Borgarráðsfundur 19. júlí 2018

Tillaga Flokks fólksins um samskiptareglur lögð fyrir fund forsætisnefndar

Lagt er til að forsætisnefnd samþykki samskiptareglur fyrir borgarfulltrúa sem gilda eiga á öllum fundum, í nefndum, ráðum og samstarfshópum sem borgarfulltrúar eiga samstarf í. Reglurnar ná einnig til starfsmanna Ráðhússins. Lagt er til að þessar samskiptareglur verði fylgigagn eða viðhengi siðareglna og undirritaðar samtímis þeim. Samskiptareglunum fylgir viðbragðsáætlun gegn einelti sem eineltisteymi borgarinnar styðst við, berist kvörtun um óæskilega hegðun eða einelti. Ástæðan fyrir mikilvægi þess að hafa skýrar samskiptareglur er sú að á vettvangi borgarstjórnar eru heitar umræður, gagnrýni og mótmæli algeng. Í slíkum kringumstæðum er eftir sem áður gerð sú krafa að borgarfulltrúar sýni kurteisi og virðingu og séu ávallt málefnalegir.

Greinargerð fylgir tillögunni

Samþykkt að vísa tillögunni til frekari vinnslu í forsætisnefnd samhliða endurskoðun siðareglna kjörinna fulltrúa Reykjavíkurborgar.

Tillaga Flokk fólksins um stýrihóp í eineltismálum

Endurbætt tillaga áheyrnarfulltrúa Flokk fólksins um stýrihóp um endurskoðun gildandi stefnumótunar gegn einelti og áreitni sem borgarfulltrúi Flokks fólksins fer fyrir.

Lagt er til að borgarráð samþykki að stofna stýrihóp um endurskoðun á gildandi stefnumótun Reykjavíkurborgar gegn einelti, áreitni og ofbeldi m.a. með það fyrir augum að kanna starf og hlutverk eineltis- og áreitniteyma sviða Reykjavíkurborgar og leita leiða til að þau geti liðsinnt stofnunum og fyrirtækjum borgarinnar í forvörnum og verkferlum við vinnslu kvartana sem upp koma á vinnustöðum borgarinnar. Stýrihópurinn verður skipaður fulltrúum allra flokka í borgarstjórn og formaður hans verður borgarfulltrúi Flokks fólksins. Með hópnum starfar starfsmannastjóri Reykjavíkurborgar og er skrifstofu borgarstjóra og borgarritara falið að vinna erindisbréf stýrihópsins þar sem skilgreind eru helstu verkefni og starfinu sett tímamörk í samræmi við 3. gr. reglna um starfs- og stýrihópa.

Erindisbréfið skal leggja fram á næsta fundi borgarráðs. Greinargerð: Meta þarf umfang vandans, endurskoða siðareglur kjörinna fulltrúa og starfsmanna Reykjavíkurborgar auk þess sem fara þarf yfir verklagsreglur og viðbragðsáætlanir og tryggja að þær nái yfir áreitni og ofbeldi.

Nauðsynlegt er að stýrihópurinn endurskoði gildandi stefnumótun í stefnu Reykjavíkurborgar gegn einelti, áreitni og ofbeldi m.a. með það fyrir augum að kanna starf og hlutverk eineltis- og áreitniteyma sviða Reykjavíkurborgar og leita leiða til að þau geti liðsinnt stofnunum og fyrirtækjum borgarinnar í forvörnum og verkferlum við vinnslu kvartana sem upp koma á vinnustöðum borgarinnar. Nauðsynlegt er að komið verði á fót hlutlausum vettvangi þar sem hægt er að vísa málum til afgreiðslu sem ekki er hægt að leysa úr innan stofnanna og fyrirtækja borgarinnar.

Samþykkt.
Erindisbréf hefur ekki verið gefð út

Fylgigögn

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli – E-3132 – 2017 gegn Reykjavíkurborg að beiðni borgarráðsfulltrúa D og áheyrnarfulltrúa J, M og F

Tvær bókanir stjórnarandstöðunnar:
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli E3132-2017 kallar á sterk viðbrögð af hálfu borgarinnar. Stjórnarandstaðan lítur það grafalvarlegum augum að slík framkoma og hegðun eins og lýst er í dómnum fái þrifist innan Ráðhúss Reykjavíkur. Ljóst er að allir sem komið hafa að málinu með einhverjum hætti eru vanhæfir til að taka frekari ákvarðanir í framhaldi dómsins. Rétt er því að allar ákvarðanir um framhald málsins verða teknar á vettvangi borgarráðs þ. á m. framtíð gerandans í starfi sem einn æðsti stjórnandi í Ráðhúsi Reykjavíkur.

Stjórnarandstöðuflokkarnir Sósíalistaflokkur Íslands og Flokkur fólksins telja að sterkar vísbendingar séu um að í Ráðhúsinu ríki eineltismenning sem jafnvel hefur ríkt lengi. Eins og kunnugt er lét Kjartan Magnússon, fyrrverandi borgarfulltrúi, bóka að hafa verið hrakyrtur og svívirtur af þáverandi formanni borgarráðs. Fjallað var um málið í fjölmiðlum 14. október 2016. Nú hefur dómur fallið þar sem felld er úr gildi skrifleg áminning sem skrifstofustjóri borgarinnar veitti þáverandi fjármálastjóra og skal borgin greiða alls um eina og hálfa milljón í skaðabætur og málskostnað. Það er sjaldgæft að sjá dómara fara svo hörðum orðum um athæfi en í dómnum segir orðrétt „Um þá skilyrðislausu hlýðni sem skrifstofustjórinn virðist ætla af stefnanda verður sagt það eitt að þrátt fyrir stjórnunarrétt annars og hlýðniskyldu hins eru undirmenn ekki dýr í hringleikahúsi yfirmanna sinna.“ Teljum við slíkt undirstrika alvarleika málsins.

Á fyrsta borgarstjórnarfundi 19. júní var margt í framkomu borgarfulltrúa sem fór yfir almenn kurteisismörk að mati stjórnarandstöðunnar. Í kjölfarið lagði borgarfulltrúi Flokks fólksins fram tillögu um samskiptareglur. Sú tillaga var felld í atkvæðagreiðslu á síðasta borgarráðsfundi en mun verða lögð að nýju fyrir á fundi forsætisnefndar 20. júlí í þeirri von að þar verði hún samþykkt enda gagnleg öllum.

Umræða um viðvarandi og vaxandi vanda heimilislausra að beiðni Flokks fólksins

Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

Heimilislausir hafa verið afgangsstærð borgarinnar árum saman. Heimilislausir eru fjölbreyttur hópur af öllum kynjum, á ólíkum aldri, einstaklingar, öryrkjar, barnafjölskyldur, einstæðir foreldrar og eldri borgarar. Að vera heimilislaus merkir að hafa ekki aðgang að húsnæði að staðaldri á sama stað þar sem viðkomandi getur kallað sitt heimili. Jafnframt þurfa að vera til úrræði fyrir utangarðsfólk s.s. fjölgun smáhýsa og þeir sem óska eftir að búa í húsbílum sínum þurfa framtíðarsvæði nálægt grunnþjónustu. Óhætt er að fullyrða að það ríki ófremdarástand í þessum málum í borginni, sérstaklega þegar kemur að húsnæði fyrir efnaminna og fátækt fólk. Það er verið að byggja í borginni, fasteignir sem í flestum tilfellum verða seldar fyrir upphæðir sem þessum hópum er fyrirmunað að ráða við að greiða. Félagslega íbúðakerfið er í molum í Reykjavík. Á biðlista bíða hundruð fjölskyldna eftir félagslegu húsnæði og mörg dæmi eru um að húsnæði á vegum Félagsbústaða sé ekki viðhaldið sem skyldi. Það er mat Flokks fólksins að hægt er að fara ólíkar leiðir í að auka framboð húsnæðis til að gera húsnæðismarkaðinn heilbrigðari. Má sem dæmi nefna að í viðtali við verkefnastjóra Kalkþörungaversmiðjunnar á Bíldudal á RÚV greindi hann frá innfluttum 50 fermetra timburhúsum frá Eistlandi, sem fullbúin kosta 16 milljónir.

Lögð fram tillaga Flokks fólksins um að borgin kaupi timburhús frá Eistlandi:

Lagt er til að borgin skoði fyrir alvöru að flytja inn timburhús frá Eistlandi sambærileg þeim sem flutt voru inn á Bíldudal með að það markmiði að gefa þeim einstaklingum og fjölskyldum sem búið hafa við viðvarandi óstöðugleika í húsnæðismálum tækifæri til að eignast heimili.

Greinargerð:
Heimilislausir hafa verið afgangsstærð borgarinnar árum saman. Heimilislausir eru fjölbreyttur hópur af öllum kynjum, á ólíkum aldri, einstaklingar, öryrkjar, barnafjölskyldur, einstæðir foreldrar og eldri borgarar. Að vera heimilislaus merkir að hafa ekki aðgang að húsnæði að staðaldri á sama stað þar sem viðkomandi getur kallað sitt heimili.
Óhætt er að fullyrða að það ríkir ófremdarástand í þessum málum í borginni, sérstaklega þegar kemur að húsnæði fyrir efnaminna og fátækt fólk. Það er verið að byggja í borginni, fasteignir sem í flestum tilfellum verða seldar fyrir upphæðir sem þessum hópum er fyrirmunað að ráða við að greiða. Félagslega íbúðakerfið er í molum í Reykjavík. Á biðlista bíða hundruð fjölskyldna og einstaklinga eftir félagslegu húsnæði og mörg dæmi eru um að húsnæði á vegum Félagsbústaða sé ekki viðhaldið sem skyldi.
Það er mat Flokks fólksins að hægt er að fara ólíkar leiðir í að auka framboð húsnæðis til að gera húsnæðismarkaðinn heilbrigðari. Má sem dæmi nefna að í viðtali við verkefnastjóra  á Bíldudal á RÚV greindi hann frá innfluttum 50 fermetra timburhúsum frá Eistlandi, sem fullbúin kosta 16 milljónir. Flokkur fólksins leggur til að borgin skoði að flytja inn slík timburhús frá Eistlandi.
Vísað til umsagnar skrifstofu eigna og atvinnuþróunar. Hér má sjá umsögnina

Lögð fram svohljóðandi sameiginleg bókun Flokks fólksins, Sjálfstæðisflokksins,  Sósíalistaflokksins og Miðflokksins

Stjórnarandstaðan vill að það sé bókað að fundur velferðarráðs 10. ágúst er að beiðni stjórnarandstöðunnar til að skoða ítarlega málefni og stöðu heimilislausra. Ósk um sérstakan fund um málefni heimilislausra var send ráðinu í júní en vegna m.a. sumarleyfa var ákveðið að halda fundinn hið fyrsta í ágúst. Nú hefur verið ákveðið að hann verið 10. ágúst. Sjálfstæðisflokkurinn, Sósíalistaflokkurinn, Miðflokkurinn og Flokkur fólksins óska eftir að Kærleikssamtökin komi á fundinn og kynni sín málefni sín, stöðuna og hvað þau hafa verið að gera. Eins teljum við að bjóða ætti öðrum samtökum og fulltrúum heimilislausra að koma og gera slíkt það sama. Markmiðið með þessum fundi er að við kynnum okkur stöðu heimilislausra í samfélaginu og nýta upplýsingarnar til að vinna áfram stefnumótandi vinnu.