Borgarráð 29. október 2020

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 19. október 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að fara í útboð vegna kaupa á nýjum LED lömpum:

Óskað er eftir að borgarráð heimili umhverfis- og skipulagssviði að fara í útboð vegna kaupa á nýjum LED lömpum vegna áætlaðra framkvæmda á árinu 2021. Þetta er löngu tímabært, þótt fyrr hefði verið. Lýsing og ljósaskilti hafa almennt séð mikil áhrif á útlit borga. Það er löngu tímabært að móta stefnu um þessi mál þar sem LED-lýsingar munu verða ríkjandi á næstu árum og þar með verða breytingar á skiltum. Með LED-tækninni opnast nýir möguleikar. Mikilvægt er að settar verði skýrar og almennar reglur um lýsingu t.d. sem snýr að skiltum á stofnvegum en einnig þar sem verslunarkjarnar eru inn í íbúðahverfum. Sterk lýsing ljósaskilta verslana getur auðveldlega teygt sig inn í stofu hjá fólki með tilheyrandi ama. Sem betur fer er sveigjanleiki LED-lýsinga mikill og með þeirri tækni er færi á að fegra umhverfið, en ekki spilla því. Þetta er sannarlega pólitískt borgarmál, en ekki mál sérhvers söluaðila, hagsmunasamtaka eða verslunareigenda.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 23. október 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að fara í framkvæmdir við endurgerð á kvennaböðum í eldri byggingu Sundhallar Reykjavíkur:

Nú á að hefja framkvæmdir við endurgerð á kvennaböðum í eldri byggingu Sundhallar Reykjavíkur. Því ber að fagna og samhliða er þess vænst að konur fái aftur að nota að fullu kvennaaðstöðuna í eldri byggingunni um leið og hún er tilbúin. Til upprifjunar þá var konum úthýst úr kvennaklefa Sundhallarinnar og settar í klefa nýbyggingar þar sem þær þurfa að ganga í blautum sundfötum langa leið utandyra frá klefa í laug. Karlar héldu sínum. Hér er um lýðheilsumál að ræða. Að jafnrétti kynja var ekki gætt við hönnun og eru þessar breytingar varla í samræmi við stefnu borgarinnar í jafnréttismálum. Mannréttindastjóri hefur hafnað því og segir að „áður hafi konur ekki notið sömu þjónustu og karlar og fatlaðir ekki sömu þjónustu og ófatlaðir en nú uppfylli Sundhöllin mannréttindastefnu borgarinnar“.Fátt af þessu stenst reyndar. Hver var t.d. sú þjónusta sem karlar nutu í Sundhöllinni umfram konur? Að hvaða leyti var aðstaða fyrir konur lélegri en karla og er hún betri núna, og þá hvernig? Staðan er bagaleg nú fyrir konur ekki síst á vetrum því leiðin frá kvennaklefum í nýbyggingu og inn í Sundhöll er löng og köld fyrir konur, ungar sem aldnar, verandi í blautum sundbolum í alls konar veðrum.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu við viðaukum við fjárhagsáætlun 2020, ásamt fylgiskjölum:

Fjárhagsleg staða borgarinnar er slæm og aðeins að hluta til vegna heimsfaraldurs kórónuveiru COVID-19. Áður en veiran kom voru tekjur af sölu byggingarréttar langt undir áætlun. Á sama tíma og notendum þjónustu fjölgar og mun fleiri þurfa nú fjárhagsaðstoð er sviðum sem sinna grunnþjónustu gert að hagræða og gjaldskrár eru hækkaðar. Stefna borgarinnar í peningamálum er stundum í þversögn. Fulltrúi Flokks fólksins óttast að meirihlutinn nýti sér COVID-19 sem skjól. Fjárhagsstaða borgarinnar fyrir COVID fellur í skuggann á stöðunni sem komin er vegna COVID. Eðli málsins samkvæmt eru minni umsvif í efnahagslífinu. Fyrir faraldurinn var skuldaaukning mikil og nú er þörf á enn frekari lántökum til að fjármagna fjárfestingar. Huga þarf að velferðarsviðinu sérstaklega, þar er þungur rekstur sem ætti ekki að koma á óvart nú. Engu að síður er gerð krafa um hagræðingu. Hópurinn sem þarf fjárhagsaðstoð hefur stækkað og er nú einnig breiðari. Hann mun halda áfram að stækka enn meira með auknu atvinnuleysi.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 26. október 2020, þar sem lögð er fram endurskoðuð tímaáætlun fyrir frágang, kynningu og afgreiðslu fjárhagsáætlunar 2021-2025:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur nokkrar áhyggjur af þessari tímaáætlun og breytingum á fundadagatali aðallega vegna þess að fjármála- og áhættustýringarsvið annar ekki að kostnaðarmeta breytingartillögur fulltrúa minnihlutans sem hyggjast leggja slíkar tillögur fram. Fulltrúi Flokks fólksins lagði til 28. maí 2020 að skilgreint yrði ákveðið starfshlutfall t.d. eins starfsmanns fjármálaskrifstofu til að reikna út þær tillögur sem minnihlutafulltrúar óskuðu eftir að yrðu kostnaðarmetnar og einfaldlega sinna betur minnihlutafulltrúum. Tillögunni var vísað frá. Í þau skipti sem fulltrúi Flokks fólksins hefur óskað eftir kostnaðarmati og látið jafnvel fylgja að gróft mat dugi, líður oft langur tími áður en nokkuð svar berst. Þetta segir vissulega ekkert annað en það að það er mikið álag á starfsmönnum fjármálasviðsins. En kannski má einnig álykta að tillögur og breytingatillögur minnihlutafulltrúa eru ekki settar í neinn sérstakan forgang nema síður sé. Að hafa hugmynd um kostnað tillögunnar getur skipt sköpum við atkvæðagreiðslu, þ.e. dregið úr líkum þess að tillögu verði vísað samstundis frá af meirihlutanum eða felld eins og oftast gerist. Ef stjórnkerfi borgarinnar á að vera heilbrigt og eðlilegt þarf að gera á þessu bragarbót. Almennt er hvatt til þess að mál minnihlutafulltrúa séu móttekin með jákvæðari hætti af meirihlutanum, í það minnsta að þau fengju oftar skoðun.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs borgarstjóra, dags. 26. október 2020, þar sem uppfærð húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar er send borgarráði til kynningar:

Húsnæðisáætlun uppfærð er lögð fram. Það hafa ekki allir borgarbúar öruggt húsnæði eins stefnan kveður á um. Ekki er nægjanlega mikið af almennu sannarlega hagkvæmu húsnæði. Sé skortur á hagkvæmu húsnæði aukast líkur þess að efnalítið fólk finni sér skjól í hættulegu, ósamþykktu húsnæði. Skortur er á þjónustuíbúðum aldraðra og hjúkrunarrýmum. Á áætlun er að byggja 450 íbúðir fyrir eldri borgara. Þetta dugar ekki til. Þjóðin er að eldast og þessi rými taka varla biðlistann sem nú er. Bið eftir sértæku húsnæði fyrir fatlað fólk er enn of löng. Nú bíða á annað hundrað manns eftir slíku húsnæði en á áætlun er að byggja aðeins rétt rúmlega 100 íbúðir. Þétting er víða ansi mikil. Að stafla eins mörgum á eins lítinn blett og hægt er er varla fýsilegt. Fylla á fjörur til að koma enn fleirum fyrir eins og t.d. í Skerjafirði. Enn eru þeir til sem óska eftir lóðum til að byggja sitt eigið hús eða óska eftir einbýlum í nýjum hverfum eins og í Úlfarsárdal. Ekki er mikið framboð af slíku. Einnig er erfitt að fá iðnaðarhúsnæði í sumum hverfum í Reykjavík og atvinnutækifæri eru afar misgóð eftir hverfum, í sumum hverfum bara lítið sem ekkert.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu tillögu borgarstjóra um nýtt þróunarverkefni um grænt íbúðarhúsnæði framtíðarinnar dags. 26. október 2020:

Grænt íbúðarhúsnæði framtíðarinnar. Þetta hljómar vel nema hugmyndin um aukna byggð í Skerjafirði og það á kostnað fjara. Byggja á allt í kringum flugvöllinn og setja skóla í uppfyllta fjöru. Landfylling er óásættanleg og á aldrei að þurfa. Náttúrulegar fjörur eru fágætar í Reykjavík. Væri ekki nær að bíða eftir því að flugvöllurinn fari? Í þessu er því mikil þversögn því með þessu græna íbúðarhúsnæðissvæði á að horfa til að íbúar geti notið nábýlis grænna svæða og útivistarsvæða. Fulltrúi Flokks fólksins hefur margsinnis bókað um af hverju þessi meirihluti getur ekki látið fjörur í friði. Það vantar ekki land. Haldið er áfram að troða á kostnað bæði grænna svæða og útivistarsvæða. Einnig á að fylla fjörur í Ártúnshöfða þar sem byggja á 900 íbúðir. Svo mikið fyrir hina „grænu áherslu“ meirihlutans!

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu svars Strætó við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um nýja fargjaldastefnu Strætó:

Fulltrúi Flokks fólksins þakkar svarið. Segir í svari að vinnan við mótun nýrrar fargjaldastefnu sé enn í gangi. Í því sambandi má undirstrika að stakt fargjald með strætó er einfaldlega allt of hátt. Svo hátt að það fælir þá frá sem myndu vilja nýta sér strætó endrum og sinnum. Stök ferð kostar tæpar 500 krónur. Það væri mikil bót í máli ef hægt væri að kaupa sem dæmi strætókort sem hefur ótakmarkaðan gildistíma. Það hentar vel fólki sem þarf og vill nota strætó en ekki með reglubundnum hætti. Þessari hugmynd Flokks fólksins og fleiri var vísað til stjórnar Strætó. Margt er hægt að gera til að laða fólk að frekari notkun strætisvagna t.d. með því að bjóða upp á ódýr kynningarkort til að fólk kynnist kerfinu. Það þurfa að vera fleiri möguleikar í fargjöldum, jafnvel fríar ferðir utan álagstíma. Finna ætti fjölbreyttar leiðir til að bæta ímyndina og virkja þjónustustefnu betur. Einnig myndi það laða að ef hundar væru ávallt velkomnir um borð í vagnana.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu svars mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, dags. 5. október 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um vinnu aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks varðandi göngugötur og akstursþjónustu:

Fulltrúi Flokks fólksins spurði m.a. hvort nefndin hafi beitt sér varðandi 10. gr. laga frá 1. janúar 2020 sem kveður á um heimild fatlaðs fólks að aka göngugötur og leggja í merkt stæði. Í svari kemur fram að nefndin fékk ekki umferðarlögin til umsagnar, en átti umræðu um málið á einum af fundi sínum. En hvað kom út úr þeirri umræðu kemur ekki fram og hver er þá afstaða nefndarinnar til 10. greinarinnar. Eins og vitað er hafa skipulagsyfirvöld fundið þessari heimild allt til foráttu og til að fá Alþingi til að endurskoða hana var sent minnisblað frá skipulagsyfirvöldum borgarinnar 3. apríl sl. til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Óskað var eftir að fá orðalagi 10. gr. breytt svo skipulagsyfirvöld borgarinnar geti afmáð heimildina. Enn er beðið viðbragða þingsins við minnisblaðinu. En lögin eru skýr. Handhafar stæðiskorta mega aka um göngugötu. Hér er um áralanga baráttu handhafa stæðiskorta að ræða sem loksins skilaði árangri og þetta vill borgarmeirihlutinn eyðilegga fyrir þeim. Þegar um er að ræða mannmarga stórviðburði í miðbænum segir það sig sjálft að vélknúið ökutæki ekur ekki göngugötu nema í neyðartilvikum. Á göngugötu má auk þess aldrei aka hraðar en 10 km á klst.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerðir aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 1. og 13. október 2020:

Í lið 5 eru lögð fram drög mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu að svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um meðferð aðgengis- og samráðsnefndar á málum sem snúa m.a. að göngugötum í Reykjavík og akstursþjónustu fatlaðs fólks. Ein af spurningum Flokks fólksins var: hvernig hefur aðgengis- og samráðsnefndin beitt sér fyrir því að skilti og merkingar í borginni sem sýna rétt handhafa stæðiskorta séu samkvæmt landslögum? Í svari segir að nefndin hafi sent ábendingar um merkingar P-stæða þar sem vitað hefur verið til að þeim sé ábótavant en það hafi aðeins átt við einstök svæði. Ekkert er minnst á í svari þann þátt sem snýr að skiltum og merkingum við göngugötur. Er verið að segja með þessu að nefndin hafi eingöngu sent inn ábendingar um merkingu sjálfra bílastæðanna á göngugötunum en ekki beitt sér neitt fyrir að skilti og merkingar við göngugötur séu samkvæmt lögum?

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð stjórnar SORPU bs. frá 9. október 2020:

Fundargerðir SORPU eru að verða æ rýrari í samanburði við aðrar fundargerðir svo erfitt er að átta sig á innihaldi umræðunnar. Stikkorðastíllinn er sífellt að verða knappari. Hér er dæmi um fundargerð sem lögð er fram í borgarráði 29. október: Liður 1: Staða og horfur í rekstri. Liður 2: Áætlun 2021. Liður 3: Önnur mál. Liður 4: Næsti fundur. Fundi slitið. Þetta er nú allt og sumt sem öðrum, þ.m.t. eigendum fyrirtækisins er ætlað að vita eftir þennan fund. Þetta er ekki nógu gott. Minnumst þess að SORPA hefur verið í verulegum rekstrarlegum vandræðum tilkomnum m.a. vegna alvarlegra mistaka í fjármálum. Ráðgjafarfyrirtækið Strategía var ráðið í vinnu til að skoða leiðir til að bjóða eigendum og minnihlutafulltrúum ríkari aðkomu að fyrirtækinu m.a. með bættri upplýsingagjöf. Sú vinna kostaði 28 milljónir. Lítið virðist hafa skilað sér til stjórnar SORPU. Eigendum og minnihlutafulltrúum er haldið út í kuldanum alla vega þegar kemur að fundargerðum. Fundargerðir eru einmitt tæki til að miðla upplýsingum, því ekki að nota það tæki betur? Fulltrúi Flokks fólksins kallar eftir hvort ekki séu til einhverjar reglur um fundargerðir, einhver viðmið sem fyrirtækjum í eigum borgarinnar er ætlað að fylgja þegar kemur að fundargerðum.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um reglur og viðmið fundargerða:

Fulltrúi Flokks fólksins kallar eftir hvort ekki séu til einhverjar reglur um fundargerðir, viðmið sem fyrirtækjum í eigum borgarinnar er ætlað að fylgja þegar kemur að fundargerðum. Fundargerðir SORPU eru að vera æ rýrari svo erfitt er að átta sig á innihaldi umræðunnar. Stikkorðastíllinn er að verða knappari. Dæmi um fundargerð sem lögð er fram í borgarráði 29. október 2020 er: Liður 1: Staða og horfur í rekstri. Liður 2: Áætlun 2021. Liður 3: Önnur mál. Liður 4: Næsti fundur. Fundi slitið. Þetta er nú allt og sumt sem öðrum, þ.m.t. eigendum fyrirtækisins og minnihlutafulltrúum er ætlað að vita eftir þennan fund. Fundargerðir eru tæki til að miðla upplýsingum, því ekki að nota það tæki betur? Miklu fé var varið í ráðgjafarfyrirtækið Strategíu sem átti að vinna leiðir til að auka aðkomu eigenda að byggðasamlagsfyrirtækjum. Lítið af þeirra ráðleggingum virðist hafa skilað sér inn í stjórn SORPU. R20100401
Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjórnar.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um skráningar yfir kvartanir vegna hunda:

Fyrirspurnir um eftirlitsferðir hundaeftirlits og skráningu yfir kvartanir vegna hunda. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að sjá frumgögn sem liggja að baki hundaeftirlitsferðum og kvörtunum vegna hunda fram til 1. október 2020. Einnig hvað felst í eftirlitsferðum. Flokkur fólksins óskar eftir að fá að sjá skráningar yfir kvartanir. Óskað er eftir að fá þessar upplýsingar um eftirlitsferðir og skráningar kvartana án persónugreinanlegra upplýsinga þeim tengdum. R20010132.
Vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs.