Vanskil 23 milljónir króna

Vanskil vegna skólamáltíða í Reykjavík 2017 voru 23 m.kr. eða 2,22%. Í innheimtureglum borgarinnar kemur fram að ekki komi til afskrifta nema í undantekningartilvikum að undangengnu mati félagsráðgjafa þegar um er að ræða sérstakar aðstæður sem réttlætt geta afskriftir.

Í tvígang hefur verið lögð fram tillaga í borgarstjórn af borgarfulltrúa Flokks fólksins um að lækka gjaldskrá skólamáltíða um þriðjung (33%) og að tekjulækkun sviðsins, sem talin er að næmi 361 m.kr. árið 2019, yrði mætt með auknum fjárheimildum sem kæmu af kostnaðarliðnum „ófyrirséð“. Tillagan var felld í borgarstjórn í desember sl. Hefði hún verið samþykkt hefði það falið í sér að gjaldskrá máltíða í grunnskólum yrði 6.563 kr. á mánuði í stað 9.796 kr. eins og nú er.

Enda þótt lækkun á gjaldskrá skólamáltíða útiloki ekki vanskil má leiða líkum að því að lækkun dragi úr vanskilum vegna skólamáltíða. Þá sem glíma við erfiðan fjárhag munar um 3200 kr. á mánuði. Með lækkuninni aukast líkur þess að þeir sem glíma við erfiðan fjárhag eigi meiri möguleika á að greiða mat fyrir barnið sitt í skólanum. Vissulega er þetta allt spurning um forgangsröðun og hér er verið að tala um að forgangsraða fyrir börnin. Helst ætti allt sem tengist leik- og grunnskólanum að kosta lítið og sumt á að vera alveg frítt. Þá fyrst getum við tryggt að öll börn sitji við sama borð.

Efnahagsstaða foreldra er misjöfn. Í Reykjavík hefur stéttaskipting vaxið síðustu ár. Bilið milli ríkra og fátækra hefur aukist. Hópur þeirra sem skilgreindir eru undir fátæktarviðmiði velferðarráðuneytisins hefur stækkað og mun fara stækkandi nema gripið verði til róttækra aðgerða til að spyrna við fótum. Svengd kemur niður á almennri vellíðan og afköstum. Aðalatriðið er að fullvissa liggi fyrir um að ekkert barn sé svangt í skólanum.

Börn eiga rétt á að sitja við sama borð þegar kemur að grunnþörfum eins og fæði, klæði og húsnæði. Liður í því er að öll aukaþjónusta grunnskóla kosti lítið eða ekkert svo sem frístundastarf og matur. Fordæmi er nú þegar fyrir lækkun gjalds skólamáltíða í öðrum sveitarfélögum og á Reykjavík ekki að láta sitt eftir liggja í þessum efnum.

Höfundur er sálfræðingur og oddviti Flokks fólksins

Birt á visi.is 31. janúar 2019