Mannréttindaráð 24. september 2020

Fyrirspurn Flokk fólksins varðandi heildstæða stefnu í aðgerðarmálum fatlaðra. 24.9.2020. Spurt er um samráð við hagsmunafélög

Í borgarráði 10. september 2020 var lögð fram til samþykktar tillaga meirihlutans að erindisbréfi stýrihóps um heildstæða stefnu í aðgengismálum. Stýrihópurinn hefur það hlutverk að marka heildstæða stefnu um aðgengismál í víðum skilningi í Reykjavík með algilda hönnun að leiðarljósi m.a. hvað varðar aðgengi að byggingum og borgarrýmum. Það er vissulega jákvætt að verið sé að mynda heilstæða stefnu í aðgengismálum, en fulltrúi Flokks fólksins spyr: Hvernig á samráðið að fara fram við hagsmunafélög fatlaðra?

Greinargerð

Fulltrúi Flokks fólksins telur að það verði að liggja fyrir skýrt og skorinort hvernig samráði skuli háttað. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður  bókað um að  aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks í Reykjavík er í lausu lofti innan kerfisins. Það er fátt afgreitt úr nefndinni, eftirfylgni með þeim málum er nánast engin og ákvarðanir sem varða fatlað fólk eru teknar annars staðar án vitneskju og aðkomu nefndarinnar. Sá hópur sem nýlega var settur á laggirnar verður að vinna náið með aðgengis- og samráðsnefndinni og hafa einnig raunverulegt samráð við ÖBÍ og önnur hagsmunafélög. Það sem hagsmunasamtök hafa sett fram, áherslur sínar og óskir verða að liggja til grundvallar öllum ákvörðunum sem stýrihópurinn tekur. Það eru sjálfsögð mannréttindi fatlaðra að fá að vera samofinn hluti þess hóps sem tekur ákvarðanir um hagsmunamál fatlaðs fólks. Aldrei ætti að  móta stefnu um áherslur og þarfir hagsmunahópa nema hafa fulltrúa þeirra með frá upphafi vinnunnar. Minnt er á  samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Vísað til umsagnar stýrihóps um heildstæða stefnu í aðgengismálum