkir lagði áherslu í upphafi kjörtímabils að hafa fólkið með í ráðum svo á það sé nú minnt hér í þessari bókun.


Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um lækkun hámarkshraða við Korpúlfsstaðaveg:

Tillagan er felld með fjórum greiddum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Fulltrúi Flokks fólksins lagði til lækkun hámarkshraða við Korpúlfsstaðaveg og að farið verði í að skoða hraðann við stoppistöð milli Brúnastaða og Bakkastaða. Þar er lýsing nánast engin, hraðinn mikill, merkingar nánast engar og um þetta svæði fara börn til skóla. Tillagan hefur verið felld. Í umsögn segir að ekki eigi að lækka ökuhraða að svo stöddu. En er þá ætlunin að gera það seinna? Væri ekki einfalt að gera það strax. Umsögnin er afar óljós og einnig í hrópandi ósamræmi við hámarkshraðaáætlun skipulagsyfirvalda. Gildir annað lögmál við Korpúlfsstaðaveg en aðrar götur í borginni í kringum skóla og í íbúahverfum? Á þessum stað er stór hópur barna af yngsta stigi að taka skólarútuna á hverjum morgni og koma svo aftur seinni partinn heim. Báðar tímasetningar eru á háannatíma og þegar umferðin er sem mest. Mælingar sem borgin gerði sl haust til þess að skoða eðli umferðarinnar á veginum voru villandi að mati íbúa. Mælingarnar voru gerðar milli Brúnastaða og Garðsstaða þar sem hraðahindranir eru fyrir og merktar gangbrautir. Í umsögn meirihlutans að nýrri hámarkshraðaáætlun er lögð áhersla á hæga umferð og öryggi gangandi á gönguleiðum að grunnskólum sbr. það sem segir í skýrslu um Hámarkshraðaáætlun Reykjavíkur. Af hverju á það ekki við um Korpúlfsstaðaveg?

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Nú er að samþykkja heildstæðar tillögur um lækkun hámarkshraða í allri borginni. Umrædd hugmynd er ekki hluti af þeim tillögum en þar hámarkshraði á stofngötum á borð við Korpúlfsstaðaveg enn hafður 50 km /klst.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Þarna er svæði sem börn fara um. Vorum við ekki öll sammála um að þar sem væru skólar og börn á ferð ætti að vera 30 km/klst hraði? Af hverju ná heildstæðar tillögur um lækkun hámarkshraða meirihlutans ekki til þessarar götu þótt stofngata sé? Um er að ræða öryggi barna sem ætti að vera ávallt og alltaf í forgangi

Bókun Flokks fólksins við umsögn við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um merkingar á göngugötum vegna P-merktra bíla, umsögn:

Spurt var um hvenær er áætlað að sérstakt merki sem tilgreinir að P merktum bílum er heimilt að aka göngugötur verði tilbúið og það komið upp við göngugötur í Reykjavík?

Í svari er afstaða borgarinnar birt sem er að lágmarka beri umferðarmerkingar og að ekki sé nauðsynlegt að setja upp umferðarmerki um lögákveðna undanþágu frá akstursbanni.

Ástæða fyrir að fulltrúi Flokks fólksins sendi inn þessa fyrirspurn er að fólk sem fer um göngugötur borgarinnar í fullum rétti hefur orðið fyrir aðkasti. Slíkt þarf að fyrirbyggja að gerist og er ein áhrifamesta leiðin í þeim efnum að hafa skýrar merkingar til að geta bent á þær á þeim stundum sem aðkast á sér stað. Fram kemur í svari að á Alþingi sé nú með til meðferðar frumvarp samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um breytingu á umferðarlögum. Umhverfis og skipulagssvið hefur sett á laggirnar starfshóp sem vinnur að gerð draga að samþykkt fyrir göngugötur sem leggja á fyrir Alþingi. Ljóst er að allt á að gera til að spyrna fótum við að P merktir bílar megi aka göngugötur í samræmi við nýsett lög. Skortur er á skilningi borgaryfirvalda á þörfum hreyfihamlaðra alla vega í þessu máli að mati fulltrúa Flokks fólksins.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um trjárækt meðfram stórum umferðaræðum

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til skipulagsyfirvöld ákveði að stórauka plöntun trjáa meðfram stórum umferðaræðum í borgarlandinu. Eitt af því sem ekki hefur verið horft til í baráttunni við svifryksmengun er trjágróður. Rannsóknir sýna að trjágróður dregur úr svifryki. Svifryk er einatt til vandræða og plöntun trjáa er einföld aðgerð sem hefur góð áhrif. Umrædd svæði nýtast ekki til útivistar, en eru án bygginga vegna skipulagsmála enda þarf að vera gott rými meðfram stóru umferðaræðunum vegna veghelgunar og framtíðarnotkunar. En svæðin má nýta tímabundið með trjárækt en gera jafnframt ráð fyrir að slíkur trjágróður verði felldur þegar og ef nýta á rýmið í annað. Þetta er svipuð hugmyndafræði og er í verkefninu ,,Torg í biðstöðu“.
Lagt er því til að plöntun trjáa meðfram stórum umferðaræðum verði stóraukin.

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um að stytta og hraða ferla þegar sótt er um lóðir og byggingarleyfi

Tillaga Flokks fólksins er að hraða ferlum til að stytta tímann milli þess sem sótt er um lóð/byggingarleyfi og þar til hægt er að nota eignina.

Tíminn sem tekur frá því að byrjað er að byggja og geta selt er of langur tími að mati margra sem eru að byggja og gildir það bæði um einstaklinga og fyrirtæki. Leggja þarf áherslu á að hraða þeim verkferlum sem stuðst er við, við skipulag og úthlutun byggingarleyfa. Stefna borgarinnar þarf að vera skýr og skilmálar verða að vera vel kynntir þannig að óvissuþættir séu ekki að þvælast fyrir. Það flækjustig sem nú ríkir og langar og flóknar boðleiðir eru mikil hindrun í framgangi og þróun á húsnæðismarkaði.

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um að fjölga lóðum til einstaklinga og byggingarverktaka

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að fjölga lóðum til einstaklinga og byggingarverktaka fyrir allar tegundir eigna þ.m.t. sérbýliseigna til að hægt sé að viðhaldi eðlilegum húsnæðismarkaði. Erfiðleikar með að fá byggingarlóð í Reykjavík hefur verið mein í borgarkerfinu svo lengi sem elstu menn muna. Þess utan er mikill seinagangur í afgreiðsluferlinu öllu og líður allt of langur tími frá umsókn þar til eign kemst í notkun.

Undanfarið hefur verið lögð áhersla á þéttingu byggðar, en það veldur því að lítið framboð er á rað- og einbýlishúsum. Nú er svo komið að barist er um slíkar eignir. Þetta skapar ójafnvægi á húsnæðismarkaðinum. Í ljósi þess að eftirspurn eftir rað- og sérbýlislóðum er nú í sögulegu hámarki þarf að auka sveigjanleika byggðastefnunnar. Um 30% fasteignakaupenda eru fyrstu kaupendur. Í sölu eru um 200 eignir en þær þyrftu að vera um allt að 900 ef hægt ætti að vera að viðhalda eðlilegu flæði. Sú þróun sem átt hefur sér stað síðustu ár er slæm. Mæta þarf ólíkum þörfum í þessum málum sem öðrum.

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um fundarsköp skipulags- og samgönguráðs

Fulltrúi Flokks fólksins hefur haft samband við Sveitarstjórnarráðuneytið til að kanna hvort bann við bókunum við kærum og framlögðum bréfum borgarstjóra standist sveitarstjórnarlög. Lögfræðingur ráðuneytisins hvatti borgarfulltrúa Flokks fólksins til að óska eftir skýringum frá lögfræðingi skipulags- og samgöngusviðs vegna málsins. Hér með er því óskað skriflegra skýringa á því hvers vegna bókunarréttur er þrengri á fundum skipulags- og samgönguráðs en almennt tíðkast í ráðum jafnvel þótt byggja eigi á sömu lögum og reglugerðum. Gengið hefur verið óeðlilega langt í að meina fulltrúum minnihlutans að leggja fram bókanir m.a. við kærur sem kynntar eru og „bréf borgarstjóra“ sem lögð eru fram á fundum. Bókanir eru eina tjáningarformið sem fulltrúar minnihlutans geta beitt til að koma á framfæri skoðunum sínum og álitum á málum þegar fundir eru lokaðir (sbr. 2. mgr. 5. gr. samþykktar skipulags- og samgönguráðs). Ekki er tilgreint að ákveðin mál á dagskrá skuli undanskilin. Vísað er einnig í 2. mgr. 26. gr. sveitarstjórnarlaga að málfrelsi fylgi réttur til að leggja fram bókanir. Eins hefur fulltrúi Flokks fólksins ítrekað óskað eftir að fá fundardagskrá án fylgigagna senda í fundarboði, sbr. verklag sem tíðkast í öðrum ráðum. Það hefur ekki vafist fyrir öðrum ráðum að senda dagskrá samhliða boðun. Öll ráð og svið borgarinnar nýta sömu tæknina og ætti hún því ekki að vera vandamál hér.

Frestað.