Umhverfis- og skipulagsráð 3. apríl 2024

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Lagt fram yfirlit yfir ferðakostnað umhverfis- og skipulagssviðs fyrir október – desember 2023:

Samtals ferðakostnaður á áætlun umhverfis- og skipulagssviðs árið 2023 var alls 12.123.675 kr. Þetta er of hátt. Í yfirliti yfir hagræðingaraðgerðir umhverfis- og skipulagssviðs 2024 kemur fram að lækka á ferðakostnað. Fulltrúi Flokks fólksins hlakkar til að sjá næsta yfirlit og er þess vænst að heildarferðakostnaður mun lækka til muna.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram og kynnt skýrsla innri endurskoðunar Reykjavíkur um vetrarþjónustu Reykjavíkur og samantekt umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu borgarlands á kostnaði og þróun í vetrarþjónustu:

Skýrsla Innri endurskoðunar (IE) liggur fyrir. Fjöldi ábendinga eftir áhættuskori eru fjórar, tvær í flokknum „Mikil áhætta“ og tvær í flokknum „nokkur áhætta“. Fulltrúi Flokks fólksins er hugsi yfir þeim síðarnefndu frekar en þeim fyrrnefndu. Ábending snýr að tvöföldu samþykki reikninga en við úrtaksskoðun kom í ljós að deildarstjóri var eini samþykkjandi á fjórum reikningum vegna vetrarþjónustu. Fulltrúi Flokks fólksins hefur staðið í þeirri trú að ávallt sé krafist tvöfalds samþykkis reikninga hvort sem um tímabundna framkvæmd er að ræða eða ekki. Það er í samræmi við verklag fjármálaskrifstofu. Ítrekað hefur komið fram í svörum við fyrirspurn um fjármál að tvöfalt samþykki sé skýr og ófrávíkjanleg regla. Þessi ábending IE kemur því mjög á óvart. Sama má segja um síðari ábendinguna í þessum flokki sem snýr að ábyrgð seinni samþykktaraðila reiknings á að fjárheimildir séu fyrir útgjöldum. Á árinu 2022 voru 61801 verk í snjóhreinsun gatna og á meðal þeirra verkefna voru mörg sem fóru verulega yfir fjárheimild. Lýst er undrun yfir þessu og vakna spurningar hvort víðar í borgarkerfinu sé líka pottur brotinn.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að nýju deiliskipulagi fyrir lóðirnar nr. 19 og 21-23 við Laufásveg.:

Samkvæmt tillögunni er um að ræða tímabundið íbúðarhúsnæði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Gert er ráð fyrir starfsmanni með reglulega viðveru sem er íbúum til aðstoðar eftir atvikum. Einnig er heimilt að nýta bílskúra á lóðinni undir framangreint búsetuúrræði. Heildarfjöldi íbúa að hverju sinni að hámarki 80. Borgarfulltrúum hafa borist skeyti vegna þessa máls og allmargar athugasemdir hafa verið sendar inn. Í gær barst okkur skeyti þar sem borgarfulltrúar voru hvattir til að svara ákveðnum spurningum við afgreiðslu málsins. Enda þótt fulltrúi Flokks fólksins hefur ekki atkvæðarétt í þessu máli leggur hann áherslu á að vandað verði til verka og rætt verði við alla sem að málinu koma. Horfa þarf m.a. til öryggismála s.s. flóttaleiða, brunavarna, hreinlætisaðstöðu og eldunaraðstöðu.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Að lokinni grenndarkynningu er lögð fram að nýju umsókn Plúsarkitekta ehf. og Fring ehf., dags. 3. nóvember 2022, um breytingu á deiliskipulagi Skúlagötusvæðis vegna lóðarinnar nr. 14 við Lindargötu:

Þetta hverfi er nú þegar frekar skuggsýnt og jafnvel á köflum drungalegt. Þétting byggðar hefur ekki komið vel út þarna. Þröngt er á milli húsa og þrengsl víða. Bein áhrif breytinga eru á einstaka íbúðir. Athugasemdir eru ekki margar en snúa að áhyggjum af því að birtuskilyrði í íbúðum muni skerðast með tilkomu ofanábyggingar sökum nálægðar hennar. Enn fremur muni útsýni og kvöldsól skerðast. Ofanábyggingin að Lindargötu 14 mun fá mikið útsýni á kostnað þeirra sem eru að missa útsýni sem þeir hafa núna. Einnig mun við ofanábygginguna og væntanlegri tilkomu svala á breyttu húsnæði skapast innsýn inn í núverandi íbúðir sem ekki var til staðar áður eins og segir í athugasemdum. Fulltrúi Flokks fólksins leggur höfuðáherslu á að birta sé ekki skert. Skerðing birtu getur gjörbreytt íbúð sérstaklega smáum búðum. Birta í híbýlum hefur mikil áhrif á andlega líðan fólks. Í svari við athugasemdum segir að “við þéttingu byggðar má búast við því að útsýni úr einstökum húseignum geti tekið breytingum og að nýbyggingar geti haft í för með sér innsýn inn í íbúðir sem fyrir eru.” Þetta eru engin rök að mati fulltrúa Flokks fólksins. Komin er fram málamiðlunartillaga og vonar Flokkur fólksins að málið fái góðar málalyktir.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju umsókn Páls Kristjáns Svanssonar dags. 13. apríl 2022 um nýtt deiliskipulag fyrir lóðirnar nr. 10 og 12 við Holtsgötu og 16 við Brekkustíg:

Tugir athugasemda hafa borist og fjölmargar háalvarlegar. Hér er greinilega um afar erfitt mál að ræða og tilfinningalegt fyrir marga sem ekki skal gera lítið úr. Skoða á allar athugasemdir hvort sem þær teljast efnislegar eða ekki. Athugasemdir eru auk þess mjög samhljóða og ganga m.a. út á að deiliskipulagstillagan sé ekki í samræmi við þá byggð sem fyrir er. Í mörgum athugasemdanna er minnst á mikilvægi þess að haldið verði í sögulegt samhengi byggðar. Þétting og skuggavarp er sem áður litið alvarlegum augum. Í athugasemdum kemur fram gagnrýni á byggingarmagn í deiliskipulagstillögu. Gamli Vesturbærinn er hvað þéttbýlastur af hverfum Reykjavíkur. Íbúar lýsa jafnframt yfir áhyggjum af því að hæð byggingar á horni reitsins auki umferðarhættu og að fjöldi bílastæða á borgarlandi sé ekki nægur til að anna svo miklum fjöldi íbúða til viðbótar því sem fyrir er eins og fram kemur í samantekt. Athugasemdir ná yfir mörg önnur atriði. Mæta á hluta athugasemdanna sem virðist ekki leysa aðalvandamálin. Flokki fólksins finnst að hætta ætti einfaldlega við fyrirhugaðar framkvæmdir. Blokk þarna er sögð vera byggingarsögulegt slys. Hér þarf að staldra við og hlusta á borgarbúa, virða skoðanir þeirra hafa alvöru samráð.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Fram fer kynning á skýrslu starfshóps um aðgerðir til að draga úr þjófnaði á reiðhjólum:

Fulltrúi Flokks fólksins finnst þær tillögur um aðgerðir til að draga úr hjólaþjófnaði sem birtar eru í skýrslu starfshópsins flestar góðar. Hjólum er stolið af ýmsum ástæðum, oft ekki þeirri að ætla að hagnast á þeim heldur vegna þess að fólk þarf að koma sér milli staða. Ef almenningssamgöngur væru betri, tíðari og dreifðari væri kannski minna um hjólaþjófnað hjá þessum hópi. Allir græða á góðum almenningssamgöngum. Hjólaskápar eru góð tillaga og að fjölga stæðum við opinberar stofnanir. Einnig að skapa aðstæður þar sem auðvelt er að læsa hjólum t.d. nota aðgangsstýrðar hjólageymslur. Það er góð tillaga að búa til hvatningu til að íbúðir vilji sameinast í að hafa læstar hjólageymslu. Hægt er að hugsa sér að borgin veitti styrki í slík verkefni frekar en að krefjast þess að gefið verði af hendi bílastæði. Forvarnir eru vissulega góðar en hvernig mundu auknar forvarnir skila beinum árangri nema til þeirra sem selja dýran öryggisbúnað kannski? Hjólabúðir eiga að skrá öll hjól sem keypt eru séu skráð í gagnagrunn. Það auðveldar að geta flett upp hjóli til að finna eigandann. Öll hjól ættu samt í rauninni að bera á stellinu skráningarnúmer og þannig einfaldlega uppflettanleg og skráð á eigendur sína.

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir skýringum á því af hverju búið er að fjarlægja pappa og plastgáma úr nýuppsettu sorpgerði í Bólstaðarhlíð.

Greinargerð