Umhverfis- og skipulagsráð 17. maí 2023

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um ósvaraðar fyrirspurnir og tillögur, sbr. 15. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 8. febrúar 2023, ásamt svari umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 11. maí 2023:

Svarið ber með sér að ekki er mikil skilvirkni í kerfinu og ekki er gott að segja hver sé meginástæðan fyrir því. Enn og aftur er staðfest hvernig skjalamálum er háttað í borginni. Hlaðan skjalavinnslukerfið tók við af Erindreka í upphafi árs. Mál frá síðasta kjörtímabili voru ekki færð milli kerfa. Leiða má líkum að því að vandamál með Hlöðuna sem hafa verið umfangsmiklar sé um að kenna. Flokki fólksins finnst málum minnihlutans ekki mikil virðing sýnd með þessu. Breytingar eru notaðar til að láta málin hverfa. Einnig má gagnrýna hversu langan tíma tekur að fá viðbrögð frá sviðinu. Dæmi eru um að svör komi mörgum mánuðum eftir að fyrirspurnin er lögð fram. Í kerfinu liggja óafgreidd mál frá þessu kjörtímabili og kallað er eftir svörum við eftirfarandi fyrirspurnum hið fyrsta sem eru m.a. eftirfarandi: Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um söfnun matarleifa við heimili á höfuðborgarsvæðinu í framtíðinni. Fyrirspurn(ir) um: -Ráðstafanir til að tryggja aðgengi hreyfihamlaðra samhliða innleiðingu flokkunarkerfis sorpu. -Ákvörðun um útboð á sorpi til brennslu, tímalengd ferlisins og urðun í Álfsnesi. -Hreinsun á tjörninni í Reykjavík. -Hver beri ábyrgð á seinkun stafrænnar umbreytingar á umhverfis- og skipulagssviði. -Strætókort og kostnað. -Breytingar á gatnamótunum Kleppsmýrarvegar/Skeiðarvogs og Sæbrautar. -Hreinsun í Gufunesi. -Niðurfellingu aukagjalds vegna sorphirðu

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um fjarlægingu hringtorgs við JL húsið, sbr. 25. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 15. mars 2023. Einnig er lagt fram svar skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 5. maí 2023:

Gott er að heyra að engin ákvörðun hefur verið tekin um að fjarlægja hringtorgið við JL húsið. Rétt er að málið var í fjölmiðlum og var bókun meirihlutans tilefni til þess að ugg setti að mörgum að fjarlægja ætti torgið án þess að skipulagsyfirvöld ræddu við kóng eða prest. Flokkur fólksins kvittar upp á allt sem eykur öryggi og umferðarflæði því umferðaröngþveiti skapar ekki aðeins hættur heldur einnig mengun. Stórbæta þarf ljósastýringar víðs vegar um borgina. Fulltrúi Flokks fólksins leggur einnig til í þessu sambandi að meirihlutinn vandi sig betur í hvað hann lætur frá sér í bókunum. Ef bókun hans er skoðuð frá 8. mars þar sem segir orðrétt að: “Hringtorgið og næsta nágrenni þess er afleitt og beinlínis hættulegt fyrir fótgangandi vegfarendur“ má vel draga þá ályktun að til standi að fjarlæga hringtorgið. Segir ennfremur í bókun meirihlutans að æskilegt sé að fækka akreinum með fram ströndinni og breyta hringtorginu í klassísk ljósastýrð T-gatnamót.” Ekki skal að undra að fólk hafi talið að þarna væri komin ákvörðun að fjarlægja torgið tafarlaust.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um blómaker í borginni, fjölda, kostnað og umfangi almennt í kringum þau, sbr. 24. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 22. febrúar 2023. Einnig er lagt fram svar skrifstofu borgarlandsins, dags. 10. maí 2023:

Spurt var um fjölda blómakerja sem sprottið hafa upp í borgarlandinu eins og gorkúlur og kostnað við kerin. Um þessar mundir eru 211 blómaker í borgarlandinu. Heildarkostnaður vegna blómakerja frá árinu 2015 er ríflega 62 m.kr. á verðlagi hvers árs. Samkvæmt svari virðist kostnaður vegna blómakera vera um 10 milljónir á ári. Hvort það er mikið eða lítið ræðst af því hver tilgangurinn er með notkun þeirra. Eins mikið og borgarfulltrúi Flokks fólksins finnst gaman að blómum þá eru takmörk fyrir öllu. Í einhverjum tilfellum hafa ker verið sett þar sem áður voru bílastæði. Sannarlega er prýði af blómum en tilfelli eru einnig um að fólk hafi ýmist dottið um blómaker sem eru á gönguleiðum eða hjólað á þau. Fram kemur að ekki eru skráð slys sem tengjast blómakerjum. Það þarf að gera. Tölfræði skiptir máli til að hægt sé að vega og meta hvort ákvarðanir séu farsælar og eða árangursríkar.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um veggjakrot, sbr. 23. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 8. mars 2023. Einnig er lagt fram svar skrifstofu borgarlandsins, dags. 10. maí 2023. USK23030094

Flokkur fólksins spurði um veggjakrot sem eru áberandi í miðborginni, hver sé staðan á þeim málum, hver kostnaður sé við að hreinsa veggjakrot og hversu hratt sé gengið í að hreinsa veggjakrot þegar tilkynnt er um slíkt. Fram kemur í svari að allt sé í gangi í þessum efnum en borgin þrífur aðeins krot af byggingum og öðru sem er í eigu borgarinnar en ekki öðru. Sagt er að virkt eftirlit sé í gangi. Mörgum finnst það kannski ekki alveg trúverðugt því mikið er af kroti. Kostnaður borgarinnar vegna veggjakrots var um 13,5 m.kr. árið 2022. Eins má spyrja hvort það komi ekki til greina að hafa háar sektir við veggjakroti? Kostnaður við að þrífa veggjakrot er verulegur og stundum illgerlegt er að þrífa. Líklega er ekki um mjög marga sem stunda þessi skemmdarverk og með háum sektum má líklega draga úr þeim.

 

Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um gönguljós á Miklubraut á móts við Klambratún/Kjarvalsstaði, sbr. 22. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 10. maí 2023.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar. USK23050126

 

Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um skýrslu innviðaráðuneytisins um áhrif nýjar byggðar í Skerjarfirði á flug- og rekrstaröryggi Reykjavíkurflugvallar. Fyrirspurnin var fyrst lögð fram á fundi Borgarráðs, dags. 27. apríl 2023 og vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagsráðs.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa. USK23040041