Umhverfis- og skipulagsráð 7. september 2022

Bókun Flokks fólksins við: Réttlát umskipti á leiðinni til kolefnishlutleysis, kynning:

Réttlát umskipti á leiðinni til kolefnishlutleysis og aðferðarfræði kynjaðrar fjármála með áherslu á margbreytileika sjónarmið mannréttindastefnu borgarinnar? Erfitt er að átta sig á út á hvað þetta gengur. Hver ætlar t.d. að skilgreina „réttlátt umskipti“? Flokkur fólksins vill skilja réttlæti í öllum myndum fyrir öll kyn. Flokkur fólksins hefur lagt fram margar tillögur sem leiða til umskipta á leið til kolefnishlutleysis sem gagnast öllum. Til dæmis að hvetja til að borgin kaupi ekki bensínbíla, tillögur um skógrækt frá Rauðavatni að Hengli og margt fleira. Þessar tillögur koma öllum vel og snúa að margbreytileika en hafa reyndar allar verið felldar? Nú er farið að tengja þetta við aðferðarfræði kynjaðra fjármála. Að sjálfsögðu þarf að gæta þess að fjármagni sé dreift réttlátt og ekki hallað á kyn/getu fólks, einstaklinganna. Almennt þarf að huga að því að koma fjármálunum borgarinnar í lag. Staðan er grafalvarleg. Tími er til að hægja á þéttingu byggðar þar sem farið er víða að ganga á græn svæði. Einnig á að hætta að ganga á fjörur. Hafa þessar aðgerðir mismunandi áhrif á kyn? Stjórnvalda er að grípa til alls kyns aðgerða til að ná fram ákveðnum markmiðum sem vissulega gætu haft mismunandi áhrif á kyn.

 

Bókun Flokks fólksins við: Kjalarnes, Esjumelar-Varmadalur, breyting á deiliskipulagi vegna Kalksléttu 1 og Koparsléttu 22:

Þetta mál er all sérstakt. Athugasemdir ganga út á villandi orðalag. Auglýst er að um óverulega breytingu sé að ræða og segir að með því sé borgin að ganga gegn sínu eigin samþykkta skipulagi. Breytingin sem hér um ræðir er veruleg. Lóðir sem hafa verið sameinaðar og þótt þær séu í notkun sama rekstraraðila breytir ekki þeirri staðreynd að Kalkslétta 1 er á skilgreindu iðnaðarsvæði en Koparslétta 22 er á skilgreindu athafnasvæði. Flokkur fólksins gerir ráð fyrir að skipulagsyfirvöld taki þessa athugasemdir sem snúa að orðalagsbreytingum til greina.

 

Bókun Flokks fólksins við: Fegrunarviðurkenningar Reykjavíkurborgar 2022, tilnefningar,

Bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins er færð í trúnaðarbók ásamt gagnbókun fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar.

 

Bókun Flokks fólksins við: Umhverfis- og skipulagssvið, 6 mánaðar uppgjör:

Gera má mun betur á þessu sviði þegar kemur að aðhaldi í rekstri. Sviðið líður fyrir að ekki eru enn komnar stafrænar lausnir að heiti geti t.d. að létta á umsækjendum um t.d. byggingarleyfi. Ennþá er staðan þannig að ekki er hægt að send inn teikningar með rafrænum hætti. ÞON, sviðið sem ber ábyrgð á stafrænni umbreytingu hefur sett USK aftarlega á forgangslistann. Nettó útgjöld sviðsins voru 6.518 m.kr. eða 1.730 m.kr. umfram fjárheimildir tímabilsins eða um 36,1%.

Saltgeymslubraggar.
Dæmi um bruðl eru mörg. Samkv. ábendingum er sviðið að greiða fyrir viðhald og endurbyggingu á leigðum saltgeymslubröggum í stað þess að leigusali standi straum af þeim kostnaði. Þetta hleypur á 20 til 30 m.kr. Í sumar hefur Reykjavíkurborg leigt fjölda vinnubíla undir sumarstarfsfólk og fleiri og er leiguverð á hvern bíl sagt vera um 750.000 krónur á mánuði! Það vakti undur þegar verkfræðistofa var fengin til að sjá um talningar á nagladekkjum með tilheyrandi umsjónarkostnaði. Sorphirðumálin eru umfram fjárheimildir tímabilsins. Tekjur voru 28 m.kr. lægri vegna tekna af sorphirðugjaldi. Flokkur fólksins hefur lagt til að kannað verði að hvort það er hagkvæmara að útvista sorphirðu og byrja á einu póstnúmeri til að fá samanburðinn.

 

Bókun Flokks fólksins við: Umhverfis- og skipulagssvið, yfirlit ferðakostnaðar:

Heildarferðakostnaður apríl – júní 2022 samtals kr. 4.398.082. Er ekki sjálfsagt að gæta hófs í þessu? Notast mætti við fjarfundi og streymi. Flokkur fólksins minnir á að margt smátt gerir eitt stór. Króna hér og króna þar verða að lokum margar krónur.

 

Bókun Flokks fólksins við: Ljósvistarstefna Reykjavíkur, tillaga formanns:

Tillaga um ljósvistarstefnu er lögð fram af meirihlutanum sem hefur þann tilgang „Að setja ramma eða umgjörð fyrir núverandi byggð til framtíðar, marka stefnu sem leggur fram áherslur og markmið fyrir lýsingu í Reykjavíkurborg sem miðar að því að styrkja tengsl borgarlýsingar við framtíðarsýn og markmið borgarinnar í aðgengismálum, umhverfimálum og lýðheilsu- og velferðarmálum“ eins og segir í kynningu skipulagsyfirvalda.
Flokkur fólksins vill gjarnan efla lýsingu á grænum svæðum, útivistarsvæðum og öðrum svæðum þar sem efling lýðheilsu borgarbúa fer fram ásamt göngu- og hjólastígakerfi borgarinnar. Og ekki er hægt að gagnrýna fylgigagnið fyrir margar hugmyndir sem þar eru tíundaðar. Almenn og hófleg lýsing er kostur í borgum, en það er ekki náttúrulegt, það er manngert. Svo er talað um hina norrænu birtu sem sérstaka og sé allt öðruvísi en í suður Evrópu en jafnframt sagt að fylgja eigi Evrópustöðlum að öllu leyti. Athyglisvert er að gera skal ráð fyrir andlitsgreiningu ef eftirlitsmyndavélar (CCTV) eru á svæðinu. Flokkur fólksins vill gjarnan vita meira um vinnu þessa hóps, hversu oft fundað og hvenær var síðasti fundur haldinn. Send verður inn formleg fyrirspurn þess efnis.

 

Bókun Flokks fólksins við: Erindi íbúaráðs Miðborgar og Hlíða um umferðaröryggi í miðborginni, umsögn:

Flokkur fólksins tekur undir erindi íbúaráðs Miðborgar og Hlíða dags. 15. febrúar 2022 til skipulags- og samgönguráðs um umferðaröryggi í miðborginni. Í miðborginni er 30 km. hámarkshraði. Hópur ökumanna virðir ekki þennan hraða og skapar hættu. Grípa þarf til markvissra aðgerða til að sporna við hraðakstri á þessum götum sem nefndar eru í erindinu. Í þessu sambandi langar fulltrúa Flokks fólksins að nefna götu sem áður hefur komið til tals þegar talað er um umferðaröryggisaðgerðir og er það Laugarásvegurinn sem er sérstök fyrir þær sakir að hún er löng, breið og tengir saman hverfi. Nauðsynlegt er að skoða aðrar leiðir sem virka til að minnka hraðakstur á þessu götum. Setja sem dæmi upp fleiri hraðahindranir og laga þær sem fyrir eru og einnig að bæta við hraðahindrunum og hraðamyndavélum.

 

Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um kostnað vegna undirbúnings við nýja byggð í Skerjafirði, sbr. 48. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 29. júní 2022. Einnig er lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, fjármáladeildar dags. 31. ágúst 2022.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Flokkur fólksins óskar upplýsinga um hvað öll undirbúningsvinna við uppbyggingu nýrrar byggðar í Skerjafirði og innviða hefur kostað til þessa.Í svari kemur fram að kostnaður sem færður hefur verið á verkefnið Skerjafjörður 23. ágúst 2022 er 244 m. kr. Undirbúningur 153 m.kr., deiliskipulag 75 m.kr og for- og verkhönnun 16 m.kr. Ljóst er að flugvöllurinn fer ekki í náinni framtíð og því er þessi vinna ótímabær þar sem óvissa er um framtíðarstaðsetningu flugvallarins. Nú eru ekki aðeins komin skil í málið heldur afgerandi niðurstaða því Innviðaráðuneytið telur með öllu óásættanlegt að Reykjavíkurborg ráðist í framkvæmdir í Skerjafirði án þess að fullkannað sé hvort og þá með hvaða hætti sé búið að tryggja að ný byggð hafi ekki neikvæð áhrif á rekstraröryggi flugvallarins í Vatnsmýri. Fresta hefði átt á áformum um úthlutun lóða og byggingarréttar og hefja ekki framkvæmdir á umræddu svæði þar til niðurstaða flugfræðilegrar rannsóknar liggi fyrir eins og segir í bréfi frá ráðuneytinu dags. 16. júní. Ljóst er að síðasti meirihluti fór á undan sér í þessu máli þrátt fyrir ítrekuð varnarorð og tillögu um að fresta verkefninu.

 

Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að bjóða út sorphirðu, sbr. 54. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 10. ágúst 2022. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu umhverfisgæða dags. 2. september 2022.

Tillagan er felld með fimm atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn tveimur atvæðum fullrúa Sjálfstæðisflokksins.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi flokk fólksins lýsir yfir óánægju með svör og almennt viðhorf skrifstofu umhverfisgæða og meirihlutans í skipulags- og samgönguráði sem og afgreiðslu tillögu Flokks fólksins um sorphirðumál. Í tillögu Flokks fólksins var eingöngu talað um að kanna hagkvæmni þess að bjóða út sorphirðu í póstnúmeri eða kanna hagkvæmni þess að bjóða út þjónustu djúpgáma og var slíkt m.a. byggt á skýrslu norrænu samkeppniseftirlita. Fulltrúi flokk fólksins sér ekki hvernig slík tillaga getur leitt til grundvallar misskilnings á framkvæmd úrgangsstjórnunar borgarinnar. Bent er á að þessari tillögu var vísað af fundi umhverfis- og skipulagsráðs til skrifstofu umhverfisgæða til umsagnar. En skrifstofa umhverfisgæða virðist ekki geta fjallað um tillöguna með málefnalegum hætti eða af víðsýni. Tillagan er felld í kjölfar umsagnarinnar. Draga má þá ályktun af afgreiðslunni að meirihlutinn hefur ekki áhuga á að kanna hvort hægt sé að ná niður gjöldum borgarbúa. Það er miður að tillaga sé svæfð í kjölfar ómálefnalegrar umsagnar skrifstofu umhverfisgæða sem virðist ekki hafa áhuga á að skoða þetta mál fyrir borgarbúa eða borgarfulltrúa.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

Tillagan er felld með vísan í umsögn sviðsins. Eðlilegt er að fyrirkomulag og rekstur sorphirðu sé í stöðugri skoðun en meiri og dýpri umræðu er þörf áður en ákvörðun er tekin um stórar og stefnumótandi breytingar þar á.

 

Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um rafknúin farþegahjól fyrir fatlað fólk í Reykjavík, sbr. 42. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 29. júní 2022.

Tillögunni er vísað frá með fimm greiddum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna. Fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Flokkur fólksins lagði til að Reykjavik kaupi rafknúin farþegahjól fyrir fatlað fólk í Reykjavík. Tillögunni er vísað frá. Þessi hjól hafa verið keypt í Hafnarfirði og hafa veitt gleði og frelsi þar sem þau koma fólki milli staða með auðveldum hætti. Þau eru rafknúin og auðveld í notkun. Komin er ákveðin reynsla á þessi hjól og hafa þau sem nota þau fundist þetta bæta lífsgæði þeirra. Þessi hjól eru sögð hjálpa til við að efla þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu. Reykjavíkurborg ætti að skoða þessa tillögu í stað þess að fella hana enda er hún góð og í þágu fólks sem glíma við hreyfivandamál. Reykjavík má alveg horfa meira til annarra sveitarfélaga sem eru að gera góða hluti í ýmsum málum. Reykjavík sem ætti að vera leiðandi vegna stærðar sinnar er eftirbátur með margt. Þessari tillögu er fundið allt til foráttu af meirihlutanum, nánast gert að henni grín. Hér fylgir linkur sem hjálpað gæti meirihlutanum að sýna þessari tillögu skilning. https://www.hafnarfjordur.is/stjornsysla/frettir/nytt-farthegahjol-fyrir-fatlada-gefur-og-gledur

 

Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um kynningarátak á snjallforritum, sbr. 43. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 29. júní 2022.

Tillögunni er vísað frá með fimm greiddum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn tveimur fulltrúum Sjálfstæðisflokksins.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Flokkur fólksins lagði til að farið verði í kynningarátak á þeim snjall forritum sem eru notuð í bílastæðum borgarinnar og bara almennt í bílastæðum Reykjavíkur. Einkaaðilar eru með þessi snjallforrit og hefur bílastæðasjóður kynnt þau og bent á þau. Þar á milli er samstarf. Það er skylda borgarinnar að aðstoða og upplýsa fólk um möguleika á þessu sviði. Tillögunni er vísað frá.

Margir og kannski einkum eldri kynslóðin er hrædd við notkun slíkra lausna. Fjölmargir hafa ekki hugmynd um hvaða forrit eru í boði og gildir þá einu um reynslu og aldur í sjálfu sér. Upplýsingagjöf til borgarbúa er á ábyrgð borgaryfirvalda. Það er því miður að þessari tillögu sé varpað fyrir róða. Meirihluti virðist ganga út frá því að allir séu sérfræðingar i stafrænum lausnum. Ekki er hlustað á það fólk sem þarf aðrar “lausnir” en staf- og rafrænar lausnir. Þetta fólk er margt hvert hætt að koma í bæinn og forðast bílastæði og bílastæðahús vegna þess að ekki liggja fyrir upplýsingar og leiðbeiningar um hvernig á að bera sig að við greiðslukerfin.

 

Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um torg sbr. 60. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 10. ágúst 2022.

Gera á „bráðabirgða útipall“ við Frakkastíg. Flokkur fólksins óskar upplýsinga um hvað svona „bráðabirgða“ útipallur kostar? Er verið að velja hagkvæmustu lausnina? Flokkur fólksins óttast að hér sé á ferðinni sóun og bruðl. Flokkur fólksins óskar upplýsingar um kostnað Reykjavíkurborgar síðustu 5 árin við að fegra miðbæ Reykjavíkur (torg/stíga/upphitun stíga/jólaskraut/útihátíðir/aðrar uppákomur o.fl.) á móts við aðra bæjarhluta? Óskað er eftir því að fá samanburðartölur t.d. hvað kostaði Óðinstorg og hvað kostaði torgið í Mjódd? Hver er kostnaður síðustu 5 árin við að fegra miðbæ Reykjavíkur (torg/stíga/upphitun stíga/jólaskraut/útihátíðir/aðrar uppákomur o.fl.) til samanburðar við aðra bæjarhluta?

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurnir, um útgjöld:

Flokkur fólksins hefur lengi haft áhyggjur af bruðli og óráðsíu sem viðgengst innan borgarkerfisins. Nýlega bárust ábendingar um slíkt hjá umhverfis- og skipulagssviði og óskar fulltrúi Flokks fólksins eftir upplýsingum um: Leiguverð bragga sem notaðir eru til að geyma salt og viðhald við þá. Salt sem notað er á götur er geymt í tveimur bröggum sem borgin hefur leigt á nær 1.200.000 krónur á mánuði. Þessir braggar hafa verið dæmdir ónýtir og hættulegir. Flokkur fólksins óskar upplýsingar um hvort leigusalinn sjálfur hafi séð um lagfæringar, úrbætur og viðhald eftir þörfum? Ef borgin hefur greitt fyrir viðhald, hver er þá kostnaður við það síðustu 4 árin?

Nú er hafin endurnýjun/endurbygging á þessum bröggum sem borgin leigir og er reiknað með að kostnaður hlaupi á a.m.k. 20 til 30 milljónum króna. Spurt er hver greiðir kostnað við endurnýjun/endurbygginguna? Er það leigusalinn eða Reykjavíkurborg? Loks óskar Flokkur fólksins upplýsinga um við vinnubíla sem leigðir eru fyrir sumarstarfsfólk. Í sumar hefur Reykjavíkurborg leigt fjölda vinnubíla undir sumarstarfsfólk og fleiri og er leiguverð á hvern bíl sagt vera um 750.000 krónur á mánuði! Spurt er hvort þetta sé rétt?

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um vinnu stýrihóps um ljósvistarstefnu

Mál nr. US220209

Flokkur fólksins vill gjarnan vita meira um vinnu stýrihóps um ljósvistarstefnu Reykjavíkurborgar en tillaga hópsins er lögð fram á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 24. ágúst 2022. Eitthvað virðist hafa farið litið fyrir honum, hversu oft var fundar o.s.frv. Spurt er hversu oft var fundað í þessum stýrihóp og hvenær var síðasti fundur haldinn?