Borgarstjórn 21. júní 2022

Borgarstjórn Reykjavíkur
21. júní 2022

 

Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um að veita lágtekjuheimilum sértæka aðstoð vegna gjalda tengdum börnum

Lagt er til að borgarstjórn samþykki að veita foreldrum á lágtekjuheimilum í Reykjavík sértæka aðstoð til að standa straum af gjöldum í tengslum við börn sín eftir atvikum og þörfum þeirra.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að reglur Reykjavíkur um fjárhagsaðstoð verði endurskoðaðar með tilliti til þess að börn tekjulágra foreldra fái styrk til að greiða fyrir daggæslu barns í heimahúsum, leikskólavistun og frístundaheimili, sumardvöl og þátttöku barns í þroskandi félags- og tómstundastarfi. Tryggt verði að foreldrar sem þiggi fjárhagsaðstoð fái ávallt styrk vegna þessa. Jafnframt verði veittur slíkur styrkur til lágtekjuhópa sem ekki þiggja fjárhagsaðstoð.
Lagt er til að starfshópi skipuðum sérfræðingum frá skóla- og frístundasviði og velferðarsviði verði falið að kanna hvernig skuli útfæra slíkt styrktarúrræði þannig að það nái til fátækustu barnafjölskyldnanna og sem flestra barnafjölskyldna sem eiga erfitt með að standa straum af kostnaði í tengslum við börn sín.
Það er afar mikilvægt að tryggja að öll börn sitji við sama borð og að þau hafi jöfn tækifæri án tillits til efnahags foreldra þeirra. Það er samfélagsleg skylda okkar að aðstoða foreldra sem eiga erfitt með að greiða gjöld vegna þjónustu við börn sín.

Greinargerð

Eins og staðan er í dag erum við aðeins að hjálpa litlum hluta af þessum börnum í Reykjavík. Samkvæmt tölum frá mars sl. fá sum þessara bara gjaldfrjálsa máltíð eða 262 börn en aðeins 166 fá ókeypis leikskóladvöl og 118 ókeypis í frístund. Ekki er mikið vitað um aðstæður þeirra tæplega 2000 barna undir 18 ára sem búa við eða eru í hættu á að falla í fátækt.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins telur að hér þurfi að ganga lengra og gera betur. Um er að ræða börn fátækustu foreldra borgarinnar, börn einstæðra foreldra, börn foreldra sem eru atvinnulausir, börn foreldra sem eru öryrkjar eða glíma við veikindi. Þessum foreldrum þarf að hjálpa með þeim hætti að þau þurfi ekki að hafa áhyggjur af gjöldum sem tengjast umönnun og menntun barna þeirra enda iðulega ekki mikið eftir af tekjum þegar búið er að greiða leigu. Ef horft er til yngstu barnanna og grunnskólabarnanna þá ætti skilyrðislaust að fella niður t.d. gjöld hjá dagforeldrum, leikskólagjöld, skólamáltíðir og gjöld vegna frístundaþátttöku hjá tekjulægstu foreldrunum í Reykjavík.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu málsins:

Flokkur fólksins lagði til að skipaður verði starfshópur sem verði falið að kanna hvernig skuli útfæra slíkt styrktarúrræði fyrir fátækustu barnafjölskyldurnar sem eiga erfitt með að standa straum af kostnaði í tengslum við börn sín. Tillögunni er vísað til velferðarráðs til frekari skoðunar. Talið er að það séu um 2500 börn undir 18 ára sem búa við eða eru í hættu á að falla í fátækt. Aðeins er verið að hjálpa litlum hluta þessara barna eða um 513. Samkvæmt tölum frá mars sl. fá sum þessara barna gjaldfrjálsa máltíð eða 276 börn en aðeins 166 fá ókeypis leikskóladvöl og 118 ókeypis í frístundir. Um er að ræða börn fátækustu foreldra borgarinnar, börn einstæðra foreldra, börn foreldra sem eru atvinnulausir, börn foreldra sem eru öryrkjar eða glíma við veikindi. Þessum foreldrum þarf að hjálpa þannig að þeir þurfi ekki að hafa áhyggjur af gjöldum sem tengjast umönnun og menntun barna sinna enda iðulega ekki mikið eftir af tekjum þegar búið er að greiða húsnæðiskostnað. Hér er ekki endilega verið að tala um þá sem eru á fjárhagsaðstoð heldur að borgin beiti sér almennt betur og meira í þágu hinna verst settu til að auka megi jöfnuð.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar um að færa málaflokka atvinnumála, nýsköpunar og ferðaþjónustu til forsætisnefndar.

Tillagan sem hér um ræðir felur í sér aukið hlutverk forsætisnefndar svo um munar. Nefndin fundar tvisvar í mánuði og á að taka yfir ólíklegustu mál, s.s. atvinnumál og ferðaþjónustu. Ekki er alveg séð hvernig þessi mál falla undir hlutverk forsætisnefndar eins og það var hugsað í grunninn. Þar ægir nú öllu saman, allt frá því að skipuleggja starf borgarstjórnar og fjalla um málefni kjörinna fulltrúa yfir í stóra málaflokka eins og atvinnu- og ferðamál. Nú þegar hlutverk forsætisnefndar hefur verið útvíkkað svo um munar er spurning hvort ekki þurfi að fjölga fundum og breyta nafni nefndarinnar.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar um að sameina málaflokk mannréttinda og ofbeldisvarna í nýju mannréttinda- og ofbeldisvarnarráði sem tekur við hlutverki ofbeldisvarnarnefndar:

Flokkur fólksins hefur áhyggjur af að með þessari breytingu, þ.e. að leggja niður ofbeldisvarnarnefnd og setja málaflokkinn undir mannréttindaráð, áður mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð, sé verið að gengisfella málaflokkinn. Málaflokknum um ofbeldi er nánast fórnað fyrir málaflokkinn um stafræna vegferð sem nú fær sitt eigið ráð. Eitthvað þurfti því til að fylla í skarðið í mannréttindaráði og þótti þá greinilega í lagi að smella ofbeldismálunum þar inn. Þessi tilfærsla segir mest um forgangsröðun síðasta og þessa meirihluta. Stafræn umbreyting er sett hærra en ofbeldismálin. Flokkur fólksins álítur að stafrænu málin hafi verið færð í sér ráð til að erfiðara reynist að veita málaflokknum aðhald og eftirlit. Þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur legið undir gagnrýni fyrir að fara með skattfé borgarbúa af lausung ef tekið er mið af nútímakröfum um skilvirkni og aðhald. Enda þótt segi í greinargerð með tillögunni að þeim sem setið hafa í ofbeldisvarnanefndverði verði tryggð aðkoma að störfum hins nýja ráðs þá er það nokkuð annað en að sitja í sérstakri nefnd um ofbeldismál. Ekki kemur fram hvort einhver sérstakur fjárhagslegur ávinningur er af þessari breytingu.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar að stofna stafrænt ráð Reykjavíkurborgar. Ráðið skal taka við málaflokki stafrænna umbreytinga, þjónustu, lýðræðis- og gagnsæismála auk samfélagslegrar og opinberrar nýsköpunar.

Flokkur fólksins furðar sig á að eftir að búið er að tilkynna um skiptingu fulltrúa í ráð og að fyrir liggur að fulltrúi Flokks fólksins muni sitja í mannréttinda- og nýsköpunarráði næsta kjörtímabil er minnihlutinn upplýstur um að málaflokkur stafrænna umbreytinga sé fluttur úr ráðinu í sérstak stafrænt ráð. Finnst meirihlutanum þetta vera heiðarleg vinnubrögð og framkoma gagnvart minnihlutanum? Flokkur fólksins hefur veitt aðhald og haldið uppi gagnrýni á hvernig hluta 13 milljarða hefur nánast verið eytt af lausung og leikaraskap ef tekið er mið af nútímakröfum um skilvirkni. Tugir milljóna hafa streymt í einhverja erlenda ráðgjöf, fjölda tilraunaverkefna, þróunar- og uppgötvunarvinnu á lausnum sem varla teljast brýnar meðan brýnar lausnir eru látnar bíða. Látið er sem borgin reki hugbúnaðarfyrirtæki. Er hægt að álykta sem svo að með stofnun stafræns ráðs sem Flokkur fólksins á ekki aðkomu að sé verið að draga úr möguleika minnihlutafulltrúa að halda uppi málefnalegri gagnrýnni, aðhaldi og eftirliti með hvernig skattfé borgarbúa er varið í þessum málum. Í greinargerð segir að lyfta eigi upp stafrænum verkefnum. Flokkur fólksins telur að verið sé að búa til farveg þar sem gagnrýni kemst ekki að. Flokkur fólksins óttast að stefni í enn meira stjórnleysi þegar fulltrúa Flokks fólksins nýtur ekki lengur við til að veita aðhald.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu Sjálfstæðisflokksins að lækka álagningarhlutfall fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði og íbúðarhúsnæði við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2023, þannig að tekjur borgarsjóðs af álögðum fasteignagjöldum verði ekki umfram áætlanir:

Mikil hækkun fasteignaskatta kemur verst við fólkið sem hefur minnst milli handanna. Launatekjur hafa ekki hækkað samhliða nema hjá fólki á ofurlaunum. Sjálfsagt er að skattleggja rækilega þá efnamestu, stóreignafólk en ekki „venjulegt“ fólk sem margt hvert er að sligast undan afborgunum af lánum. Gagnvart þeim hópi er engin sanngirni í hækkun á fasteignasköttum, því þeim fylgja ekki auknar tekjur. Kostnaður vegna húsnæðis er að aukast og varla á það bætandi. Margir munu ekki ráða við það og hærri fasteignaskattar munu ýta einhverjum fram af brúninni. Það er engra hagur að fólk missi húsnæði sitt. Ekki einu sinni húsnæði á leigu, en að vera fastur á leigumarkaði er eins og margir vita hreinasta víti. Leiga mun hækka enn frekar verði fasteignaskattar hækkaðir. Heimilin eru ekki ótæmandi auðlind til að bjarga opinberum fjármálum og það er gríðarlega illa farið með fé hjá Reykjavíkurborg, sbr. sóun í stafræna vegferð, stór hluti gæluverkefni. Leita ætti fyrst leiða til aukins svigrúms með því að fara betur með núverandi tekjur borgarinnar áður en farið er að auka skattheimtu. Flokkur fólksins myndi vilja sjá að á árinu 2023 verði álagningarhlutfall fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði 0,15% af fasteignamati húss og lóðar en lóðarleiga íbúðarhúsnæðis 0,165% af lóðarmati.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands að borgarstjórn samþykkir að beina því til stjórnar Strætó bs. að gera breytingar á samsetningu stjórnar félagsins þannig að sex fulltrúar vagnstjóra verði skipaðir í stjórn byggðasamlagsins og einnig fulltrúi farþega:

Flokkur fólksins telur rétt að kanna þessa leið og að góður bragur sé á að beina tillögunni til stjórnar Strætó bs. til umfjöllunar. Sannarlega ættu þeir sem eru næstir störfunum, þeir sem sinna störfunum og notendur þjónustunnar að hafa áhrif á fyrirtækið, uppbygginguna og framþróun þess þ.m.t. hvernig störfin eru unnin. Dreifa þarf valdi, leyfum röddum allra að heyrast. Það væri enginn „strætó“ ef ekki væru bílstjórar og farþegar.

 

Bókun Flokks fólksins undir 15. lið og 27. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. júní:

Liður 27: Byggja á lagningu þriðja áfanga Arnarnesvegar á tæplega 20 ára gömlu umhverfismati. Það virðist flestum ljóst að útfærslan er ekki að fara að leysa nein vandamál, heldur einungis að skapa ný. Önnur ljósastýrð gatnamót við Breiðholtsbraut, sem er þegar sprungin umferðaræð, munu stífla veginn enn frekar og valda frekari töfum á umferð. Þetta veit Vegagerðin en samþykkir engu að síður útfærsluna í deiliskipulagi, í stað þess að  finna betri leið. Getur það verið að aðrir hagsmunir bæjarstjórnar Kópavogs, eins og að byggja 4.000 manna byggð á toppi Vatnsendahvarfs, séu í raun að stýra þessum illa ígrunduðu framkvæmdum og koma í veg fyrir að betri lausn verði fundin og nýtt umhverfismat gert? Án Arnarnesvegar væru forsendur fyrir þessari byggð brostnar og það virðist alls ekkert mega tefja þær áætlanir. Liður 15, Starmýri 2: Samþykkja á mál sem hefur valdið uppnámi meðal íbúa hverfisins m.a. vegna aukins skuggavarps, umferðar vegna stækkunar verslunarhúsnæðis og öryggi gangandi vegfarenda. Farið er offari í þéttingu byggðar í þessu gróna hverfi. Bæta á fjórðu hæðinni ofan á helming þakflatar þriggja hæða fjölbýlishúss sem nú er í byggingu. Þessu hefur verið  mótmælt af flestum íbúum í götunni fyrir tveimur árum. Skorað er á skipulagsyfirvöld að vinna þetta mál með íbúum.

 

Bókun Flokks fólksins undir 7. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 14. júní:

Spurt var um biðlista í skólahljómsveitir og var fyrirspurnin lögð fram fyrir einu og hálfu ári síðan. Í svari kemur fram að fjöldi barna á biðlista eftir að fá að taka þátt í skólahljómsveit er 341 barn nú árið 2022. Hljómsveitir eru 4. Flokkur fólksins aflaði sér upplýsinga um hvað kostar að reka eina skólahljómsveit og er það um 70 milljónir á ári. Vel kann að vera að meirihlutinn sjái ofsjónum yfir þeirri upphæð en minnst skal á sáran ójöfnuð sem ríkir þegar horft er til tækifæra til tónlistarnáms. Efnalitlir og fátækir foreldrar geta ekki boðið börnum sínum að leggja stund á rándýrt píanónám hvað þá að fjárfesta í slíku hljóðfæri. Fram kemur að engu barni er neitað um þátttöku, „það er bara sett á bið“, um ókominn tíma. Þegar loks kemur röðin að því er áhugi þess kannski ekki lengur fyrir hendi og mikilvægt tækifæri tapað. Hér er dæmi um kolranga forgangsröðun. Minnt er á biðlista í nánast allt í Reykjavík sem lýtur að börnum. Á meðan er ekkert lát á fjárútlátum í alls kyns aðra hluti, dauða hluti, óþarfa hluti eða hluti sem mættu í það minnsta bíða þar til búið er að sinna reykvískum börnum með mannsæmandi hætti.