Velferðarráð 31. ágúst 2022

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu um að farið verði í að endurskipuleggja íbúðakjarna að Rökkvatjörn 3 með það að markmiði að gera almenningsrými fyrir íbúana:

Flokkur fólksins leggur til að farið verði í að endurskipuleggja íbúðakjarna að Rökkvatjörn 3 með það að markmiði að gera almenningsrými fyrir íbúana. Komið hefur í ljós að það er stór galli á húsnæðinu því þar er ekkert sameiginlegt rými þar sem íbúar geta komið saman, borðað saman og horft  saman á viðburði í sjónvarpi. Flestir íbúar kjarnans eru að stíga sín fyrstu spor í eigin húsnæði. Íbúarnir þurfa mikla aðstoð við flesta hluti og verkefnin sem hvíla á starfsfólki eru mörg og margvísleg. Foreldrar íbúanna hafa ítrekað haft samband við borgarfulltrúa Flokks fólksins  og viðrað áhyggjur sínar.  Ljóst er að láðst hefur að hafa foreldra með í ráðum við hönnun og skipulagningu íbúðakjarnans. Áherslan ætti að sjálfsögðu alltaf að vera á þjónustuþegana og þarfir þeirra. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að skoðað verði hvort á öðrum stöðum í íbúðakjarnanum sé óþarfa mikið eða stórt rými, eða rými sem er illa nýtt eða sjaldan, sem þá er hægt að nýta undir sameiginlegt rými fyrir íbúana. Flokkur fólksins hefur reifað þetta mál á fundi umhverfis- og skipulagsráðs og er það mat ráðsmanna að málið eigi heima í velferðarráði/sviði.

Frestað.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að velferðarsvið beiti sér fyrir því að bæta aðstæður, fjölga stöðugildum og bæta þjónustu með því að koma á samningi milli borgarinnar og heilsugæslunnar:

Gistiskýlið á Lindargötu rekur neyðarúrræði fyrir heimilislausa karlmenn með fjölþættan fíknivanda. Þarna er unnið gott starf eins langt og það nær. Húsnæðið á Lindargötu er löngu sprungið og mikil vöntun er á þjónustu s.s. heilbrigðisþjónustu. Sama má segja um fleiri úrræði af þessum toga svo sem smáhýsin út á Granda. Flokkur fólksins þekkir vel til mála á báðum þessum stöðum og leggur til að velferðarsvið beiti sér fyrir því að bæta aðstæður, fjölga stöðugildum og bæta þjónustu með því að koma á samningi milli borgarinnar og heilsugæslunnar. Fjölga þarf starfsfólki með fjölbreytta starfsreynslu. Á Lindargötunni, sem dæmi, starfar aðeins einn félagsráðgjafi sem sér um öll mál. Álagið er mikið og næst ekki að sinna öllum málum svo vel sé.  Plássleysi er mikið sem skapar enn meira álag á starfsfólkið. Þrengsl eru oft slík að menn þurfa að sofa í stólum því ekki eru næg rúm.

Frestað

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að opnunartíma neyðarskýla verði breytt þannig að þau verði opin að degi til líka. Nú fer vetur í hönd og hefur Flokkur fólksins áhyggjur af þeim sem þiggja þjónustu gistiskýlisins þegar veður verða válynd:

Flokkur fólksins leggur til að opnunartíma neyðarskýla verði breytt þannig að þau verði opin að degi til líka. Nú fer vetur í hönd og hefur Flokkur fólksins áhyggjur af þeim sem þiggja þjónustu gistiskýlisins þegar veður verða válynd. Á meðan annað úrræði er ekki til staðar er mikilvægt að gistiskýlið sé opið allan sólarhringinn. Hlutverk gistiskýlisins er orðið stærra en lagt var upp með í upphafi og á það verður að horfa raunsæjum augum. Í ljósi heilsufars þessara manna sem er oft á tíðum grafalvarlegt er óásættanlegt að senda þessa menn út á Guð og gaddinn þangað til klukkan slær 17:00.

Frestað

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hvort nýtt fyrirkomulag heimaþjónustu sé ekki nógu gott en breytingin fólst í því að meta átti meira hvað þjónustuþeginn getur gert sjálfur og hvað hann þarf nauðsynlega aðstoð við:

Flokkur fólksins hefur fengið ábendingar frá fólki sem telur hið nýja fyrirkomulag heimaþjónustu ekki vera nógu gott. Breytingin fólst í því að meta átti meira hvað þjónustuþeginn getur gert sjálfur og hvað hann þarf nauðsynlega aðstoð við. Spurning er hvort þetta hafi gengið of langt? Nú hafa borist ábendingar um að þjónustuþegum er ætlað að gera meira en þeir hafa getu til. Hér er um fína línu að ræða og hlýtur það alltaf að verða að byggjast á færni og getu hvers þjónustuþega hvað hann treystir sér til að gera og hvað ekki. Annað vandamál með heimaþjónustuna er að heimsóknir eru of handahófskenndar. Sífellt eru heimsóknir að falla niður ýmist vegna veikinda starfsfólks eða veikinda barna starfsfólks. Við þessu þarf velferðarsvið að bregðast. Dæmi eru um að þjónustan hafi ekki verið veitt frá því í júlí. Heimsóknir eru iðulega afboðaðar kannski rétt áður en þær hefjast og líða jafnvel 2-3 vikur milli heimsókna. Það virðist sem alvarlegir brestir séu í þessari þjónustu og kallar Flokkur fólksins eftir tafarlausri skoðun á henni.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn er varðar vinnu stýrihóps um endurskoðun aðgerðaáætlunar með stefnu í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir:

Flokkur fólksins óskar upplýsinga varðandi vinnu stýrihóps um endurskoðun aðgerðaáætlunar með stefnu í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Umræddur stýrihópur starfaði á tímabilinu jan. – apríl 2022. Vandi heimilislausra kvenna með miklar og flóknar þjónustuþarfir  er mikill. Flokkur fólksins óskar eftir upplýsingum um hvenær  má vænta niðurstöðu?

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hvernig  heilbrigðisþjónustu fólks  sem nýtir smáhýsin t.d. út á Granda er háttað?

Flokkur fólksins óskar upplýsinga um hvernig  heilbrigðisþjónustu fólks  sem nýtir smáhýsin t.d. út á Granda er háttað? Einnig er óskað upplýsinga um hvernig nýting þeirra er? Hafa komið tímabil sem eitt þeirra eða fleiri eru ekki í notkun? Ef svo er hversu lengi og af hvaða ástæðu?

Natalie G. Gunnarsdóttir sat fundinn fyrir hönd Flokks fólksins