Borgarráð 6. júní 2019

Ný mál lögð fram á fundinum:

Flokkur fólksins leggur til að borgin reki skutlu sem aki Laugaveginn, Skólavörðustíginn, Lækjartorg og upp Hverfisgötu.

Spurning er að reyna þetta í tilraunaskyni, tímabundið. Skutla taki hring um kjarna miðborgarinnar t.d. 4-5 sinnum á klukkutíma. Markmiðið er að mæta þeim sem eiga erfitt með gang, eru hreyfihamlaðir eða tímabundnir svo eitthvað sé nefnt nú þegar aðgengi hefur verið takmarkað að svæðinu bæði vegna lokunar gatna en einnig vegna framkvæmda. Lokanir gatna fyrir bílaumferð hefur valdið mögum þeim sem eru ekki á hjóli og eiga erfitt um gang ama. Ekki hefur verið haft viðhlítandi samráð við fólkið í borginni, hagsmunaaðila og öryrkja hvort þeim yfirleitt hugnast þessar lokanir hvað þá varanlegar lokanir. Þetta er ein tillaga sem gæti komið til móts við þá sem treysta sér ekki til að ganga mikið en langar e.t.v. engu að síður að koma inn á þetta svæði og fara um það á skömmum tíma.

Fyrirspurn um kostnað við aðstoðarmann borgarstjóra

Flokkur fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um hver sé kostnaður við að halda úti stöðu aðstoðarmanns borgarstjóra. Hér er ekki aðeins verið að spyrja um laun heldur einnig annan kostnað sem fylgir þessu starfi svo sem ferða- og dagpeningakostnað. Óskað er upplýsinga fyrir árin 2017 og 2018

Fyrirspurn um kostnað borgarinnar á tilraunaverkefni með vetnisstrætó í kringum árið 2000

Fyrir nokkrum árum var hér í gangi tilraunaverkefni með vetnisstrætó. Óskað er upplýsinga um kostnað Reykjavíkur við það verkefni. Ástæða fyrir fyrirspurninni er sú að upp úr árinu 2000 var sett á laggirnar verkefni þar sem vetni átti að reyna sem eldsneyti á strætisvagna Strætó. Vetni fellur ekki til sem afgangsafurð í iðnaði hér á landi og er þá eina framleiðsluaðferðin að framleiða vetni með rafgreiningu sem er dýr aðferð. Árangurinn af verkefninu varð lítill. Vagnarnir entust aðeins í örfá ár. Sú bjartsýni sem birtist í byrjun tilraunarinnar gufaði upp. Sjá t.d. orð iðnaðarráðherra: ,, Það er stefna stjórnvalda að stuðla að aukinni nýtingu endurnýjanlegrar orku í umhverfisskyni. Þess vegna yrði framleiðsla og notkun vetnis, ef slíkt reynist fjárhagslega hagkvæmt, í samræmi við stefnu stjórnvalda.“ Og orð forsætisráðherra: „Takist þessi tilraun verða sigurlaunin mikil. Verulegur efnahagslegur ávinningur virðist þá blasa við „. Varla hefur verið minnst á vetnisvagna þar til nú þegar Strætó bs. hefur gert tilboð í slíkan vagn sem vekur furðu m.a. í ljósi sögunnar

Flokkur fólksins leggur til að Reykjavíkurborg rýmki aftur reglur um hvaða bílar teljist vistvænir og þeir sem það teljast geti lagt frítt í gjaldskyld bílastæði í allt að 90 mín.

Meirihlutinn í borginni hefur gefið sig út fyrir að vilja vistvæna borg. Sérstaklega hefur verið horft til bíla í því sambandi. Það kom því á óvart þegar Reykjavíkurborg um áramót 2011 herti reglur um hvaða bílar teljast visthæfir og hverjir ekki. Frá 2011 hafa visthæfir bílar getað lagt frítt í gjaldskyld bílastæði borgarinnar í allt að níutíu mínútur. Með hertum reglum féllu fjöldi bifreiða úr visthæfa flokknum með breytingunum og gátu eigendur ekki lengur nýtt sér þennan valkost. Áður töldust bílar visthæfir ef þeir losuðu minna en 120 grömm af koltvísýringi á hvern kílómetra í blönduðum akstri en þetta mark hefur nú verið lækkað niður í hundrað grömm. Bifreiðar sem ganga fyrir vetni, rafmagni og metani falla einnig í flokk visthæfra ökutækja. Bílarnir mega í mesta falli vera 1.800 kílógrömm að þyngd og mega ekki vera á negldum vetrardekkjum.

Greinargerð
Í upplýsingum frá Samgöngustofu kemur fram að 11.432 skráðar bifreiðar hafi losað á bilinu 100-120 grömm af koltvísýringi á hvern kílómetra. Sá fjöldi hefur talist óvisthæfur frá áramótum. Að auki vantar upplýsingar um tvinnökutæki.
Á vefsíðu Bílgreinasambandsins má finna lista yfir bíla sem brenna bensíni, dísilolíu eða metani og uppfylla skilyrðin til að teljast visthæfir bílar. Á þeim lista eru rúmlega níutíu tegundir en aðeins tæpur þriðjungur þeirra uppfyllir nú skilyrðin til að teljast visthæfur. Rétt er að taka fram að listinn var síðast uppfærður í sumar og er ekki tæmandi talning á þeim ökutækjum er uppfylla skilyrðin. Reglur um vistvæna bíla  geta haft áhrif á ákvörðun neytenda um hvaða bíll verður keyptur. Þessum reglum var á sínum tíma breytt með einu pennastriki og kom illa við marga t.d. þá sem voru nýbúnir að kaup sér vistvænan bíl.

Bókun Flokks fólksins við svari um stöðu biðlista fyrir heimaþjónustu og hjúkrunarrými

Svar borgarmeirihlutans

Mannekla í þessum störfum er fyrst og fremst vegna lágra launa. Hér gæti borgin beitt sér ef vilji væri fyrir hendi. Mannekla er ekkert lögmál, ekki nema það sé orðið það hjá þessum meirihluta. Það er klárlega í hendi borgarmeirihlutans að leysa þennan vanda og hefði verið hægt að gera það fyrir lifandis löngu þ.e. ef fólk og grunnþjónusta við það hefði einhvern tímann verið sett í forgang. Varðandi þjónustu borgarinnar, félagslega heimaþjónustu og heimahjúkrun þá eru flestir sjúkraliðar sem vinna við heimahjúkrun. Vegna manneklu er aðeins hægt að sinna þeim sem eru veikastir. Það sem er hvað mest sláandi í þessu svari er að alls 273 einstaklingar á höfuðborgarsvæðinu eru á biðlista eftir varanlegri vistun, af þeim eru 158 með lögheimili í Reykjavík. Sviðið hefur ekki yfirsýn yfir það hvar þeir eru sem eru að bíða eftir innlögn á hjúkrunarheimili, þ.e. hversu margir eru á Landspítala og hversu margir heima. Margir vilja segja að Landspítalinn sé orðinn stærsta og dýrasta hjúkrunarheimili í borginni.

Bókun Flokks fólksins við svari frá Strætó bs. um fjölda kvartana sem kunna að hafa borist Strætó bs frá notendum þjónustunnar

Svar frá Strætó bs

Bókun Flokks fólksin við svari Strætó bs vegna kvartana

Í svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um kvartanir sem kunna að hafa borist Strætó bs. frá notendum þjónustunnar kemur fram að fjöldi ábendinga eru eftirfarandi: 2016 – 3654 ábendingar, 2017 – 2536 ábendingar 2018 – 2778 ábendingar. Flestar ábendingar sem berast Strætó snúa að aksturslagi, framkomu vagnstjóra og tímasetningum. Borgarfulltrúa Flokks fólksins sýnist á svari að gæðakerfið sé gott og gengið er strax í málin en fjöldi ábendinga er óheyrilegur. Borgarfulltrúi átti kannski von á 100 til 200 ábendingum en ekki á þriðja þúsund og yfir. Fjölgun er milli ára 2017 til 2018 og munar þar um ca. 200 ábendingum. Fækkun sem er frá 2016 til 2017 heldur ekki áfram árið 2018 heldur fjölgar þá aftur ábendingum. Þetta er afar sérstakt. Flokkur fólksins spyr hvort kafað hafi verið ofan í þessu mál og unnið að því að fækka ábendingum verulega. Áhugavert væri að fá nánari flokkun á þessu t.d. eru flestar kannski kvartanir vegna tímasetningar? Niðurstaðan í huga borgarfulltrúa Flokks fólksins þegar hann hefur séð þetta svar er að það er eitthvað mikið að í þessu fyrirtæki þegar kemur að þjónustu við farþega. Slíkur fjöldi ábendinga er ekki eðlilegur.

Fyrirspurnir í tengslum við svar vegna kvartana til Strætó

Í framhaldi af svari Strætó bs. um fjölda kvartana óskar borgarfulltrúi eftir að fá nánari sundurliðun á þessum ábendingum til þriggja ára og upplýsingar um hvort farið hefur verið ofan í saumana á þeim með það að markmiði að fækka þeim. Um þetta er spurt vegna þess að ábendingum fjölgar aftur árið 2018 frá árinu 2017. Það er sérkennilegt í ljósi þess að í svari frá Strætó kemur fram að unnið sé markvisst með ábendingar og er ábyrgðaraðili settur á hverja ábendingu sem tryggir að úrvinnsla hennar eigi sér stað? Loks er óskað upplýsinga um hve margar af þessum ábendingum leiði til verulegra úrbóta.

Bókun Flokks fólksins við svari um hvað það muni kosta að grunnskólanemar í Reykjavík fái frítt í strætó

Svar meirihlutans:

Fram kemur í svari við fyrirspurn Flokks fólksins um hvað það muni kosta ef grunnskólanemar fái frítt í Strætó. Það eru um 200 milljónir og segir í svari að það gæti verið erfitt miðað við núverandi greiðslufyrirkomulag að gera greinarmun á því hvort barn/ungmenni ætti rétt á að ferðast frítt eða ekki. Borgarfulltrúa finnst sýnt að hægt væri að láta þá sem eiga rétt á að ferðast frítt fá kort sem þau sýna við komu í vagninn. Svo málið er nú ekki flóknara en það. Gera má því skóna að væri frítt í strætó fyrir grunnskólanema í Reykjavík myndi notkun aukast. Í það minnsta væri vel þess virði að prófa þetta í tilraunaskyni í hálft til eitt ár. Þetta mundi auk þess muna miklu fjárhagslega fyrir fjölskyldur t.d. þar sem fleiri en eitt barn er á grunnskólaaldri.

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn um hvort börn hafi þurft að hætta á frístundarheimili vegna fjárhagsvanda.

Svar borgarmeirihlutans

Spurt var hversu mörg börn hafa hætt á frístundaheimili vegna þess að foreldri hefur ekkert aðhafst að semja um vangreidda vistunarskuld sína við borgina. Um er að ræða 26 börn á tveimur árum. Sundurliðun er eftir mánuðum og er dreifing allt frá 0 og upp í 7 börn. Í febrúar og maí 2018 voru 14 börnum sagt upp vistun og í apríl það sama ár 4. Sama tíma árinu áður er engu barni sagt upp. Þetta er nokkuð sérstakt og væri forvitnilegt að vita hvað þarna liggur að baki. Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur þá skoðun að engu barni eigi að segja upp vegna vangoldinna skulda foreldra. Enda þótt foreldrar hafi leiðir til að semja um skuldina þá geta verið ólíkar orsakir þess að það er ekki gert og slíkt á aldrei að bitna á barninu. Dvöl á frístundaheimili er flestum börnum afar mikilvæg og þjónar fleiri en einum tilgangi. Í ljósi þess að hér er ekki um stærri hóp að ræða á borgin skilyrðislaust að una þessu börnum þess að fá að vera þar, þrátt fyrir að foreldrar greiði ekki skuldina. Ekki þarf að minna á að á Íslandi gildir Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna. Það stríðir klárlega gegn honum að henda barni úr frístund vegna þess að foreldrar hafi ekki greitt vistundargjaldið

Bókun Flokks fólksins vegna minnisblaðs fyrrverandi fjármálastjóra Reykjavíkurborgar vegna álitsgerðar Trausta Fannars Valssonar, sem hann vann að beiðni endurskoðunarnefndar

Flokkur fólksins fagnar því að þessi mál hafi skýrst með afdráttarlausum hætti en það gerðist ekki fyrr en með greinargerð eða minnisblaði utanaðkomandi stjórnsýslufræðings. Endurskoðunarnefndin vekur athygli á leiðbeinandi verklagsreglum vegna viðauka fjárhagsáætlunar frá reikningsskila- og upplýsinganefnd sveitarfélaga, grein 3.2 „Hvenær er ekki tilefni til gerðar viðauka?“ Greinin hljóðar svona: „Viðauka skal ekki gera til að leiðrétta fjárhagsáætlun, útgjöld eða fjárfestingu sem stofnað er til utan fjárheimildar. Mælst er til að útgjöld eða fjárfesting sem stofnað er til utan fjárheimildar og ekki að undangengnum viðauka, séu sett á dagskrá sveitarstjórnar og bókað sérstaklega“. Sveitarstjórn verður að hafa vitneskju um ástæður þess að tiltekin útgjöld eða fjárfesting séu umfram fjárhagsáætlun til að geta sinnt eftirlitshlutverki sínu gagnvart fjármálum borgarinnar. Flokkur fólksins styður því það sem segir í álitsgerð um fjárhagsáætlun sveitarfélaga og viðauka frá endurskoðunarnefnd Reykjavíkurborgar að borgarráð beini því til fjármálaskrifstofunnar að bregðast við því sem fram kemur í álitsgerðinni.

Bókun Flokks fólksins vegna tillögu borgarstjóra að stofna nýtt póstnúmer en kostnaður við það er 2.330.000 krónur.

Flokki fólksins finnst nær að nota þessar þrjár milljónir sem fara í að skipta um póstnúmer í Vatnsmýrinni til að greiða t.d. niður gjald skólamáltíða. Flugvöllurinn verður áfram í Vatnsmýrinni næstu árin eða þar til annar betri staður finnst sem borgarbúar geta sætt sig við. Á meðan mætti þetta sama póstnúmer vera áfram í Vatnsmýrinni Flokki fólksins að meinalausu og nota peningana í að styrkja grunnþjónustu frekar.