Borgarstjórn 6. júní 2023

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fram fer umræða um stafræna húsnæðisáætlun Reykjavíkur til ársins 2023.

Þessi áfangaskýrsla er bara endurtekið efni. Ekkert nýtt frá síðustu áfangaskýrslu í raun. Fullyrða má að borgin úthlutar ekki lóðum í samræmi við þörf eins og var lofað. Kallað er eftir loforði frá Framsóknarflokknum í aðdraganda kosninga. Lögaðili fullyrðir að engar óseldar lóðir séu til en halda mætti að lögaðilar eigi að kaupa lóðir sem eru í einkaeigu. Fram hefur komið hjá lögaðila að á þéttingarreitum er lóðaverð komið í allt að og jafnvel yfir 200 þúsund krónur fyrir hvern byggðan fermetra að meðtöldum gjöldum. Sjá má á vefsjá borgarinnar tölu um að tæpar 2.600 lóðir virðast vera til sölu og sagðar byggingarhæfar. Fyrirkomulagið er að lóðir eru boðnar út til hæstbjóðenda. Þeir sem vilja byggja íbúðir sem hægt er að selja og/eða leigja á viðráðanlegu verði eru ekki endilega þeir sem geta boðið hæst. Á meðan líður tíminn og fjölgar í þeim hópi sem ekki hefur tryggt húsnæði sem það getur kallað heimili. Þessi hópur er tekjulægsta fólkið sem og aðrir viðkvæmir hópar. Ef við eigum ekki að sitja í þessari súpu húsnæðisskorts um aldur og ævi verður þessi meirihluti að gera breytingar þannig að hægt sé að byggja hraðar og víðar í borginni. Ekki vantar land.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands að óskað verði eftir viðræðum við stjórn Heimstaden um kaup á íbúðum félagsins svo þær geti áfram verið í útleigu.

Lagt er til að borgarstjórn bjóði Leigjendasamtökunum stuðning vegna kaupa á íbúðum Heimstaden. Fulltrúi Flokks fólksins styður þessa tillögu heilshugar. Hér gætu borgaryfirvöld komið sterk inn. Leigufélagið Heimstaden hyggst selja um 1.700 íbúðir sem það á hér á landi. Stærsti hluti íbúðanna er á höfuðborgarsvæðinu, þar af 450 í Reykjavík. Samtök leigjenda hafa brugðist við og óskað eftir viðræðum við stjórn Heimstaden um kaup á íbúðum félagsins svo þær geti áfram verið í útleigu. Tillagan er ekki íþyngjandi að neinu leyti heldur er einungis lagt til að Borgarstjórn Reykjavíkur samþykki að leita til samtaka leigjenda og bjóða fram stuðning sinn við markmið Leigjendasamtakanna um kaup á íbúðum Heimstaden og útleigu þeirra á kostnaðarverði. Aðdragandi er að í maí sl. fréttist að leigufélagið Heimstaden ætli sér að hörfa frá Íslandi og muni selja um 1.700 íbúðir. Fulltrúa Flokks fólksins brá við þessi tíðindi í ljósi erfiðs leigumarkaðar í Reykjavík. Samtök leigjenda brugðust við með því að óska eftir viðræðum við stjórn Heimstaden um kaup á íbúðum félagsins svo þau geti áfram verið í útleigu. Leigjendasamtökin tala fyrir því að íbúðirnar verði leigðar út á kostnaðarverði.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fram fer umræða um húsaleigumarkaðinn í Reykjavík að beiðni Flokks fólksins:

Húsnæði af öllum stærðum og gerðum sárvantar í Reykjavík. Það hefur verið byggt en ekki nóg. Reykjavíkurborg ber hér ríka ábyrgð. Borgin er að brjóta lög ef horft er til 14. gr. húsaleigulaga frá 1998. Samkvæmt 14. greininni á sveitarfélag m.a. að skoða framboð og eftirspurn eftir ólíkum búsetuformum og hvort jafnvægi ríki á húsnæðismarkaði að teknu tilliti til ólíkra búsetuforma. Að tryggja framboð á lóðum og leysa úr húsnæðisþörf einstaklinga í sveitarfélaginu og eiga frumkvæði að því að aflað verði húsnæðis til að koma til móts við þá sem þurfa aðstoð í húsnæðismálum. Borgarmeirihlutinn hefur einblínt á að þétta byggð. Að þétta byggð er dýrt og tekur langan tíma og íbúðir á þéttingarreitum eru rándýrar. Efnafólk hefur sölsað undir sig margar eignir sem leigðar eru á okurverði. Leigjendur eru að sligast undan hárri leigu. Það er hlutverk stjórnvalda að tryggja sanngjarnt leiguverð í samræmi við greiðslugetu leigjenda og vill Flokkur fólksins skoða að setja á leiguþak/leigubremsu. Borgin getur beitt sér í þessa átt á meðan ástandið er svona erfitt. Ljóst er að hvatning til leigusala um að stilla leiguverði í hóf hefur ekki áhrif. Hvað er borgarmeirihlutinn annars að gera til að beita sér í þessum málum?

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að óska eftir því við Skipulagsstofnun að láta framkvæma umhverfismat vegna mengaðs jarðvegs á því landsvæði þar sem fyrirhuguð er uppbygging á nýrri byggð í Skerjafirði:

Flokkur fólksins styður þessa tillögu um umhverfismat vegna mengaðs jarðvegs á fyrirhuguðu byggingarsvæði i Skerjafirði. Þarna er mengaður jarðvegur, um það er ekki deilt. Það er skynsamlegra að rannsaka hann frekar en að hunsa þetta og fá svo bakreikning síðar. Hreinsa þarf mengun úr jarðvegi áður en uppbygging hefst á 1.400 íbúða byggð. Moka á upp 170.000 rúmmetrum af olíumenguðum jarðvegi. Fjölmargar athugasemdir hafa borist um þetta atriði bæði frá einstaklingum og stofnunum svo sem Náttúrufræðistofnun. Hér er vert að minnast á fyrirhugaða landfyllingu. Í Skerjafirði er ein fallegasta fjara í borginni og er full af lífi. Náttúrufræðistofnun skrifaði mjög harðorða umsögn um þessa landfyllingu sem er ennþá í umhverfismati. Fram hefur komið hjá meirihlutanum að byggja verði á þessari landfyllingu annars verði hverfið, Nýi Skerjafjörður, ekki sjálfbært. Miklu er fórnað fyrir að byggja hverfi ofan í flugvelli. Flokkur fólksins hefur áhyggjur af lífríki fjörunnar. Nú stendur til að fara í umfangsmiklar mótvægisaðgerðir svo eitthvað sé hægt að nýta flugvöllinn þegar búið er að byggja þétt upp við hann. Allt er óljóst með þessar mótvægisaðgerðir og hvernig og hversu mikið þær tryggja að flugvöllurinn verði nothæfur og öruggur.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fram fer umræða um Árbæjarsafn og tækifæri því tengd sem útivistarsvæði í Elliðaárdal.

Fyrst og fremst finnst fulltrúa Flokks fólksins að gera þurfi aðgengi að safninu auðveldara öllum samfélagshópum. Í raun er rándýrt inn á þetta safn og stórum hópi sífjölgandi fátækra barnafjölskyldna ómögulegt að hafa efni á að fara með börn sín á safnið. Fulltrúi Flokks fólksins lagði til um síðustu áramót að gjaldskrá Árbæjarsafns yrði breytt. Lagt var til að unglingar milli 17 og 18 ára fengju frían aðgang að Árbæjarsafni eins og börn til 17 ára. Lagt var einnig til að nemendur með gilt skólaskírteini fengju ókeypis aðgang en nú greiða þeir 1.200 kr. Lagt var til að hjón/pör sem heimsækja safnið með barn/börn greiddu aðeins gjald fyrir annað foreldrið. Lagt var til að menningar- og ferðamálasviði yrði falið að kostnaðarmeta áhrif tillögunnar sem yrðu fjármögnuð af liðnum ófyrirséð við síðari umræðu í borgarstjórn. Þessari tillögu var auðvitað hafnað eins og meirihlutans er von og vísa þegar kemur að tillögum minnihlutans, jafnvel þeim sem bæta munu þjónustu við börn eða gleðja þau.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fram fer umræða um þróunarverkefnið kveikjum neistann í Reykjavík.

Kveikjum neistann er rannsóknar- og þróunarverkefni sem Grunnskóli Vestmannaeyja tekur þátt í og hefur verið í gangi með nemendum í bráðum tvö ár. Fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað lagt til að skólayfirvöld skoði þetta verkefni með það fyrir augum að innleiða það þó ekki væri nema í tilraunaskyni. Nýjustu tíðindi eru að 94 af 96 börnum ná að brjóta lestrarkóðann eftir 1. bekk, sem sagt geta lesið einstök orð, og yfir 83% ná fullu læsi eftir 2. bekk (eftir að prófa 2 nemendur). Kveikjum neistann byggir á vísindarannsóknum og er stöðugt verið að árangursmæla það. Grunnatriðin eru markviss þjálfun og áskorun miðað við færni. Staða margra nemenda í lestri og lesskilningi í Reykjavík er ekki nógu góð. Þetta hafa PISA kannanir sýnt okkur undanfarin ár en 16% barna ná ekki stigi tvö í PISA í lesskilningi, sem sagt lesa sér ekki til gagns. Þegar líðan er skoðuð hjá börnunum greinist marktækur munur milli þeirra barna sem tóku þátt í kveikjum neistann í 1. bekk og þeim sem voru í 1. bekk árinu áður en verkefnið fór af stað. Þetta segir okkur hvað lestrarfærni er mikil áhrifabreyta á líðan og sjálfstraust barnsins.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fundargerð borgarráðs frá 25. maí. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar:

Í húsnæðisáætluninni er greint frá hve margar íbúðir hafa verið byggðar. Ekkert er talað um hversu mikið þarf að byggja til að að hægt sé að bjóða upp á húsnæðisöryggi í Reykjavík. Sárlega vantar lóðir fyrir lögaðila eins og Bjarg og Blæ sem eru tilbúin að byggja hagkvæmt leiguhúsnæði. Þær tölur sem varpað er fram í þessari skýrslu hafa því litla þýðingu. Þétting byggðar í kringum borgarlínu er í forgangi hjá meirihlutanum á meðan stór hópur fólks nýtur ekki húsnæðisöryggis og enginn sér sem stendur að borgarlína sé að hefja akstur í nánustu framtíð. Í raun er fulltrúi Flokks fólksins orðinn þreyttur á svona skýrslum. Fólk hrópar á hjálp eftir öruggu húsaskjóli og að komast ferðar sinnar án stórkostlegra tafa. Yfir 1.000 bíða eftir húsnæði hjá borginni og tæp 800 eftir almennu félagslegu húsnæði. Staðan á leigumarkaði er óbærileg. Ekkert bólar á aðgerðum frá borgaryfirvöldum um hvernig bregðast megi við ástandinu. Fyrirkomulag úthlutunar lóða er bæði erfitt og gallað. Lóðir fara í útboð sem þýðir að hæstbjóðandi fær hana sem verður til þess að íbúðirnar eru seldar á hærra verði.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagðar fram fundargerðir. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 9. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 22. maí:

Svar við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði um leikskólann Sælukot sem er einkarekinn. Fyrirspurnin er ársgömul. Fyrirspurnin var lögð fram í kjölfar skýrslu innri endurskoðunar þar sem fram komu ábendingar til nokkurra leikskóla út frá ákveðnu áhættumati þ.m.t. arðgreiðslum. Segir í svari að Sælukot sé ekki rekið sem einkahlutafélag og er því ekki skráð með arðgreiðslur. Í skýrslunni kemur fram að mánaðargjald hjá Sælukoti vegna barna 18 mánaða og yngri er hærra en heimilt er og að hámarksstuðull sem á að vera 2,15 er á bilinu 2,37-2.63, mismunandi eftir dvalartíma og flokki. Gjaldskráin er því frá 6.764 kr. til 9.312 kr. hærri á mánuði en heimilt er. Þetta var fyrir tæpu ári og síðan þá hefur skóla- og frístundasvið gert nýja þjónustusamninga við átta einkahlutafélög um framlög vegna leikskólaplássa og framundan er heildarskoðun á samningum borgarinnar við sjálfstætt starfandi leikskóla. Reynslan sýnir að í einkarekstri er ákveðin hætta á að gjöld hækki en þjónustan standi í stað eða jafnvel dali. Enginn býður í rekstur nema hann sjái fram á gróða. Það getur orðið á kostnað þjónustunnar og að þeir sem bera ábyrgð séu ekki með fagmenntun.