Umhverfis- og skipulagsráð 28. júní 2023

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Kynning á fyrirhugðum aðgerðum gegn ágengum plöntum sumarið 2023.

Það er ljóst að útbreiðsla lúpínu er umfangsmikil og um leið umdeild. Fólk skiptist í tvo hópa, með eða á móti. Undir vissum kringumstæðum er eflaust réttlætanlegt að reyna að halda lúpínubreiðum í skefjum í borgarlandinu, en um leið verður að horfa til þess að allar tilraunir til þessa að hefta útbreiðslu þessarar umdeildi plöntu, eru í raun dæmdar til að mistakast. Það virðist vera hægt að hefta lúpínu tímabundið með mikilli handavinnu en hún kemur oftast aftur og heldur áfram á sinni leið. Meta þarf aðstæður hverju sinni. Sumir vilja leyfa náttúrunni sjálfri að sjá um þetta m.t.t. þess að yfirleitt hopar lúpínan fyrir öðrum gróðri á tuttugu árum. Þarna væri því hægt að spara mikið fjármagn þegar litið er til þess kostnaðar sem verður vegna þessara árangurslitlu aðgerða borgarinnar við að halda lúpínunni í skefjum. Kerfillinn er jafnvel erfiðari í þessum sambandi. Spánarkerfill þykir almennt hvimleið planta.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagðar fram fundargerðir Sorpu bs.Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun um lið nr. 1:

Kópavogur vill ekki fá endurvinnslustöð við Arnarnesveg. Tillögunni var hafnað í bæjarráði Kópavogs. Hér má sjá eitt dæmi þess hvar byggðarsamlagsformið virðist ekki henta sem skyldi. Sveitarfélögin eiga ekki endilega samleið og væri því nær að skoða að gera sér samninga um einstaka þætti. Einnig er fjallað um að tetrapak umbúðir séu ekki endurvinnanlegar. Það ætti ekki að koma á óvart. Þær eru í aðalatriðum úr pappír, plasti og vaxi, plast er í raun olía á biðformi. Allt þetta er brennanlegt. Sorpa hefði átt fyrir löngu að huga að brennslustöð þar sem orkar sem fellur til við brennslu mætti nýta sem ,,vistvæna” orkugjafa.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Kynning Sorpu á áformum um útflutning á brennanlegu sorpi og breyttum endurvinnslufarvegi ferna:

Í kjölfar innleiðingar nýs flokkunarkerfis sorphirðu standa borgarbúar frammi fyrir nýjum áskorunum varðandi flokkun sorps. Sérstaklega þurfa mörg fjölbýlishús sem eru með sorprennur og sorpgeymslur innandyra, að huga að því að flytja sorptunnugeymslur úr sameign og út á lóð og þurfa því að leggja í töluverðan kostnað vegna hönnunar og byggingu sorpgerða á sínum lóðum. Hönnun og umsóknir um leyfi fyrir byggingu sorpgerða getur tekið töluverðan tíma. Einnig geta orðið deilur vegna mögulegra staðsetninga og útlits slíkra sorpgerða á lóðum fjölbýlishúsa. Um leið og fulltrúinn fagnar löngu tímabæru flokkunarkerfis sorphirðu í Reykjavík telur hann að Reykjavíkurborg ætti að vera með staðlaða hönnun og vel skilgreinda verkferla varðandi uppsetningu sorpgerða við fjölbýlishús til þess að flýta fyrir og auðvelda húsfélögum að bregðast við þessari innleiðingu flokkunarkerfis sorps í borginni.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Að lokinni kynningu er lögð fram að nýju skipulagslýsing umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa, dags. 7. mars 2023, vegna nýs deiliskipulags fyrir Veðurstofureit. Í tillögunni sem lögð er til felst að koma fyrir nýrri íbúabyggð ásamt þjónustu á Veðurstofuhæð:

Á þessum reit á að fækka á bílastæðum sérstaklega mikið, meira en í öðrum þéttingar hverfum og setja bílastæðahús. Gert er ráð fyrir að þarna búi þeir sem vilja lifa bíllausum lífsstíl. Fulltrúa Flokks fólksins finnst með þessu að verið sé að útiloka mikilvæga valmöguleika. Blönduð byggð skal vera þarna t.d. stúdentaíbúðir og sambýli sem Flokki fólksins finnst jákvætt. Stefnt er að þarna rísi 250 íbúðir jafnvel meira. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af því að kvartað verði yfir því sama og heyrst hefur frá t.d. íbúum Vogabyggðar, að erfitt sé að komast í og út úr hverfinu. Athugasemdir hafa komið um mögulega of mikið skuggavarp og það eru sömu kvartanir og víða heyrist og þar sem þétt hefur verið meira en góðu hófi gegnir.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Vörðuskóli/Ævintýraborgir.
Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að breytingu á deiliskipulagi Skólavörðuholts vegna lóðarinnar nr. 34 við Barónsstíg.

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar hverju skrefi í átt að því að drífa upp leikskóla enda bíða yfir 900 börn eftir plássi. Mikil tímapressa er því á máli sem þessu og mikilvægt að þessu sé vel fylgt eftir frá upphafi til enda.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram skipulagslýsing Klasa og JVST, dags. í maí 2023 vegna fyrirhugaðrar breytingar á deiliskipulagi Norður Mjóddar fyrir lóðirnar Stekkjarbakka 4-6 og Álfabakka 7. Í vinnu vegna breytingar á deiliskipulagi verður áhersla á blandaða byggð.:

Breytingar á þessu svæði eru til góðs fyrir byggðaþróun sem vinna þarf í samráði við Breiðhyltinga. Þarna gæti margt fólk búið. Deiliskipulagsbreytingin á að hljóta vistvottun BREEAM Communities. Með vottuninni segir að hugað sé að gæðum í umhverfis- og skipulagsmálum og skiptist ferlið upp í fimm megin flokka og m.a. að hugað sé að líffræðilegum fjölbreytileika. Fulltrúi Flokks fólksins veltir því fyrir sér af hverju ekki er hægt að huga að gæðum, líffræðilegum fjölbreytileika og samráði án þessa að kaupa einhverja sérstaka vottun og spara þannig fjármagn sem borgin á ekki mikið af um þessar mundir. Þarna er um algjörlega manngert umhverfi að ræða og ef skipulagsyfirvöld vilja vanda sig og vinna verkið í sátt við borgarbúa og umhverfið, er auðveldlega hægt að gera þetta vel.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju umsókn UNDRA ehf., dags. 2. september 2022, ásamt greinargerð, dags. 5. september 2023, um breytingu á deiliskipulagi Ártúnshöfða iðnaðarsvæðis vegna lóðarinnar nr. 29 við Vagnhöfða:

Um er að ræða umsókn um breytingu og rök fyrir henni. Hækka á húsið og koma fyrir fleira fólki. Flokkur fólksins hefur áður bent á að hús þarf að hanna þannig að þau dragi ekki niður vindstrengi. Almennt er því gott að þau mjókki upp. Þetta þarf að sjálfsögðu að kanna í vindgöngum á hönnunarstigum.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að breytingu á deiliskipulagi Laugardals. Í breytingunni sem lögð er til felst því að skilgreind er lóð fyrir Ævintýraborg, tímabundið leikskólaúrræði Reykjavíkurborgar:

Þessu máli tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds, að breytingu á deiliskipulagi Laugardals var frestað í maí og ekki er vitað hvaða ástæður liggja þar að baki. Stefnt var að því að Ævintýraborgin myndi opna á fyrri hluta næsta árs og geta tekið við um hundrað börnum. Í ljósi reynslu af töfum og seinkum verkefna hjá borginni veitir ekki af því að halda vel á spöðunum ef fylgja á áætlun.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram tillaga Reykjavíkurborgar og Kópavogs um breytingu á deiliskipulagi fyrir Fossvogsbrú Reykjavíkurmegin:

Sýndar eru miklar landfyllingar ásamt eyðingu á fjöru sem eru hugsanlega nauðsynlegar, en ekkert er sagt um mögulega skerðingu á líffræðilegum fjölbreytileika. Allt of langt hefur verið gengið með eyðingu fjara í borgarlandinu. Fáar eru eftir og spurning hvort þær fái að vera í friði inn í framtíðina.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um torg sbr. 60. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 10. ágúst 2022. Einnig er lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgangna og borgarhönnunar dags. 22. júní 2023:

Fulltrúi Flokks fólksins er hálf sleginn yfir að sjá það gríðarmikla fjármagn sem farið hefur í torgagerð í borginni, lang mest í miðbænum eða 21 torg en í öðrum hverfum mesta lagi eitt, einstaka hverfi eru með 3 torg og Laugardalurinn með 7. Þetta er aðallega sláandi á meðan horft er upp á að biðlistar barna sem bíða eftir faglegri aðstoða fagfólks skólanna lengjast með hverri viku. Nú bíð um 2500 börn. Þetta svar sýnir í hnotskurn hvar pólitískar áherslur þessa og síðasta meirihluta liggja og af hverfum er það miðbærinn sem á hug og hjörtu þessa og síðasta meirihluta. Samtals torg kr. 77.096.829, þar af miðborg kr. 41.187.322 Útipallurinn á Frakkastíg sem gerður var að frumkvæði meirihlutans kostaði kr. 2.320.000.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hreinsun á tjörninni í Reykjavík, sbr. 26. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 22. mars 2023. Einnig er lagt svar frá umhverfis- og skipulagssviði, skrifstofu umhverfisgæða dags. 20. júní 2023.

Fulltrúi Flokks fólksins er oft spurður um hvort hann telji að meirihlutinn taki ákvörðun um að hreinsum tjarnarinnar, t.d. fjarlægja rusl, hreinsa rusl úr tjörninni sjálfri, Mörgum finnst tjörnin hreinlega sóðaleg í meira lagi. Til að hlúa að lífríki hennar þarf tjörnin að vera hrein og laus við mengun. Af svari að dæma er ekki mikið um hreinsun á tjörninni. Á sumrin eru að jafnaði starfsmenn borgarinnar á svæðinu sem sagt er að “fylgist með og hreinsi rusl eftir þörfum” Fulltrúi Flokks fólksins finnst þetta “eftir þörfum” gefa vísbendingar um að ekki sé farið í neina djúphreinsun. Eftirlit er stopult. Fram kemur einnig að mælst hafi óæskileg efni í vatninu í mælingum. Hér þarf að gera betur. Það sjá allir sem vilja. Ekki er svarað hvenær tjörnin var hreinsuð rækilega og hvernig það sé gert.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um söfnun matarleifa við heimili á höfuðborgarsvæðinu í framtíðinni, sbr. 15. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 26. apríl 2023. Einnig er lagt fram svar frá Sorpu bs. dags. 20. júní 2023:

Í ljósi fyrirséðra breytinga á söfnun matarleifa við heimili á höfuðborgarsvæðinu og þeirra krafna sem eru gerðar til moltuvinnslu er ljóst að vinnsla á lífrænum úrgangi úr blönduðum heimilisúrgangi verður ekki hluti af starfsemi Sorpu til framtíðar. Flokkur fólksins spyr hvort Sorpa muni ekki slíta sig út úr þessu að öllu leyti eða að hluta til t.d. böggun eða að sækja sorp á heimilin. Í svari segir að Sorpa mun áfram meðhöndla þann blandaða úrgang sem myndast á höfuðborgarsvæðinu en ekki forvinnslu þar sem flokkun er nú á söfnunarstað. Það mun breyta miklu að lífrænn úrgangur verður nú alveg sér og miður að Sorpa skyldi ekki fylgja öðru sveitarfélögum sem hófu flokkun á söfnunarstað fyrir mörgum árum. Ómælt fé hefur farið í vitleysu hjá Sorpu að taka ekki önnur sveitarfélög sér til fyrirmyndar í þessum efnum. Aðrar breytingar virðast ekki vera í kortunum en stór hluti starfsemi Sorpu hefur þegar verið boðin út. Fulltrúi Flokks fólksins finnst of mikið áhersla vera á að finna leiðir til að flytja út úrgang í stað þess að skoða langtímalausnir sem hljóta að miðast við að vera staðsettar hér heima.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um ákvörðun um útboð á sorpi til brennslu, tímalengd ferlisins og urðun í Álfsnesi, sbr. 30. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 19. apríl 2023. Einnig er lagt fram svar Sorpu bs. dags. 20. júní 2023:

Fulltrúi Flokks fólksins spurði ýmissa spurninga um Sorpu, brennslu sorps og útboðsferlið. Einnig var spurt um magn sem er enn urðað í Álfsnesi. Talsverðar tafir hafa orðið á svari frá Sorpu en fram kemur eins og vitað er að öllum tilboðum í útflutning á brennanlegum úrgangi var hafnað og leitað þurfti annarra leiða . Kæruferli hófst sem lyktaði Sorpu í hag. Dregið hefur úr magni sem urðað er í Álfsnesi. Fulltrúa Flokks fólksins finnst erfitt að hugsa til þess að sorp sé urðað yfir höfuð. Urðun er ekki í neinum takti við loftlagsmarkmiðin. Brenna þarf úrgang og ef að til væri öflug brennslustöð sem nýtti varman frá brennslunni þyrfti ekki að flytja sorp til útlanda, þar sem það er hvort eð er brennt og varminn nýttur. Sorpa ætlar að flytja út 43 þúsund tonn af úrgangi til brennslu í Svíþjóð. Útflutningur á sorpi til brennslu getur aldrei verið nein framtíðarlausn.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssvið að nýju deiliskipulagi fyrir Fossvogsblett 2-2A. Í breytingunni sem lögð er til felst gerð leikskólalóðar, samkvæmt uppdrætti Landmótunar, dags. 21. júní 2023. Lagt er til að tillagan verði afgreidd í auglýsingu:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar hverju skrefi í átt að því að drífa upp leikskóla enda bíða yfir 900 börn eftir plássi. Mikil tímapressa er því á máli sem þessu. Hér eru lögð fram ítarlegt gögn um sögu svæðisins þar sem Ævintýraborgir eiga að rísa. Um er að ræða 10 deilda leikskóla fyrir 150 börn. Ekkert er hins vegar minnst á hvernig Ævintýraborgirnar mátast á þennan reit. Áformin liggja þó fyrir. Ævintýraborgir eru tímabundnar en þarna munu síðan rísa varanlegar leikskólabyggingar. Drífa þarf þetta verk áfram af fullum krafti, þótt fyrr hafi verið.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Að lokinni grenndarkynningu er lögð fram að nýju umsókn Indro Indriða Candi, dags. 9. janúar 2023, ásamt bréfi, dags. 9. janúar 2023, um breytingu á deiliskipulagi Skúlagötusvæðis vegna lóðarinnar nr. 50 við Lindargötu.

Margar athugasemdir eru gerðar við deiliskipulagið og ætla skipulagsyfirvöld að koma til móts við einhverjar þeirra. Það er ekki á hverjum degi sem athugasemdir eru í þá veruna að að með breytingum er hægt að sjá inn í næstu íbúðir og að þannig sé friðhelgi einkalífsins ógnað. Hvað viðkemur athugasemdum sem lúta að innsýn í næstu íbúðir eða skerðingu á birtingu finnst fulltrúa Flokks fólksins að þær skulu lagðar undir þá sem gerðu upphaflega athugasemdirnar áður en þær eru samþykktar í umhverfis- og skipulagsráði.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu skipulagsfulltrúa, dags. 16. júní 2023, að skipan fulltrúa í vinnuhóp sem gerir tillögu að fegrunarviðurkenningum fyrir endurbætur á eldri húsum og fallegar og vel skipulagðar lóðir þjónustu og stofnana og fjölbýlishúsa, auk sumargatna árið 2023:

Ákveðið er að setja á laggirnar vinnuhóp til að velja hús sem fá viðurkenningu annars vegar fyrir endurbætur á á eldri húsum og hins vegar fyrir fallegar og vel skipulagðar lóðir þjónustu, stofnana og fjölbýlishúsa, auk sumargatna. Starfshópurinn mun auglýsa opinberlega eftir tilnefningum og ábendingum frá borgarbúum um verðug verkefni. Í þessu sambandi vill fulltrúi Flokks fólksins leggja til að sérstaklega sé gætt að auglýsingar eftir tilnefningum berist úthverfunum þótt fram til þess hafa þeir sem búa miðsvæðis langoftast hneppt viðurkenninguna. Nota má íbúaráðin, hverfisblöðin og margt fleira til að auglýsa eftir tilnefningu.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt er til að umhverfis- og skipulagsráð samþykki eftirfarandi tillögu að breytingum á gjaldskyldu fyrir bílastæði Reykjavíkurborgar:

Hækka á gjald fyrir bílastæði Reykjavíkurborgar umtalsvert og þrengja reglurnar samhliða hækkun. Þess utan bætast við sunnudagar. Að gjaldskylda verði á gjaldsvæðum P1 og P2 milli klukkan tíu á morgnanna og níu á kvöldin, á sunnudögum. Þessar breytingar hafa mikinn fælingarmátt fyrir þá sem koma akandi í bæinn og er nú nóg samt. Þess utan hefur hækkun á gjöldum áhrif á verðbólgudrauginn.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um niðurfellingu aukagjalds vegna sorphirðu, sbr. 25. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 8. mars 2023. Einnig er lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða dags. 21. júní 2023:

Fulltrúi Flokks fólksins óskaði eftir upplýsingum um niðurfellingu aukagjalds sorphirðu vegna 15m reglu fyrir öryrkja og eldri borgara og hefur nú fengið svar. Einnig var spurt um hvort öryrkja geti sótt um niðurfellingu á aukagjaldi sorphirðu vegna 15m reglu? Ef já þá hvernig? Í svari segir að vinnsla beiðna um undanþágu frá ákvæði um viðbótar losunargjald er samkvæmt verklagi frá fundi umhverfis- og skipulagsráðs frá árinu 2011.Fulltrúi Flokks fólksins telur að það hljóti að þurfa að endurskoða verklag sem orðið er meira en 10 ára gamalt. Flestar voru undanþágur árið 2012 eða ellefu talsins, en í dag er veitt undanþága vegna tveggja íláta í borginni. Í framhaldi er e.t.v. rétt að spyrja um hvað mörgum beiðnum um undanþágu hefur verið hafnað undanfarin 5 ár og á hvaða forsendum? Sá hluti fyrirspurnarinnar af hverju skipulagsyfirvöldum gengur svo illa að svara erindum þessa hóps er ekki svarað og heldur ekki hvernig eigi að sækja um undanþágur.

 

Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um verkefni í „Hverfið mitt“ íbúakosningu, sbr. 33. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 31. maí 2023.

Fyrirspurninni er vísað frá þar sem hún á heima í stafræna ráðinu. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiða atkvæði gegn frávísun fyrirspurnarinnar.

 

Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um rauða dregilinn, sbr. 25. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 7. júní 2023.

Vísað til umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgangna og borgarhönnunar til umsagnar. USK23060073

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu vegna málefna Arnarnesvegar 3ja áfanga:

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að sú göngubraut sem meirihlutinn vill leggja við garða íbúa í Seljahverfi verði frekar lögð meðfram göngu og hjólastíg við veginn frekar en alveg upp við íbúabyggðina. Þarna er um lítið grænt svæði að ræða, sem eftir verður á milli íbúabyggðarinnar og vegarins, og það þarf að vernda og hlúða að því frekar en að raska með frekari framkvæmdum. Hér má nefna að farfuglar verpa á svæðinu á milli íbúðarbyggðarinnar og vegarstæði Arnarnesvegar og þar er töluvert fuglalíf sem skiptir máli. Þetta er hluti af varðveislugildi svæðisins sem gæti komið fram við nýtt umhverfismat. Ef koma á fyrir gönguskíðabraut á þessu svæði þá er sjálfsagt að hafa hana þá meðfram göngu- og hjólastíg við veginn. Fulltrúi Flokks fólksins telur að sú gróna rönd sem hér um ræðir geti verið dálítil hljóðdeyfing og ekki veitir af gróðri til að vega á móti útblæstri gróðurhúsalofttegunda í þéttbýli. Einnig væri betra að hjólastígurinn yrði fyrir austan Arnarnesvegar, enda verður hann líklegast mest notaður af Kópavogsbúum, m.a. á leið til vinnu í Reykjavík.

Frestað. USK23060356

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn vegna vegna málefna Arnarnesvegar 3ja áfanga:

Búið er að taka niður lyfturnar og staurana í skíðabrekkunni og talað er um að hefja landmótun á Vetrargarðinum og undirbúning fyrir Arnarnesveg. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga á hvort þetta þýði að lyfturnar verði ekki í notkun næsta vetur? Og þá kannski ekki heldur veturinn þar á eftir, þótt varaborgarfulltrúi Framsóknarflokksins hafi lofað því í nýlegri færslu á Facebook? Hvenær geta íbúar vænst þess á ný að nýta skíðabrekku hverfisins. USK23060354

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn vegna málefna Arnarnesvegar 3ja áfanga.

Hefur lagning gönguskíðabrautar á grónu svæði (mön) fyrir ofan Jaka-, Jóru- Kalda- og Klyfjasel verið rædd sérstaklega við íbúa, og þá sérstaklega þá sem búa næst fyrirhugaðri skíðagöngubraut? Flestir íbúar vilja að umrætt náttúrusvæði, verði látið í friði og frekar gróðursett tré á svæðinu í stað þess að ryðja gróður til að útbúa gönguskíðabraut alveg upp við garða íbúa. Í litprentuðum bæklingi sem Reykjavíkurborg dreifði í júlí 2021 eru m.a. tvær myndir, önnur teiknuð en hin mynd af korti, sem sýna væntanlegan Vetrargarð og næsta nágrenni. Þar má sjá að gera á gönguskíðabrautir rétt fyrir ofan Jaka-, Jóru- Kalda-, Klyfjasel og fleiri nærliggjandi Sel sem gætu skaðað hið vel gróna svæði milli efstu lóðanna og væntanlegs Arnarnesvegar. Verður trjágróðri, sem íbúar hafa gróðursett á síðustu áratugum, til að rækta upp þetta dýrmæta græna svæði, rutt í burt fyrir þessar gönguskíðabrautir? Þessi mön milli íbúabyggðarinnar og vegarins mun að einhverju leyti vernda íbúa fyrir hávaða og mengun frá tilvonandi Arnarnesvegi, og því gríðarlega mikilvægt að hlúa vel að gróðri og náttúru á þessu svæði.

Fyrirspurninni fylgir skýringarmynd. USK23060355

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn vegna málefna Arnarnesvegar 3ja áfanga:

Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvað varð um vistlokin sem lofað var að yrðu byggð í tengslum við lagningu 3. áfanga Arnarnesvegar. Áformað er að koma vistlokum yfir hluta vegarins og yrðu þau til bóta, enda augljóst að vegurinn eins og hann er nú teiknaður verður snjókista alls staðar þar sem vistlokin eru ekki. Vegurinn mun að öllum líkindum verða gjörsamlega ófær í vetrarfærð, eins og hefur verið síðustu ár. Teikningar af svokölluðum vistlokum (gróðurbrú yfir veginn) voru birtar á deiliskipulaginu, en er svo hvergi að sjá í útboðslýsingu. Það er öllum ljóst að það er mun meiri kostnaður fólginn í því að bæta vistlokunum við síðar, frekar en að gera þau á sama tíma og vegurinn er lagður. Hafa skipulagsyfirvöld það fast í hendi að þessi vistlok, sem íbúum var lofað í samþykktu deiliskipulagi, verði gerð og þá hvenær er að vænta þeirra?

Greinargerð

Vart þarf að rifja upp þau háværu mótmæli sem komu frá Breiðhyltingum í Efra Breiðholti og Vinum Vatnsendahvarfs þegar ákveðið var að fara í lagningu 3. áfanga Arnarnesvegar án þess að gera nýtt umhverfismat. Byggt er á 20 ára gömlu mati sem er löngu úrelt. Sem mótvægisaðgerð var ákveðið að gera skyldi vistlok yfir veginn á tveimur stöðum. Fyrir kosningar lofuðu Framsóknarmenn nýju umhverfismati, en það var svikið. Framsókn sagði mikilvægt að ráðast yrði í mótvægisaðgerðir vegna sjónarmiða um útivist á svæðinu og að gerð vistloka væru mikilvægt skref í þá átt. Það er mjög miður að ekki var gert nýtt umhverfismat á landi Reykjavíkurborgar vestan Arnarnesvegar,  Þarna hafa orðið miklar breytingar á umhverfinu síðan fyrir aldamót. Umhverfisspjöll varða okkur öll.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn vegna málefna Arnarnesvegar 3ja áfanga:

Nú liggur fyrir að ekki var samþykkt að taka tilboði lægstbjóðandi verktaka í útboði 3ja áfanga Arnarnesvegar. Í útboðsgögnum er talað um að vegurinn sé 1.3 km. Allir þeir sem skoða gögnin betur geta séð að vegarkaflinn er mun lengri og enn lengri ef sveigurinn inn á útivistarsvæðið í Elliðaárdal, austan Nönnufells og Möðrufells, er talinn með.  Af hverju er ekki sagt satt um þetta atriði? Varla er þetta til að bæta svokallað íbúalýðræði sem lítið fer fyrir í þessu máli? USK23060358