Skipulags- og samgönguráð 26. janúar 2022

Bókun Flokks fólksins við liðnum: Áhrif hámarkshraðaáætlunar Reykjavíkur á Strætó, niðurstöður greiningarvinnu, kynning:

Beðið var um þessa vinnu m.a. af Strætó sem hafði áhyggjur af því að lækkun hámarkshraða myndi hægja á Strætó. Rökrétt er að ef hraði ökutækja lækkar aukist ferðatími, fólk er lengur á leiðinni og það er ekki vegna neinna hindrana endilega heldur einfaldlega vegna að við lýði er ákveðinni hámarkshraði. Niðurstaðan er sú að lækkun á hámarkshraða hefur ekki áhrif á ferðatíma Strætó, alla vega ekki mikil áhrif. Þetta kemur ekki á óvart enda er strætó varla að aka um borgina á einhverjum hraða að heitið geti. Fulltrúi Flokks fólksins veltir því upp hvort ekki eigi eftir að koma meiri reynsla á þessi mál? Eitt er að gera lærða skýrslu um málið en svo á eftir að reyna á þetta. Ýmsar aðrar breytur gætu átt eftir að spila inn í. Fulltrúi Flokks fólksins finnst þessi skýrsla flokkast undir „gæluverkefni“ og veltir fyrir sér kostnaði við vinnslu skýrslunnar.

Bókun Flokks fólksins við: Miklabraut í stokk, hugmyndaleit, kynning:

Með því að setja umferðaræð í stokk má minnka helgunarsvæði vega og þar með að auka möguleika á byggingum og svæðum til ýmissa nota. Þar liggja jákvæðir möguleikar. Að leggja veg í stokk er afar dýr framkvæmd. Ef andstaða gegn svo mikilli þéttingu er mikil munu ekki koma til tekjur af lóðasölu meðfram Miklubrautinni. Vandséð er að með því að leggja veg í stokk muni umferðarflæði aukast. Ef ekki eru gerðar ráðstafanir við báða enda stokksins mun umferðarflæði ekki aukast heldur munu biðraðir aðeins færast til. Inni í stokknum munu hundruð bíla bíða. Bílvélar í hægagangi menga loft sem einhvers staðar mun þurfa að vera, en bílarnir komast á sama tíma ekkert áfram. Biðraðir bíla eru stór mengunarþáttur sem ekki er hægt að líta framhjá. Þess vegna verða að vera til áætlanir um hvert á þetta mjög mengaða útblástursloft á að fara. Er ætlunin að setja upp síur til að sía útstreymis loftið? Ef síur virka stíflast þær. Þá þarf að skipta þeim út, eða hreinsa. Einnig er mögulegt að koma menguðum lofttegundum í vatn og leiða brott. Hefur kostnaður við slíkt verið kannaður? Ekki gengur að leyfa menguðu lofti að flæða og vona að vindar dreifi því?

 

Bókun Flokks fólksins við liðnum: KR svæðið – Frostaskjól 2-6, nýtt deiliskipulag:

Skipulagsyfirvöld leggja til að samþykkja í auglýsingu tillögur sem snúa að bættri aðstöðu KR og þéttingu byggðar kringum aðstöðuna. Þessi skýrsla fjallar um víðtækar og viðamiklar breytingar á deiliskipulagi. Að sjá myndir virkar þetta nokkuð kraðak, eins og verið sé að troða byggingum á hvern blett. Búið er að ramma völlinn inn með húsum með grænum þökum sem aðeins sjást úr lofti. Hvernig verður með aðgengi/bílastæði þegar eru fjölmennir leikir? Vanda þarf hér til verka, en líta á á þetta sem fyrstu tillögur. Markmið er að bæta félagsaðstöðu sem hlýtur að vera aðalatriðið. í ljósi tíðrar andstöðu íbúa við þéttingu byggðar má ætla að mikil umræða þurfi að vera um þessar tillögur og nú reynir á samráðsvilja meirihlutans. Nýlega hefur meirihlutinn tilkynnt að falla eigi frá þéttingaráformum við Bústaðaveg. Sama krafa gæti vel komið upp á þessu svæði. Sennilega eru flestir hlynntir einhverri þéttingu en gengið hefur verið of langt í ákafanum að þétta þannig að borgarbúum, mörgum þykir nóg um og vilja að staldrað sé við.

Bókun Flokks fólksins við Hlemmur, reitur 1.240, umferðarskipulag, breyting á deiliskipulagi:

Margt er gott í tillögunum. Útlitslega séð þykir sitt hverjum þegar horft er á Hlemm út frá fagurfræðilegu sjónarmiði. Götur umhverfis mætti endurbæta með t.d hellulögn. Svæðin mætti gera mun grænna t.d með trjágróðri í kerjum og afmarka svæði útiveitingar og leiksvæði. Fulltrúi Flokks fólksins vill minna á að það er fólk sem býr við Hlemm. Stundum er eins og það gleymist því svo mikil áhersla er lögð á að byggja upp „stemninguna“. Það eru t.d. engir djúpgámar fyrir íbúa til að koma frá sér rusli. Fyrir þá íbúa sem eiga bíla er ekki vitað hvort þeir megi aka með þungar og miklar vörur/vistir upp að dyrum sínum. Það eru leiðir og leyfi fyrir fyrirtæki að afferma vörur en hvar er leyfið fyrir íbúana.Talað er um blágrænar ofanvatnslausnir. Ofanvatnslausnir er orðið tískuhugtak. Ofanvatnslausnir eru mikilvægar víða um heim, en að þær séu gerðar að einhverju aðalatrið á svæði eins og við Hlemm er hjákátlegt. Hér er næg úrkoma til að vökva plöntur í beðum og á torgum. Fulltrúi Flokks fólksins sá í gögnum að hætta er á sýkingu vegna miltisbrandsdysjar við Hlemm. Miltisbrandur er alvarlegur dýra- og mannasjúkdómur. Við uppgröft og aðra jarðvinnu á svæðinu þarf að fara mjög varlega.

Bókun Flokks fólksins við erindi íbúaráðs Grafarvogs vegna vegtengingar við Gufunes:

Lögð er fram leiðrétt bókun fulltrúa í íbúaráði Grafarvogs vegna svars við fyrirspurn um afgreiðslu skipulags- og samgönguráðs á deiliskipulagstillögu um vegtengingu við Gufunes. Fulltrúi Flokks fólksins styður þessa bókun og hvetur borgaryfirvöld til að endurskoða málið í heild sinni. Þarna er krafist úrbóta og hafa verið lagðar fram tillögur til þess fallnar að bæta öryggi og flæði núverandi vegar og gatnamóta. Í bókun segir að ekkert hafi verð hlustað á framlögð rök. Nú reynir á meirihlutann að gera einmitt það sem hann segist alltaf vera að gera „að hlusta á borgarbúa/íbúa.

 

Bókun Flokks fólksins við við tillögu fulltrúa í ungmennaráði Árbæjar og Holta, um að stytta afgreiðslutíma þeirra tillagna sem ungmenni leggja fram á árlegum borgarstjórnarfundi:

Fulltrúi Flokks fólksins styður heilshugar tillögu fulltrúa í ungmennaráði Árbæjar og Holta um að stytta afgreiðslutíma tillagna þeirra sem ungmenni leggja fram á árlegum fundi borgarstjórnar og að upplýsingar og úrvinnslu ferlið verði aðgengilegar. Tafir á afgreiðslu mála og ógegnsæi í úrvinnsluferli borgarinnar er stórt vandamál nánast hvert sem litið er innan borgarkerfisins. Þó er þetta einmitt eitt af því sem þessi meirihluti lofaði að laga svo um munaði. Það hefur oft tekið heila eilífð fyrir svið/nefndir Reykjavíkurborgar að afgreiða umsagnir þannig að málin geta aftur komið á dagskrá til afgreiðslu. Dæmi eru um að meira en eitt ár og jafnvel eitt og hálft ár hafi liðið frá því að tillaga er lögð fram og þar til hún kemur til afgreiðslu á fundi. Fulltrúi Flokks fólksins hefur skilning á að þetta taki einhvern tíma enda mikið af málum sem lögð eru fram en heilt ár og meira er of mikið. Þá eru málin iðulega búin að missa marks, jafnvel orðin úrelt. Vonandi mun afgreiðslutími almennt séð styttast, hvaðan svo sem þau berast, frá ungmennaráðum, borgarbúum eða frá kjörnum fulltrúum ef því er að skipta.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurnir, um hraðahindranir. Mál nr. US210365:

Í Reykjavík eru hraðahindranir í nokkrum útgáfum, stundum þrenging, stundum einstefna þar sem einn og einn bíll fer í gegn í einu og stundum koddar/bungur í mismunandi gerðum. Farið er eftir norskum leiðbeiningum í þessu efni.

Verið er að setja tugi af alls konar hraðahindrunum um þessar mundir.

Spurt er um fjölda og gerð þeirra hraðahindrana sem verið er að gera núna (sem eru í vinnslu) og kostnað?

Hvað er fyrirhugað að setja margar hraðahindranir árið 2022?

Hvernig gerðar eru þær?

Hver er fyrirhugaður kostnaður?

Hvað margar af þessum hraðahindrunum eru einskorðaðar við 30 km götur?

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um hæð byggingar á Ægissíðu. Mál nr. US220021:

Í samningsmarkmiðum Reykjavíkurborgar á uppbyggingarsvæðum sem samþykkt er af borgarstjóra er sagt að leggja skuli áherslu á gæði og gott umhverfi og varðveita staðaranda og yfirbragð byggðar.

Telja skipulagsyfirvöld í borginni að allt að 5 hæða fjölbýli í lágstemdari byggð Ægissíðu falli undir þessi samningsmarkmið Reykjavíkurborgar?

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um kostnað vegna skýrslu um áhrifa lækkunar hámarkshraða á ferðir strætó. Mál nr. US220022:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um heildarkostnað greiningarvinnu og skýrslugerðar umhverfis- og skipulagssviðs um áhrif hámarkshraðaáætlunar Reykjavíkur á ferðatíma Strætó.

Um var að ræða innanhúsvinnu. Óskað er eftir upplýsingum um tímafjölda sem fór í verkið og annan kostnað sem og heildarkostnað.

Beðið var um verkið af meirihlutanum og Strætó sem hafði áhyggjur af því að lækkun hámarkshraða myndi hægja á Strætó.

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um Smyrilshlíð. Mál nr. US220023:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um fyrirhugaðar breytingar á skipulagi í Smyrilshlíð 2 (n.t.t. íbúð 502) og hvernig grenndaráhrif hún muni hafa? Einnig hvaða áhrif mun breytingarnar muni hafa á birtu/skuggavarp.

Frestað.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, varðandi íbúa við Hlemm. Mál nr. US220026:

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að fundinn verði staður fyrir djúpgáma við Hlemm. Við Hlemm býr fólks sem átt hefur í mesta basli með að koma frá sér sorpi.

Einnig er lagt til að íbúum Hlemm verið gefið formlegt leyfi til að aka bíl sínum upp að dyrum til að afferma vörur/vistir eða ef flytja þarf þunga hluti inn á heimilið.

Greinargerð

Það eru  engir djúpgámar fyrir íbúa sem búa við Hlemm til að koma frá sér rusli. Fyrir þá íbúa sem eiga bíla er ekki vitað hvort þeir megi aka með þungar og miklar vörur/vistir upp að dyrum sínum. Það eru leiðir og leyfi fyrir fyrirtæki að afferma vörur en hvar er leyfið fyrir íbúana.

Nefnt hefur verið að við Fíladelfíukirkju sé sleppistæði í þessum tilgangi. En varla er ætlast til að þeir sem búi við Hlemm beri t.d. húsgögn eða aðrar þungar og umfangsmiklar vörur frá Fíladelfíustæðinu og niður á Hlemm.