Velferðarráð 6. september 2023

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 6. september 2023, um breytingu á leiguverðslíkani Félagsbústaða:

Verið er að breyta leiguverðslíkani Félagsbústaða því að núgildandi verðlíkan byggir á fasteignamati frá árinu 2017 og mismikil hækkun hefur verið á fasteignamati á milli borgarhluta. Flokki fólksins líst vel á að það verði þak á fasteignamati í einstökum hverfum til þess að grípa tilvik þar sem fasteignamat hækkar umfram meðaltal. Það er jákvætt að leiguverð sé sem jafnast óháð staðsetningu og að breytingar á leiguverði verði ekki í stökkum. Breytingin mun hafa áhrif á 2.649 leigjendur, og hækkar leiga hjá 1.538 leigjendum um fjárhæð á bilinu 0-36.000 kr. og alls lækka 1.111 leigjendur um sömu fjárhæðir. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af þeim 5,5% leigjenda þar sem leigan mun hækka um meira en 12.000 kr. á mánuði. Fjöldi leigjenda hefur kvartað undan stöðugum hækkunum á leiguverði undanfarið. Flokkur fólksins hvetur Félagsbústaði til að sýna sveigjanleika þar sem leigjendur eru í miklum erfiðleikum og jafnframt tilkynna leigjendum þessa breytingu sem fyrst svo fólk geti gert ráðstafanir. Flokkur fólksins mótmælir harðlega að vangreidd leiga sé send lóðbeint til lögfræðinga Motus. Leigjendur Félagsbústaða er viðkvæmur hópur og margir eru efnalitlir og fátækt fólk.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fram fer kynning á niðurstöðum þjónustukannana meðal notenda verkefnisins ELLA frá janúar og ágúst 2023:

Árangursmatið á verkefninu ELLA er greinilega mjög jákvætt. Niðurstöður kannanna meðal notenda sýna að mæðurnar upplifa mikinn félagslegan og uppeldislegan stuðning í úrræðinu. Þátttaka í úrræðinu hefur haft jákvæð áhrif á andlega líðan þeirra og þær upplifa að ráðgjöfin sé að mæta þörfum þeirra. Fulltrúa Flokks fólksins finnst sérstaklega ánægjulegt að sjá hvað leigjendur hafa gott aðgengi að ráðgjöfum sem auðvelda þeim aðgengi að stuðningi og/eða þjónustu fyrir börnin þeirra og hversu mikil áhersla er lögð á stuðning við mæðurnar í foreldrahlutverkinu. Flokkur fólksins telur að það ætti að fjölga úrræðum því biðlistinn er langur en það eru jafn margir á biðlista og nýta sér úrræðið.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 6. september 2023, um breytt fyrirkomulag á starfsemi unglingasmiðjanna Stígs og Traðar:

Stytta á opnunartíma unglingasmiðjanna Stígs og Traðar og í stað tveggja forstöðumanna í fullu starfi verða forstöðumenn/teymisstjórar í 50% starfi. Með þessari breytingu næst hagræðing upp á 12,7 m.kr. á ári. Flokkur fólksins fagnar því vissulega að það hafi verið hætt við að loka þessum smiðjum en finnst að þessi sparnaðarupphæð sé ekki mikil í stóra samhenginu. Fulltrúi Flokks fólksins hefði viljað halda áfram óbreyttri starfsemi því svona rask hlýtur að hafa slæm áhrif á þá sem hafa nýtt sér þessi úrræði. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þó jákvæð breyting að nú geta börn í 7. bekk sótt um í unglingasmiðjunum en það hefur verið mikið ákall um að þessi aldurshópur fái þessa þjónustu eins og ungmennin í 8- 10 bekk. Þegar á þetta mál allt er litið hefur óheyrilegur tími og kostnaður farið í það hvernig klípa megi nokkrar krónur af þessu frábæra úrræði eins og hvergi annars staðar sé hægt að spara. Flokkur fólksins mótmælti harðlega þegar meirihlutinn samþykkti þessa þjónustuskerðingu í sparnaðarskyni.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagðar fram til kynningar leiðbeiningar um ráðningar ættingja sem stuðningsfjölskyldu, dags. 15. ágúst 2023:

Fulltrúa Flokks fólksins finnst þessar leiðbeiningar eða reglur um ráðningar ættingja sem stuðningsfjölskyldu of strangar. Segir að  ættingjaráðningar séu einungis heimilar í undantekningartilfellum. Þvert á móti ætti að leggja áherslu á ætingaráðningar umfram ráðningar á utanaðkomandi fjölskyldum séu það augljósir hagsmunir barnsins. Það er barninu fyrir bestu að vera sem mest hluti af sínum ættingjagarði og ef ættingi getur tekið að sér hlutverk stuðningsfjölskyldu þegar slíkar aðstæður eru fyrir hendi er það gott og langt um betra en að barninu verði fundinn ókunn fjölskylda.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 6. september 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði, um fjölgun fagfólks í skólaþjónustu, sbr. 22. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. júlí 2023:

Enn á ný lagði fulltrúi Flokks fólksins fram fyrirspurn um hvort fjölga eigi stöðugildum sálfræðinga í ljósi þess að nú bíða 2515 börn eftir fagfólki skólaþjónustu, langflest eftir sálfræðingi. Velferðaryfirvöld segja nei, það á ekki að gera, þess sé ekki þörf því nú sé breytt verklag með tilkomu Betri borgar fyrir börn verkefnisins. Búið sé að draga úr greiningum og nú fái börn snemmtækan stuðning. Þetta er sama svarið og Flokkur fólksins hefur fengið í bráðum 5 ár. Árið 2018 biðu 400 börn en sá sami listi telur nú rúmlega 2500 börn. Af hverju hefur þessi listi margfaldast þrátt fyrir verkefnið Betri borg fyrir börn og „snemmtæka stuðninginn“? Vandinn blasir við. Börn fá ekki beinan aðgang að sálfræðingi og fagfólki eins og áður eins og þau hafa margsinnis óskað eftir t.d. á nýafstöðnu farsældarþingi. Með nýja verklaginu í borginni hefur starfsfólk fengið meiri stuðning sem er gott eins langt og það nær. Fjölmargar skýrslur og rannsóknir undanfarin ár hafa birt það sama og kom fram á farsældarþinginu sem er að stórum hluta barna líður ekki nógu vel. Einn af hverjum þremur nemendum í tíunda bekk hefur til að mynda glímt við sjálfsvígshugsanir einu sinni eða oftar síðastliðna tólf mánuði.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fram fer kynning á skýrslu stýrihóps um fyrirkomulag þjónustu við börn með fjölþættan vanda:

Fulltrúi Flokks fólksins þakkar ítarlega skýrslu og vill taka á sama tíma undir eina helstu niðurstöðu hennar sem er að hægt er að ná umtalsverðri hagræðingu í rekstri þjónustu við börn með fjölþættan vanda með  því að einn aðili annist skipulag og framkvæmd þjónustu. Með slíku fyrirkomulagi gefst tækifæri til að nýta mannauð og þekkingu til þjónustunnar með markvissari hætti og fleiri komast að í þjónustu.

Skipulag og skilvirkni er í þessu sem öðru aðalatriði ef ná á fram hagræðingu. Það kostar þegar margir eru að vasast í því sama, þegar störf skarast og hægri hendi veit ekki hvað sú vinstri er að gera. Það er  umhugsunarvert að lesa að úrræði sem veitt eru vegna þessa hóps barna eru ekki í fullri nýtingu allan ársins hring og þannig hefur það sennilega verið árum saman í stað þess að nýta og færa til starfsfólk á vöktum eftir þörfum.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu um kynningu:

Flokkur fólksins leggur til að velferðarráð fái kynningu á nýrri æskulýðsrannsókn sem kynnt var á farsældarþinginu 4. september sl. Margar sláandi niðurstöður hafa verið birtar úr rannsókninni og þar ber helst að nefna versnandi líðan ungmenna. Kvíði,depurð og ofbeldi hefur aukist. Sérstaklega hefur andleg líðan unglingsstúlkna versnað. Meirihluti stúlkna í 10 bekk glímir við kvíða og það að 23% stúlkna í 10. bekk hafi skaðað sig vekur mikinn óhug. Fulltrúa Flokks fólksins þykir mikilvægt að velferðarráð rýni þessa skýrslu og við virkilega hugsum um hvaða ráð við höfum til að bregðast við þessari stöðu. VEL23090020.

Samþykkt.