Bókun Flokks fólksins við 9 mánaða uppgjör velferðarsviðs:
Fulltrúi Flokks fólksins hefur haft skilning á framúrkeyrslu velferðarsviðs í ýmsum liðum. Mikið hefur mætt á sviðinu og hefur það fengið ýmis óvænt verkefni í fangið t.d. í tengslum við komu flóttafólks frá Úkraínu. Það er mat Flokks fólksins að hækka þurfi fjárheimildir til sviðins, að meirihlutinn þurfi að horfast í augu við að velferðarsvið þarf aukið fjármagn í ýmsa liði ef það á að geta sinnt sínu hlutverki svo vel sé. Fjárheimildir eru ónógar vegna lögbundinna verkefna fyrir ferðaþjónustu fatlaðra, félagsmiðstöð Sléttuvegi og orlofsnefnd húsmæðra svo dæmi séu tekin. Fulltrúi Flokks fólksins telur að hægt sé að spara víða á sviðinu þegar kemur að stjórnsýslu og nefnir hér aftur allt of háan leigubílakostnað. Nefna má einnig kostnað við að flutning sálfræðinga til og frá skóla og þjónustumiðstöðva þar sem þeir hafa aðsetur. Sálfræðingar eiga auðvitað að hafa aðsetur í skólunum. Þetta kunna að reynast smáaurar í stóra samhenginu en nú er staðan bara þannig að velta þarf við hverjum steini. Biðlistar barna eftir sálfræðiþjónustu halda áfram að lengjast. Á sama tíma berast fréttir af rannsóknaniðurstöðum um að líðan barna fari versnandi. Flokkur fólksins hvetur meirihlutann til að taka þessi mál alvarlega og setja fólkið í fyrsta sæti.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Tillaga sviðsstjóra um breytingu á gildistíma reglna Reykjavíkurborgar um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA):
Fulltrúi Flokks fólksins styður tillöguna. Það er með öllu ólíðandi sú óvissa sem ríkir um framtíð NPA þjónustunnar. Ríkisstjórnin fól sveitarfélögunum framkvæmd NPA þjónustunnar en hefur þráast við að láta fjármagn fylgja. Það er ekki á það bætandi fyrir fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir að þurfa sífellt að hafa áhyggjur af framtíð þjónustunnar. Fulltrúi Flokks fólksins vonar að Alþingi muni samþykkja breytingartillögur stjórnarandstöðunnar um viðhlítandi fjármögnun NPA þjónustunnar á næsta ári, þannig að fatlað fólk geti notið þeirrar lögbundnu þjónustu sem þau eiga svo sannarlega rétt á.
Bókun Flokks fólksins við kynningu Gistiskýla:
Flokkur fólksins hefur nokkrum sinnum lýst áhyggjum sínum af fyrirkomulagi gistiskýla á vegum velferðarsviðs og þá helst að þau eru ekki opin allan sólarhringinn. Kynningin nú er þó aðallega um útgjöld borgarinnar vegna málefna heimilislausra og hversu illa gengur að rukka önnur sveitarfélög fyrir þá sem eiga lögheimili utan borgarinnar. Mikil aukning hefur orðið á nýtingu gistiskýla fyrir heimilislausa í Reykjavík undanfarin tvö ár. Þess skýli verða að vera opin allan sólarhringinn á meðan önnur úrræði eru ekki í boði. Helstu rök meirihlutans eru þau að gistiskýlin séu aðeins neyðarúrræði. Þetta eru engin rök á meðan ekki er hægt að finna þessu fólki annað úrræði. Nýlega í fréttum var sagt frá því að fíklar og annað fólk með fjölþættan vanda og heimilislaust hafi leitað skjóls í bílastæðahúsum. Þetta er afar átakanlegt og er skýr birtingarmynd þess að þessi hópur er jaðarsettur, hann hefur ekki í nein hús að vernda a.m.k. á vissum tímum sólarhringsins. Á þetta þarf meirihlutinn að fara að horfa með raunsæjum augum og setja í þetta aukið fjármagn til að þessir einstaklingar hafi skjól allan sólarhringinn, hvort heldur neyðarúrræði eða lengri tíma húsnæðisúrræði.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Tillaga VG um hækkun á vísitölu:
Flokkur fólksins hefur ítrekað óskað eftir því í velferðarráði að fjárhagsaðstoð hækki. Á velferðarráðsfundi 4. október var lögð fram tillaga um 4.9% hækkun fjárhagsaðstoðar. Flokkur fólksins studdi þá tillögu en meirihlutinn ákvað fresta ákvörðun. Á velferðarráðsfundi 2. nóvember kom fram ný tillaga um eingöngu 3% hækkun. Þetta fannst Flokki fólksins einkennileg lækkun þar sem verðbólga er tæp 9% og hefur öll nauðsynjavara hækkað gríðarlega. Flestar gjaldskrár Reykjavíkurborgar hafa hækkað um 4.9% og því er einkennilegt að sjá að þeir sem verst eru settir eigi eingöngu að fá 3%. Á umræddum fundi var ákvörðun frestað og ákveðið að fela sviðsstjóra að skipa stýrihóp til að endurskoða reglur um fjárhagsaðstoð frá grunni. Þessi frestun á hækkun fjárhagsaðstoðar er mjög bagaleg því þessi hópur er í mjög viðkvæmri stöðu. Þeir sem fá fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar eru borgarbúar sem ekki geta séð sér og sínum farborða af ýmsum ástæðum. Tillaga þessi er til bóta og myndi auka framfærsluöryggi þeirra sem þurfa á fjárhagsaðstoð að halda. Að vísu telur fulltrúi Flokks fólksins að fjárhæðir sem þessar ættu einnig að taka mið af launavísitölu þannig að miðað sé við þá vísitölu sem hækkaði meira á liðnu ári við uppfærslu hverju sinni.