Borgarráð 17. mars 2022

Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 10. mars 2022, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 9. mars 2022 á breytingu á deiliskipulagi Klettasvæðis vegna lóðarinnar nr. 1 við Köllunarklettsveg:

Fulltrúi Flokks fólksins spyr um samráð í þessu máli sem og fjölmörgum öðrum. Við lestur athugasemda virðist sem ekki hafi verið haft samráð við íbúa þarna í nágrenninu. Athugasemdir snúa að því hvernig lóðin verði nýtt til frambúðar og þessi stóri og vel staðsetti reitur ætti að verða hluti af þeirri heildar uppbyggingu svæðisins sem hljóti að verða að veruleika á næstu árum. Stóra matvöruverslun vanti t.a.m. í hverfið og ekki sé umhverfisvænt að þurfa að fara í önnur hverfi eftir vistum. Svæðið ætti að nýta til uppbyggingar á innviðastarfsemi sem styrki hverfið, t.a.m. verslanir, leikskóla og heilsugæslu. Í athugasemdunum eru margar gagnlegar tillögur sem taka ætti mark á en ekki vísa á bug.

 

Bókun Flokks fólksins við bréf umhverfis- og skipulagssviðs að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir vegna endurnýjunar á gatna- og umhverfislýsingu árið 2022:

Hér óskar meirihlutinn eftir að borgarráð heimili umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir vegna endurnýjunar á gatna- og umhverfislýsingu 2022. Kostnaðaráætlun 2 er 700 m.kr. Þetta er sjálfsögð framkvæmd en er vörðuð mistökum í útboðum. Nú þarf að vanda til verka.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi frá skrifstofu borgarstjóra og borgarritara að óskað er eftir að borgarráð samþykki að í stað Klasa ehf. taki Borgarhöfði fasteignaþróun II ehf. við réttindum og skyldum samkvæmt samkomulagi vegna uppbyggingu á Ártúnshöfða:

Hér er verið að fjalla um stórframkvæmdir og ekki auðvelt að sjá alla lausa enda. Þó er ljóst að borgin þarf að standa vel að sínu og ekki tapa fjárhagslega. Kostnaður við fyrirhugaðar framkvæmdir i hverfinu er verulega umfram áætlaðar tekjur af gatnagerðargjöldum en framkvæmdaaðilar munu taka þátt í þeim umframkostnaði. Þar munu sennilega koma upp vafamál. Svo mun borgin taka þátt í listskreytingum í almenningsrýmum. Minna má á pálmana sem rísa áttu í Vogabyggð og vonast fulltrúi Flokks fólksins eftir að einhver lærdómur hafi verið dreginn af því máli. Hér þarf að vera á tánum og öll upplýsingagjöf þarf að vera greið svo að t.d. minnihlutafulltrúar geti veitt aðhald.

 

Bókun Flokks fólksins við drögum að erindisbréfi aðgerðahóps um móttöku flóttafólks eru send borgarráði til kynningar:

Þetta er nauðsynlegt og stórt verkefni og kemur ofan á vöntun á úrræðum vegna barna sem þegar búa í Reykjavík. Hér er meðal annars fjallað um kennslu fyrir börn á grunnskólaaldri, leikskólapláss, félagslegan stuðning og leiðbeiningar fyrir frístunda-, tónlistar- og íþróttaþátttöku og eftir atvikum atvinnuþátttöku. En bæta mætti við að á meðal flóttamanna er án efa fólk sem hefur unnið með börnum svo sem kennarar sem vilja starfa áfram. Fulltrúi Flokks fólksins kallar eftir nýrri hugsun, nýrri nálgun og endurstokkun á útdeilingu fjármagns nú þegar fjöldi stríðshrjáðs fólks streymir til landsins. Fresta þarf fjárfrekum framkvæmdum sem geta beðið betri tíma. Geislabaugurinn sem fyrirhugað er að rísi á Lækjartorgi verður að fara á ís svo og mörg önnur sambærileg verkefni sem ekki eru nauðsynleg. Með komu úkraínsku barnanna bætist í hóp barna sem þarfnast aðstoðar af ýmsu tagi. Þótt fjármagn komi frá ríkinu í einstök verkefni ber sveitarfélagið sína fjárhagslegu ábyrgð sem og siðferðislegu. Langir biðlistar eru eftir aðstoð af öllu tagi í Reykjavík. Í biðlistaborginni Reykjavík bíða nú 1804 börn eftir fagþjónustu skóla. Ef þarfir fólks verða ekki í forgangi, er hætta á að Reykjavíkurborg axli hvorki ábyrgð á að veita lögbundna þjónustu né megni að sinna stríðshrjáðum fjölskyldum frá Úkraínu.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu  borgarstjóra, dags. 15. mars 2022, að borgarráð samþykki uppfærða útgáfu af græna planinu – heildarstefnu Reykjavíkur til 2030 og sóknaráætlun græna plansins 2022-2023, langtímaáætlun um fjármál og fjárfestingu Reykjavíkurborgar:

Í þessu skjali er nú fátt „grænt“, mest er þetta lof um þetta stafræna eins og það sé efst á lista græna plansins. Stafrænar æfingar hafa nú staðið yfir í þrjú ár og ráðstafa á 15,3 milljörðum þetta og næsta ár í verkefnin. Virkar lausnir sem gagnast borgarbúum og starfsmönnum má telja á fingrum annarrar handar. Málaflokkar sem snúa að börnum og öðrum viðkvæmum hópum hafa hrunið niður forgangslistann að sama skapi. Markmið meirihlutans er að gera Reykjavík að besta hugbúnaðarfyrirtæki í heimi eftir því sem borgarfulltrúi Flokks fólksins skilur gögnin. Það gapa margir yfir þessu. Í gögnum segir „þetta er risastórt verkefni sem á sér fáar hliðstæður hér á landi“. Fulltrúi Flokks fólksins óttast að nú hafi meirihlutinn misst fótanna. En nokkur orð um alvöru grænt og loftlagsmál. Minnt er á að meirihlutinn felldi tillögu Flokks fólksins um að hefja skógrækt frá Reykjavík að Hengli í samráði við nágrannasveitarfélög til að kolefnisjafna höfuðborgarsvæðið. Á því svæði eru Hólmsheiði, Mosfellsheiði, Nesjavallaleið en ekki Svínahraun né önnur nýrunnin friðuð hraun eins og borgarstjóri lét hafa eftir sér. Í Facebook færslu hans mátti sjá að borgarstjóri kaus að misskilja tillöguna og ruglaði þessu svæði saman við svæðið milli Heiðmerkur og Bláfjalla.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi  fjármála- og áhættustýringarsviðs þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki leigusamning um rými á 1. hæð á Rafstöðvarvegi 4:

Leigja á rýmið fyrir tímabundið verkefni á vegum Barnaheilla, hjólasöfnun. Á það er minnt að Toppstöðin er hús sem er að stórum hluta byggt úr asbesti og hýsir aflagða rafmagnsaflstöð. Í húsinu eru margir hættulegir staðir og á mörgum stöðum innan hússins er mikil fallhæð. Fulltrúa Flokks fólksins finnst það ábyrgðarhluti að leigja húsið nokkrum yfir höfuð. Tilefni er til að birta hér bókun Flokks fólksins frá nóvember 2021 þar sem hvatt er til þess að húsið verði rifið: „Gert er ráð fyrir 200 m.kr. í fjárfestingu í Toppstöðinni (áætlun fyrir árið 2022). Áætlað var á sínum tíma að rífa Toppstöðina sem hefði verið og er enn góður kostur. Réttast er að mati fulltrúa Flokks fólksins að rífa bygginguna og byggja nýja sem hægt væri að klæðskerasauma að framtíðarverkefnum. Toppstöðin hefur ekki verið talin merkileg bygging. Um er að ræða hús, stálgrindarhús sem auðvelt er að rífa. Þarna er auk þess asbest sem þarf að fjarlægja með ærnum kostnaði, sama hvað gert verður við húsið. Hér er lag að reisa fallega byggingu á einstaklega góðum stað.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi innri endurskoðunar og ráðgjafar, dags. 14. mars 2022, varðandi innri endurskoðunaráætlun A-hluta Reykjavíkurborgar 2022-2023, ásamt endurskoðunaráætlun, dags. í febrúar 2012:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að innri endurskoðun hefur ákveðið að gera úttekt á þjónustu- og nýsköpunarsviði (ÞON) árið 2023. Fulltrúi Flokks fólksins hefur beðið um þessa úttekt og hefur í tvígang átt fund með innri endurskoðanda til að fara með honum yfir gögn ÞON. Efasemdir eru um að vel hafi verið farið með fjármagn borgarbúa í þessari vegferð. Árið 2020 var allstór hópur sérfræðinga rekinn af sviðinu, í miðju COVID. Eftir það var eins og fjandinn væri laus. Fjáraustrið byrjaði og á þessu og næsta ári hverfa 15,2 milljarðar. Á verkefnalista ÞON má ýmist sjá lausnir sem dagaði uppi eða lausnir sem engin brýn þörf er á. Lausnir sem liðka fyrir þjónustu og létta vinnu starfsfólks má telja á fingrum annarrar handar. Samtök iðnaðarins hafa einnig velt upp spurningum um hvað sé í gangi hjá ÞON, allar þessar uppgötvanir, tilraunir og þróunarvinna eins og verið sé að finna upp hjólið, aftur! Nú liggur fyrir skipting rúmlega 15 milljarða 2022-2023 sem er eftirfarandi: 8 ma.kr. í stafræna umbreytingu í Reykjavík, 2,8 ma. í hugbúnað og upplýsingatæknikerfi, 2,5 ma. í upplýsingatækniinnviði og 2,3 ma. í stafræna umbreytingu og rafvæðingu ferla (sem eru hverjir?).

 

Bókun Flokks fólksins við svari umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 10. mars 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um sementsrannsóknir á húsnæði Vörðuskóla, sbr. 41. lið fundargerðar borgarráðs 24. febrúar 2022:

Fulltrúi Flokks fólksins þakkar svarið. Það er ánægjulegt að verið sé að vinna í því að gera rannsóknir sem sýna að mygla sé komin í sementið. Einnig var spurt hvort það sé góð ráðstöfun á almannafé að fara í viðgerðir á Vörðuskóla þegar ekki liggur fyrir hvort yfir höfuð sé hægt að uppræta myglu og bjarga húsnæðinu. Ekki fengust svör við þeirri spurningu. Er ekki rétt að bíða eftir rannsóknarniðurstöðum og taka skrefið um viðgerð eða niðurrif eftir það?

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um frestun framkvæmda á Lækjartorgi til að eyða biðlistum eftir húsnæði, sbr. 28. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. mars 2022:

Tillagan er felld.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að allar framkvæmdir með Lækjartorg verði látnar bíða og peningar notaðir frekar til að ráðast í að eyða biðlistum sem eru nánast í hverja einustu þjónustu í borginni sem og eftir húsnæði, félagslegu og sértæku húsnæði. Tillagan er felld. Það liggur ekkert á að setja geislabaug yfir Lækjartorg en það liggur á að hjálpa börnum í neyð og byggja þak yfir höfuð þeirra sem eiga ekki heimili. Við bætist nú að von er á stórum hópi flóttamanna frá Úkraínu, allt að 2000 manns og jafnvel fleiri. Fólk er farið að streyma til landsins. Margt þessa stríðshrjáða fólks mun setjast að með börn sín í Reykjavík. Þetta stóra mikilvæga verkefni kallar á fjármagn. Ljóst er að nú þarf borgarmeirihlutinn að endurskoða útdeilingu fjármagns. Fresta fjárfrekum framkvæmdum. Geislabaugurinn skrautlegi á Lækjartorgi verður að fara á ís. Sama gildir um önnur verkefni sem ekki eru nauðsynleg. Það verður að fara að setja fólk og þarfir þess í fyrsta sæti. Ef spilin verða ekki endurstokkuð er hætta á að Reykjavíkurborg axli hvorki ábyrgð sína um lögbundna þjónustu né megni að sinna stríðshrjáðum fjölskyldum frá Úkraínu.

 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Samkvæmt fjórða ársfjórðungsyfirliti húsnæðisáætlunar 2021 sem lögð var fyrir borgarráð þá komu 1.285 nýjar íbúðir inn á húsnæðismarkaðinn árið 2021. 9.038 íbúðir eru nú í deiliskipulagsferli og af þeim eru 2.118 á vegum húsnæðisfélaga. Mikil umbreyting hefur orðið á húsnæðismarkaði undanfarin ár með tilkomu nýrra hverfa og öflugri uppbyggingu óhagnaðardrifins húsnæðis. Markmið hafa náðst hvað varðar félagslegt húsnæði Reykjavíkurborgar. Fólki á biðlistum eftir almennu félagslegu húsnæði hefur fækkað jafnt og þétt frá janúar 2019 um 444 einstaklinga en í árslok 2021 voru 524 á bið og er það um 50% fækkun. Hvað varðar hugmyndir um endurhönnun Lækjatorgs þá er sú vinna enn á hugmyndastigi og á fjárfestingaráætlun í framtíðinni. Allar áætlanir um félagslegt húsnæði eru í góðu, skýru og gegnsæju ferli og ekki ástæða til að breyta þeim að svo stöddu. Því er tillaga áheyrnafulltrúa Flokks Fólksins felld.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu meirihlutans við tillögu áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um stofnun Stjórnsýsluendurskoðunar Reykjavíkur, sbr. 29. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. mars 2022:

Tillagan er felld.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að borgarráð samþykkti að stofna Stjórnsýsluendurskoðun Reykjavíkur en hlutverk hennar yrði að gera stjórnsýsluúttektir á starfsemi stofnana Reykjavíkurborgar með tilliti til nýtingar fjármuna borgarinnar, hagkvæmni og skilvirkni og hvort að framlög skili tilætluðum árangri. Meirihlutinn hefur nú fellt þessa tillögu. Þetta er hugmynd sem meirihlutanum í borginni hugnast ekki, öllu sem hefur það markmið að skoða kerfið með tillögur til úrbóta telur þessi meirihluti að ekki sé þörf á. Stofnun sem hér er lögð til gæti verið til gagns svo um munar. Stofnun sem þessi þarf ekki að vera stór en nægjanlega öflug til að taka að sér úttektir á stofnunum borgarinnar og fleiru. Ástæða þess að tillaga sem þessi er sett fram er að skort hefur á gagnsæi með mörg verkefni. Sem dæmi þá hafa vaknað upp spurningar um forgangsröðunina hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði. Þarna er fjárfestingaráætlun upp á 12,5 milljarða króna og á tveimur árum er áætlað að eyða yfir 15 milljörðum í stafrænar lausnir. Var ekki einhvern tímann talað um 10 milljarða króna á þremur árum? Hvenær bættust aðrir 5 við? Í þessu sem mörgu á forræði þessa meirihluta vantar heildaryfirsýn. Hver tekur t.d. út verklok?

 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Innri endurskoðun og ráðgjöf er eftirlitseining Reykjavíkur sem efld hefur verið á þessu kjörtímabili. Innri endurskoðun og ráðgjöf sinnir allri innri endurskoðun innan Reykjavíkurborgar og ekki er þörf á annarri eftirlitseiningu. Tillaga um stofnun nýrrar stjórnsýsluendurskoðunar er því felld.

 

Bókun Flokks fólksins undir lið 1 í fundargerð íbúaráðs Breiðholts frá 7 mars 2022:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að sjá loksins gagnrýnar umræður eiga sér stað um Arnarnesveginn í þessu íbúaráði. Nóg var baráttan að fá umræðu um málið í íbúaráðinu en lengi vel var sagt að málið væri bara komið með farsæla lausn. Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir með fulltrúa íbúasamtaka sem leggur fram svohljóðandi bókun: „Arnarnesvegur er hluti af samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins og samvinnuverkefni Reykjavíkur, Kópavogs og Vegagerðar. Framlenging Arnarnesvegar ásamt gatnamótum við Breiðholtsbraut er þannig hluti af samgöngusáttmála ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Telur fulltrúi íbúasamtakanna Betra Breiðholt þau engan veginn í takt við þarfir íbúa. Fulltrúinn leggur því til að áform um veginn verði endurskoðuð þannig að þau taki frekar mið af þörfum Breiðhyltinga með tengingum við hjólreiðavegi og falleg útivistarsvæði. En skoðað verði hvort í raun sé þörf fyrir almenna umferð á svæðinu, hvort nægja myndi að veita umferð borgarlínu og forgangsakstri um svæðið en ekki almenna umferð og því ekki þörf fyrir framkvæmd af þessari stærðargráðu.

 

Bókun Flokks fólksins undir lið 4 í fundargerð íbúaráðs Kjalarness frá 10. mars 2022:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur orðið var við óánægju sem virðist gæta hjá mörgum íbúum Kjalarness með frammistöðu og fálæti borgarmeirihlutans í Reykjavík. Kjalarnes er of langt frá miðbænum til að vera spennandi hjá þessum meirihluta. Íbúar úthverfa hafa einnig tjáð sig um að vera útundan og ekki komast nægjanlega vel á blað hjá þessum meirihluta. Sem dæmi um óánægju íbúa í úthverfa er bókun fulltrúa Íbúasamtaka Kjalarness sem er svohljóðandi: „Ráða má af umræðum og af almennum fundi Íbúasamtaka Kjalarness sem haldinn var 9. mars sl. að mikillar óánægju gætir hjá íbúum með frammistöðu og fálæti Reykjavíkurborgar gagnvart Kjalarnesi. Í ljósi þess óskar íbúaráð Kjalarness eftir kosningu um vilja Kjalnesinga um að Kjalarnesið gangi út úr Reykjavíkurborg og færist undir annað sveitarfélag. Kosningin yrði samhliða næstu sveitarstjórnarkosningum“.

 

Bókun Flokks fólksins við 9. lið fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 28. febrúar 2022:

Tekið er undir bókun Sjálfstæðisflokks þess efnis að ánægjulegt er að sjá að launakostnaður og rekstrarkostnaður í heild hafa lækkað milli ára hjá Orkuveitu Reykjavíkur (OR). Bent er einnig á í bókun að skuldir OR eru rúmir 200 milljarðar um áramót sem er talsvert umfram markmið OR en gert var ráð fyrir að skuldir væru 192 milljarðar í árslok 2021. Þetta gerist þrátt fyrir að fjárfestingar séu 3 milljörðum minni en gert var ráð fyrir. Aftur að launakostnaði, en almennt eru forstórar á ofurlaunum. Það er ekki langt síðan að gengið var frá launahækkun forstjórans og hækkuðu laun hans þá um 370 þúsund krónur á mánuði. Rök stjórnar voru þá m.a. þau að aðrir forstjórar orkufyrirtækja séu með há laun og þessi forstjóri hafi staðið sig svo vel, eins og það sé ekki beinlínis sjálfgefið að forstjóri standi sig vel. Forstjórar orkufyrirtækja eru sárafáir en þeir eru í höfrungahlaupi hver við annan og hækka á víxl í launum.

 

Bókun Flokks fólksins við 12. lið yfirlit  embættisafgreiðslna um könnun á viðhorfi og líðan borgarfulltrúa sem borist hafa borgarráði, alls 15 mál:

Þetta er áhugaverð könnun og staðfestir margt sem fulltrúi Flokks fólksins upplifir sem borgarfulltrúi í minnihluta. Ef borgarfulltrúi ætlar að láta að sér kveða sem minnihlutafulltrúi í stærsta sveitarfélagi landsins þarf að leggja dag við nótt. Álagið er mikið. Starfið er gefandi enda þótt fá sem engin mál náist í gegn. Umbunin felst í tækifærinu í að vera í nálægð við borgarbúa, hlusta á raddir þeirra og reyna að finna leiðir til að bæta það sem borgarbúum finnst þurfa að bæta til að þeir geti lifað sómasamlegu lifi og meira gæðalífi. Í Reykjavík sérstaklega eiga margir um sárt að binda aðallega vegna þess að þeir fá ekki þá þjónustu hjá sveitarfélaginu sem þeir hafa rétt til. Verkefnin eru því ærin. Umbunin felst einnig í þeirri vitneskju að því meira og oftar sem hlutir eru endurteknir að þá holar dropinn steinninn með tíð og tíma. Menning og starfshættir sveitarstjórna eru án efa mismunandi. Meirihlutar sumra sveitarfélaga eiga gott og farsælt samstarf við minnihlutann sem grundvallast á að bjóða hinum síðari að borðinu og hlusta einnig á það sem þeir hafa fram að færa. Samstarf meiri- og minnihluta sveitarstjórnar er lykilatriði ef starfið á að geta verið farsælt og án átaka.

 

Ný mál frá Flokki fólksins

Fyrirspurnir um hvernig brugðist hafi verið við niðurstöðum starfsánægjukannana hjá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu.

Fulltrúi Flokks fólksins ítrekar fyrirspurnir um hvernig brugðist hafi verið við niðurstöðum starfsánægjukannana hjá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu. Í kjölfarið af niðurstöðum starfsánægjukannana sem komu afar illa út hjá Slökkviliðinu fékk fulltrúi Flokks fólksins fréttir af því að SHS (Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu) hafi farið í samstarf við Empower. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvernig hefur verið brugðist við þessum niðurstöðum. Í ljósi þess að niðurstöður sýndu alvarlega stöðu hjá fyrirtækinu er spurt hvort ekki sé rétt að gerð verði heildarúttekt á trausti starfsfólks til stjórnenda SHS. MSS21120028

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um skort á leikskólaplássum og hvort sé til rými fyrir úkraínsk flóttabörn.

Því hefur verið fleygt að það vanti 900 leikskólapláss en tölunni 1500 hefur einnig verið fleygt. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvað vantar mörg leikskólapláss núna (mars 2022). Hvað er reiknað með að vanti mörg pláss þegar sumarfríum lýkur í ágúst 2022? Einnig er spurt hvort búið er að gera áætlanir um móttöku barna frá Úkraínu sem nú streyma til landsins. Er farið að skoða hvað vantar inn í skólana, smátt og stórt, t.d. er rými, snagar, borð og stólar? Hvað er áætlað að þurfi að fjölga mikið í starfsmannaliði leikskólanna ef við bætast t.d. 100 börn á stuttum tíma? MSS22030165